Carl von Ossietzky

Carl von Ossietzky (1889-1938) var þýskur blaðamaður og ritstjóri. Árið 1931 var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að ljóstra upp um brot þýskra stjórnvalda á Versalasamningum, en Þjóðverjar voru þá þegar í leyfisleysi farnir að byggja upp flugher, sem fáum árum síðar varð Luftwaffe. Uppljóstrunum sínum kom von Ossietzky á framfæri sem yfirlýstur friðarsinni og var hann dæmdur sem landráðamaður. Eftir að hafa afplánað dóminn seint á árinu 1932 var hann látinn laus og hóf þá óðara að vara við uppgangi nasista, einnig eftir að þeir höfðu tekið við völdum í Þýskalandi í janúarlok 1933, þegar fáir þorðu að tjá sig um aðgerðir stjórnvalda. Eftir Ríkisdagsbrunann 28. febrúar 1933 var hann meðal þeirra fyrstu sem nasistar tóku höndum og vörpuðu í fangelsi, nú án dóms, en á grundvelli þess að hann teldist hættulegur þjóðaröryggi. Þá hafði hann einungis gengið laus í 2 mánuði.


Carl von Ossietzky var haldið í einangrunarbúðum til dauðadags. Árið 1935 veitti Sænska akademían honum Friðarverðlaun Nóbels. Sagt er að Hitler hafi brugðist æfur við þeirri ákvörðun og bannað að nokkur Þjóðverji mætti taka við Nóbelsverðlaunum framar; hélst svo fram yfir lok seinni heimsstyrjaldar. Sjálfur veiktist von Ossietzky af berklum og lést af slæmri meðferð í búðum nasista árið 1938.


Dóttir von Ossietzkys barðist alla tíð fyrir því að hreinsa mannorð föður síns. Árið 1991 neituðu þýsk stjórnvöld að ógilda dóminn frá 1931, þótt þau viðurkenndu að handtaka nasista 1933 hefði ekki átt sér lagastoð.


Erum við að sigla inn í svipað andrúmsloft og ríkti um seinustu ævidaga von Ossietzkys? Menn fá þunga dóma fyrir að afhjúpa sannleikann um vafasamar aðgerðir stjórnvalda. Og menn eru ákærðir fyrir njósnir fyrir það eitt að afhjúpa mestu njósnir allra tíma. Drýgðir eru stríðsglæpir, en stríðsglæpamennirnir eru ekki dregnir fyrir dóm, heldur sá sem upplýsir um þá. Eins og árið 1933 virðist sannleikanum hafa verið snúið á haus. Og skyldi á okkar dögum vera nokkur töggur í sænsku Nóbelsverðlaunanefndinni, þeirri sömu og veitti Barack Obama friðarverðlaunin fyrir nokkrum árum?



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sterk grein hjá þér, Helgi. Fyrst og fremst þykir mér hún þó einkar upplýsandi um þennan merka mann, göfugmenni raunar, Carl von Ossietzky. Sá var óheppinn að komast ekki undan nazistakvikindunum, því morðpakki.

Á mál hins dæmda Bradleys Manning legg ég ekkert mat í bili. En þar sem þú segir hann hafa upplýst um stríðsglæpi og að stríðsglæpamennirnir hafi ekki verið dregnir fyrir dóm, þá væri fróðlegt að fá að sjá það hér, hvaða stríðsglæpir voru verstir eða ljótastir, þeirra sem hann upplýsti um.

Jón Valur Jensson, 21.8.2013 kl. 20:06

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jón Valur (#1):

Von Ossietzky var göfugmenni, því er ég sammála. Ekki margir þorðu að standa uppi í hárinu á nasistum eða stjórnarháttum þeirra. Presturinn Martin Niemüller var einn - og endaði fyrir vikið í fangabúðum, en lifði dvölina af. Von Galen, kardináli innan kaþólsku kirkjunnar, var annar sem þorði, en fræg ræða hans árið 1941 um meint "líknardráp" stjórnvalda, sem voru í reynd lítið annað en aftökur á fötluðu fólki, átti drjúgan þátt í að stjórnvöld drógu úr þeim hryllilegu aðgerðum (eða a.m.k. földu þær betur). Þessir þrír eru, held ég, frægustu andófsmenn stjórnarfars nasista.

Meintir stríðsglæpir, sem ég visa til, voru m.a. sýndir í kvöldfréttum RUV kl. 7.

Helgi Ingólfsson, 21.8.2013 kl. 20:26

3 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jón Valur (#!):

Ef ég má bæta við - Helsta áhyggjuefni mitt hér er í sjálfu sér afstaðan til sannleikans og sú skoðun að stjórnvöld eigi að hafa heimild til að reyna með misvöndum meðulum að sjá til að hann komi ekki í ljós.

Öðrum þræði uppplifum við tíma, þar sem krafist er gagnsæis um aðgerðir stjórnvalda. Á sama tíma taka þau sér bessaleyfi til að fela myrkar hliðar, sem þola ekki dagsins ljóss, og beita þá ógnunum og ofsóknum sem reyna að leiða hið sanna í ljós.

Það er bágborið samfélag, þar sem aðgerðir stjórnvalda þola ekki dagsins ljós.

Helgi Ingólfsson, 21.8.2013 kl. 20:35

4 identicon

Góð ábending og tilvitnun í sögu síðustu aldar, Helgi.  Gagnsæið í vestrænu lýðræðisríkjunum á greinilega undir högg að sækja. Sennilega er þessi þróun m. a.  því  að kenna að "fegurðarsamkeppnin"  - "kerfis-samanburðurinn" við Austantjaldslöndin  er ekki lengur fyrir hendi. Sá samanburður við alræðisríkin undir járnhæl Sovétríkjanna  veitti ríkisstjórnum Vesturlanda ákveðið aðhald - þær urðu að vanda sig og sýna á sér lýðræðishliðina gagnvart andófsfólki.    

Orri Ólafur Magnússon (IP-tala skráð) 22.8.2013 kl. 05:05

5 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Þakka innlitið, Orri (#4).

Ég hef einmitt töluverðar áhyggjur af lýðræðisþróun á Vesturlöndum eða réttara sagt öfugþróun hennar. Áður fyrr börðust menn fyrir lýðræði af hugsjón, en í dag ganga menn út frá því sem sjálfsögðum hlut. Hér á öldum áður var lýðræðisþróun oft tengd annarri réttindabaráttu (þjóðfrelsisbaráttu, stéttabaráttu, baráttu gegn stéttskiptingu, kynjabaráttu), en í dag virðist enginn gera ráð fyrir því að lýðræði sé eitthvað sem þurfi að hlúa að og vernda - og kannski síst gagnvart stjórnvöldum í eigin ríki.

Mér finnst athyglisverður Kaldastríðs-samanburður þinn og held að þú hafir þar mikið til þíns máls. Þegar járntjaldið féll þurftu Vesturlönd nýjan óvin og fundu hann að lokum helst í múslimalöndum - Kína var of stór efnahagslegur bandamaður (og keppinautur) til að verða brúklegur andstæðingur og Rússland átti að heita orðið opið og frjálst, þótt við sjáum nú máske aðra hlið á síðustu árum. Að ýmsu leyti má segja að Bandaríkin hafi glatað hernaðarlegum meydómi árið 2001, þegar fyrsta árás er gerð á meginland BNA í eina og hálfa öld (þ.e. horft framhjá Pearl Harbor 1941). En stríðið gegn hryðjuverkum hefur ekki gengið sem skyldi og stríðið gegn eiturlyfjum er talið tapað - en þeir ætla sér sko alls ekki að tapa stríðinu gegn þeim sem afhjúpa sannleikann um misgjörðir stjórnvalda. Þannig eru skilaboðin til umheimsins. Og þeir hafa augljóslega fengið ýmsar þjóðir í lið með sér, Breta þá helst.

Helgi Ingólfsson, 22.8.2013 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband