Hetjusaga undirmálsstafs

Bók liggur óbætt hjá garði, ð ævisaga, sem ég las fyrir þremur mánuðum, og hafði ekki tíma til að skrifa um. Vil ég bæta úr.

     Fyrir hið fyrsta finnst mér, þveröfugt við marga, titilinn ekkert sniðugur. Þetta er saga ð-sins, á svipaðan hátt og Saga tímans eftir Hawking fjallaði um ólíkar hugmyndir manna um tímann. Titillinn er ekkert sérstaklega frumlegur - mig rámar í að hafa endur fyrir löngu rekist á bók sem hét eitthvað eins og Biography of the Question Mark. Eða eitthvað svoleiðis. Þessi bók átti einfaldlega að heita Saga ð-sins. Eða eitthvað svoleiðis. Sleppa þessu hallærislega ævisögu-nafni. Ég er ekki viss um að bókfræðingar framtíðarinnar verði hrifnir af núverandi nafni: Væntanlega eina bókin á íslensku sem byrjar á ð. Líkast til var það tilgangurinn.

      Að svo mæltu má tilgreina að ð ævisaga er skrambi skemmtileg bók. Ekki gallalaus, en býsna hátt ofan miðlungsmarka. Rakin er saga bókstafsins í þaula, allt frá engil-saxneskum upprunanum til upptöku hans í íslensku á 13. öld, síðan brotthvarf hans á 14. öld og loks endurupptöku á f.hl. 19. aldar, mest fyrir tilstilli Rasks hins danska, þar til hann verður viðurkenndur í tölvustöðlum undir lok 20. aldar. Inn á millum er skotið margvíslegum fróðleik, misvel tengdum bókstafnum.

     Efnistökin í ð ævisögu eru sumpart óhefðbundin, en að sumu leyti hefðbundin. Hið óhefðbundna birtist jafnan í upphafi hvers kafla, óvænt nálgun, frásögn af atburði sem lesandinn veltir fyrir sér hvernig tengist ð-i. Síðan er fylgt eftir með næsta hefðbundinni sögu stafsins, notkunar hans, ritunar og prentunar. Upphaf kafla er mismikið tengt bókstafnum og um leið verða þessi upphafsstef misvel heppnuð. Inngangur bókarinnar byggir á atburðum innanlands og ytra tengdum fjórum ártölum: 1877, 1992, 1804 og 1987 - síðasta ártalið vísar til útkomu hljómplötu poppgoðsins Michael Jackson, sem hét BAD, en var skrifað með slíku húsakrotspári að Íslendingar gátu hæglega lesið það sem BAÐ. Stundum eru þessi upphafsatriði hugvitssöm, jafnvel snjöll; þannig er Martin Bormann óvænt leiddur inn á sviðið í upphafi 4. kafla og hver er tengingin? Jú hann gaf út tilskipun fyrir þriðja ríkið 1941 um að lagt skyldi af gamla brotaletrið (undir því yfirskini að það væri gyðinglegt að uppruna, þótt tilgangurinn væri einkum hernaðarlegur) og tekið í staðinn upp latínuletur, sem var þróun er Íslendingar höfðu gengið í gegnum um öld fyrr. Að sama skapi þótti mér ekki heillavænleg byrjun á 2. kafla, þar sem fyrst var vitnað í bresku gamanþættina Já ráðherra, væntanlega til að skapa tengsl við dægurmenningu samtímans. En tengingin, fjarska langsótt, byggir á að Englandsdrottning sé yfirmaður ensku biskupakirkjunnar og síðan er rakið hvernig enska biskupakirkjan varð til á 16. öld, með rækilegri umfjöllun um pólitísk hjúskaparvandræði Hinriks VIII., og síðan, eftir 2 valdhafa, hvernig dóttirin Elísabet I. komst til valda og hvern hún skipaði helstan valdamann kirkjunnar þá, erkibiskupinn og bókabéusinn Matthew Parker, sem lét fyrstur prenta engilsaxnesk fornrit, þar sem stafurinn ð komst fyrst á prent. Hún er býsna langsótt, leiðin frá Humphrey Appleby til Matthew Parker, þótt báðir þjóni drottningum með nafnið Elísabet.

     Annars er í þessari bók ótrúlega mikinn og nákvæman fróðleik að finna um ð frá ýmsum skeiðum, skrifuð sem prentuð - og um ótal margt annað. Mér segir svo hugur að sagnfræðingurinn í hópnum, Stefán Pálsson, hafi stýrt ferðinni og ráðið söfnun þeirra sögulegu atriða, sem borin eru á borð. Sýnilega er unnið af nákvæmni og nostri og oft næsta ótrúleg atriði dregin fram. Nálgunin er á ýmsan hátt íkonóklastísk, ráðist er gegn viðteknum og „viðurkenndum" sannindum, einkum hvað viðvíkur persónusögu. Þannig er hér Gutenberg ekki fyrstur Evrópubúa til að nota lausstafaprent, Linné ekki fyrstur til að nota latneskt tvíheitakerfi um lífverur og Champollion ekki einn um að ráða híeróglýfrið. Þannig er oft farið dýpra í efnisatriðin í ð ævisaga en almennt gerist í sögubókunum og hygg ég að flest sé satt og rétt sem rakið er.

     Útlit og hönnun bókarinnar er sérstakur kapítuli. Hún er í alla staði stíliseruð, brotið er óhefðbundið, ca 17x24 cm, sem þýðir að hún er óvenju breið miðað við hæð. Notaðir eru hreinir og æpandi litir, sem minna um margt á hönnun 70. áratugarins síðasta - eða jafnvel Bauhaus-hönnun 3. áratugarins. Innsíður kápu eru eiturgrænar og opnur við kaflaskil blóðrauðar. Spássíur eru óvanalega breiðar og þar eru myndatextar iðulega settir upp á síðu gagnstætt heilsíðumynd. Eftirtekt vekur einnig að myndatextar eru rauðir að lit, þótt meginmál sé svart, og blaðsíðunúmer efst á síðu rauð að lit, sem og kaflaheiti, sem nefnd eru neðst á hverri síðu; þau eru rauð og liggja einkennilega neðarlega. Þá væri hægt að gera myndvinnslunni sérstök skil, en skýringarmyndir eru flestar með miklum ágætum. Þannig má lengi halda áfram um útlit og uppsetningu. Hvort þetta er flott eða ekki er, held ég, smekksatriði. Fyrir mér kemur það frekar út eins og óþörf sérviska, máske til orðið vegna þess að aðkoma hönnuða að bókinni er óvenju mikil, en þeir eru þrír meðhöfundar - Anton Kaldal Ágústsson, Gunnar Vilhjálmsson og Steinar Ingi Farestveit - ásamt Stefáni.

     Á sínum tíma var ð ævisaga til umfjöllunar í bókaþættinum Kiljunni og þótti mér Sigurði Valgeirssyni mælast eftirminnilega, þegar hann kallaði bókina „hetjusögu undirmálsstafs sem aldrei hefur fengið að standa fremst í orði." Aldrei? Bókin sjálf nefnir undantekningu: Serbneskur fræðimaður á 19. öld hét Ðuro Daničić. Og þegar upp er staðið, þá áttar maður sig fyrst, þegar á er bent, hversu ómissandi stafurinn hefur orðið í íslensku: Gaman væri að telja ð-in í ð-ævisögu; þar kemur vart fyrir sú setning að stafinn sé þar ekki að finna. Niðurstaðan er að hér er um að ræða skemmtilega, ferska og framsækna bók, sem í flesta staði reynist vel heppnuð, þótt máske megi setja út á fáein efnisatriði.

-----

Ein aðfinnsla: Eitthvað sýnist mér brogað við heimildaskrána. Þar kemur nafn Rask t.d. fyrir í 5 mismunandi myndum (Rask, Erasmus; Rask, Erasmus Christian; Rask, R.C.; Rask, Rasmus; og Rask, Rasmus Kristian). Allt er þetta sami maðurinn, þótt halda mætti að um væri að ræða 5 ólíka - en máski skylda - menn. Og Gottskálk Jónsson í heimildaskránni held ég að hljóti að vera Jensson og Skírnir er sagður tímarit hins „ízlenska" [svo] bókmenntafélags. En er þetta ekki bara dæmigerður sparðatíningur af minni hálfu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér fannst þetta mjög skemmtileg bók, fékk hana á bókasafni til að fletta henni en endaði á að lesa hana spjaldanna á milli. Ég les alltaf bækurnar sem ég gef í jólagjöf (áður en ég kaupi þær) og komst að því mér til ánægju að það fylgdi ðúkkulaði-stykki með æfisögu undirmálsstafsins (sem var auðvitað pakkað í sérpakka til þiggjanda æfisögur eðsins).

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 23.5.2013 kl. 01:25

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Ég er sammála þér, Harpa, þetta er bráðskemmtileg bók og ég las hana einnig af athygli og með ánægju frá fyrstu síðu til hinnar síðustu. Þó þóttu mér tengingar í upphafi hvers kafla misgóðar, eins og segir að ofan, og einstaka sinnum næsta langsóttar. Einhvern veginn fannst mér bókin líka enda fullsnöggt; það hefði mátt leiða lesandann út með hugleiðingum um framtíð ð-sins eða hvort aðrir "sér-íslenskir" stafir kynnu að vera í hættu, frekar en að fara í útlistun á ólíkum fontum - sem þjónaði, held ég, einkum séráhugasviði hönnuða.

P.S. Ég fékk hana einmitt í jólagjöf - en án ðúkkulaðiðinð.

Helgi Ingólfsson, 23.5.2013 kl. 08:33

3 identicon

Hm ... gjafarinn er þá væntanlega nokkuð fyrir suðusúkkulaði?

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 26.5.2013 kl. 10:18

4 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Harpa: Þuðuþúkkulaði - mér sýnist við komin með þetta á hreint og svo getum við hent ess-inu - eða að minnsta kosti gert það að undirmálsstaf, til að jafna metin. (Ef ég man rétt, þá eru ein 6 s/z hljóð og tákn í rússnesku.)

Annars veit ég ekki hvort þú hafir lesið nýjasta hefti af tímaritinu Sögu. Þar er ritdómur um ð ævisögu og ritdómarinn ekki nándar nærri jafn hrifinn af bókinni og við. Hann telur stóra kafla vanta í þessa "ævisögu", einkum um upptöku íslenskra bréfritara á stafnum á tímabilinu ca 1830-1900. Máske er þetta það sem hefst upp úr því að kalla bækur stórhuga nöfnum. ð ævisaga gefur til kynna að hún sé nokkuð endanleg, en máske hefði verið hyggilegra að nota hógværari titil eins og ágrip af sögu ð-sins.

Helgi Ingólfsson, 27.5.2013 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband