Öldurdals frægasti sonur

Þegar ég var strákur, svona 10 til 12 ára, leyfðu foreldrar mínir okkur systkinunum að setja stóra fjölskyldutjaldið upp á grasbalanum framan við eldhúsgluggann yfir bjartasta tíma sumarsins og sofa þar úti í svefnpokum, hið minnsta meðan þurrt var. Í minningunni finnst mér sem systkin mín hafi lítið verið fyrir þetta gefin, en ég hins vegar naut þess að liggja í tjaldinu og lesa Bör Börsson í hvítri birtu sumarnætur.

Já, ég las Bör Börsson árlega á þessum árum og um síðir upp til agna, í sinni snjáðu og myndskreyttu útgáfu frá lýðveldisstofnunarárinu,  með hnausþykkum pappír, bókin öll orðin losaraleg í bandi og um síðir á lausum blöðum. Seint á unglingsárunum hvarf mér bókin, en þegar hún var endurútgefin um 1990 var ég meðal hinna fyrstu til að eignast eintak. Hef ég síðan lesið bókina á fimm ára fresti eða svo, en aldrei bloggað um hana. Að loknum hinni þungu meltingu eftir veisluhöld Lawrence Norfolk þótti mér heillaráð að draga þennan gamla kunningja fram. Í minningunni er gamla útgáfan hnausþykk, en í þeirri nýju, þar sem letrið hefur verið smækkað og þéttað, er hún ekki nema rétt rúmar 200 blaðsíður.

Sagan af hinum grunnhyggna en ljónheppna Bör Börsyni júníor er að sjálfsögðu ein óviðjafnanlegasta gamansaga Norðurlanda, þótt nær aldargömul sé. Bör gerist ungur kaupmaður í heimasveit sinni Öldurdal, kemst í álnir og tekst alloft fyrir hreina hundaheppni að forðast að verða gjaldþrota, fer um síðir til borgarinnar, forframast og verður fyrir gráglettni örlaganna milljónungur. Sagan er þó ekki grínið eitt, heldur býr að baki djúp samfélagssatíra, þar sem deilt er á misskiptingu auðs, valda og áhrifa. Þá er hún óvenju óvægin skoðun á eðli manna, einkum græðgi og hræsni. Þegar verið er að koma upp versluninni á Öldurstað, dreymir Bör Börsson um að verða á skjótum tíma konsúll, grósseri og fullmektugur agent, og komast í hóp fyrirmenna sveitarinnar, sýslumannsins, prestsins og sparisjóðsnefndarmanna. Reyndar dreymir hann um að verða forstjóri sparisjóðsins og geta neitað kotbændunum um lán, þar til þeir sárbiðja, kveina, fara niður á hnén og gráta, og þá... kannski þá ... skal hann taka málið til athugunar. Á svipaðan hátt er Bör Börsson að öllu jöfnu samansaumaður, en sé hann skjallaður, þá á hann til að sýna af sér rausnarskap og örlæti. Sveitarbúar ganga á lagið, en innst inni vilja þeir helst sjá þennan uppskafning fara á hausinn, enda ... hvað á hann með að setja sig á háan hest? Átakanlegur fulltrúi bláfátækrar alþýðu er Óli í Fitjakoti, sem hefur misst kotbýli sitt á uppboði, en á fyrir sveltandi fjölskyldu að sjá. Honum býðst eingöngu tilfallandi daglaunavinna á borð við skógarhögg, og neyðist því til að koma í krambúðina til Börssons og freista hins ómögulega: að snapa lán til að brauðfæða sín sveltandi börn. En Bör Börsson neitar honum æ ofan í æ, enda yrði forretningin fljótt fallítt ef ekki væri borgað kontant. Samskipti þeirra Börs yngri og Óla, oft óborganleg, eru burðarásinn í sögunni framan af. Þá er ástabrölt Börs í alla staði hið kómískasta, hann ber víurnar í hana Jósefínu, heimasætu í Þórsey, en það er nú máske fyrst og fremst til að komast yfir Þórseyjarauðinn og Bör er reiðubúinn til að bera sig eftir fínna kvenfólki, ef býðst, t.d. fröken Finkel, frænku prestsins, og jómfrú Ísakssen sem hann fær sem búðardömu frá Niðarósi. Hámarki nær kvennabrölt Börssons, þegar hann kemst til höfuðstaðarins og auglýsir í dagblöðum eftir barónessu sem vill ganga að eiga „einn af vorum stærstu dírektörum".

Sjónarhorn sögunnar um Bör Börsson er síbreytilegt á þann veg að höfundur er alvitur og sér inn í huga margra persóna samtímis. Þetta truflar lesandann ekki, því að hver persóna er dregin skýrum dráttum. Bör Börsson er oflátungur, mestmegnis fullur af yfirdrepsskap, en stundum á hann til að sýna af sér höfðinglegt örlæti, einkum ef menn smjaðra fyrir honum. Óli í Fitjakoti sveiflast á milli heiftar hins kúgaða og auðmýktar hins undirokaða. O.G. Hansen sýsluskrifari er fulltrúi valds og laga, jafnvel þegar hann skrifar ómenntaðri bændakonunni, móður sinni, bréf til að biðja hana að senda sér gömlu nærbuxurnar sínar, „enda verði téðar nærbuxur fyrst löglega þvegnar." Sjarmi bókarinnar liggur samt ekki síður í framvindu en persónusköpun. Atburðir leiða eðlilega hver af öðrum, stundum óvænt, jafnan farsakennd, en alltaf er jarðtenging til staðar.

En það er húmorinn sem gerir Bör Börsson óborganlegan. Þessi húmor birtist neðan úr sálardjúpum persóna, ýmist í einfeldningsskap þeirra eða slægð, og hann endurspeglast í orðfæri. Í ákveðnum kunningjahópi mínum frá unglingsárum töluðum við um að sötra „límonaði frá Niðaróssgosdrykkjafabrikku-útibú", þegar við fengum okkur Appelsín, því að það var „príma ropvatn". Orðfæri þetta er komið beint frá Bör Börssyni - sem notar „Haraldshárfagra-skósvertu" á skóna sína. Aplafyl, kláðagemlingur, hlaunabryðja og hlauparindill á blankskónum eru orð lærð úr þessari bók. Og eru til betri ráð, ef maður ætlar að laumast upp á háaloft hjá ríkri frænku prestsins á laugardagskvöldi og heilla hana upp úr skónum, en heilræðin, sem hinn hofmannlegi Hansen sýsluskrifari veitir Bör Börssyni? „Paragraff 1) Taka ofan pípuhattinn með vinstri hendi, slá saman hælum og hneigja sig djúpt. 2) Segja: Ó, mín heittelskaða! 3) Fjögur skref áfram gakk! - Staðar nem! - Standa rétt! 4) Segja: Leyfi ég mér allra-virðulegast að biðja um hönd yðar. 5) Hlæja hástöfum. 6) Veifa pípuhattinum. 7) Segja: Má ég þrýsta kossi á yðar göfuga enni?"  Samskipti Börs við barónessuna í Osló eru annars hátindur sögunnar og óborganlega fyndin. Bör dreymir um að verða von Börsson og hefur rakað skalla á kollinn, með hárkraga um kring, því að þannig líta ekta dírektörar út, auk þess að hann setur upp gullspangargleraugu - skítt með það þótt hann sjái illa með þeim, bara ef hann líkist fyrirmyndum sínum. Svo eru sannir grósserar líka gjarnan í borðalögðum og gullsnúruðum jökkum, en þegar skreðarar borgarinnar treysta sér ekki til að sníða á Bör Börsson slíka flík með stuttum fyrirvara, þá kaupir hann skrautlegan jakkann utan af dyraverði í kvikmyndahúsi fyrir stefnumótið.

Þýðing Helga Hjörvar á Bör Börsson er vitaskuld löngu þjóðþekkt og mun halda nafni hans á lofti lengi enn. Hún er klassísk í alla staði, málið auðugt og alþýðlegt í senn, og fellur vel að íslenskri málhefð, þótt hinn norski andi svífi yfir. Nafni minn veigraði sér ekki við því að kalla kotbændurna tómthúsmenn, þótt ólíklega sé slíka þurrabúðarmenn að finna í norskri sveit inn til lands, en einhvern veginn skiptir það engu máli hér. Staðarheiti eins og Fitjakot, Öldurstaður og Furuvellir gætu verið hvort heldur sem er á Íslandi eða í Noregi. Einn brandarinn er þó óþýðanlegur og fer framhjá ýmsum Íslendingum: Nafnið Börsson vísar til Börsen, sem er heitið á kauphöll í Noregi, Danmörku og víðar.

En styrkur bókarinnar um Bör Börsson liggur ekki síst í því að hún hefur allt yfirbragð heilsteypts bókmenntaverks. Persónur eru kynntar til sögunnar ein af annarri, leiddar inn á sviðið í steikjandi brækju um sumarmál, sem kemur lesanda strax í sólskinsskap. Síðan, samhliða breyttum árstíðum, þróast þær og þroskast af innbyrðis samskiptum - þótt Bör sé sami búrinn inn við beinið í bókarlok, þá er hann ekki sami einfeldningurinn; hann hefur lært sína lexíu af veraldarvésinu. Jómfrú Ísaksen hjúfrar sig upp að hverjum þeim karlmanni, sem síðast hafði betur í viðureign, en endar í fjötrum hjónabands.  Aldrei er dauður punktur í bókinni; eltingarleikir og slagsmál birtast síendurtekið, dyggðugar jómfrúr jafnt sem vafasamari veraldarvanari fraukur lita ástarlífið, sögusviðið færist til Niðaróss og Osló nákvæmlega á réttum augnablikum þegar allt virðist ætla að verða of viðburðasnautt í Öldurdal. Sagan um Bör var upphaflega skrifuð jafnóðum frá degi til dags sem framhaldssaga í norsku blaði undir lok fyrra stríðs og má heita merkilegt hve mörg góð heimsbókmenntaverk hafa orðið til á þann veg. Þannig skrifaði Balzac sínar bestu sögur, m.a. hina óviðjafnanlegu Le Père Goriot, og þannig varð Svejk Haseks einnig til, en kláraðist aldrei þar sem höfundurinn féll frá (reyndar er ég í fárra hópi, sem telur söguna af Góða dátanum Svejk ofmetna bæði sem bókmenntaverk og gamansögu). Bör Börsson mun engan veginn dæmigerð fyrir höfundarverk Johans Falkberget, sem skrifaði frekar sögulegar skáldsögur og naut virðingar fyrir. Reyndar, eftir að búið var að gefa út Bör Börsson á bók sem rokseldist, skrifaði Falkberget seinna bindi um þessa sögupersónu sína, en naut ekki viðlíka vinsælda, enda allt þar með ævintýralegra blæ. Þar fer Bör Börsson algjöran kollskít, hrökklast úr landi, hrekst til Suðurhafseyja, finnur þar fjársjóð og snýr heim ríkari en nokkru sinni fyrr. Ég man eftir að hafa lesið þetta seinna bindi tvisvar á æskuárunum, fékk það lánað á gagnfræðaskólabókasafninu, en það hefur ekki verið endurútgefið mér vitanlega. 

Niðurstaðan er: Minn ævilangi félagi Bör Börsson veitir enn ólýsanlega ánægju og skemmtan, jafnvel við tíunda lestur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki get ég verið sammála þér um Góða dátann, en hinsvegar lýsi ég gleði yfir upprifjun á Bör Börssyni.  Ég minnist þess að bókasafnið á Akureyri átti bara eitt eintak af honum og fékkst bara lánað með eftirgangsmunum.  En, á tímabili held ég ég hafi kunnað hann utanað.  Barónessuævintýrið er raunverulega raunverulegt, amk. kom svipað fyrir föðurbróður minn, sem Einar Már gerði síðar ódauðlegan sem Pétur einbúa þótt hann væri reyndar dauður þá.  Hann las auglýsingu í Kaupmannahafnarblaði frá ríkri hefðarkonu sem auglýsti eftir myndarlegum eiginmanni.  Og hann álpaðist síðdegis á fínt hótel í miðbænum þar sem fraukan beið biðlanna og var vísað til hennar á þriðju hæð.  Eitthvað hafði víst veiðst illa hjá henni enda sýndist honum beitan bæði gömul og skorpin.  Þó kynnti hann sig en þegar hún gerði sig líklega til að ganga að eiga hann þar og þá hrökklaðist hann út og forðaði sér á hlaupum en heyrði hana hrópa á eftir sér: „Jonasson, Jonasson, jeg elsker Dem.“  Var kann síðan ókvæntur alla ævi.  Má af þessu sjá að ekki dugir að sitja af sér tækifærin.

Þ. Lyftustj. (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 00:06

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Makalaus saga, lyftustjóri. Þannig apar nú veruleikinn bókmenntirnar. Hebbði maður sjálfur nú ekki látið sig hafa það að eiga skrukkuna, svona ef þetta hefði verið alvöru-barónessa, svona upp á það að geta nuddað olnbogum við fína slegtið? Hresstu annars upp á minni mitt og uppfræddu mig um í hvaða bók eftir Einar Má þessi Pétur einbúi kom annars fyrir - ég á svo margt ódauðlegt ólesið. Verst að vera ekki ódauðlegur sjálfur. Þó ekki væri til annars en að lesa allt gott, sem gefið hefur verið út.

Annars hef ég lesið þann endurtekningasama langhund um Svejk þrisvar sinnum (m.a. í leit að því sem gott átti að heita í bókinni) og sé eftir tveimur seinustu skiptunum. Þegar ég spyr fólk út í hvað sé svona gott við Svejk, nefnir það oftast lestur Gísla Halldórssonar! Sá lestur var vissulega frábær - en gerir ekki bókina góða í sjálfri sér.

Helgi Ingólfsson, 8.2.2013 kl. 16:28

3 identicon

Jamm.  Svona er þetta.  En Pétur einbúi var karakter í Einglum alheimsins, gamall kall sem strákar vistuðust hjá á Skaga og varð heymsfrægur um allt Ísland þegar hann fór og hélt fyrirlestra um seið við vesturheimska háskóla og féll svo frá 1976.

Þ.ly (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 18:50

4 identicon

Takk fyrir færsluna sem ég hafði mjög gaman af ... ég las nefnilega Bör líka einu sinni á ári, árum saman. Les hana af og til á síðari árum og hef alltaf jafn gaman að. Þið vitið að þetta eru tvö bindi, er það ekki? Ég les sko líka seinna bindið reglulega, þegar Bör er fallítt og finnur fjársjóð á Galapagoseyjum fyrir einskæra tilviljun o.s.fr.

Mér finnst mjög merkilegt að senan af viðskiptum Börs og barónessunar hafi ræst í lífi frænda Lyftustjórans: Segið svo að bókmenntir hafi ekki áhrif!

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 20:24

5 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Hæ Harpa. Afsakaðu sein viðbrögð, ég hef lítinn tíma fyrir tölvuna þessa daga.

Galapagos - það var lóðið! Ég var búinn að gleyma þeim stað - minnti að þetta hefði bara verið á einhverri ónafngreindri Suðurhafseyju. Hitt man ég að Bör eignaðist e.k. þjón þarna, sinn eigin Frjádag.

Hvernig er það, áttu þá seinna bindið af BB? Er það ekki rarasta rarítet?

Helgi Ingólfsson, 10.2.2013 kl. 16:18

6 identicon

Nei, því miður, á hvoruga. (Þær eru báðar til á heimili foreldra minna en það hjálpar nú kannski ekki mikið.) Hinn góði bóksali, mér liggur við að segja hinn besti bóksali, þ.e. bóksalinn á Selfossi, tekur við pöntunum góðra kúnna og mætti tala við hann :)

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2013 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband