Ljóslifandi Stundarfró

Orri Harðarson sendi nýlega frá sér skáldsöguna Stundarfró, sem gerist á árunum 1989-90 og greinir frá skyndikynnum Arinbjarnar og Dísu, með þeim afleiðingum sem sú stundarfró hefur. Arinbjörn er föðurlaust ljóðskáld, sem tekið hefur sér ættarnafnið Hvalfjörð. Þótt ungur sé, einungis tuttugu og þriggja ára, má hann muna sinn fífil fegurri, því að hann þótti hálfgert undrabarn þegar hann gaf út sína einu ljóðabók, Tunglið er timbrað, en hefur síðan þá mestmegnis giljað fljóðin ellegar sopið fjörur af göróttum drykk, nema hvort tveggja sé. Einhver áform hefur hann einnig á prjónunum um að skrifa skáldsögu, þótt lítið hafi orðið úr verki. Sú eina sem gæti mögulega hamið hann og tamið er 18 vetra Akureyrarsnót, Þórdís Þrastardóttir, einatt kölluð Dísa, á sögutímanum orðin droppát úr skóla, en pakkar inn Lindu-súkkulaði á daginn og fer á skverinn um helgar. Samdráttur þessa pars helgarlangt á eftir að draga dilk á eftir sér, þar sem margt kómískt gerist, sumt grátlegt og enn annað grátbroslegt.

Skemmst er frá því að greina að saga þessum býr yfir ýmsum feiknasterkum kostum, en að sama skapi nokkrum veikleikum. Sjálft söguefnið er næsta fáfengilegt og hversdagslegt á Íslandi: Endalaust kennderí, kvennafar og kynlíf, uns úr verður krógi. Ég verð að játa að stundum fékk ég mig fullsaddan af látlausri drykkjunni og taumlausum lauslætissögunum, en því verður ekki á móti mælt að höfundur virðist þar mikill kunnáttumaður. Það sem hins vegar heldur fremur þunnri frásögninni uppi er hinn frábærlega lipri stíll Orra, sem er í senn frjór og frumlegur. Og samt hæfilega forn og fyrirsjáanlegur í bland, svo að ekki hlaupi hann út undan sér. Mér er kunnugt um að Stundarfró hefur verið gagnrýnd fyrir fyrndan stíl eða notkun gamalla orða - eins og það hafi einhverja merkingu, því að allir sem mæla á íslensku, nota gömul orð. En í Stundarfró sýnir höfundur einmitt sérlega gott vald sitt á tungunni og vísar fram og til baka í tungumálið og bókmenntirnar. Og tónlistina. Reyndar þótti mér fullmikið af því góða með tilvísanir í dægurlagatexta, einkum þegar fram í sótti. Þykir mér ekki næg afsökun að vísa til þess eins að höfundur sé tónlistarmaður; stundum einfaldlega drekkja tónlistartilvísanir, einkum fremur óskemmtilegar djasspælingar, því sem annars gæti verið betra án þeirra. En víkjum aftur að mörgum kostum bókarinnar. Höfundur býr yfir frjórri skáldlegri hugsun og má hér tilgreina fáein bráðskemmtileg dæmi. Snemma í bókinni kúgast blekþunnt skáldið eftir að hafa drukkið Camus-koníak á tóman maga: "Ógleðin var slík að koníakið hefði eiginlega átt að heita Sartre frekar en Camus." (20) Og rúmum 20 blaðsíðum seinna er enginn vínandi eftir í húsinu nema hið ógleðjandi koníak frá Camus (43). Er mér til efs að nokkurt skáld hafi kinkað jafn skemmtilega kolli til La Nausée Sartres. Annað dæmi. Lífsreyndur kvennabósi virðir fyrir sér fallegar, léttklæddar, dansandi stúlkur í iðandi kös á Borginni: "Þær hreyfðu bara ekkert við honum, svoleiðis. Þetta var meira svona léttvægt augnayndi, eins og listhlaup á skautum." (176) Og enn eitt dæmi um skemmtilegan stílinn. Sími hringir og ung stúlka stekkur til í hendingskasti í átt að honum, mestmegnis af gömlum vana: "Amma Steina hafði oft reynt að venja hana af þessu óðagoti, en það var eins og að biðja skilyrtan sveitahund um að gerast stóískur gagnvart bílaumferð." (167) En einstaka sinnum skýtur Orri þó yfir markið og má varast að stíllinn verði ekki beinlínis tilgerðarlegur. Til dæmis: "Í mars var lítill prins færður í heiminn, með athöfn kenndri við keisara. (229)"

Helsti styrkur Stundarfróar liggur þó í persónusköpuninni. Aðalsöguhetjurnar eru skýrum dráttum dregnar og ljóslifandi, í gegnum orð, æði og útlit. Þær eru þó máske fullungar til að virka svo lífsþreyttar, sérstaklega skáldið, en hjá honum er bara allt ennui og angst og weltschmerz. Þá virkar Dísa líka fullreynd í ástarfarinu, svona miðað við aldur. Að öðru leyti er persónusköpun þeirra lýtalaus. Amman Aðalsteina, í vænum holdum reykjandi í eldhúsinu, er bráðskemmtileg týpa og býsna fyrirferðarmikil framan af sögu; ég hefði viljað sjá meira gert úr persónusköpun hennar þegar á leið, en þá verður hún hálfgildings bakgrunnskarakter. Hinn kærastinn, Agnar Már, er lítt kynntur til sögu framan af, en þegar hann kemur inn er það með trukki; frábærlega skemmtileg manngerð. Hið sama má segja um kennarann, vin Arinbjarnar, og útgefanda hans, sem og minni karaktera á borð við foreldra Agnars Más. Þegar á heildina er litið er persónusköpunin með því betur heppnaðra sem ég hef séð á bók lengi. Og húmorinn er aldrei langt undan; bókin er launfyndin frá upphafi til enda. Þá ber einnig að nefna að tíðarandi, aldarfar og kringumstæður eru ljóslifandi dregin fram. Andrúmsloft ársins 1989 birtist fyrir augum lesandans sem væri hann staddur þar; sérstaklega er Akureyri þess tíma eftirminnileg. Sá ég fáa hnökra ellegar tímaskekkjur þar á. Þó er einn snöggur blettur sem verður að minnast á. Nærri sögulokum verður kúvending, eða tvist eins og farið er að kalla það á íslensku, sem kemur fremur flatt, bæði upp á lesandann og textann, því að umsnúningurinn er ekki nægilega undirbyggður og flæði textans vinnur gegn honum. Um er að ræða nokkuð snjalla hugmynd, en skjóta hefði þurft ögn betri stoðum undir hana, sem og að vinna hana betur áfram.

Niðurstaða? Þessari bók verður helst lýst sem ljóslifandi. Frábærlega efnilegur höfundur, sérstaklega ef hann leggur rækt við stíl sinn og tón.

----

P.S. Ritdómur þessi var skrifaður fyrir u.þ.b. þremur mánuðum. En vegna þess að Moggabloggið er orðið svo ritfjandsamlegt að ekki er hægt að skeyta inn texta úr algengustu ritvinnsluforritum, þá er bókablogg á þessum vettvangi varla fyrirhafnarinnar virði.  


Vatnsberar og vaskakerlur í Vonarlandi

Ég kláraði nýlega Vonarlandið eftir Kristínu Steinsdóttur og þótti hin dægilegasta lesning, þótt ekki komist hún í hálfkvisti við Ljósu sama höfundar. Vonarlandið greinir frá nokkrum aðkomukonum í Reykjavík, sem þurfa að hafa í sig og á með erfiðisvinnu á borð við þvotti í Laugunum, kolaburði, saltfiskvaski og vatnsburði. Þótt hvergi sé nefnt ártal í bókinni, má ráða af atburðum að hún gerist mestmegnis á árunum 1871-74 út frá vísun til atburða, frá bólusóttarsjúklingunum frönsku, sem settir voru í einangrun í Biskupsstofunni yfirgefnu í Laugarnesi, og rétt fram yfir konungskomuna frægu.

Bókin veitir bráðskemmtilega og samúðarfulla innsýn í erfiðisstörf kvenna á þeim tíma, einkum við þvotta í Laugunum og við vatnsburð. Annars er sögusviðið um sumt óljóst enda virðist stílbragð að sneiða hjá því að nefna hlutina réttum sögulegum nöfnum. Þannig heitir kirkja í Reykjavík bara „kirkjan“ (þar til allt í einu við konungskomuna hún fer að heita „Dómkirkjan“); læknirinn heitir bara „læknirinn“ (og óljóst hvort það er Hjaltalín eða Jónassen, sem báðir störfuðu í Reykjavík á þessum árum); fógetinn er bara „fógetinn“, í bókinni bæði strangt yfirvald og fjölþreifið til vinnukvenna og vona ég að þar sé ekki vegið að þeim sómamanni Árna Thorsteinsson, bróður Steingríms, sem á þessum árum var í senn bæjar- og landfógeti, ef ég man rétt. Sumar persónur eiga sér bersýnilega raunverulegar fyrirmyndir, en eru þá rækilega stíl- og staðfærðar; þannig virðist skoski hrossakaupmaðurinn Stonehill byggður á hinum raunverulega Coghill, nema hvað sá fyrrnefndi er hávaxinn, rauðbirkinn og hrokkinhærður, en Coghill var lágvaxinn og svartur á brún og brá.

Eitt helsta sögusvið bókarinnar er bærinn þar sem konurnar búa, Litlakot, en ekki er ljóst hvar í Reykjavík það er, þótt helst mætti gera ráð fyrir að væri uppi í Grjótaþorpi eða vestur með Hlíðarhúsastíg, þar sem um þurrabúð er að ræða. En ef Litlakot á að vera svo vestarlega í bænum, þá þykir mér heldur ósennilegt að Jóka beri vatn úr hinu síðra vatnsbóli í Bakarabrekkunni, þegar betra vatnsból er henni miklu nær þar sem er Prentsmiðjupósturinn (við Aðalstræti).

Um suma hluti þótti mér máske ekki gæta nægilegrar sögulegrar nákvæmni. Þannig er næturvörður í Reykjavík (sem ber gaddakylfu og hrópar tíma dagsins á slaginu, þótt ég telji að hvoru tveggja hafi verið aflagt upp úr 1850), en látið sem lögregluþjónar bæjarins hafi ekki verið til og voru þeir þó orðnir tveir um 1870, Jón Borgfjörð og Alexíus. Og bágt á ég með að trúa að landshöfðinginn hafi fengið vatn sitt úr Bakarapóstinum (sem stóð nokkurn veginn þar sem Núllan er í Bankastræti í dag), því að vatn þaðan þótti miklu síðra en vatnið neðan úr Prentsmiðjupósti. Og heldur er mér hulin ráðgáta hvernig hægt er að sigla með hrossaflutningsskipi til útlanda og frílysta sig þar uppi á dekki án þess að heyrist hneggur, frís eða fnæs úr bykkju. Svo má nefna að sú knæpa bæjarins, sem sögupersónur sækja í, er Svínastían, stundum kölluð Stían, en ég er næsta viss um að það nafn komst ekki á fyrr en eftir að Halberg vert hafði tekið við af Jörgensen látnum eftir 1877 og þó einkum eftir 1880 (sbr. æviminningar Ágústs Jósefssonar), svo að um dálitla tímaskekkju er að ræða.

Nóg um það. Dálítið kaflaskipt er hvernig horft er á karla eða konur í bókinni og liggur samúðin öll með þeim síðarnefndu. Margir karlar í bókinni eru illa innrætt fúlmenni, en sumir heldur hlutlausir, einkum ef þeir eiga í tilhugalífi við einhverja kvennanna. Helst er að hinn breski Stonehill virðist góðhjarta, síhossandi barni, en hann er sumpart óljós bakgrunnspersóna og segir fátt, enda útlenskur. Konurnar mynda á endanum hálf-feminíska kommúnu, margar brenndar af svikum karlmanna eða bara af harðneskju lífsins. Þær sjálfar gerast brotlegar við lög, en geta réttlætt það fyrir sjálfum sér og virðist í lagi í augum sögumanns, enda ná þær á endanum að snúa á yfirvaldið. Boðskapur bókarinnar, þegar upp er staðið, virðist sá að ef konur standi saman geti þær sigrast á á öllum hindrunum – jafnvel karlaveldinu. Sjálfar eru konurnar dregnum missterkum dráttum – hin eftirminnilegasta er Guðfinna, stórvaxin, nautsterk, ókvenleg, en þó ekki án vonbiðla. Annars eru það aukapersónurnar við vatnspóstinn, sem stela senunni, einkum Jón dauði, sem álpast til að gera skemmtilega furðulega hluti.

Niðurstaða? Læsileg skáldsaga, býsna góð á köflum, en varla stórvirki.

–---
P.S. Aðeins fór titillinn fyrir brjóstið á mér. Hann á að vísu tilvísun inn í texta verksins, en … einhvern veginn sá ég hann sem samsuðu af Vonarstræti Ármanns Jakobssonar og Draumalandi Andra Snæs.


Trúverðugur álitsgjafi?

Ég held að nauðsynlegt sé að gera grein fyrir bakgrunni Eriks Werlauff til að átta sig á aðkomu hans.

Lagaprófesssorinn Erik Werlauff var stjórnarformaður Bónusbankans danska fram til hausts 2008, þegar sá banki var þvingaður til að sameinast tveimur öðrum út af erfiðri stöðu. Sjálfur hafði Werlauff komið fram opinberlega, lýst því yfir að banki hans væri vel staddur og að hyggilegt væri að kaupa í honum hlutabréf. Því til sannindamerkis kvaðst hann hafa keypt hlutabréf í bankanum að upphæð 1 milljón danskra króna.

Hið sanna var að á sama tíma seldi Werlauff bréf í bankanum fyrir upphæð um 17 milljónir Dkr, sem hann slapp með fyrir horn, en hluthafarnir, sem hann hvatti til að kaupa bréf í bankanum, töpuðu stórum fjárhæðum.

Mikið var um málið fjallað í dönskum fjölmiðlum og birtust þar heilmiklar vangaveltur um lögmæti gjörningsins. Þótti tilkynningaskyldu m.a. ábótavant.

Er trúverðugt að stjórnarformaður eins banka, sem sakaður hefur verið um að hafa rangt við í viðskiptum, gefi álit í máli annars, sem sakaður er um svipað athæfi? Er líklegt að um óvilhallt og óháð álit sé að ræða?

Svo velti ég líka fyrir mér hvers vegna þetta kemur sem "frétt" í tveimur fjölmiðlum - og án nokkurra fyrirvara. Látið er í veðri vaka að þetta sé óvilhallur lagaprófessor með langa starfsreynslu, en hvergi minnnst á nýlega vafasama aðkomu hans að bankamálum, næstum nákvæmlega frá sama tíma og þegar Kaupþing féll. Er slíkum fréttaflutningi hugsanlega ætlað að hafa áhrif á viðhorf almennings - og þá máske dómara líka?


mbl.is Telur ásetning ekki fyrir hendi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin eilífa uppspretta alvaldsins

Stundum er ég spurður hvort ég sé hættur að blogga; það líði svo ógnarlangur tími á milli bókaumfjöllunar hjá mér. Stundum fimm bækur í belg og biðu, svo engin svo mánuðum skiptir.


Hið rétta er að ég er sílesandi – en oft bara sömu bókina. Þannig er ég þessa dagana að endurlesa í X-ta skipti hina stórglæsilegu “Héðin” eftir þann demónska snilling Matthías Viðar og á sama tíma einnig ómældan brilljans sagnameistarans og öðlingsins Þorsteins Thorarensens, “Eldur í æðum” og “Gróandi þjóðlíf”. Þessar bækur tek ég fram reglulega til lestrar og margar til; nú hjálpa þær mér að leysa verkefni. Ég hef komist að því að þeir íslenskir höfundar, sem hafa helst verið mér stílfræðilega hugstæðir, hafa verið Steingrímur Thorsteinsson, Matthías Jochumson, Benedikt Gröndal, Jón Ólafsson, Arnljótur Ólafsson, Þorsteinn Gíslason, Árni Óla, Gunnar M. Magnúss, Björn Th. Björnsson, Matthías Viðar Sæmundsson, Hallgrímur Helgason og Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir. Gleymi ég einhverjum? En þetta eru mínar hetjur og fyrirmyndir í meðförum íslensks máls.


Reikningsdæmi

Ef árslaun bankastjóra Arionbanka eru 50.700.000 (eins og segir í frétt á mbl.is 5. mars 2014) og tekið verður gjald upp á 300 kr. fyrir hvern þann viðskiptavin sem leitar þjónustu gjaldkera hjá bankanum, hversu margir viðskiptavinir þurfa þá að fara til gjaldkera til að standa undir árslaunum bankastjórans?

Smjörbókmenntir

harry quebertStutta útgáfan:

Sannleikurinn um mál Harrys Quebert eftir Svisslendinginn Joël Dicker er fremur ómerkileg bók, ófrumleg og fullkomlega oflofuð. Hún er einn stór amerískur svakamálaþáttur yfirfærður á pappír og svo hræðilega illa stíluð að ég vil kalla hana smjörbókmenntir, þar sem flatneskja textans gerir lesturinn að fyrirstöðulausu bráðnu smjöri. Götin í plottinu eru óteljandi, en þau er ekki hægt að ræða hér án þess að afhjúpa söguþráðinn.

Til að gæta réttsýni, þá eru blaðsíður 225 og 527 ágætlega skrifaðar.

En hinar 680 blaðsíðurnar – Drottinn minn dýri! Hvers vegna er ekki betur hugsað um skóga heimsins.

P.S. Þýðingin er eins góð og hún getur orðið. Slakri bók verður ekki bjargað með góðri þýðingu.




Útblásin egó

harry quebertViðvörun: Umfjöllunin KANN AÐ SPILLA LESTRI þeirra sem eiga bókina Sannleikurinn um mál Harrys Quebert ólesna.

---- 

Lengri útgáfan:

Svissneskt ungskáld, fullt af sjálfstrausti, skrifar (á frönsku) 680 blaðsíðna doðrant um morðmál sem skekur afskekktan smábæ í Bandaríkjunum. Snilli eða heimska?

Síðastliðinn vetur kom út hér á landi þýdd skáldsaga, Sannleikurinn um mál Harrys Quebert eftir Joël Dicker, sem upphaflega birtist í Frakklandi árið 2012, sló þar margvísleg sölumet og náði m.a. að ryðja Inferno Dan Brown úr toppsæti í frönskumælandi löndum árið 2013. Í íslenskum bókmenntaþáttum var Harry Quebert einnig ausinn lofi. Ekki er erfitt að lýsa umræddri bók í fáum orðum: Sögumaður er Marcus Goldman, rithöfundur af Gyðingaættum, sem býr í New York og hefur ungur skrifað metsölubók, grætt morð fjár, lifað hátt, keypt sér Range Rovera og deitað (eins og það er núorðið kallað á íslensku) íðilfagra sjónvarpsleikkonu úr frægum þætti, en fyllist ritstíflu, þegar umbi og útgefandi þrýsta á um næstu bók. Í örvæntingu, í leit að stíflueyði, heimsækir hann gamlan lærimeistara sinn og vin, Harry Quebert, sem er einn frægasti höfundur Bandaríkjanna og býr í námunda við smábæinn Aurora í New Hampshire. Heimsókn Marcusar til Harrys í nokkrar vikur dugar ekki til að losa um ritstífluna og hann snýr heim til New York jafn andlaus sem fyrr. En fáum mánuðum síðar fær hann stutt símtal frá hálfgrátandi Harry, sem hefur verið handtekinn og færður á lögreglustöð. Samdægurs verður þetta helsta fréttaefni allra sjónvarpsstöðva: Hinn víðfrægi og stórvirti rithöfundur Harry Quebert er ákærður fyrir morð á unglingsstúlku sem átti sér stað á hans heimaslóðum rúmum 30 árum fyrr og á nú yfir höfði sér jafnvel dauðarefsingu verði hann sekur fundinn. Marcus ákveður að leggja allt í sölurnar og bjarga vini sínum úr snörunni. Við þá “aðstoð” afhjúpast ýmis leyndarmál sem eiga eftir að skekja smábæinn Aurora í New Hampshire og jafnvel allt bandarískt þjóðlíf.

Minnir þetta á eitthvað? Það er nánast eins og Dicker hafi tekið tvö verk og slengt þeim saman: Annars vegar sjónvarpsþættina Twin Peaks (1990-91) þar sem morð á unglingsstúlku skók bandarískan smábæ og hjá öllum bæjarbúum lá fiskur undir steini, og hins vegar Uns sekt er sönnuð eða Presumed Innocent (1987), ágæta bók Scott Turow, sem einnig var gerð kvikmynd úr árið 1990. Dicker er fæddur 1985 og tilheyrir því kynslóð, sem vart þekkti þessi verk á sínum tíma; kannski hefur hann fundið þau í gamla vídeóspólusafninu sem foreldrar hans ætluðu að henda. Reyndar hefur hann víst sagt í viðtölum að hann hafi ekki séð Twin Peaks – þættina fyrr en farið var að benda á líkindi þeirra við bók hans, en alltént fékk ég sem lesandi á tilfinninguna að Sannleikurinn um mál Harrys Quebert sé byggður á efni sem ég hef séð í skrilljón amerískum bíómyndum og who-dun-it þáttum í anda ofangreindra verka.

Sannleikurinn er sá að Sannleikurinn um mál Harrys Quebert er í grundvallaratriðum amerískur sjónvarpsþáttur færður yfir á pappír. Frásagnaraðferðin minnir um margt á þáttaröðina True Detective, þar sem sífellt er flakkað á milli tveggja eða fleiri tímasviða, nema hvað sjónvarpsþættirnir voru góðir, bókin ekki.

Gallarnir við Sannleikann um mál Harrys Quebert eru afar margir. Fyrst ber að nefna að bókin er víðáttulöng. Ekki vegna þess að höfundi liggi svo mikið á hjarta, heldur af því að endurtekning upplýsinga er óhemjumikil og stöðug. Bókina hefði hæglega mátt stytta um þriðjung án þess að nokkuð hefði glatast. Stöðugt er verið að minna lesandann á upplýsingar sem hann hefur áður lesið, oft bara af næstu blaðsíðum á undan. Er sú virkilega framtíð bóka að þær munu blása út að lengd vegna þess að minni lesenda er orðið svo lélegt? Leiðinlegast er þó, þegar endurtekið er í sífellu hvað Harry eða Marcus eru frábærir eða hvað Nola eða Jenny eru fallegar. Þetta er bók af því tagi sem ég vil kalla múrsteinsbók, svo þykk að rota mætti mann með henni, án þess að innnihaldið gefi tilefni til þess. Og bókin er í eðli sínu pulp fiction, í upphaflegri merkingu þess hugtaks, glæpasaga sem á heima í standi við dagblaðasölu, ein útblásin dime store novel.

 

Innbyrðis mótsagnir í sögunni eru svo margar að fylla mætti heila ritgerð um þær. Skulu hér nefnd fáein dæmi. Þótt ógift sé árið 1975, þá er Jenny fegurðardís og sögð svo falleg að hún gæti átt sér frama í Hollywood og þó örvæntir móðir hennar um að hún gangi ekki út. Samt eru sýnilegir vonbiðlar á hverju strái. Þá er með ólíkindum að persóna geti talið sig standa í bréfaskrifum við manneskju, sem hún hittir um tíma nánast daglega – og ekki vitað að bréfin eru frá öðrum. Og þótt Quebert sé ákærður fyrir morð á stúlkunni, þá heldur engu vatni að hann skuli einnig ákærður fyrir morð á frú Cooper - til þess hníga engine bein rök eða sannanir. Þá tekur bið eftir staðfestingu á rithandarsýni, sem getur skipt sköpum, margar vikur í fyrstu, en örstuttan tíma í næsta tilviki. Trúverðugt?

 

Langstærsti gallinn er þó stílfræðilegur. Málfarið er mestmegnis frámuna ungæðislegt, engin natni eða fágun er lögð í textann sem á köflum minnir á skólaritgerð tánings. Setningar byrja hver af annarri á “Ég”: “Ég var ...”, “Ég kom ...”, “Ég gerði ...”, “Ég sá ...” og svo framvegis. Að minnsta kosti tvisvar rakst ég á fjórar setningar í röð sem byrjuðu á fyrstu-persónufornafninu. Þá eru blæbrigði sagna ekki nýtt að neinu marki; látlaust er klifað á sögninni “að vera”. Frásögnin einkennist ríkulega af tvennu: Löngum samtölum, sem ekki eru alltaf slæm, þótt mörg hver séu í sjónvarpsþáttastíl, og þurrum lýsingum/ staðreyndaupptalningu, sem fer út yfir öll mörk. Höfundur virðist telja að það geri frásögn spennandi að setja upphrópunarmerki aftan við aðra hverja setningu. Mér er til efs að ég hafi lesið bók með fleiri upphrópunarmerkjum. Næstum ekkert fer fyrir líkingamáli eða ljóðrænu, en um þverbak keyrir í linnulausri hríð dagsetninga og tímasetninga. Reyni höfundur fyrir sér um líkingar reynast þær ærlega nykraðar: Í draumheimi ástfangins manns sveimaði “mávager sem söng eins og næturgalar.” (529) Dö!

Þá á að vera frumlegt að telja kaflaheitin aftur á bak – bókin byrjar á 31. kafla – en það reynast tilgangslausar tiktúrur og stælar. Án þess að hafa samanburð við upphaflegan texta held ég að allt ofanvert hljóti að vera höfundareinkenni og ekki sé við þýðandann að sakast; þýðingin rennur alltént mestmegnis áreynslulaust á góðri íslensku. Ef rétt reynist að þetta sé stíll Dickers, þá þykir mér með ólíkindum að útgefandi hans skuli ekki hafa rekið hann til baka með handritið til fínpússunar. Í fyrrasumar fjallaði ég um nýjustu bók Dans Brown, Inferno, í bókabloggi hér og gaf henni ekki háa einkunn varðandi stílbrigði. En í samanburði við stílleysu Joël Dicker – og þetta hélt ég að ég ætti aldrei á ævi minni eftir að segja – þá er Dan Brown eins og Shakespeare.

Næstan má nefna anda bókarinnar. Allt í lífi helstu persóna er svo æðislegt að yfirgengilegt hlýtur að teljast. Marcus Goldman hefur skrifað metsölubók fyrir þrítugt, ekið um í Range Roverum og giljað sjónvarpsstjörnur, en ekki bara það. Í menntaskóla fékk hann viðurnefnið Hinn frábæri, að vísu ekki að öllu leyti verðskuldað, heldur frekar fyrir að vera bestur í hópi meðalmenna, og Harry Quebert segir við hann að hann sé gáfaðasti nemandi sem hann hefur haft. Og Harry Quebert er einn fremsti rithöfundur Bandaríkjanna, sagður “pennafærasti” maður þar í landi og gæti kennt við hvaða Ivy League-háskóla sem hann vildi, bara með einu símtali. Og hann sló líka í gegn með metsölubók rúmlega þrítugur, keyrir núorðið um á Corvettu, býr í stórfallegu húsi við hafið - og verður sérstakur vildarvinur skólastráks. Allt er þetta svo ólíkindalegt að engu tali tekur. Þeim mun frekar þar sem Marcus Goldman, hinn fluggáfaði og frábæri og forríki, virðist ekki eiga nokkurn vin annan (og þá tel ég ekki með herbergisfélaga Marcusar úr háskóla, blökkupiltinn Jared, sem er bara enn einn aðdáandi Marcusar) nema lögreglumanninn Gahalowood sem hann vingast við meðan á rannsókn stendur. Og Marcus er um þrítugt og Harry sextíu og sjö ára – þeir kynntust tíu árum fyrr og samt furðar Marcus sig á því að hafa aldrei heyrt um vafasamt ástarævintýri Harrys mörgum áratugum fyrr. Og það undarlega er að það vottar ekki fyrir satíru í þessu öllu saman – svona er bara heimur Marcusar.

Hluti af óþolandi anda bókarinnar er þetta eina stóra Ég sem er allsráðandi og birtist alls staðar. Öllum virðist það ógurleg fórnfýsi (og jafnvel Harry sjálfum), þegar Marcus tekur að sér að grafast fyrir um mál til að sanna sakleysi læriföðurins, fremur en að standa skil á bók til útgefanda, sem hann hvort eð er nær ekki að klára. Blind fórnfýsi í nafni vináttu sem virðist reist á sandi, veitt af manni sem hvorki er fórnfús né vingjarnlegur – blah! Og jafnvel þegar Marcus er kominn inn á öngstræti með ritstífluna, kemur fram hugmynd að bók, sem útgefandi getur boðið honum milljón dollara fyrir. Get real! Allt er yfirgengilegt og toppað í þessari bók: Lengd, plottun, fjárreiður, grenjuskapur, ástsýki – bara allt!

Það er eitthvað í anda þessarar bókar sem fangar sjálfhverfu samtímans – og samt í reynd ekki á neinn paródískan hátt. Sögunni er ekki ætlað neitt annað en að skemmta – á nákvæmlega sama hátt og miðlungs sjónvarpsþáttur. Allir ætla að verða orðnir frægir og frábærir fyrir þrítugt – annars teljast menn samfélagslegir ómerkingar. Þannig er hugmyndaheimur Marcusar Goldman í hnotskurn. Hið sjálfhverfa markaðssamfélag og bullandi einstaklingshyggja eru orðin markmið í sjálfu sér; umbúðirnar allt, innihaldið ekkert. Sannleikurinn um mál Harrys Quebert er sigur innihaldsleysisins. Þetta er fantasía af fyrstu gráðu, afþreying af sama toga og Barbara Cartland eða Ib Henrik Cavling – og maður verður að ganga inn í ólíkindalegan fantasíuheim til að skemmta sér, annars virkar heildin bara absúrd. Og fyrir mig er bókin fyrst og fremst fáránleg, til marks um þá firringu samtímans sem fólk telur sér trú um að sé almennur samfélagslegur veruleiki venjulegs fólks. Alla söguna í gegn er lesandanum sagt hvað honum eigi að finnast um bókina – og reyndar hamrað á því. Ritun Sannleikans um mál Harrys Quebert virðist meira sprottin af þörfinni fyrir frægð heldur en af þörf fyrir að segja almennilega sögu, hvað þá að segja hana vel. Í því samhengi er vert að bera bók Svisslendingsins saman við “nýútkomið” Afdalabarn Guðrúnar frá Lundi, en þegar kemur að frásagnareinlægni hefur íslenska sveitakonan fullkomlega vinninginn. Og fyrst Guðrún blessunin er nefnd, þá hefur kaffidrykkja í bókum hennar stundum verið gagnrýnd, en persónur hennar komast þó ekki í hálfkvisti við ístesþamb úr bók Dickers.

Enn einn stórfelldur veikleiki bókarinnar um Harry Quebert er persónusköpunin sem ýmist er grunn eða stereótýpísk. Þetta eru tvívíðar pappafígúrur upp til hópa, allt frá Marcus og Harry og Nolu til móður Marcusar og lögfræðings Harrys. Karakterar Spaugsstofunnar hafa meiri dýpt og víddir en flest hugarfóstur Dickers. Gahalowood lögreglufulltrúi virðist snýttur út úr nös á Murtaugh, löggunni úr Lethal Weapon-kvikmyndunum, með fjölskyldu og tilheyrandi. Þó finnast einstaka undantekningar með ögn dýpri persónusköpun, til dæmis það sem kemur út úr næturgöltri Roberts Quinn.

Tilfinningar og samdráttur kynjanna innan bókarinnar er sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Í samtímanum elskar enginn neinn nema sjálfan sig, dálítið svipað og sjá má í nýlegum bandarískum bíómyndum, en að sama skapi eru tilfinningarnar yfirgengilega heitar árið 1975 – eins og í eldgömlum bíómyndum. Travis elskar Jenny sem elskar Harry sem elskar Nolu. Og það er engin venjuleg ást. Allir eru svo ástfangnir að það nær út fyrir öll mörk. Á gamaldags máta. Upp fyrir haus. Og allir eru reiðubúnir til að gera allt fyrir þann sem þeir elska. Og alltaf er það “ást”, orðið “ást”, hugtakið “ást” sem er notað um tilfinningar þessa fólks. Ætli orðasamstæðurnar “Elsku Nola” og “Elsku Harry” komi ekki fyrir svona þúsund sinnum í bókinni. Þessar lýsingar á tilfinningum “í gamla daga” eru eintóna og undarlega rómantískar; höfundur virðist hafa lært þær af ytri áhorfun gamalla bíómynda, en ekki upplifað þær. Skiljanlegt er það kannski að Nola, fimmtán ára, sé haldin eins konar melódramatískri hvolpaást á hinum helmingi eldri Harry. En ást hans á henni er af sama toga. Og ást Jennyar á honum. Og ást allra á öllum. Og mikið er það hvað Harry gat grátið – mér var öllum lokið þegar hann grét eitt sinn og tók um hjartastað. Og þótt ást Harrys og Nolu sé óendanlega heit, þá virðist hún ekki getað yfirstigið þann möguleika að bíða þess að Nola verði lögráða. Þannig hefðu öll vandamál verið leyst og allir ánægðir, en … engin bók. Cartland og Cavling hvað?

Fyrir utan að vera tæplega miðlungsgóð glæpasaga og afar unglingsleg ástarsaga, þá reynir Sannleikurinn um mál Harrys Quebert að vera gamansaga á dálitlum köflum. Nokkrum símtölum Marcusar við móður sína, stereótýpíska og málóða gyðingakonu, sem gæti verið klippt út úr Woody Allen-mynd og vill koma syni sínum í hnapphelduna. Einkum er það þó heimilishald Quinn-hjónanna, þar sem ættmóðirin er frek, fáránlega snobbuð og foráttuheimsk, en hefur hreðjatak á karli sínum með því að fá hann til allra hluta og hleypa honum upp á sig í verðlaunaskyni, þrisvar til fjórum sinnum á ári. Samskipti þeirra eiga augljóslega að vera comic relief í sögunni, en verða í reynd að skrípaleik þar sem Tamara Quinn er allt of heimsk til að teljast trúverðug í nokkrum veruleika. Og Robert Quinn líka, að minnsta kosti framan af.

Fyrir tæpu ári fjallaði ég á þessu bloggsvæði um morðráðgátuna Veldu þér tölu eftir John Verdon, sem gerist á svipuðum slóðum og Harry Quebert, ekki að vísu í New Hampshire, heldur í afskekktum Catskills-fjöllum í uppsveitum New York – fylkis. Stóri munurinn hér er að Verdon fær lesanda til að trúa fölskvalaust á lýsingar á umhverfi sem höfundurinn þekkir af eigin raun. Sagt er að Dicker hafi valið sögusvið sitt af því að hann dvaldi sumur á yngri árum í Maine. Hann leggur ofuráherslu á lýsingar, en þær eru oftast yfirborðskenndar; hann er alltaf að flýta sér við að lýsa því næsta og staldrar aldrei við. Ætt er áfram í belg og biðu, án hnitmiðunar. Sagan hefði mögulega orðið betri, ef hún hefði verið staðsett í Sviss, en þetta wunderkind Dicker virðist einblína á Hollywood frá fyrstu setningum bókarinnar. Er til nokkuð ógáfulegra en að Svisslendingur nýkominn af táningsaldri telji sig þess umkominn að skrifa The Great American Novel? Nýlegt dæmi um ólíkt bitastæðara bókmenntalegt undrabarn er Bret Easton Ellis, sem einnig sló í gegn á þrítugsaldri með Less Than Zero og American Psycho; þrátt fyrir að bækur hans einkennist af viðurstyggilegri tómhyggju, þá hafa þær þó bókmenntalegt gildi og metnað. Ellis One – Dicker Zilch.

Allnokkuð er látið með að Sannleikurinn um mál Harrys Quebert sé bók sem fjalli um bók. Gefðu mér breik! Rætur hins illa, hin mikla bandaríska skáldsaga eftir Quebert, á að vera svakalegur lykilróman, mest selda bók Bandaríkjanna síðustu hálfu öldina. En hún virðist öllu heldur vera hundleiðinleg ástarsaga, flökurlega væmin og vemmileg, cheesy and mushy, ef marka má þá útdrætti úr henni sem birtast. Og þeirri bók á að hafa tekist að slá ryki á augu bandarísku þjóðarinnar um forboðið ástarsamband? Humbert Humbert hvað? Ef lesendur vilja lesa bækur inni í bókum, þá mæli ég hundrað sinnum frekar með Nafni rósarinnar eftir Eco eða Skugga vindsins eftir Ruiz Zafón eða The Dumas Club eftir Perez-Reverte eða Dante-klúbbinum eftir Matthew Pearl – nú, eða bara The Great Pursuit eftir Tom Sharpe.

Ég var kominn allnokkuð inn í bókina, þegar ég áttaði mig á því að í frásögnina skorti veigamikið element: Tíðarandann árið 1975. Hvað var efst á baugi? Hvar er tónlistin sem var á toppnum á Billboard 100 þessa örlagaríku sumarmánuði 1975, með John Denver, Eagles, America, Captain and Tennille eða bláupphaf diskósins? Á þessum tíma mótaði útvarpið gífurlega tónlistarsmekkinn. Séra Kellergan er iðullega að hlusta á háværa tónlist í bílskúrnum sínum, en það er aldrei nefnt hvaða tónlist það er (nema hvað einu sinni er sagt að það sé djasstónlist). Nola Kellergan, 15 ára stelputrippi og gallagripur, hlustar á óperutónlist (!) og hefur dálæti á Madame Butterfly, einu óperunni sem nefnd er í sögunni allri. Kommon! Árið 1975 þekkti ég sjálfur ekki nokkurn mann undir fertugu sem hlustaði á óperur – og fáa þar yfir. Og lesandinn á að kaupa að sykursæt hugsjúk ástsjúk fimmtán ára skólastelpa hafi haft smekk fyrir slíku á þessum tíma. Og Nola nefnir líka einu beinu bókmenntalegu tilvísunina, sem er að finna í allri bókinnni, í Nornirnar frá Salem eftir Miller. Rithöfundarnir stórmerku, Goldman og Quebert, nefna ekki einn einasta höfund. Og hvaða bíómyndir horfðu menn á árið 1975? Á einum stað, á tuttugu blaðsíðna kafla, eru margar aðalsöguhetjurnar í bók Dickers að fara í kvikmyndahús í júlí 1975 og hittast fyrir tilviljun í bíóinu sjálfu – en það er aldrei nefnt á öllum þessum blaðsíðum hver bíómyndin er. Fólk þarf ekki einu sinni að nefna hvaða bíómynd hver vill sjá! Og hvar er fatatískan og hártískan; þröngar táningapeysur með rúllukraga, brækur níðþröngar yfir læri og útvíðar um kálfa, saltfiskbindin, kótilettubartarnir? Pólitíkin? Hvar eru ófarirnar í Víetnam, kalda stríðið? Rithöfundar voru ólíkt pólitískari á þeim tíma heldur en í dag – þess vegna skýtur skökku við að rithöfundurinn Harry Quebert skuli nánast aldrei koma inn á þau mál á þeim tíma; hann skortir gjörsamlega samfélagsvitund árið 1975, en er síðan bullandi af henni árið 1998, þegar hann hittir Marcus fyrst. Svarið er augljóst: Dicker er að tala um tíma sem hann lifði ekki sjálfur og nær ekki að endurskapa nema sem dauft endurvarp eða óljóst bergmál. Holur tónn. Ef ég ætti sjálfur að velja tónlist við hæfi til að leika undir til að fanga anda bókarinnar – eða bíómyndarinnar, þegar hún kemur - myndi ég segja að Puppy Love með Donny og Marie Osmond hæfði ágætlega. Og mér er stórlega til efs að Dicker sjálfur sé sæmilega lesinn. Jú sko! - á einum stað er Solsénítsín (svo stafað) nefndur á nafn í bókinni. En það er vegna þess að hann giftist ritaranum sínum, það vissi mamma Marcusar út frá heimildarþætti í sjónvarpinu. Annars er aðeins örlítið tæpt á eldgömlu dóti á borð við Kóreustríðið og Rosenberg-aftökurnar. Annað er það varla. Jú, ein dálítið flott og óvænt samlíking: Þar sem maður hagræðir hatti sínum og horfir hvasst eins og Robert Stack í hlutverki Elliott Ness. Ég var nefnilega einn af þeim sem horfði á The Untouchables í Kanasjónvarpinu í fornöld og það gladdi mitt gamla hjarta að sjá þessa vísun.

Fáein orð varðandi þýðinguna. Hún virðist að mestu leyti afar vel unnin. Þó hafa slæðst inn einstaka villur og undarlegar setningar, sem kannski er eðlilegt í svo löngu verki, t.d.: Æ, frú Goldman, ég veit ekki hvaða mál sonur þinn hefur tekist að flækja sér í núna (189). Fylgt er þeirri þýðingarstefnu að láta einstaka orð úr amerískri menningu halda sér á ensku og held ég að það sé vegna þess að þau séu á ensku í franska frumtextanum. Eflaust má um þetta deila, en sjálfum finnst mér ekki hjálpa íslenskri þýðingu mikið til að skapa bandarískt andrúmsloft að hafa yearbook menntaskólans, diner, timing og waterboy. Hví bara ekki árbók, greiðasala, tímasetning og vatnsberi? Annars, á heildina litið, held ég að þetta sé þýðing eins og best verður á kosið; gallarnir eru fyrst og fremst inngrónir í verkið. Ég get ekki ímyndað mér að þetta hafi reynst flókið verkefni fyrir vanan mann eins og Friðrik Rafnsson. Hins vegar finnst mér þetta hálfgerð sóun á þýðingarkröftum hans, eins og að skjóta flugu niður með fallbyssu.

Líkt og með verk Dan Brown, þá hef ég séð dóma um Sannleikann um mál Harrys Quebert, þar sem bókin er hafin til skýjanna, og aðra, þar sem hún er rökkuð ofan í svaðið. Ég hef lesið ritdóma í hrönnum á Goodreads hjá fólki sem fleygði frá sér Sannleikanum um mál Harrys Quebert eftir 50, 100 eða 200 blaðsíður – og nærri lá við að ég fylgdi því fordæmi. Hún er kannski það sem kallað er pageturner, en ekki í hefðbundinni merkingu spennunnar vegna, heldur les maður hratt í von um að gæði fari að koma í ljós. Tvennt er ljóst: Meistaraverk er bókin ekki og merkilegt bókmenntaverk er hún ekki heldur. Nýsköpun í verkinu er engin, en eftiröpun óendanleg. Allar vangaveltur um eðli bókmennta innan bókarinnar eru barnalega grunnar; höfundur virðist illa lesinn (og kannski eðlilega miðað við ungan aldur, sem og þá staðreynd að hann er menntaður lögfræðingur, ekki bókmenntafræðingur), vísanir hans í bókmenntir eru fáar og yfirborðskenndar, en hann virðist þeim mun meira hafa horft á amerískar glæpamyndir, stúderað plott og flækjur og byggt sinn fantasíuheim í kringum þær. Þegar Harry hittir bókasafnsstarfsmanninn Erne Piskas við afskekkt vatn er sagt að þeir fari að ræða um bókmenntir, en þeir nefna ekki á nafn eina einustu bók eða einn einasta höfund – nema Harry sjálfan. Og í upphafi hvers kafla er að finna heilræði um skriftir sem lærifaðirinn Harry hefur veitt lærisveininum Marcusi, svo meitlað að minnir á kínverska speki, en þar er mjög við hæfi að bókmenntum er þar iðulega líkt við hnefaleika og hvernig höfundur þarf að koma lesanda sínum í opna skjöldu líkt og slagsmálahundur sem opnar varnir andstæðings síns og slær hann svo í rot. Ja, þessi Konfúsíusar-vasaspeki kýldi mig svo sannarlega kaldan.

Og til að kóróna það hve saga Dickers er óliterær, þá fá lesendur ekki einu sinni að vita um titil eða innihald fyrri metsölubókar Goldmans. Hann bara sko skrifaði metsölubók áður en hann varð þrítugur og varð ógsla frægur og ógsla ríkur, skilurru?

Sannleikurinn um mál Harrys Quebert er oflofuð og ófrumleg bók. Miðað við þá lofsamlegu dóma, sem ég birst höfðu um söguna, ekki hvað síst hér á landi, hélt ég að ég væri að fara að lesa meistarastykki. Hvílík vonbrigði. Aðdáendum bókarinnar þykja afspyrnuléleg stílbrögð augljóslega engu máli skipta. Mér liggur við að segja að sjaldan hafi pappír verið sólundað verr á seinni árum. Til að gæta fullkominnar réttsýni örlar einstaka sinnum á pínulitlum hæfileikum; vil ég taka fram að blaðsíður 225 og 527, miðað við íslenska útgáfu, eru ágætlega skrifaðar. Þess utan felst eina afbötun verksins í því að það er pínulítið spennandi. Á köflum. Meðan það entist. Eftir nokkur hundruð blaðsíður. Þess vegna má mæla með bókinni við fólk sem er að fara í langflug. Eingöngu.

En - 682 blaðsíður? Drottinn minn dýri! Hvers vegna er ekki betur hugsað um skóga heimsins?


Lofsöngur til hinna misskildu og misheppnuðu

Banvard's FollyÍ kringum 1850 var Bandaríkjamaður að nafni John Banvard talinn merkasti listamaður heims. Á sama tíma var Englendingurinn Martin F. Tupper eitt frægasta ljóðskáld veraldar. Í dag eru þessir menn – og fleiri sem öðluðust ofurfrægð í samtíma sínum – öllum gleymdir. Hvernig stendur á því?


Fyrir fáeinum vikum gaukaði Eiríkur tengdasonur minn að mér bók og sagði: “Þú hefðir eflaust gaman af að lesa þetta.” Mikið rétt. Bókin heitir Banvard´s Folly og höfundurinn bandarískur Vesturstrandarmaður, Paul Collins að nafni. Banvard´s Folly byggir á þeirri skemmtilegu hugmynd að fjalla um 13 einstaklinga (allir nema einn eru karlmenn), sem urðu stórfrægir í sínum samtíma fyrir ýmsar sakir, en eru nú flestum gleymdir. Þetta eru menn af þeim toga sem gætu dúkkað upp á lemúrnum.is eða í skringilegri sagnfræðipistlum Illuga Jökulssonar. Sumir þeirra hefðu getað breytt gangi sögunnar – en sagan gleymdi þeim. Nokkrir þeirra komust til æðsu mannvirðinga, a.m.k. um stundarsakir, sumir vegna eigin verðleika, aðrir sem furðufuglar eða svikahrappar. Að minnsta kosti tveir þeirra sýndu listir sínar frammi fyrir Viktoríu drottningu (einn raunar meðan hún var enn prinsessa), sumir voru vildarvinir frægs fólks eins og Nathaniels Hawthorne eða Ralph Waldo Emerson. John Banvard sá, sem bókin heitir eftir, málaði stærsta málverk í heimi, um 5 kílómetra að lengd, og sýndi það strandlengju Mississippi-fljóts. Hann var upphafsmaður svokallaðra panorama-sýninga rétt um 1850 og auðgaðist gríðarlega á því, svo mikið að hann reisti sér í New Jersey smækkaða mynd af Windsor-kastala sem íbúðarhús. Charles Dickens sagði hann mesta listamann síns samtíma. Síðan glataði Banvard auði sínum og frægð, m.a. vegna samkeppni við þann fræga P.T. Barnum.

Margir í bók Collins eru ókunnuglegir með öllu. Hver kannast í dag við svikahrappinn George Psalmanazar, sem í upphafi 18. aldar þóttist vera Formósu-búi á Englandi og skrifaði fræðirit um sögu og menningu þeirrar eyjar án þess að hafa nokkurn tíma komið þangað, fyrir utan það að finna upp eigið tungumál og eigið ritmál eyjaskeggja, og komast alla leið með pretti sína inn í Oxford? Aðra hefur maður heyrt lítillega minnst á. Þegar lárviðarskáld Breta, William Wordsworth, lést árið 1850 kom til greina að veita eftirlætisskáldi Viktoríu drottningar, Martin Farquahar Tupper, þann titil, en hann fell svo í skaut Alfred Lord Tennyson. Í dag læra öll ensk skólabörn um Wordsworth og Tennyson, en ljóð eftir Tupper hafa ekki verið endurútgefin í meira en öld; í slíka þyrnirósargleymsku hefur hann fallið. Um stund, í kringum 1870, seldust eiginhandaráritanir Tuppers í Bandaríkjunum á $3.50 og á sama tíma fór eiginhandaráritun Charles Dickens, sem löngu var orðin frægur, á $0.50. Delia Bacon hét bandarísk kona á 19. öld, bekkjarsystir og vinkona Harriet Beecher Stowe, leiftursnjöll sem kennslukona og fræðimaður – hún var líklega fyrst til að halda því fram að Francis Bacon (og reyndar fleiri) hefðu samið leikrit Shakespeares og gekk af göflunum við að reyna að sanna það. W.H. Ireland var prentarasonur undir lok 18. aldar; faðir hans þráði ekkert heitar en að eignast skjal með rithönd Shakespeares og sonurinn ungi vildi gera föður sínum til geðs svo að einn góðan veðurdag fóru að birtast skjöl með rithönd Shakespeares. Fölsuð, vitaskuld, en lengi vel áttaði enginn sig á því að sonurinn, sem var undir tvítugu og þótti hálfgerður auli, stæði á bak við þetta. Hann skrifaði m.a.s. tvö “áður óþekkt” leikrit eftir Shakespeare og var annað þeirra sett á fjalirnar – þó bara einu sinni. Svo komst upp um strákinn Tuma. En jafnvel eftir það urðu falsanir Irelands eftirsóttar og hann hélt áfram að falsa – sínar eigin falsanir! Hann var spurður hvort hann ætti ekki eitthvað eftir af þessum alræmdu plöggum, “Að sjálfsögðu” svaraði hann, fór heim, skrifaði það upp á nýtt og seldi fyrir drjúgan skilding. Þriðji Shakespeare-sérfræðingurinn í heftinu var Robert Coates, vellauðugur plantekrueigandi frá Antigua í Karabíska hafinu, sem fluttist til Englands um 1810 og tók að stíga á svið. Hann var svo dökkur af hitabeltissól að margir töldu hann blökkumann og svo auðugur að skyrtuhnappar hans voru demantalagðir. Hann hafði ungur starfað með áhugaleikhúsum á Antigua, lært Shakespeare utanbókar og dreymdi um frægð á sviðinu. Tók hann nú að setja upp Shakespeare-sýningar á eigin kostnað á Englandi og varð sérstaklega frægur fyrir að leika Rómeó; áhorfendur gerðu óspart gys að honum, en hann tók vart eftir því og oft reis hann upp “frá dauðum” á sviðinu til að endurleika dauðastríð Rómeós að áeggjan lýðsins. Varð hann víðfrægur fyrir þetta um sína daga – en eingöngu um skamma stund. Hvernig var nú aftur lokatilvitnunin í Macbeth, um að lífið sé eins og vesæll leikari sem “struts and frets his hour upon the stage and then is heard no more”? Það átti við Robert Coates.

Bókmenntafólkið í bók Collins er skrautlegt, en vísindamennirnir þó enn skringilegri. Augustus Pleasonton hét Bandaríkjamaður sem fékk einkaleyfi um 1870 á notkun á ljósi í gegnum blátt gler, sem átti hvoru tveggju að hafa græðandi áhrif á allar lífverur og láta þær vaxa betur í öllum skilningi; þetta varð undirstaða bláglers-æðisins sem stóð fram til um 1877. Þaðan munu flestar hugmyndir um ljóslækningar runnar, m.a. hjá okkar eigin Níelsi Finsen, sem nam við Reykjavíkur Lærða skóla og fékk Nóbelsverðlaun fyrir ljóslækningaafrek sín árið 1903. J.C. Symmes hét Bandaríkjamaður sem fékk þá flugu í höfuðið um 1820 að jörðin væri hol að innan og hægt væri að komast inn á Norðurpólnum; ferðaðist hann um, kynnti kenningar sínar, safnaði fé fyrir slíkum leiðangri og kom m.a. fyrir Bandaríkjaþing, enda Bandaríkin þá í örri útþenslu. Leiðangurinn var aldrei farinn, en kenningar Symmes höfðu áhrif á rithöfunda 19. aldar, til dæmis hinn unga Edgar Allan Poe sem skrifaði fyrstu skáldsögu sína um svoddan leiðangur, og síðan einnig á Jules Verne, sem gerði hugmyndina ódauðlega í Leyndardómum Snæfellsjökuls. Thomas Dick hét skoskur fræðimaður, sjálfmenntaður heimspekingur, stjörnufræðingur og kennari, sem hafði mikil áhrif á f.hl. 19. aldar með kenningum sínum um að allir himinhnettir væru byggðir lífverum, að meira eða minna leyti líka mönnum. Kenningin byggði á svokallaðri náttúruguðfræði (Natural Theosophy), en samkvæmt henni skapaði guð náttúruna alla, á jörðu sem himni, til að hún mætti vera byggð vitsmunaverum, en samkvæmt útreikningum Dicks, sem reiknaði af óútskýrðum ástæðum með því að þéttleiki byggðar væri alls staðar í heiminum svipaður og á Englandi, voru íbúar alheimsins 60,573,000,000,000,000,000,000,000 talsins – eða þar um bil. Þetta var maður sem naut viðurkenningar; H. Beecher Stowe og R.W. Emerson dáðu og heimsóttu í virðingarskyni. Sumir sem nefndir eru til sögunnar voru hreinræktaðir vísindamenn sem ætluðu að breyta heiminum – og tókst það næstum því. J.F. Sudre hét Fransmaður sem bjó til stórmerkilegt tungumál út frá tónfræði á 19. öld; tungumálið heitir solresol og er ennþá nokkrum kunnugt. Það er algilt í þeim skilningi að þeir sem kunna að spila sama nótnakerfi - þótt annar kunni bara íslensku og hinn eingöngu swahili - geti rætt saman. Annar Frakki, Blondlot, var víðfrægur vísindamaður, orðaður við Nóbelinn á fyrstu árum hans snemma á 20. öld, en glutraði því niður, þegar hann hélt sig hafa fundið nýja tegund geislunar – en eftir heilmikil skrif og fræðigreinar í vísindaritum í tvö ár kom í ljós að sú geislun var ekki til.

Gott er að hafa sæmilega innsýn í sagnfræði, þegar ráðist er í lestur Banvard´s Folly, m.a. til að skilja tíðaranda hvers tíma, en þó er það ekki nauðsynlegt. Erfitt er að nota þann mælikvarða hvort Banvard´s Folly sé góð eða slæm; framsetning þrettán undarlegra kafla gefur ekki beint tilefni til að meta hana á þeim forsendum. Samt má nefna að í fyrri köflum styðst Collins meira við efni, sem áður hefur verið útgefið að einhverju marki í bókum – og nýtur góðs af, einkum varðandi skipulag og framsetningu. Í sumum seinni köflum ber meira á eigin úrvinnslu höfundar á frumheimildum (t.d. Pleasonton og Dick) og þar er frásögnin ívið þunglamalegri, enda hafa aðrir höfundar ekki náð að straumlínulaga efnið. En að sama skapi vex virðingin fyrir Paul Collins; hann leggur ötullega á sig að grafa upp rykfallnar heimildir um gleymda menn og bera á borð. Þetta er lofsöngur til hinna misskildu og misheppnuðu.

Og þegar upp er staðið er Banvard´s Folly fyrst og fremst það sem hún er: Bráðskemmtileg aflestrar. Þetta er fróðleikur, sem varla nokkrum manni dytti í hug að safna saman eða setja á prent – og þess vegna er hún sérstök. Fyrir fáum árum skrifaði ég stuttan ritdóm um bókina Napoleon´s Buttons, sem fjallaði um þau áhrif sem efnafræði hefði haft á gang sögunnar. Banvard´s Folly er í sama flokki; fágæt bók sem snarlega getur dýpkað skilning á eðli og gangi sögunnar.


Ef Baudelaire hefði verið í Stuðmönnum ...

IOOVVormánuðir síðastliðnir voru óvenjufrjóir í íslenskri bókaútgáfu. Þá komu m.a. út nóvellan Mörður eftir Bjarna Harðarson, skáldsagan Gosbrunnurinn eftir Guðmund Brynjólfsson og ágætar ljóðabækur á borð við Ástríði (eða Ástríður) eftir Bjarka Bjarnason, sem byggir á dagbókum Gísla Brynjúlfssonar frá fyrstu Hafnarárum hans, og Þýdd ljóð og smásögur eftir Tryggva V. Líndal, sem hefur m.a. að geyma fjölmargar ljóðaþýðingar úr verkum forn-grískra skálda. Sem og annar árgangur af ritröðinni 1005, sem fjallað mun um hér að neðan. Þótt lítið hafi verið fjallað um þessi verk af bókaskríbentum get ég fullyrt að um auðugan garð er að gresja.

Útgáfa ritraðarinnar 1005 eða IOOV er meðal metnaðarfyllstu útgáfuverkefna íslenskra bókmennta á síðustu misserum. Þar leggja ýmsir hönd á plóg og eftir því sem mér hefur skilist er ætlunin að gefa út í þrjú ár, alltaf þann 10. maí, en í hvert skipti skulu birtir áður óútgefnir textar á íslensku. Í fyrra voru heftin þrjú og annar árgangurinn er aukinn að vöxtum með fjórum heftum/ritverkum. Fjölbreytnin hefur verið mikil í þessum sjö verkum: Frumsamin íslensk skáldsaga, þýdd erlend skáldsaga, smásagnasafn, ljóðabók, prósaljóðabók, fræðigrein og þematískt textasafn margra höfunda.

Það er yfirlýstur tilgangur útgáfu 1005 að feta ekki troðnar götur, enda lögð fæð á hugmyndafræðilegan einhug samtímans." Fyrir vikið er yfirbragð þessara verka stundum tilraunakenndara en gengur og gerist, en metnaður, fjölbreytni og sköpunargleði leyna sér ekki. Í nýjasta pakkanum eru verkin fjögur Hjarðljóð úr Vesturbænum eftir Svein Yngva Egilsson, smásagnasafnið Rússneski þátturinn eftir Braga Ólafsson, skáldsagan Uppfinning Morels eftir Adolfo Bioy Casares í þýðingu Hermanns Stefánssonar og loks textasafnið Styttri ferðir eftir ýmsa höfunda.

Af heftunum fjórum þótti mér mestur fengur í – og hér ber að undirstrika að um huglægt og persónulegt mat er að ræða – safni 50 prósaljóða eftir Svein Yngva Egilsson, sem heitir því skondna nafni Hjarðljóð úr Vesturbænum. Þessir prósar eru fremur stuttir, frá tveimur línum upp í rúmlega eina blaðsíðu, og raðað upp þannig að titill ljóðs byrjar á tilteknum bókstaf og síðan farið nær bókstaflega stafrófsröðina frá A til Ö. Fremur sjaldséð er að tiltekinn stafur komi fyrir fremst í titli oftar en einu sinni, þótt fáeinar undantekningar þekkist þar á. Þetta bendir til að röðin ráðist síður af því hvenær prósarnir voru samdir eða af þematískum forsendum, nema titlarnir hafi verið ákveðnir síðastir, eftir að ljóðin voru tilbúin. Ekki er um eiginlegar örsögur að ræða, því að sjaldnast er rakin atburðarás eða lýst samskiptum persóna. Oft er um stakar minningar að ræða, m.a. frá bernsku, oft með áherslu á hið óvænta, en einnig er viðfangsefnið draumar, leiklist, einstök hversdagsleg atvik eða undarleg fyrirbæri. Sumir textarnir hafa jafnvel yfir sér yfirbragð ljóðrænnar náttúrufræði, til dæmis þegar fjallað er um skóga, flugfiska, íslenska höggorma og jaðrökuna.

Heildaryfirbragð prósa Sveins Yngva er jákvætt og hugljúft, lífsglatt og oftast upplífgandi, en einstaka sinnum angurvært. Ef til vill er það undarleg samlíking, en líklega hefði Baudelaire ort svona, ef hann hefði verið í Stuðmönnum. Frá Baudelaire, frumkvöðli prósaljóðsins, er jú textastrúktúr Sveins Yngva kominn, en leikgleði orðanna gæti verið fengin frá gleðipoppsveit allra landsmanna. Oft er fallega, frumlega eða fersklega komist að orði, eins og: Leiðin að Heklu liggur í gegnum hjartað." Orðaleiki er að finna nánast í hverjum texta; á mannamótum og í veislum hella menn úr skálum ræðunnar" (sbr. skálaræður). Stundum eru orðaleikirnir byggðir á hljóðlíkingum eða hugrenningatengslum orða; jaðrakan lifir á jaðrinum" og fer á harðakani". Meira af skemmtilegri tvíræðni: Landakotskirkjan er kirkjuskip" sem liggur við festar" á Landakotstúni og í skugga þess steinnökkva" lék ljóðmælandi fótbolta í æsku með vinum sínum á sumrin (Rómarfarið). Allnokkrum sinni bregður fyrir sláandi einfaldri speki: Að lesa bók er bara aðferð til að hafa eitthvað á milli andlitsins og heimsins" (Lestur bóka) og svo er haldið áfram með að nefna að dagblöð, tölvur, regnhlífar og skildir fornmanna hafi þjónað sama tilgangi. Stundum eru yrkisefni Sveins Yngva óendanlega hversdagslega lítilmótleg og nánast mínimalísk, eins og að kaupa sér ís í útlendu fjallaþorpi þar sem einnig fást hannyrðavörur og falleg peysa, en í öðrum er tekist á við klassísk viðfangsefni allra tíma, á borð við dauðann (úr ljóðinu Borðsiðir), en jafnvel þá er hann ósköp heimilislegur:

Dauðinn kemur eins og fremur viðkunnanleg boðflenna í eftirmiðdagskaffi, sem enginn var svo sem sérstaklega boðinn í, og sest í besta stólinn. Hann tekur hæglætislega í hornið á borðdúknum og þreifar á efninu með þumli og vísifingri. (Þetta er sænskur hördúkur, þó að það skipti kannski ekki máli í þessu samhengi.) Hraðar en auga á festi rykkir hann dúknum af borðinu undan öllu því sem þar er. Glamrandi bollar og titrandi kökur vita ekki fyrr til en þau standa á berri borðplötunni en hafa þó ekki hreyfst úr stað. / Það er auðvitað engin ástæða til að blása kaffiboðið af en einhvern veginn er stemningin orðin hrárri. Fáið ykkur endilega meira, segir gestgjafinn, ekki vantar veitingarnar./ Þessi í besta stólnum situr með kuðlaðan dúkinn í fanginu eins og sá sem veit upp á sig skömmina en virðist ekki hafa neina lyst. / Maður getur alltaf á sig blómum bætt, segi ég furðu hressilega og teygi mig í síðustu sneiðina."

Titill ljóðakversins er ef til vill villandi, því að eingöngu þrisvar í heftinu man ég eftir beinum vísunum í hjarðmanna- eða sveitasæluskáldskap (Hjarðljóðaraunir í Reykjavík, Sveitasæluljóð og Öskjuhlíð). En náttúran er sínálæg í sínum margbreytilegu myndum, t.d. í ljóðunum Viði vaxið og Skógarlíf; hið síðarnefnda er lengst allra ljóðanna, nær yfir rúma blaðsíðu og hefur að geyma bráðskemmtilega lýsingu og dulítið ljúfsára þroskasögu, um áhyggjuleysi stráka í görðum og trjám í Vesturbænum, uns skógardísirnar breyta þeim í satýra og þeir sem hafa klaufir geta ekki klifrað í trjám. Í öðru ljóði er einnig mjög bein vísun í gríska goðafræði, en það er hið bráðskemmtilega Íkarus:

Maður sem dýfir sér fram af efstu brún á háhýsi nýtur óvenjulegs útsýnis á leið sinni niður. Ef hann hefur stungið sér á réttan hátt í uppstreymið sem gjarnan er við íslenskar blokkir helst hann á hvolfi alla leið og klýfur loftið með lágum en auðþekktum hvin. Margt ber þá fyrir augu sem áður var hulið. Hæð af hæð opnast honum og allt á haus, íbúar jafnt sem innbú, heimilisdýr og húsbúnaður."

Í seinni helmingi ljóðsins skiptir rækilega um sjónarhorn:

Köttur úti í glugga er sá eini sem verður vitni að því undri er maður fellur af himnum ofan og fylgir honum eftir með gulum glyrnum sínum allt á leiðarenda. Svo grípur eitthvað annað athygli dýrsins og það fer að eltast við fiskiflugu í gluggakistunni. Hún hefur verið að reyna að komast gegnum glerið í allan dag. Handan þess er frelsið og kannski getur kötturinn hjálpað henni yfir um. Sólargeislarnir smjúga í gegn eins og ekkert sé og hitinn í stofunni er að verða óbærilegur."

Prósabók Sveins Yngva er prýðisvel heppnuð og ég finn henni fátt til foráttu. Einna helst er að hann ofnoti nokkuð bókmenntahugtakið nykraður". Það er mjög við hæfi að bókinni lýkur með ljóði, þar sem hinn aldurhnigni Steingrímur Thorsteinsson er á heimgöngu ofan frá Öskjuhlíð að húsi sínu niður við Austurvöll og nemur af og til staðar að huga að smáblómi í vegkantinum. Furðu léttur á fæti, gamli maðurinn, og kímir í sífellu ofan í algrátt skeggið." Einhvern veginn fanga þessi ferðalok anda ljóðabókarinnar allrar.

–---

Næst ber að nefna smásagnasafn Braga Ólafssonar, samheita einni sögu: Rússneski þátturinn. Þar getur að líta 9 mislangar smásögur, sem að sönnu má kalla bragískar: Atvik úr hversdagslífinu, stundum örlítið frábrugðin því allra hversdagslegasta, eru blásin upp í fáránlegar víddir til að gera þau frásagnarverð, oft með kímnum eða launfyndnum undirtóni; einnig oft með dulítilli ógn. Getur ókunnur maður, sem bankar upp á klukkan fimm einn nóvembereftirmiðdag til að safna dósum, mögulega átt sér miður góðan ásetning? Er óhætt fyrir móður að keyra þvert yfir bæinn með son sinn sjö ára til að láta hann leika við bekkjarfélaga sinn í öðru hverfi? Er ekki hyggilegast að koma í veg fyrir að strengjakvartett geti látið framleiða geisladiska sína í útlöndum í desember svo að þeir komist nú örugglega ekki á jólamarkað? Gæti verið háskalegt fyrir öryrkja að láta leigusala sinn, sem heitir Grímur Tomsen, vita að bókaútgefandi hefur á kaffihúsi þröngvað öryrkjanum til að kaupa tvær bækur, mögulega til jólagjafa? Gæti maður átt von á því að vera skotinn með haglabyssu þegar maður fer til dyra í miðju símtali við bróður sinn? Bragi dregur upp þær aðstæður, sem leitt geta af sér ofangreindar spurningar, af ótrúlegri smásmygli og minnir helst á niðurlenskan málara frá 15. öld sem málar hvert atriði svo nákvæmlega sem má verða, uns verkið samanstendur af yfirþyrmandi fjölda smáatriða og heildarmyndin fer að týnast. Og oftast svarar höfundurinn ekki eigin spurningum; þetta eru óútskýrðir hálf-súrrealískir brandarar – eða ekki. Fyrir vikið hentar smásagnarformið vel frásagnastíl Braga. Tvær sagnanna gerast í útlöndum og eru skemmtilega ólíkar; önnur greinir frá tragíkómískri og jafnvel voveiflegri uppákomu á suðrænu sólarhóteli í landi sem gæti verið Spánn (Kanaríeyjar?), en í sjálfu sér er engin vísbending um hvert landið er nema tvö orð úr máli þarlendra: Un accidente. Hin er sjálf titilsagan, sem gerist í Tampere í Finnlandi, þar sem stöðum og staðarheitum er lýst af gríðarlegri nákvæmni, þveröfugt við fyrri utanlandssöguna. Óvenju margar sagnanna gerast síðla hausts eða rétt fyrir jólaleytið, að því marki sem slíku er lýst. Sáralítil skörun er á milli sagnanna; þó læðist “Lalli föðurbróðir mömmu” inn í tvær þeirra, Bernskuminningar mínar og Minning hættir að vera minning. Oft er heilu söguhlutunum haldið uppi af samtölum einum, sem þá eru jafnan í senn, sannfærandi og hversdagsleg. Ein sagan, Efniviður fyrir ljóðskáld, sker sig úr í tvennum skilningi, að lengd eða öllu heldur stuttleika, því að hún er tæpra tveggja síðna löng, og einnig að efnistökum, vegna þess að hún felur frekar í sér lýsingu á aðstæðum heldur en frásögn af atvikum; þar er lýst kjallararými í húsi sögumanns, sem lokað er á alla vegu, innan frá og utan. Ef til vill er það í einhverjum skilningi táknrænt fyrir þessar sögur sjálfar.

–---

Þá komum við að þriðja verkinu. Ég hafði heyrt á skotspónum að þessi árgangur af 1005 innihéldi fræga skáldsögu frá árinu 1940 eftir argentíska rithöfundinn Adolfo Bioy Casares og var það mér sérstakt tilhlökkunarefni, ekki síst vegna þess að hann var góðvinur Borgesar sem hafði látið þau orð falla um á sínum tíma að sagan væri fullkomin", Octavio Paz hafði tekið undir þau orð og ég hafði aldrei lesið stafkrók eftir Bioy Casares. Sagan heitir Uppfinning Morels og greinir frá flóttamanni sem hefur sloppið undan óskilgreindum yfirvöldum til eyðieyjar, sennilega í Suðurhöfum, og hefst þar við á fenjasvæðum, í stöðugum ótta við að verða gripinn og látinn gjalda fyrir óútskýrða glæpi sína með lífstíðarfangelsi, en á hæð nokkurri á eyjunni eru nokkrar byggingar og þar birtast einn góðan veðurdag ferðamenn, sem tala frönsku. En þegar hinn nafnlausi flóttamaður reynir að nálgast þá varlega, sýna þeir enga svörun, og þrátt fyrir það verður hann yfir sig ástfanginn af ungri konu úr röðum gestanna …

Uppfinning Morels er eins konar vísindaskáldsaga með stórundarlegu ástarsöguívafi og margvíslegum vísunum í ýmsar áttir, sem ég ætla ekki að rekja hér. Undarlegir atburðir reynast eiga sér skýringar, sem sumpart eru á mörkum hins röklega og skynsamlega. Ég verð að játa að ég átti von á að sagan hrifi mig meira; hún er að ýmsu leyti barn síns tíma, hefur eflaust verið svakalega framúrstefnuleg árið 1940, en það virkar máske dálítið kjánalegt nú á dögum. Alltént er frásögnin fjarri því að lúta lögmálum hversdagslífsins; tvær sólir og tveir mánar eru á lofti; fólk endurtekur í sífellu sömu samræðurnar og sömu hreyfingarnar; þetta er eins og að vera staddur í súrrealísku myndverki eftir Max Ernst eða de Chirico. Ekki er að sakast við prýðisgóða þýðingu Hermanns Stefánssonar, sem líður lipurlega eins og falleg á, heldur frekar að verkið eldist ekki vel. Það er alltént ekki minn tebolli, eins og enskurinnn segir. Ódámurinn ég hef sýnilega ekki sömu þekkingu á fullkomnun" eins og Borges sjálfur. Eigi að síður tel ég mikilvægt að Íslendingar eigi sem mest af heimsbókmenntum í þýðingum á eigin tungumáli, svo að verk reynist aðgengileg sem flestum, og á þeim forsendum er þýðingin á Uppfinningu Morels þjóðþrifaverk.

–---

Fjórða og síðasta verkið í 1005 þetta árið er samansafn ljóða, prósa og frásagna undir yfirskriftinni Styttri ferðir, en þar er safnað saman mislöngum textum, sem eiga það eitt sameiginlegt að lýsa ferðalögum af einhverjum toga, stuttum sem löngum, andlegum sem efnisbundnum. Höfundar textanna eru ýmsir, innlendir sem erlendir, og er þeim (og þýðendum) safnað saman í lista í stafrófsröð í upphafi heftisins, en farin sú óvenjulega leið að nefna ekki hver á hvaða texta. Gefið er í skyn fremst í heftinu af fararstjórunum" Hermanni Stefánssyni og Sigurbjörgu Þrastardóttur að úr megi verða eins konar samkvæmisleikur eða gestaþraut, þar sem menn geti stytt sér stundir við að para texta og höfund, en einnig látið í það skína að upplýst verði síðar. Þótt ég telji mig geta feðrað og mæðrað ýmsa textana ætla ég ekki að gera tilraun til þess á prenti.

Styttri ferðir þykir mér einna sísti hluti þessa árgangs af 1005 og er ekki einhlítt að útskýra hvers vegna, því að fjölmargar sögurnar/textarnir eru prýðilegar/-ir. En það er máske að á þessum tímapunkti verði fjölbreytnin að sundurleysi; gæðin eru afar misjöfn, sumar frásagnir langar og aðrar stuttar, sumar erlendar og aðrar innlendar; sumar leggja áherslu á innri veruleika og aðrar á hinn ytri. Farið er út um víðan völl, til Svíþjóðar, Japan, New York, Vínar og fleiri staða í útlöndum (þar sem t.d. járnbrautir ganga eða leyfilegt er að aka á hraðbrautum á 140 km hraða), sem og ýmissa staða hér innanlands.

Draga ber þó fram það sem vel er gert – og aftur skal undirstrikað að um persónulegt mat er að ræða, því að aðrar sögur gætu fallið öðrum lesendum í geð. Hérna er t.d. að finna nokkrar fullgildar smásögur, þ.á. m. eina sem hefur almennilegt pönsjlæn: Nokkrir dagar í New York. Önnur bráðskemmtileg saga fjallar um endurminningar stráks sem ætlaði ungur að flýja vist úr sveit, eignaðist annan valkost og sér ferlið allt nú með augum fullorðins manns sem kunnáttu hefur í bókmenntakenningum og heimspeki (Meðan á flóttatilrauninni stendur). Feikna snjall þótti mér örtextinn í Seibu-Ikebukuro línunni: Ég er eins og fólk er flest á ferð í neðanjarðarlest; dropi í hafi, kem upp úr kafi, kannski (það er óstaðfest)." Hér þarf ekki að lesa lengi til að átta sig á að um er að ræða hefðbundið ljóð með rími og ljóðstöfum, sem kemur merkingu fyllilega til skila; hrynjandinni er að vísu ábótavant, en það eykur bara á skringilegheitin.

Annar afar skondinn texti er Til hughreystingar fyrir þá sem finna sig ekki í samtíma sínum: „Í framtíðinni þegar tímaferðalög verð a möguleg: Fólk fer ennþá á barinn en skreppur svo aftur í tímann til að fá sér rettu. Flestir munu hafa atvinnu og búsetu í sinni nútíð en ferðast í tíma í frítíma sínum. Í framtíðinnni mun það koma fyrir – sum kvöld – að þar verður enginn." Þessi texti er eiginlega enn fyndnari, þar sem hann kemur beint á eftir öðrum, sem reynir að vera fyndinn en en samt heldur tilgerðarlegur, með ofurnákvæmum leiðbeiningum sínum um hvernig skuli ganga upp stiga.

Þegar á heildina er litið finnst mér þessi annar árgangur máske ögn kraftminni en sá fyrsti, þar sem gæðunum er meira misskipt. Eigi að síður er verkið allt margfalt skemmtilegra, frjórra og líflegra en flest það sem annars kemur út hérlendis. Þessi annar hluti af 1005 er hátt yfir meðallagi og hátt yfir meðalmennsku hafinn.

--- 

P.S. Ég biðst velvirðingar ef tvenns konar leturgerðir birtast í pistlinum. Tæknin hefur tekið völdin af mér og ég hef ekki náð að ráða niðurlögum hennar.


Mörðr hét maðr

mordur bjarni hardarMörðr hét maðr …

Svo hljóma upphafsorð merkustu bókar Íslandssögunnar, ef marka má ný-vatnsausinn kanón íslenskra bókmennta. Átt er að vísu við Mörð gígju, en síðar í sömu bók kemur fyrir annar Mörður, ólíkt frægari og atkvæðameiri, dóttursonur hins fyrri, og er sá Valgarðsson. Um þann fræga Mörð hefur Bjarni Harðarson skrifað bók.

Fornsögur Íslendinga hafa um langa tíð veitt höfundum þjóðarinnar innblástur; nýleg dæmi eru þríleikur Einars Kárasonar úr Sturlungu og Glæsir eftir Ármann Jakobsson, einnig Morgunþula í stráum eftir Thor og Mörg eru ljónsins eyru eftir Þórunni Erlu-Valdimarsddóttur. Það er líklega ofrausn að skilgreina Mörð eftir Bjarna Harðarson sem sögulega skáldsögu; bókin er innan við hundrað síður að lengd í ekki ýkja stóru broti, stundum með auðar síður á kaflaskilum, og skilgreinist frekar sem nóvella.

Bjarni tekur sér fyrir hendur það stórhuga verk að endurskilgreina persónu Marðar Valgarðssonar og réttlæta ýmsar gjörðir hans sem orka tvímælis í Njálu. Sagt er frá í 1. persónu og hefst sagan þar sem fjörgömul titilpersónan kennir dóttursyni sínum þann leik að etja saman fylkingum og fylgjast með öðrum berast á banaspjót, en standa sjálfur hjá. Annars er Mörður lengst af karlægur í sögunni og rifjar upp atburði lífs síns frá þeim sjónarhóli. Hann hefur lifað tímana tvenna í bókstaflegum skilningi, með heiðni og kristni. Honum er meinilla við prestlinga og förumunka og kenningar þeirra, en er þó blendinn í trúnni; á sér bæði róðukross og smálíkneski af Þorgerði hölgabrúði. Þriðji gripurinn í hans eigu er svo gamla gígjan sem afi hans var kenndur við.


Sem við er að búast fer heilmikið púður í endursögn þeirra atburða úr Njálu sem Mörður kom nálægt. Nú vill svo til að ég er ekkert sérlega vel lesinn í þeirri frægu bók, hef bara farið í gegnum hana þrisvar – og oftast með hangandi hendi. Fyrsta skiptið var ég í mennntaskóla og ekkert sérlega viljugur til þessa verks frekar en annarra af bóklegum toga – mér þótti skák, brids og stelpur meira spennandi. Um þrítugt las ég bókina svo aftur af sjálfsdáðum og af nokkurri athygli. Þá kom ég auga á margvíslega snilli, en þótti heildin þó heldur sundurleit, eins og fjórum Íslendingasögum hefði verið skeytt saman. Þriðja sinni böðlaðist ég í gegnum Njálu þegar ég setti mér það nánast einhverfukennda markmið að lesa allar Íslendingasögurnar í tveggja binda útgáfu Svarts á hvítu (náði ég næstum að klára allt fyrra bindið og las svo einnig alla Íslendingaþættina aftast í síðara bindi, en tilviljun ein réði því að Brennu-Njáls saga var undir B-i í stafrófsröðinni og þóttu mér þá bæði Egla og Grettla skemmtilegri).

 

Nóg um það. Bjarni er augljóslega þaullesinn í Njálu, svo vel að hann les oft milli lína, þ.e. útskýrir gerðir og athæfi persóna sem lítt eru útskýrðar eða illskiljanlegar í fornsögunni sjálfri. Hann bætir jafnvel býsna miklu við Íslandssöguna, þegar hann gengur út frá því að í Rangárþingi, og þá helst “niðri á svörtum söndunum”, búi allmargt manna af írskum uppruna, ýmist sem munkar eða þrælar/ambáttir/leysingjar. Eru þeir í Merði oft nefndir “paparnir”, hinir “stórfættu”, hinir “berfættu” eða annað, en væntanlega byggir hugmyndin á því að hellar í Landssveit hafi í reynd verið íverustaðir fólks af írskum uppruna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar (sem annars er mjög umdeilt meðal sagn- og fornleifafræðinga). Mörður Valgarðsson útskýrir ungur fyrir konuefni sínu, Kötlu Gissurardóttur hvíta, að á hans heimaslóðum séu paparnir hvað fjölmennastir, þótt smáættað undirmálsfólk séu, en næstir komi hinir heiðnu að tiltölu. Gefið er í skyn að kristnitakan hafi verið pólitískt refsbragð að undirlagi hins slæga Gissurar hvíta til að koma á “saxneskri” kristni, því að samkvæmt henni var írska kristnin full af trúvillu og mætti þannig með “réttari” kristni undiroka hina fjölmennu papa og halda þeim á mottunni.

 

Tímarammi sögunnar er nokkuð ljós, þótt hann sé fyrst og fremst gefinn í skyn með vísbendingum á stangli. Hinn langlífi og karlægi Mörður er kominn yfir níu tigu vetra í aldri (21) og á einum stað í frásögninni er þess getið að mágur hans Ísleifur bíði biskupsvígslu (53) sem varð árið 1056. Mörður er goði kominn af tignum norrænum ættum, afkomandi Ketils hængs sem nam stóran hluta Rangárhverfis. Og þá komum við að lykilhugmyndinni sem birtist í Merði, en hún er sú að Njála gangi út á valdabaráttu, þar sem hinir írsku undirmálsmenn eru að reyna að olnboga sig til áhrifa með því að sölsa undir sig goðorð hinna norrænu eða stofna til eigin viðbótargoðorða. Þetta reynist lykillinn að flestum pólitískum aðgerðum (eða aðgerðaleysi) Marðar Valgarðssonar – hann er að tryggja völd sín og heiður ættarinnar og honum tekst það flestum betur, með klókindum og flóknu neti vinatengsla, uns hann stendur uppi sem sigurvegari átakanna. Gamall fer hann hins vegar að heyra sögur, til orðnar að undirlagi papa, förukerlinga og undirmálsfólks, þar sem öllu er snúið á haus, hann gerður að illmenni, en þeir Njáll og Höskuldur Hvítanessgoði hafnir til skýjanna nánast sem helgir menn. Þar sjáum við glitta í einhvers konar frumgerð þeirrar Njálu sem við öll þekkjum – þar sem sannleikanum var umturnað.

 

Athyglisvert er að sjá hvernig Bjarni Harðarson fer með karlinn (?) hann Njál. Samkvæmt Merði er Njáll útburður sem papar tóku að sér og ólu upp í eigin hugmyndafræði, svo að hann gekk erinda þeirra, nánast eins og evil mastermind að koma fram áformum sem grafa undan völdum hinna stórættuðu norrænu og færa þau í hendur papanna og alþýðufólksins. Gunnar á Hlíðarenda verður peð í þessu tafli, enda ekki merkilegur í augum Marðar, sem, aðspurður hvers vegna þeir hafi drepið Gunnar, svarar: “Drápu og drápu. Öllu má nú nafn gefa. Þessi maður hafði æst á móti sér alla verstu menn héraðsins og brytjað niður. Svo áttum við að gæta hans. Hvaða kenning er það? Ekki nein sem farið er eftir. Hvorki þá né nú. Nei, þar börðust þær mannfýlur sem okkur höfðingjana mátti einu gilda þó allar dræpust.” (16) Bjarni leggur nokkra áherslu á tvíkynjun og tvíeðli Njáls, skeggglausan og lágtalaðan, með rödd á undarlegu tónsviði, “sem kórdrengur í Saxlandi”. (41) Þegar upp er staðið reynist Njáll heldur lítilsigldur. Enda segir Mörður: “Engir voru þó svo orðsjúkir og illorðir sem Njálungar og þeirra hyski.” (39) Undantekningin er Skarphéðinn, tröllið sem mótsagnakennt er sonur hins fínlega Njáls; með Héðni finnur Mörður til vinarþels, skyldleika og samúðar, ef til vill vegna þess að faðir hans heldur hann sem húskarl, lífvörð og vikapilt.

 

Þótt stjórnmálaskýringar og klækir séu fyrirferðarmikil í Merði, þá er þar þó engan veginn eina víddin. Titilpersónan á sér margvíslegar persónulegar hliðar, bæði aðlaðandi og fráhrindandi. Hann er oft stærilátur og stórlátur, stóryrtur og stórkarlalegur í tali, sparar ekki stóru orðin um þá sem honum finnst lítið koma til og dómharður í meira lagi. En hann er að sama skapi barngóður, gamansamur og kemur oft vel fyrir sig orði. Af ókunnri ástæðu er hann mikill kattavinur og gerir kona hans ýmist grín að honum eða hæðist vegna þess. Mörður karlinn á þó í dálitlu sálarstríði vegna kattaástúðarinnar, því að honum er nauðsynlegt að verða sér úti um kattagarnir sem strengi í sína gömlu gígju – og þær fást ekki nema köttur sé drepinn. Mörður er mannlegur umfram allt, með jákvæðum og neikvæðum formerkjum, og þótt saga Bjarna sé í einhverjum skilningi réttlæting fyrir hann, þá er hann engan veginn hvítþveginn og viðurkennir sjálfur breyskleika sinn. Það er mennskt að vera breyskur: “Veröld sem ekki leyfir breyskum mönnum að deyja með reisn, sú veröld er ill.” (34)

 

Hinar frægu kvenhetjur Njálu – Hallgerður, Bergþóra og Hildigunnur – eru ekki fyrirferðarmiklar í Merði. Þetta er fyrst og fremst karlaheimur sem lýst er. Þó fær ein kona mikið rúm í sögu Bjarna, sjálf eiginkona Marðar, Katla Gissurardóttir. Samband þeirra tveggja er með því þekkilegasta og yndislegasta í allri sögunni. Það er enginn dans á rósum; stundum rífast þau svo heiftarlega að hjónabandið virðist ætla að bresta eftir endilöngu. En svo sættast þau og þá verður lífið aftur yndislegt. Alloft kemur Mörður henni til að hlæja, stundum með stríðni eða ýkjusögum, til dæmis um að Gunnar hafi stokkið hæð sína í öllum herklæðum. Það er ljóst frá fyrstu tíð að þeim Merði og Kötlu líst vel hvort á annað – eru eins og sköpuð hvort fyrir hitt – en eru ekki að sama skapi ýkja ásjáleg. Mörður lýsir sjálfum sér sem lágvöxnum, ófríðum, breiðum og digrum. Og hann gefur í skyn að aðrir komi ekki auga á fegurð Kötlu sinnar – en það sé hann einn sem sjái eldinnn sindra í augum hennar. Og hann stærir sig af því að hafa aldrei slegið til hennar (né hún til hans), eins og algengt virðist vera á öðrum bæjum. Og þegar hann fjörgamall segir söguna hefur Katla verið önduð í þrjá áratugi – og hann er hvorki heill né hálfur maður síðan hún dó. Samband þeirra er stormasamt, en einnig gamansamt, heillandi og fagurt. Fölskvalaus ást með meðfylgjandi meinum: “Við höfðum elskast og líka hatast. Stundum heila daga og ég var í helvíti. Ég og við bæði. Enda alla tíð elskast með ærslum og ég vissi mig sælastan allra manna. Einnig nú því enginn átti slíkar minningar sem engin orð náðu til.” (23) Það eru semsagt hjónin Mörður og Katla sem eru fyrirferðarmest í sögunni og hún er sögð frá sjónarhóli hagsmuna þeirra.

 

Um stíl Bjarna er margt að segja og flest afar gott. Hann er mergjaður, jafnvel kynngimagnaður á köflum. Hér kemur eitt gott sýnishorn, úr bláupphafi XVI. kafla: “Illgirnin. Ég get þreifað á henni og veit hvernig hún lyktar og hvernig hún er í lögun. Löng og slepjuleg getur hún potað sér inn í alla anga og skanka. Rammur er hennar skítaþefur, þefur hinna heimsku og óforsjálu, hinna fótstóru og berfættu, andi hennar er seigur eins og fljótandi hvelja.” (73)

Orðfærið er fádæma blæbrigðaríkt og notkun fátíðra orða og orðatiltækja blasir við á hverri síðu; gaman að sjá máltæki á borð við “Til þess eru refirnir skornir” og “Það kostar klof að ríða röftum” skynsamlega notuð, en höfundur má jafnvel vara sig að ganga ekki of langt í þeim efnum. Og að einu leyti fer hann yfiir strikið: Mörður notar (einstaka sinnum) nútímaleg orð eins og sefasýki, karnival, bestía og trakteringar, og þótt ég telji fullkomlega liggja í valdi höfundar að velja orð sín, þá finnst mér að sama skapi óþörf lýti þegar auðveldlega má finna orð trúrri texta frá 11. öld. Hvað með þegar Mörður bætir puh og huh aftan við mál sitt? Og þá eru það bara enda-háin sem ég hnýti í; mér vitanlega endar ekkert íslenskt orð á h-i og held ég að þetta hljóti að vera óþörf enskuáhrif.

 

Rétt er einnig að nefna að staðarlýsingar allar í sögunni eru einkar sannfærandi; Bjarni Harðarson virðist þekkja hverja þúfu úr sögusviði Njálu. Og vert er að nefna athyglisverða bókarkápu: Hálft andlit af bláeygum, bláskeggjuðum og veðurbörnum manni, sem væntanlega á að tákna Mörð. Og það er líka eitthvað táknrænt við að andlitið allt kemur ekki í ljós fyrr en lesandi brýtur í sundur innbrotna kápusíðuna. Þá birtist Mörður allur, íbygginn, íhugull, ögn sposkur og þó alvarlegur, en umfram allt mennskur.

 

Mál er að linni. Mörður eftir Bjarna Harðarson er fjári snaggaraleg og mestmegnis afar vel stíluð saga. Og til gæti verið önnnur túlkun á sögu Bjarna allri. Alkunna er að orðið lygamörður er komið af nafni Marðar Valgarðarsonar. Og kannski er Mörður Bjarna Harðarsonar að ljúga öllu saman, sem hann segir, og þá stendur eftir að allt sem segir um Mörð í Njálu er rétt.



Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband