Færsluflokkur: Bloggar
Þótt ég hafi lesið reiðinnar býsn af bókum upp á síðkastið, þá hefur langvinn bloggleti herjað á mig að undanförnu, ásamt ýmsum önnum. Hér má því bæta úr.
Fyrir u.þ.b. mánuði las ég einn af gömlu reyfurunum, Finnboga sögu ramma, í heild sinni, en hafði aldrei komist í gegnum hana alla. Þótt sagan sé með dulitlum ævintýrablæ, þá ber hún einnig ýmis merki hinna klassísku stóru fornsagna. Erfitt þótti mér að fá atriði til að ganga upp, út frá tímaforsendum, að enn sé í gangi landnám á æskuárum Finnboga, en jafnframt að hann sé uppi um daga móðurbróður síns, Þorgeirs Ljósvetningagoða, sem nokkuð kemur við sögu. Þá er sagan enn betur tímasett með því að hafa við völd Hákon jarl í Noregi (ca. 985-995) þegar Finnbogi fer utanför sína, um seytján ára gamall. Sagan er vitaskuld frægust fyrir upphafskafla sína, hvernig Finnbogi er borinn út og alinn upp undir nafninu Urðarköttur meðal hinna heldur ófrýnilegu nágranna, lágstéttarfólksins Gests og Grímu.
Finnbogi (nafn sem hann tók upp eftir dauðvona norskum farmanni) er að sjálfsögðu stórbrotinn íslenskur kappi. Tólf vetra snýr hann hausinn af ólmum griðungi og sautján ára brýtur hann bak á birni í Noregi með hryggspennu - afrek sem allir eru að herma upp á hann það sem eftir lifir ævinnar, en hann vill sem minnst um ræða af óvenjulegri hógværð fyrir íslenskan kappa. Þá er í sögunni einnig að finna sagnaminni um glímu Íslendings við nær ósigrandi blámannsjötun við norsku hirðina (svipaða frásögn man ég eftir að hafa lesið áður, í Gunnars sögu Keldugnúpsfífls, minnir mig, og jafnvel víðar, í einhverjum Íslendingaþáttum), en að sjálfsögðu fer Íslendingurinn ætíð með sigur af hólmi, drepur blámanninn og uppsker óvild konungs fyrir að hafa fellt eftirlætisberserk hans.
Framan af er áberandi hversu margir Bárðar koma við sögu - ef ég man rétt, þá eru þeir einir fjórir talsins. En það hjálpar til að sumir þeirra eru íslenskir og aðrir norskir og svo einhver Bárður sem er norskur farmaður á Íslandi. Finnbogi er (líkt og Rimbaud) slík ofurhetja að hann hefur unnið flest sín stærstu afrek fyrir 18 ára aldur - það er þá sem Jón Grikklandskonungur gefur honum viðurnefnið rammi. Eftir það má hann heita sestur í helgan stein, svona afrekslega séð, snýr heim til Íslands og þarf helst að vinna það sér til frægðar að lifa af fyrirsátir. Reyndar er með ólíkindum hversu margar fyrirsátir honum tekst að þrauka - oftast með því að vega nokkra í einu af þeim sem ætluðu að drepa hann. Margar þessar fyrirsátir fylgja sömu formúlu; Finnbogi ríður hesti og með honum í för er hlaupastrákurinn Hrafn hinn litli, sem hleypur á undan, verður fyrstur var við launmorðingjana og hvetur Finnboga til að forða sér, en Finnbogi er hin sanna hetja sem frekar vill mæta andskotum sínum - og brytjar þá vanalega niður. Oftast er tilefnið lítið - öfund ellegar að fyrri mannvíg hafa undið upp á sig - en út af þessu hrekst Finnbogi, til að halda friðinn, úr Þingeyjarþingi yfir í Húnaþing og enn síðar yfir á Strandir, þar sem hann reisir sér bú í Trékyllisvík. Þangað senda andstæðingar hans mjúkmála launmorðingja, sem ráða sig til starfa hjá honum og vinna vel vetrarlangt, bíðandi eftir rétta tækifærinu til að vega hann, en auðvitað sér Finnbogi ætíð við þeim. Þar til kemur að þeim síðasta, Vermundi, sem lesandinn grunar í fyrstu að sé enn einn útsendarinn, en reynist sjálfur ofsóttur og á flótta - og vitaskuld ver Finnbogi rammi þá málstað hans og tekur hraustlega á móti, þegar leitarflokkur er gerður út eftir Vermundi nærri sögulokum.
Það kom mér á óvart hversu mikið bitastætt efni var í Finnboga sögu ramma, þótt ekki sé hún uppfull af spakmælum eða hnyttiyrðum. Ég er næsta viss um að ég eigi eftir að lesa hana aftur, til nánari skoðunar. Ég held að hún þoli það - svo er bara spurningin hvað ég þoli.
Bloggar | 25.9.2012 | 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég pistil um þær ánægjulegu og spennandi fréttir að (endur-)gera ætti kvikmynd eftir hinni frábæru smásögu James Thurber, The Secret Life of Walter Mitty. Nú berast fréttir af því að brátt verði frumsýnd kvikmynd byggð á skáldsögu sem margir (og ég í þeim hópi) telja eina bestu skáldsögu 21. aldarinnar enn sem komið er. Um er að ræða kvikmyndabúning hinnar óviðjafnanlegu Cloud Atlas eftir David Mitchell.
Ég verð að játa að ég bíð töluvert spenntur. Tvisvar hef ég horft á stiklu myndarinnar og þar er ýmislegt að finna, sem kemur ágætlega heim og saman við hugsýn mína af þessari fjölbreyttu bók, en að sama skapi finnst mér margt gerólíkt við það sem ég ímyndaði mér. Aðalatriðið verður þó ef til vill hvernig tekst að fanga hina afar sérstöku byggingu bókarinnar, sem er um leið órjúfanlegur þáttur í útkomu hennar. Bókin Cloud Atlas er nefnilega skrifuð eins og sex frumlegar nóvellur, sem hver fyrir sig hættir frásögn þegar leikar standa hæst, til að hefja nýja sögu, en síðan er þeim lokið í réttri röð í seinni hlutanum. Sögur inni í sögum sem eru í senn líkar og gerólíkar, fjalla um fortíð, nútíð og framtíð, og gerast á afar ólíkum stöðum jarðarkringlunnar, við vægast sagt mismunandi kringumstæður, og frásagnarformin eru ólík. Þannig er bókin lesin eins og sex rússneskar babúskur, sem opnaðar eru á mismunandi tímapunktum, en síðan er þeim raðað snyrtilega saman að nýju og verða fullkomin eining, sem áhorfandinn hefur kynnt sér í krók og kima, frá innsta lagi til hins ysta, en hver brúða býr um leið yfir sínum óvæntu sérkennum. Bók Mitchell er einnig frábært dæmi um, hvernig hægt er að skrifa spennandi skáldsögu án þess að framin séu morð vinstri hægri. Jú, vissulega eru eltingarleikir, andlegir sem raunverulegir, og menn eru á flótta í ýmsum skilningi, undan sjálfum sér eða öðrum. En þetta er fyrst og fremst skáldsaga (eða sex sögur) um tilvistarveruleika manna og umhverfi þeirra, og hvert mannkynið stefnir. Jafnframt býr hver saga fyrir sig yfir sérkennum og skýrt dregnum persónum og umhverfi, en auðvelt er að yfirfæra sögurnar og fara frá hinu einstaka til hins almenna. Milli sagnanna liggja svo örfínir sameiginlegir þræðir, sem tvinna þær saman (hvort sem það er fæðingarblettur með tiltekinni lögun eða sjálfur Skýjafarsatlasinn), svo að bókmenntaverkið allt verður heildstætt og í raun rækilega innpakkað.
Líklega hefur ofangreind lýsing ekki mikla merkingu fyrir þann sem ekki hefur lesið Cloud Atlas, en sem sjá má get ég vart lofað bókina nógsamlega. Í hástert (eða hárstert, eins og einhver orðaði það klaufalega endur fyrir löngu). Og hvernig verður kvikmyndin? Með þennan efnivið, ef vel tekst til, gæti hún orðið ein af stórbrotnari myndum kvikmyndasögunnar - en ég mundi að sama skapi telja að ótrúlega auðvelt gæti verið að klúðra öllu klabbinu og búa til óskiljanlegan hrærigraut. Sjáum hvað setur.
Bloggar | 10.8.2012 | 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Atarna! Þá hef ég lokið við enn einn langhundinn! Skáldsögu upp á hvorki fleiri né færri en 657 blaðsíður (í þeirri útgáfu sem ég las hana). Um er að ræða einn doðrant af mörgum eftir Gore Vidal og þessi nefnist Creation.
Nú er ég sosum ekkert sérstaklega vel að mér í höfundarverki Vidal, þótt ég viti að hann hefur ævilangt verið umdeild bókmenntapersóna - hjá óinnvígðum er hann máske þekktastur, óverðskuldað, sem handritshöfundur að hinni illræmdu kvikmynd Caligula, sem hann sór af sér, þegar ljóst var að um klámmynd yrði að ræða. Líkt og Guðbergur Bergsson er Vidal fyrir löngu orðin stofnun í heimalandi sínu; nánast allt, sem rennur úr hans penna, vekur athygli og gjarnan hneykslan, hversu lítilfjörlegt sem tilefnið er. Fyrir hartnær 25 árum las ég stórvirki Vidal um hinn skammlífa og stuttríkjandi Júlíanus Apostata, síðasta heiðna keisara Rómaveldis, og átök milli heiðni og kristni á 4. öld, og mig minnir að sú snilld hafi verið næsta jafnlöng þessari. Um 10 árum síðar las ég aðra bók eftir Vidal (mig minnir að Þórunn Erlu Valdimarsdóttir hafi lánað mér hana) og hét hún Live from Golgotha. Sú bók var undarleg á ýmsan máta og eins konar satírísk vísindaskáldsaga og gagnrýni á trúarbrögðin; hófst í nútímanum, þar sem menn höfðu smíðað leyndardómsfulla tímavél, sem gerði bandarískri sjónvarpsstöð kleift að senda tökulið á Hausaskeljastað til að fylgjast með krossfestingunni fyrir hartnær 2000 árum, en svo fór allt úrskeiðis og gott ef sjónvarpsþulurinn sjálfur var ekki krossfestur. (Eða er ég að rugla bókinni saman við Behold the Man! eftir Michael Moorcock, eldri skáldsögu með dálítið svipuðum þræði, sem ég las á sama tíma?) Annars fjallaði Live from Golgotha mest um bílífi Páls postula í Kórinþu, minnir mig, sem er óttalegur loddari og vill helst riðlast á lagsveini sínum, hinum unga Tímóteusi, þeim sama og kemur fyrir í Nýja testamentinu. Anthony Burgess gerði annars Páli postula mun betri skil í Kingdom of the Wicked.
Víkjum þá að Creation, þriðju bókinni eftir Vidal, sem ég lýk við. Engin smásmíði, sem fyrr er frá greint. Hún segir frá Cyrus Spitama, hálf-persneskum og hálf-grískum sonarsyni Zaraþústra, og lífshlaupi hans (gróflega) frá um 520 til um 440 f.Kr., en hann hittir á langri ævi nánast alla sem eru þess virði að þekkja um hans daga: Þrjá Persakonunga (Daríus, Xerxes og Artaxerxes), Períkles, Sókrates, Anaxagóras, Demókrítus (sem er frændi Cyrusar og jafnframt skrásetjari endurminninganna), Heródótus, Þúkydídes, Búddha, Mahavíra, Gosala, Ajatashatrú og Konfúsíus, svo að fáeinir séu nefndir, enda segir á kápubakhlið að Cyrus sé sennilega mesti namedropper" sögunnar. Cyrus er af aðalsættum og alinn upp við persnesku hirðina um daga Daríusar og eru margir kaflarnir eftirminnilegir af hirðlífi þar, höllum, ráðabruggi og kvennabúrinu. Hann ferðast vítt og breitt innan og utan Persaveldis, til Babýloníu, Jóníu, Aþenu, Baktríu (Afganistan), Indlands og Kína. Cyrus Spitama er vildarvinur og jafnaldri Xerxesar, brallar ýmislegt með honum á yngri árum og þjónar honum dyggilega á efri árum. Þriðji maðurinn í þessu fóstbræðralagi er hershöfðinginn Mardoníus, stríðshetja Persa úr átökunum við Grikki, sem Heródótos fjallar rækilega um í Historíum sínum. Sem hirðmaður og erindreki kvænist Cyrus Spitama inn í persnesku konungsfjölskylduna, en jafnframt á hann indverska furstadóttur að eiginkonu, úr fyrri för sinni þangað, og með henni tvo syni. Þegar hann er á heimaslóðum, þvælist hann viðstöðulítið með hirðinni milli helstu borga Persíu: Susa, Ekbatana og Pasargada, auk Babýloníu og Persepólis, sem er í uppbyggingu. Heródótos hinn gríski ferðaðist til allra fjögurra horna hins þekkta og siðmenntaða heims um sína daga: Til Magna Graecia (Sikileyjar og S-Ítalíu) í vestri, til Skýþíu (Úkraínu) í norðri, til Litlu-Asíu (Tyrklands) og Mesópótamíu (Írak) í austri og til Egyptalands í suðri. Cyrus Spitama er hin persneska hliðstæða Heródótosar, nema hvað útgangspunktar hans liggja 3000 km austar. Sést samsvörunin máske best á því að "sagnaritum" beggja er skipt upp í 9 hluta eða 9 bækur.
Sagan Creation er sögð frá sjónarhóli Persa og það nýstárlega sjónarhorn gengur upp. Þegar kemur að grísku borgríkjunum, er snúið á haus öllu því, sem Heródótos segir frá, svo að úr verður and-saga. Þannig verða Persastríðin á dæmigerðan máta í meðförum Vidal kölluð Grikkjastríðin, og eru í reynd minni háttar viðburður í sögu hins austræna stórveldis, dálítið eins og býflugustunga í síðu fíls, en langmestur hluti ritsins fjallar um Kína og Indland, já, og Persaveldi. Stundum leiðréttir sögumaður beinlínis Heródótos. Þannig segir Cyrus að Xerxes hafi verið 34 ára, þegar hann komst til valda, en samkvæmt föður sagnaritunar á stórkonungurinn persneski að hafa verið 18 ára. Leiðréttingar" Vidal koma oft, en ekki alltaf, betur heim og saman við sagnfræðilegar staðreyndir, eins og menn þekkja þær í dag. Reyndar byrjar Cyrus Spitama að láta skrásetja minningar sínar eftir að hafa heyrt Heródótos flytja leiðinlegan fyrirlestur og fullan af rangfærslum í Aþenu. Mikilvægasta lagfæringin felst þó ekki í að tína til smávægilegar staðreyndir, heldur í stórbreyttri valdamiðju: Í Creation eru grísku borgríkin ómerkilegur útnári fyrir Persum, vart fyrirhafnarinnar virði að fara í styrjaldir út af. Mestur hluti bókarinnar fjallar um Persaveldi, Indland og Kína, en einungis lítill hluti um Grikkland. Þeir, sem lesa þessa bók í von um enn eina fræknisögu af vörn Spartverja í Laugaskörðum, lenda í geitarhúsinu í ullarleit.
Sagan fer máske ekki nógu vel af stað. Hún hefst í Aþenu, þar sem Cyrus Spitama, aldurhniginn og blindur, er orðinn sendiherra Persa í borginni. Með honum dvelur frændi hans frá Abderu, hinn ungi Demókrítus, sem skráir minningar Persans. Tilfallandi samskipti þessara tveggja bókina í gegn eru annars bráðskemmtileg: Demókrítus ber öðru hverju brigður á eitthvað framandlegt, sem Cyrus Spitama hefur upplifað á fjarlægum slóðum, og öldungurinn blindi útlistar nánar og útskýrir, með vaxandi óþolinmæði og ónotum þegar á líður.
Það er ekki fyrr en eftir um það bil 150 blaðsíður, með magnaðri Indlandsför Cyrusar Spitama, að sagan sparkar sér ærlega í gang, og eftir það er bókin nánast ein samfelld veisla. Persónur eru margar hverjar dregnar skörpum dráttum, t.d. Ajatashatrú hinn indverski, Daríus Persakonungur og (máske aðeins síður) Atossa drottning hans. Af indversku spekingunum eru Gosala og Sariputra eftirminnilegri en hinir frægari Búddha og Mahavira, í Kína eru Huan og hertoginn af Sheh eftirminnilegri en Konfúsíus - með sínar kanínutennur og löngu þumla - eða Li-Tze sem gæti átt að vera tilraun Vidal til að færa Laó-Tze til um mannsaldur eða svo. Það sem einkennir skáldsöguna alla er sægur af forvitnilegum smáatriðum, sem lætt er inn. Hafði ég á tilfinningunni að sumt af því kynni að vera hreinn skáldskapur (enda gefur Vidal það sjálfur í skyn í e.k. formála), en honum tekst þó að láta flest hljóma trúverðuglega - og ótrúlega margt stenst nánari eftirgrennslan. Máske er aðal bókarinnar öðru fremur fólgið í sjálfsörygginu í stílnum, sem virðist endurspegla persónu heimshornaflakkarans Cyrusar Spitama, en er auðvitað fyrst og fremst komið frá heimsborgaranum Gore Vidal sjálfum. Þetta er skáldsaga höfundar, sem stýrir penna sínum - eða, væntanlega, ritvél, enda er sagan frá árinu 1981 - af vitund um yfirburði. Þetta gæti hljómað yfirlætislega, en heildaráhrifin eru milduð með víðsýni, manngæsku, leiftrandi launkímnum uppákomum og næmu auga fyrir óvæntum smáatriðum, svo að varla er hægt annað en að hrífast með. Þegar upp er staðið er skáldsagnalesandanum fullnægt, þótt sagnfræðingurinn sitji einstaka sinnum eftir með sínar efasemdir.
Sem fyrr segir er Cyrus Spitama naskur við að eygja smáatriði í eðli þjóða nálægra og fjarlægra, hvað er líkt með þeim og hvað skilur að, og þessi ótölulegu smáatriði mynda örfína þræði í gríðarmiklu veggteppi. Cyrus veitir því t.d. eftirtekt að meðal siðaðra þjóða, þótt ólíkar séu, eru vextir hvarvetna svipaðir - m.ö.o reisa lögmál viðskiptanna hvarvetna á svipuðum forsendum. Þegar Persinn stýrir verslunarleiðangri, þ.e. úlfaldalest hlaðinni járni, austur yfir eyðimerkur til Kína, hafa persneskir fjársýslumenn - eins konar Mediciar síns tímar - reiknað út að líkurnar á að lestin komist heilu á höldnu á áfangastað austur eftir séu 1 á móti 7, en að þær séu 1 á móti 11 að leiðangursmenn komist báðar leiðir. Cyrus Spitama lendir í ótal ævintýrum í Kína, sem skiptist upp í allmörg stríðandi furstadæmi á þessum tíma, og hann hefur bein áhrif á gang sögunnar sem stríðsfangi í hinu vígreifa Ch´in-ríki, því að þar endar járnið fyrir mistök, ásamt verkkunnáttu við járnsmíðar, sem veitir Ch´in-mönnum yfirburði á vígvellinum. Einnig nota ráðamenn þar á bæ hinn vestræna (!) gest til að réttlæta heimspeki ríkisforsjár, sem gæti hafa lagt grunn að stjórnfestuskólanum kínverska (Huan, stjórnandi Ch´in-ríkisins, gæti átt að vera Han-Fei-Tze), en frá Ch´in-ríkinu kom 250 árum síðar sá grimmi keisari Shi Huang-Di, sem er í dag frægastur fyrir leirher sinn. Cyrus Spitama sér að sjálfsögðu ekki þessa framtíð, en Vidal umbunar og skemmtir lesendum, sem þekkja örlítið til í kínverskri sögu. Þá gæti Cyrus Spitama einnig hafa verið fyrstur manna til að útbreiða kenningar Búddha frá Indlandi til Kína, á ævidögum spekingsins sjálfs. Einnig virðist hann eiga ríkan þátt í að opna hina frægu Silkileið. Afar löngu og rækilegu máli er varið í að útlista Konfúsíanisma, í gegnum samtöl, eins og með flest hugmyndakerfi, sem bókin tekur til umfjöllunar, en einnig taóisma, sem og hvernig þessi kerfi beinlínis stangast á, ef einhver skyldi vera svo kjánalegur að setja alla kínverska heimspeki undir einn hatt. En Konfúsíus er meðal fyrirferðarmestu persóna verksins.
Cyrus Spitama sér það sem er líkt með þjóðunum, en einnig það sem aðgreinir þær. Hann vekur athygli á því að Kínverjar telji hugsunina búa í maganum - og augnabliki síðar er hann farinn að ræða um yfirburði kínverskrar matargerðarlistar, en síðar nefnir hann líka að hin margvíslegustu búkhljóð - garnagaul, iðrakveisa, rop, hiksti og viðrekstur - sé allt talið spekimerki eystra, þar sem viskan búi í maganum. Grikkir eru þrasgjarnastir þjóða og að stéttakerfið á Indlandi er einstakt. Athyglisvert er viðhorf hinna ólíku þjóða við lyginni. Hjá Persum, þar sem Zaraþústratrú er að breiðast út, er nánast sáluhjálparatriði að ljúga ekki, en Grikkir eiga sér engan samsvarandi siðagrunn og ljúga fyrst og fremst af því að þeir hafa svo ómælt hugmyndaflug. (Fyrir vikið ætti frásögn Cyrusar Spitama að vera áreiðanlegri en Heródótosar!) Kínverjar hinir fornu eru hins vegar óútreiknanlegir, mæla oft óljósan hálfsannleika vafinn í orðskrúð, en ljúga líka að ástæðulausu, ánægjunnar einnar vegna. Cyrus Spitama er nokkurs konar Marco Polo (eða jafnvel Gulliver) fornaldarinnar, sem rekinn er áfram af forvitni um mannlega hagi og sér margt ótrúlegt. Eins og hann segir á einum stað: "Ef þú ferðast nógu langt kemstu að því að hægri verður vinstri, upp verður niður og norður suður." Vel að merkja, í bókinni er að finna sæg spakmæla og meitlaðra hnyttiyrða af þessum toga. Ein kjarnyrt setning lýsir Kína: "Of margt fólk, of fáir hlutir." Enn ein speki Cyrusar rennur varla ljúf ofan í feminista nútímans, þótt ég telji að Vidal kæri sig kollóttan um: "Konur laðast alltaf að valdi. Ég held að ekki geti verið til svo blóðþyrstur landvinningamaður að flestar konur myndu ekki af fúsum og frjálsum vilja leggjast með honum í von um að eignast son, sem gæti orðið í einu og öllu jafn vægðarlaus eins og faðirinn." Eða meitluð speki, sem eignuð er Konfúsíusi og líkir ágætlega manneskjulegri viðmiðun hans: "Himnarnir eru fjarri, maðurinn nærri."
Persinn víðförli verður vitni að margvíslegum stórhátíðum og viðburðum, þ. á. m. magnaðri indverskri hestafórnarhátíð, persneskri konungsvígslu og þjóðhöfðingjaútför í Kína, í síðastnefnda tilvikinu með tilheyrandi mannfórnum. Eftirminnilegt er þegar hann er viðstaddur helgiathöfn vegna kínversks nýárs í Chou-ríkinu, þar sem saman virðast komnir allir þjóðhöfðingjar kínversku ríkjanna (sem eru 15 talsins), en svo reynist allt að meira eða minna leyti platfurstar eða leikarar. Það er í senn styrkleiki og veikleiki frásagnarinnar að Cyrus Spitama hrærist langmest í efri lögum samfélagsins; lýsingar á lífi og kjörum alþýðu eru heldur fyrirferðarlitlar í bókinni. Sumt virkar ekki ýkja trúverðugt í frásögn Cyrusar Spitama (ekki frekar en Heródótosar) og leikur höfundurinn Vidal sér þá að lesandanum eins og köttur að mús. Stundum nálgumst við svið hins mýþólógíska: Þannig er Cyrus lengi í Kína í fylgd með hálfgeggjuðum drekabana og drekabeinasala (sem jafnframt er hertogi yfir ímynduðu ríki), en drekum hefur fækkað mjög á þeim slóðum vegna ásælni mannanna, því miður. Samt er á einum stað lýst kostulegu atviki, sem gæti verið átök hins léttklikkaða hertoga við dreka inni í bambusþykkni, en um leið gefið í skyn að þetta hafi bara verið vatnabuffali, sem fældist og slapp. Cyrus, eins og aðrir fornaldarmenn, trúir alveg á tilvist dreka og hafmeyja. Framandi verur lifa á framandi slóðum.
Samkvæmt Cyrus Spitama er bókarheitið Creation sprottið af því að Persinn forvitni hefur áhuga á að kynna sér sköpunarsögu, trúarbrögð og heimspeki hinna ýmsu þjóða. Cyrus Spitama er þannig í reynd fyrsti samanburðartrúarbragðafræðingurinn. Titillinn vísar þó líklega frá hendi höfundar til hins merka mótunartíma menningarinnar, þegar fyrstu nafngreindu stórmenni sögunnar tóku að stíga fram, þeir sem skópu og mótuðu vestræna jafnt sem austræna menningu. Annars er það Konfúsíus, sem fær mest rými og jákvæðasta umfjöllun í Creation - máske má draga þá ályktun að Vidal finni helst til samsömunar með honum, þótt ekki sé það einhlítt og dregnar séu fram vissar mótsagnir í kenningum kínverska spekingsins. Þá er einnig gefið í skyn að Cyrus Spitama gæti verið ábyrgur fyrir að flytja hugleiðingar um eðli hins góða yfir hálfan hnöttinn - frá hinum deyjandi Konfúsíusi til hins upprennandi Sókratesar.
Ekki veit ég alveg hvar ég á að staðsetja Creation meðal sögulegra skáldsagna, sem ég hef lesið um fornöldina. Ef til vill utan við og til hliðar, því að hún er frábrugðin flestu sem ég hef lesið - samt blátt áfram og engan veginn yfirgengileg, nema í umfangi. Hún er allt í senn ferðasaga, ævintýri, fræðirit, orðræða um eðli stjórnmála, trúarbragða og heimspeki. Framan af hafði ég á tilfinningunni að ég hefði fullt eins getað lesið fjórar vandaðar fræðibækur í röð, um Grikkland á 5. öld f.Kr., um Persaveldi á sama tíma, um N-Indland um daga Búddha og um Kína á tímum siðspekinganna miklu. En þegar líður á söguna vex kjötið á beinunum og verður um síðir gríðarmikið - enda þarf það að vera til að teyma lesandann 650 blaðsíður. Bókin er ígildi fjögurra fræðibóka - og miklu meira. Ekki er hún samt með öllu gallalaus. Cyrus Spitama er á köflum hálfgerður spýtukarl, tvívíður karakter, sem á sér lítið persónulegt líf, en eltist við hugmyndir um trú og heimspeki. Einnig virðast ferðalögin sjálf á milli menningarsvæða, sem ættu að vera löng, rúmfrek og ævintýraleg, ganga furðu hratt fyrir sig. Þannig ferðast Cyrus Spitama á hálfri blaðsíðu frá Persíu að uppsprettu Gulafljóts í Kína - honum liggur augljóslega reiðinnar ósköp á að komast í málfæri við spekingana miklu. Og ef einhver væntir þess að hér sé að finna lýsingar á safaríku kynlífi, sem ku einkenna ýmis verk Vidal, þá er Creation afspyrnu þurr og nánast snauð í þeim efnum - en það eykur styrk hennar fremur en rýrir: Ekkert klám hér, takk. Og þrátt fyrir fáeina annmarka eru kostirnir við bókina langtum fleiri. Verð ég að segja, eins og er, að eftir lestur hennar tek ég hatt minn ofan fyrir Gore Vidal. Hann er tvímælalaust stórhöfundur.
----
Dálítil aukapæling um sögulegar skáldsögur, sem eiga að gerast í fornöld. Þvert yfir bókarkápu þeirrar útgáfu af Creation, sem ég las, gat að líta ummæli Anthony Burgess um Gore Vidal: Our greatest living historical novelist." Eiginlega varð ég hvumsa, því að í mínum eigin augum var Burgess sjálfur fremstur höfunda sögulegra skáldsagna (Man of Nazareth, Kingdom of the Wicked o.m.fl.). Nú er svo að ég man ágætlega eftir því hvernig þeir skáldbræður klöppuðu hvor öðrum á öxl fyrir 20-30 árum, Burgess (d. 1993) og Vidal, og þótt mér finnist Creation mjög góð bók, þá set ég Burgess enn í fremra sætið. En tilvitnunin varð mér tilefni til að íhuga hinar fjölmörgu sögulegu skáldsögur um fornöldina, sem ég hef lesið, enda er maður ósjálfrátt í stöðugum samanburði við hið lesna, þegar ný bók er tekin upp.
Þegar lestri Creation lauk, hafði ég að meira eða minna leyti borið hana saman við þær skáldsögur, sem ég hef lesið um svipaða tíma. Læt ég fylgja hérmeð aukafróðleik um þau efni. Fyrst komu upp í hugann 2 prýðisgóðar skáldsögur annars Bandaríkjamanns, Stephen Pressfield, sem gerast líka á 5. öld f.Kr. Sú fyrri er Gates of Fire (um Spartverja og vörnina í Laugaskörðum) og sú síðari Tides of War (um Aþeninga og Pelópsskagastríðin). Fyrir um 25 árum las ég 2 býsna magnaðar skáldsögur eftir Mary Renault, en man bara nafnið á annarri, sem hét The Persian Boy. Þessar sögur gerðust vissulega (að hluta) í Persaveldi, en það var um daga Alexanders mikla seint á 4. öld f.Kr. Einhvern tíma las ég grein eftir bandaríska rithöfundinn Steven Saylor, þar sem hann bar saman sögulegar skáldsögur Renault og Vidal, og komst að þeirri niðurstöðu að sú fyrrnefnda skrifaði eins og tilfinningaþrungið grískt harmleikjaskáld (les: Evrípídes), en Vidal eins og yfirvegaður rómverskur patrisíi - ég get alveg fallist á þann samanburð. Fjórða öldin f.Kr. er einnig atburðatími hinnar frábæru morðgátu Skuggaleikja - eða The Athenian Trilogy, eins og enska þýðingin hét, sem ég las - eftir Jose Carlos Somoza. Nokkrar skemmtilegar sakamálasögur úr bókaflokkum um forn-rómverskan tíma hef ég einnig lesið, einar 4 eftir Steven Saylor um einkaspæjarann Gordianus, sem starfar um daga Cícerós og Cæsars, og líklega einar þrjár eftir skáldkonuna Lindsay Davis um Falco, sem leysir flóknar morðgátur um daga Vespasíanusar og Dómitíanusar. Einnig man ég eftir bók eftir skáldkonu, sem hét Marilyn Todd; bókin hét I Claudia (augljós referens í Robert Graves) og var afspyrnuvond.
Báðar bækur Graves um rómverska keisarann Kládíus eru vitaskuld fyrir löngu orðnar klassík, þótt heldur hafi mér þótt þær seigar undir tönn, þunglamalegar og meðvitað bókmenntalegar. Þrekvirki mikið þótti mér að lesa á árunum 1995-2000 allar sex hnausþykku bækurnar sem Colleen McCullough skrifaði í hinni stórmerkilegu Masters of Rome-seríu - hver bókin fyrir sig var lengri en Creation. Skáldsaga Marguerite Yourcenar um Hadríanus er vitaskuld þrekvirki, sem minnir sumpart á Julian Gore Vidal. Enn má nefna bók Austurríkismannsins Christoph Ransmayr, Hinsti heimur, sem fjallar um útlegð Ovidíusar í Tomi við Svartahaf, skáldsaga sem byrjar afar vel, en koðnar niður í póst-móderníska upplausn. Svo má auðvitað tiltaka eldgömlu bækurnar, til dæmis Kyrtilinn (The Robe, kom út á íslensku í 3 bindum minnir mig), heldur gamaldags skáldsögu Lloyd C. Douglas, en eftir henni var gerð kvikmynd, sem kom Richard Burton á kortið sem stórleikara í kringum 1950. Önnur sagnfræðilega úrelt skáldsaga, Ben-Hur eftir Lew Wallace, var kvikmynduð fáum árum síðar (og Vidal lagði sjálfur hönd á það handrit, þótt hann fengi ekki kredit fyrir) og rétt eftir 1960 kom hin stórgóða bók Howards Fast um Spartacus á hvíta tjaldið, sú eina af þessum þremur þar sem bókin er kvikmyndinni fremri. Hina frægu bók Pólverjans Henryk Sienkewiecz, Quo vadis?, sem er í flokki með Ben-Hur sem 19. aldar skáldsaga um forn-rómverska tíma, las ég aldrei, en rámar örlítið í kvikmyndina. Þá á ég ólesinn nokkuð vinsælan Imperium-bókaflokk Roberts Harris, um tíma Cíceros og Cæsars, en ég hef lesið svo mikið um það tímabil að ég er heldur blaséraður af því.
Til sögulegra skáldsagna um fornöldina má væntanlega einnig setja hinn afspyrnuslaka og tvívíða bókarflokk Frakkans Christian Jacq um Ramses II. og svo má bæta við einni Agöthu Christie-ráðgátu, sem gerist í Egyptalandi að fornu; nafnið hefur glutrast mér úr minni, en ég man eftir að mér þótti hún snöggtum betri sem þjóðlífslýsing en sem sakamálasaga.
Þetta er orðið langt og eflaust gleymi ég einhverju ... En hvar staðset ég þá Creation í þessari upptalningu? Máske ekki í fyrsta sætið, en þó tvímælalaust meðal fimm efstu.
Bloggar | 26.7.2012 | 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fyrir skömmu las ég afar merka og nánast óþekkta bók, sem heitir þeim veglega titli Elskulega móðir mín, systir, bróðir, faðir og sonur (Sigrún Sigurðardóttir tók saman, útgef. Háskólaútgáfan). Það sem gerir þessa bók merkilega er að um er að ræða að stofninum til bréfaskriftir innan stórrar fjölskyldu frá síðustu áratugum 19. aldar og blábyrjun 20. aldar eða á tímabilinu 1878-1902. Bókin var sú þriðja í bókaflokknum Sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar og kom út árið 1999, en útkomnar bækur í þessum athyglisverða flokki eru nú orðnar 15 talsins. Áður hafði ég aðeins lesið eina þeirra, Orð af eldi, sem fjallaði um áratugalöng (en heldur gloppótt) bréfaskipti Þorsteins Erlingssonar og Ólafar frá Hlöðum, og nú er á efnisskránni hjá mér að lesa nýjustu bókina í flokknum, sem hefur að geyma dagbækur Elku Björnsdóttur frá um 1915.
Elskulega móðir mín ... hefir að geyma bréfaskifti mjög sérstakrar fjölskyldu Jóns Borgfirðings, lögregluþjóns og alþýðufræðimanns. Um er að ræða bréf milli fjölskyldumeðlima, Jóns sjálfs, Önnu Guðrúnar eiginkonu hans (sem lést 1881) og næstu afkomenda þeirra. Þau áttu sex börn saman og hér er að finna bréf frá og á milli fjögurra þeirra, sem og einnar lausaleiksdóttur Jóns og sonar hennar.
Vert er að nefna strax að þessi fjölskylda er hin merkasta. Jón Borgfirðingur var bláfátækur, sjálfmenntaður alþýðumaður, sem lagði alla áherslu á að koma börnum sínum (einkum sonum) til mennta og tókst það betur en flestum samtímamönnum. Allir 4 synirnir luku stúdentsprófi, sem þótti merkilegt á þeim tíma, og 2 þeir elstu einnig háskólaprófi frá Höfn. Elsti sonurinn, Finnur Jónsson, varð prófessor við Hafnarháskóla og einn merkasti íslenskufræðingur síns samtíma, og sá næstelsti, Klemens, komst í hóp helstu valdsmanna landsins, varð sýslumaður, landritari (og þá um leið nánasti samstarfsmaður Hannesar Hafstein ráðherra Íslands), þingmaður og um síðir ráðherra. Elsta dóttirin, Guðrún Borgfjörð, þjónaði í reynd alla tíð á heimilum ættfólks síns, fyrst hjá foreldrunum, síðan hjá föðurnum sem ekkli og loks við heimilishald Klemensar bróður síns; hún hefur þó máske orðið þekktust þeirra systkina vegna stórmerkilegra æviminninga, sem hún ritaði á gamals aldri og veita fágæta innsýn í líf kvenna í íslensku breytingaþjóðfélagi á s.hl. 19. aldar. Fjórða systkinið, Vilhjálmur, á einnig allmörg bréf hér; hann sigldi líka til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn, en lauk aldrei háskólaprófi og starfaði sem kennari og póstmaður á stuttri ævi. Þau tvö, sem ekki eiga hér bréf, eru dóttirin Guðný, sem varð sýslumannsfrú, og bróðirinn Ingólfur, sem gerðist verslunarmaður. Á þau er þó alloft minnst í bréfunum.
Hérna eru samankomin sendibréf þessa fólks upp á þéttar og rúmar 300 blaðsíður með smáu letri. Það sem er máske merkilegast við þennan fjársjóð er varðveisla bréfanna sjálfra (og rétt er að taka fram að þetta er ekki allur afrakstur bréfaskifta fjölskyldunnar á tímabilinu). Þrátt fyrir að ýmsar trúnaðarupplýsingar gangi þeirra á milli, bæjarfréttir og slaður og leyndarmál eigin ættmenna, og þótt stundum ljúki bréfum á því að hvatt sé til þess að þeim sé eytt, þá hafa viðtakendurnir (og það á við um nánast alla í fjölskyldunni) kosið að geyma þau. Þetta má máske rekja til þeirrar virðingar fyrir rituðu orði og mikilvægi þess, sem ætla má að Jón Borgfirðingur hafi innprentað börnum sínum. Hann var ástríðufullur bókasafnari, átti fjölda handrita og hélt afar merkilegar dagbækur í um hálfa öld; þær eru geymdar í Þjóðskjalasafni og hef ég gluggað í þær oftar en einu sinni. Raunar var boðað eitt verkefni þessarar ritraðar um Sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar að þar í röðum skyldu vera dagbækur Borgfirðingsins, en mér vitanlega hafa þær ekki verið gefnar út. Þær eru stútfullar af fróðleik um lífið í Reykjavík (og um tíma á Akureyri), sem oft er hvergi annars staðar að finna.
Borgfirðingurinn og börn hans virðast semsagt hafa haldið þann sið að geyma bréfin og ekki er laust við að kvikni grunur um að það hafi verið vegna aukinnar þjóðfélagslegrar meðvitundar um eigin bættu stöðu; hvernig meðlimir fjölskyldunnar eru að rísa frá fátækt til valda og metorða í þjóðfélagi sem er undirorpið örum breytingum. Þótt þær systur, Guðrún og Guðný, hafi ekki notið mikillar menntunar, þá voru þær nógu mikils metnar til að vera boðið til þátttöku í Thorvaldsens-félaginu, sem stofnað var og stýrt af helstu mektarkonum bæjarins. Virðist það skv. bréfunum að miklu leyti mega þakka saumaskap og handverki Guðrúnar Borgfjörð fyrir þessar tilhaldsfraukur, en á hitt ber að líta að ekkert bréf er í bókinni frá Guðnýju, sem rétt gæti hlut hennar. Er eftirtektarvert að víða í bréfum frá Guðrúnu kemur fram stirt samkomulag og sundurlyndi þeirra systra, en að sama skapi virðist einkar kært á milli tveggja elstu systkinanna, Finns og Guðrúnar. Formlegustu bréfin á svo hinn löglærði Klemens. Nefna má að öll þrjú létu eftir sig mikið efni á prenti, Guðrún fyrrnefndar endurminningar, Finnur einnig endurminningar og hinar margvíslegu fræðibækur og loks Klemens, sem skrifaði Sögu Reykjavíkur í tveimur stórum bindum, auk margvíslegra tímaritsgreina um æskuárin í Reykjavík, en heyrt hef ég því fleygt að einnig sé til í vörslu afkomenda hans sjálfsæviágrip, óprentað.
Vandi er þeim með höndum, sem býr efni sendibréfa til prentunar. Lesa þarf rækilega í gegnum öll bréfin og ráða í merkingu, hversu skýr eða óskýr sem rithöndin er. Hér sýnist mér Sigrúnu Sigurðardóttur hafa tekist mjög vel upp með vandvirknina. Í einstaka tilvikum hafa þó slæðst inn villur, sem stundum stafa af mislestri, en hægt hefði verið að komast fyrir, ef lesandi rithandanna hefði þekkt betur til sögu tímabilsins. Þannig kemur á einum stað fyrir skammstöfunin K.Kr.Fr., sem ég held að hljóti að eiga að vera H.Kr.Fr. (þ.e. Halldór Kr. Friðriksson). Á öðrum stað er lesið út úr sendibréfi skipsnafnið Camoeus, sem ég held að hljóti að eiga að vera Camoëns, allþekkt hrossa- og fjárflutningaskip, sem sigldi frá Bretlandi hingað til lands fram til ársins 1888. Alvarlegasti mislesturinn held ég að hljóti þó að vera á bls. 221, þar sem Guðrún skrifar frá Íslandi til Finns í Kaupmannahöfn í ágústmánuði 1884: ... ljótt er að heira með Gísla, en það uppátæki að fara að drífa sig, svona ungur, og eiga unnustu, nl. Sigríði hjá rektor, hún er komin í allt svart ..." Hér held ég að drífa sig hljóti að vera mislestur fyrir að drepa sig; hér ræðir nefnilega um Gísla frá Bollastöðum, sem svipti sig lífi um þessar mundir, en um hann hefur Þorsteinn Antonsson tekið saman mikið ágæta Örlagasögu. Þá þótti mér heldur skorta á viðbótarupplýsingar í formi neðanmálsskýringa eða súbnótna, því að oft er óljóst út frá efni bréfanna einna hvað bréfritari er að fara, nema menn þekki sögu tímabilsins þeim mun betur. Loks má nefna að nafnaskrá skorti aftast í bókina; þótt hún hefði aldrei getað orðið fullkomin (þar sem við sögu koma allmargar tilfallandi persónur, sem erfitt er að gera grein fyrir), þá gæti hún létt verkið þeim, sem vinna vill með bókina.
Þrátt fyrir þessa annmarka er Elskulega móðir ... fágætur fjársjóður fyrir hvern þann, sem vill kynnast hugsunarhætti alþýðufjölskyldu á uppleið í Reykjavík á síðustu áratugum 19. aldar, daglegu lífi þessa fólks, bæjarslúðrinu og þjóðmálunum, ástum og sorgum (á umræddum tíma deyja jú fjölskyldumeðlimir, hús brenna, ástarsorgir og harmur ganga yfir, sem og vonir og vonbrigði). Ég stóð upp frá lestri töluvert ríkari en áður, þökk sé þeim sem stóðu að því ágæta framtaki að gefa út þessi sendibréf.
Bloggar | 19.7.2012 | 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á menntaskólaárunum skemmtum við okkur, kunningjarnir, við að svara kjánalegum heimspekilegum spurningum á borð við: Hvað myndi gerast ef Jesús Kristur birtist aftur í nútímanum, boðaði kenningar sínar, framkvæmdi kraftaverk og reisti menn upp frá dauðum? Svarið var einfalt: Hann yrði umsvifalaust lagður inn á stofnun.
Um nákvæmlega þetta fjallar skáldsagan The Last Testament of the Holy Bible, sem ég hef nýlokið við, eftir Bandaríkjamanninn James Frey. Nema hvað spurningin, sem við menntaskólafélagarnir gátum svarað í einni línu, þarf Frey 400 blaðsíður til að afgreiða.
Fyrst, fáein orð um höfundinn. James Frey var mér með öllu ókunnugur, þegar ég hóf lesturinn, en sem alsiða er í dag, kynnti ég mér hann á netinu samhliða lestrinum og komst að því, mér til furðu, að hann er einn umdeildasti - eða ætti ég heldur að segja alræmdasti? -rithöfundur seinni ára í Bandaríkjunum. Endurspeglar þetta hversu lítið ég fylgist með bandarískri bókmenntaumræðu; ég er hrifnari af þeirri evrópsku. Hvað um það, James Frey vakti mikla athygli í Bandaríkjunum árið 2003, þegar hann gaf út Million Little Pieces, bók sem sögð var vera endurminningar, frá þeim tíma þegar hann á að hafa verið langt leiddur eiturlyfjaneytandi á 9. áratug 20. aldar. Sérstaka athygli vakti bókarkafli í þeim minningum‟ um hvernig Frey hafði í vímu danglað í lögregluþjón, fengið í staðinn yfir sig barsmíðar fjölda lögregluþjóna og mátt dúsa í fangelsi í 87 daga. Bókin rokseldist, Frey mætti í viðtal hjá Larry King og þangað hringdi inn m.a. Oprah Winfrey, sem átti drjúgan þátt í að kynna bókina og tryggja henni metsölu. Kaflinn um barsmíðar lögreglunnar vakti sérstaka athygli og varð heilmikill grundvöllur umræðu um lögregluofbeldi þar vestra.
En Adam reyndist ekki lengi í Paradís. Árið 2005 afhjúpuðu rannsóknarblaðamenn að margt í bók Freys var ekki fyllilega í samræmi við veruleikann, þ.á.m. löggubarsmíðasagan. Frey og umboðsmanni hans var boðið í þátt hjá Opruh Winfrey, þar sem þau voru gjörsamlega tekin á beinið. Í kjölfarið var Frey úthrópaður sem svikahrappur og Münchausen nútímans og hann missti milljón dollara útgáfusamninginn sem hann var kominn með upp á vasann. Orðspor hans sem alvöru rithöfundar virtist fyrir bí.
Þrátt fyrir þessa sorgarsögu hafði Frey eignast nokkra harða aðdáendur, sem töldu hann einhvers konar snilling, sem afhjúpaði hræsni og hráskinnaleik bókmenntaiðnaðarins. Hann skrifaði fáeinar bækur til viðbótar, sem gagnrýnendur virtu jafnan að vettugi eða rifu í sig, en aðdáendur hans lofuðu í hástert í almenningskrítik á síðum eins og LibraryThing eða GoodReads eða í Amazon-umsögnum. Þær bækur hef ég ekki lesið og get ekki dæmt. En nú skal vikið að testamenti Freys.
The Final Testament of the Holy Bible fjallar (sem fyrr segir) um nýjan Messías. Sá er bandarískur piltur af Gyðingaættum, Ben Zion Avrohom, sem uppfyllir öll skilyrði spádóma Gamla testamentisins og Talmúð-fræða um að vera hinn smurði, enda er sjálfur rabbíni hverfisins sannfærður. En þegar Ben er 14 ára deyr ofbeldisfullur faðir hans og við tekur yfirgangssamur bróðir sem höfuð fjölskyldunnar og rekur þennan óvenjulega bróður sinn á dyr, í einhvers konar öfundssýki, að því er virðist. Í 16 ár lifir Ben Zion í reiðileysi undir nýju nafni, Ben Jones, og býr í niðurníddu hverfi hörundslitaðra, étur pizzur, vinnur fyrir sér sem öryggisvörður á byggingarstað og leikur tölvuleiki í frístundum. Hann lendir í alvarlegu slysi, nær yfirskilvitlegum bata þvert ofan í allar líkur og tekur að hegða sér einkennilega, dregur sig út úr venjulegu samfélagi, vill lifa meðal smáðra og útskúfaðra, étur upp úr ruslatunnum, gengur í lörfum og gerir kraftaverk.
Allt er þetta framreitt á afar trúverðugan hátt, einkum framan af, enda trúði ég því nánast sem nýju neti í fyrstu að um raunverulega atburði gæti verið að ræða. Við kynnumst Ben Zion í gegnum vitnisburði ýmissa ólíkra persóna, sem hann á samskipti við, og hann snertir líf þeirra flestra á ólíkan hátt. Þarna er frásögn púertóríkanskrar vændiskonu, sem síðar verður lagskona hans, verkstjórans á byggingarstaðnum þar sem vinnuslysið varð, læknisins sem gerði að sárum hans, blökkumanns sem tilheyrir öfgatrúarflokki sem hefst við í neðanjarðarbrautakerfi New York, FBI-lögreglumanns, lögmanns og ýmissa annarra, og þessi nýi Messías hefur áhrif á allt þetta fólk, svo mjög að það trúir flest á yfirskilvitlega hæfileika hans. Í upphafinu segir að sagan byggist á víðtækum viðtölum við fjölskyldu, vini og fylgismenn Bens Zion og hver kafli er eignaður frásögn einstaklings, sem komið hefur að málum þessa Messíasar strætisins. Í sögulok er heil blaðsíða, sem fer í þakkir til fjölda nafngreindra einstaklinga og heita margir þeirra sömu nöfnum og meintir viðmælendur‟. Eftir lestur sögunnar sýnist mér þakkarlistinn líklega blanda af raunverulegum og uppdiktuðum þökkum.
Uppsetning og stíll sögunnar eru kapítuli út af fyrir sig. Margt í bókinni dregur dám af Biblíunni, enda eiga frásagnirnar að vera e.k. nútímaguðspjöll. Viðmælendur heita m.a. Luke, Mark, John og Matthew, en auk þess úir og grúir af Biblíunöfnum: Esther, Ruth, Jacob, Jeremiah, Peter og ýmsir fleiri. Þó er þetta ekki að öllu leyti einhlítt. Ein höfuðpersóna sögunnar á eftir Ben Zion er hin púertorikanska Mariaangeles, sem verður um síðir ein helsta lagskona hans, en Messías strætisins er samt ekki við eina fjölina felldur og á í ástarsambandi við fjölda kvenna og allnokkra karla einnig, að því er virðist. Uppsetning textans minnir á trúarrit (eldri Biblíur munu hafa verið settar upp á þennan hátt); engin greinaskil eru notuð; afar lítið fer fyrir samtölum og þegar um þau er að ræða, er þau að miklu leyti í formi spurninga og svara. Textinn á augljóslega að líta út eins og vitnisburðir eða testimonium ólíkra einstaklinga.
Við útgáfu skáldsögunnar virðist beinlínis hafa verið gert út á það hve höfundurinn er umdeildur: Lesandanum er seld hneykslun á svikahrappi, jafnhliða því að saga er endursögð á máta, sem sumpart gæti verið guðlast. Á kápu er að finna ummæli, eins og Brilliant, brilliant, brilliant" (sem ég hefði á köflum viljað skipta út fyrir Boring, boring, boring"), Brave", Honest" og sitthvað fleira. Frásaga af nútímamessíasi, sem stundar stóðlífi milli þess sem hann framkvæmir kraftaverkin, kann að hneyksla einhverja Bandaríkjamenn á biblíubeltinu sunnan Mason-Dixon-línunnar, en hún hreyfði ekki mikið við trúleysingjanum mér, sem hvað eftir annað hugsaði: Been here, done this, read that". Þó er frásögnin ekki alslæm; einstaka sinnum tekst Frey að koma lesandanum á óvart, þótt margt sé að sama skapi heldur fyrirsjáanlegt.
Guðfræðin í bókinni er heldur ekki upp á marga fiska, þótt hún kunni að hneyksla einhverja bókstafstrúarmenn. Ben Zion á í samræðum við Guð, en samkvæmt sögunni er Guð ekki persóna eða persónulegur í neinum skilningi - málefni mannanna koma honum ekki við, per se - heldur á Guð skv. Frey/Ben Zion að vera yfirskilvitlegur kraftur, sem býr að baki og handan alls þess sýnilega og skynjanlega. Hann er það sem býr utan endimarka þess sem maðurinn skilur. Guðfræði bókarinnar er líka hálfpartinn dálítið pínleg hippaheimspeki ástarinnar, sem John Lennon orðaði svo ágætlega í All you need is love." Hvað eftir annað verður Ben Zion á orði: God is love" og hann gengur um og segir við sérhvern sem hann hittir: I love you." Þannig er heimspeki bókarinnar að mestu simplisistísk og ekki ýkja djúp; Ben Zion flytur tölu yfir áhangendum sínum í eins konar kommúnu á bændabýli í upstate New York" (minnir á Woodstock eða hvað?), en það er engin Fjallræða. Markmiðið virðist að einhverju leyti að samræma vísindahyggju og trú (Ben Zion trúir t.d. algjörlega á þróunarkenninguna og ekki á hefðbundinn Guð) og að samræma efnishyggju og andlegan veruleika, sem annar Bandaríkjamaður, Robert Pirsig, gerði þúsund sinnum betur fyrir 35 árum í Zen and the Art of Motorcycle Maintenance. Þótt Ben Zion sé gæddur yfirskilvitlegum mætti, þá er hann í öllum skilningi andstæðingur hefðbundinna trúarbragða; á einum stað mælir hann eitthvað á eftirfarandi vegu: Trúin væri langmerkilegasta uppfinning Djöfulsins, ef hann væri þá til, sem hann er ekki." (Ég er næstum viss um að þetta er stolin speki, en man bara ekki hvaðan).
Í gegnum bókina gengur sem rauður þráður ákveðin raunsæ hugmyndafræði um að heimsendir sé í nánd, nánast í bókstaflegum skilningi. Mannkynið eitt er ábyrgt fyrir því hvernig málum er komið, skv. boðskap Bens Zion, en það er í reynd komið fram yfir þau mörk að aftur verði snúið. Allnokkuð er síðan við ókum fram af hengifluginu," segir Ben Zion á einum stað, við eigum bara eftir að lenda." Heimspeki Bens Zion miðar að því að draga sem mest úr hörku þessa áreksturs. Hann gengur í lörfum og étur úr tunnum til að nýta sem best þær takmörkuðu auðlindir, sem jörðin hefur upp á að bjóða. Nákvæmlega hvernig endalokin verða getur Ben Zion ekki sagt fyrir um; hann bendir á að á einhverjum tímapunkti muni heimsveldi ýta vanhugsað á takka, sem sendi sprengjur á loft, og að í kjölfarið verði svarað með því að ýta á marga takka. En ef stríð dugir ekki til að eyða mannkyninu, þá blasir við hægari dauðdaginn: Mönnunum fjölgar, auðlindirnar þverra, og jörðin verður þurrausin á endanum, af mannfólki og gnægtum sínum. Mannkynið flýtur sofandi að feigðarósi.
Augljós sannindi, ekki satt? Þau gera skáldsögu hvorki betri né verri - ef það er eitthvað, sem gefur þessari sögu Frey gildi, þá er það viðvörunin og lokatilraunin til að koma til skila jákvæðum boðskap til mannfólksins. Hann reynir að tala röddum ólíkra einstaklinga, en þegar upp er staðið eru þær heldur einsleitar - höfundurinn býr einfaldlega ekki yfir því næmi, sem David Mitchell sýndi t.d. í Cloud Atlas, þar sem ótrúleg fjölbreytni birtist í orðalagi og heimsmynd hverrar sögupersónu. Áberandi hjá Frey eru endurtekningar í stíl, sem verða yfirþyrmandi, þegar á líður bókina. Ben Zion gengur inn í herbergi, biðstofu, lestarvagn og allir fara að brosa, því að allir skynja nærveru kærleikans (nema ein skrifstofublók með skjalatösku, sem hrökklast út úr lest á næstu stöð undan augnaráði þessa lausnara). Stíllinn er líka ótrúlega simpill; nánast hver einasta setning byrjar á persónufornafni sem frumlagi og síðan kemur sögn: He said...", I did..." We went..." Þennan stíl skortir tilfinnanlega ljóðrænu - hann er meira svona samansúrraður harðneskjulegur stíll stórborgarinnar - þótt einstaka sinnum hrökkvi eitthvað fallegt upp úr Ben Zion. Þótt ekki sé nema: I love you."
Niðurstaðan? Sagan er heldur klén og klisjukennd og nær því varla að verða miðlungsskáldsaga. Einstaka verðug hugmynd inn á milli lyftir henni þó örlítið upp af hinum algjöra botni flatneskjunnar. Hinir trúuðu mega síðan velta fyrir sér og rífast út af hæpinni guðfræðinni, ef þeir vilja - það er ekki fyrir mig.
Bloggar | 17.7.2012 | 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Bloggar | 13.6.2012 | 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég keypti plötu með Elvis Costello áður en ég hafði heyrt í honum.
Nú eru næstum slétt 35 ár síðan. Ég var að þvælast á Interrail-ferðalagi um Evrópu árið 1977 og hafði ákveðið að birgja mig upp af hljómplötum í ferðinni, en stuttu áður en ég lagði af stað hafði ég skoðað helstu bresku poppblöð þess tíma, eins og Melody Maker og New Musical Express, og út frá skrifum þeirra um hvað væri talið merkilegt í pípunum, skráði ég lista bakvið eyrað. Mig minnir að það hafi verið í Como á N-Ítalíu að ég álpaðist inn í plötubúðina á sjóðheitum ágústmánuði og keypti My Aim Is True, óheyrða. Fyrir einkennilega tilviljun lést hinn" Elvis, þ.e. Presley, nánast um sama leyti - gott ef það var ekki bara í sömu vikunni. En tilviljunin var mikil, einkum vegna þess að á plötuumslag hins nýja Elvis, þ.e. Costello, var skrifað í reiti Elvis Is King".
Alla vega sneri ég heim úr reisunni með um 20 misáhugaverðar plötur, þ.á.m. Marquee Moon með Television og einar þrjár plötur með Jonathan Richman and the Modern Lovers, til að nefna fleira eftirminnilegt. Fljótt fór ein plata að skera sig úr hópnum og hlustaði ég langmest á hana. Það var My Aim Is True. Platan var mjög jafngóð, vart veikur blettur á henni. Að vísu hafði hún þann ókost að hún sótti í sumum lagasmíðum dálítið aftur til 6. áratugarins, sem mér var ekki að skapi. En á móti kom að önnur lög voru frumleg og melódísk, söngurinn fullur af aggressívri tilvistarangist, textarnir hnyttnir og beittir. Fyrir mér stóð alltaf upp úr lagið Less Than Zero", um Mr. Oswald with the swastika tattoo", lag sem olli miklu fjaðrafoki í Bandaríkjunum fáum árum síðar, þar sem þarlendir töldu það fjalla um Lee Harvey Oswald, þótt Costello hefði haft í huga Oswald Mosely, leiðtoga breskra nasista á millistríðsárum. Lagið átti eftir að verða enn alræmdara þegar bandaríski rithöfundurinn Bret Ellis Easton, rétt rúmlega tvítugur, notaði titil þess á fyrstu skáldsögu sína, sem lýsir fánýti og einskishyggju ríkra unglinga í Hollywood. Önnur framúrskarandi lög á My Aim Is True eru Welcome to the Working Week", Alison", (The Angels Wanna Wear My) Red Shoes" og No Dancing". Fáar plötur eru jafngóðar í gegn. Nú ætti ég ef til vill að nefna að Watching the Detectives", fyrsti smellur Costello, var ekki á þessari fyrstu útgáfu My Aim Is True, heldur var lagið gefið út á smáskífu eftir útgáfuna, en þegar lagið og breiðskífa urðu vinsæl var farið að þrykkja það sem síðasta lag á breiðskífuna. Ég hef aldrei athugað það, en kannski er vinyl-platan mín (þetta var töluvert fyrir daga geisladiska) rarítet fyrir vikið. Hún kemur jú örugglega úr fyrstu pressun.
Fullur vonar keypti ég næstu plötu, This Year´s Model, um leið og hún kom út - og varð fyrir vonbrigðum, þótt hún skilaði Costello öðrum smelli (I Don´t Want to Go to Chelsea"). Flest lögin voru um 2 mínútur að lengd, hröð, með miklum orgelleik (frá Steve Nieve, sem var áberandi í nýstofnaðri stuðningshljómsveit Costello, The Attractions) og hið eina, sem mér þótti hlustandi á, var hið rólega Little Triggers". Plötunni fylgdi einnig smáskífan Stranger In The House", fyrsta daður Costello við sveitasælutónlistina - gott ef George Jones sjálfur söng það ekki með honum. Ég var svo lítt hrifinn að ég held ég hafi gefið einhverjum plötuna og smáskífuna saman.
Þarna, árið 1978, hafði ég eiginlega sagt skilið við Costello. Þess vegna keypti ég ekki Armed Forces þegar hún kom út, þrátt fyrir að hún innihéldi ofursmellinn Oliver´s Army". Í einhverri rælni keypti ég Get Happy (með einu góðu lagi, New Amsterdam"). Næstu fjórar plötur, Punch the Clock, Trust, Almost Blue og Imperial Bedrooms lét ég að mestu fram hjá mér fara - heyrði stundum bara smáskífurnar af þeim, eins og Everyday I Write the Book" og Good Year For the Roses". (Þessar plötur keypti ég inn í safnið seinna, en upphaflegt mat mitt á þeim breyttist lítið.) Ég fjárfesti þó einhverra hluta vegna á þessum árum í Goodbye Cruel World, þokkalegri plötu með einu góðu lagi, Peace in Our Times".
Svo kom King of America. Vá! Aftur komin plata með Costello sem var góð í gegn, með sæg af meistarastykkjum: Little Palaces" (mögulega besta lag Costello), Brilliant Mistake", American Without Tears", Indoor Fireworks" og allt hitt. Meira að segja heilmikið kántrí, sem hægt var að kyngja (Glitter Gulch", Lovable"). Þá fór ég aftur að reyna að fylgjast með honum. En næstu plötur ollu aftur vonbrigðum. Blood and Chocolate var hrein hörmung, Mighty Like a Rose mestmegnis líka, en þó með einu snilldarlagi (All Grown Up", mögulega einnig besta lag Costello) og hin mistæka plata Spike (með hinu gullfallega Tramp the Dirt Down", einnig Let Him Dangle" og nýjum ofursmelli, Veronica", sem Costello samdi með Paul MacCartney). En ég tók Costello karlinn ekki aftur í sátt að nýju fyrr en með The Juliet Letters, sem hann vann með Brodsky-kvartettinum, alfarið undirleikið af kammersveitinni. Mikið meistaraverk, þar sem besta lagið, Jacksons, Monk and Rowe" er ekki eftir Costello sjálfan, þótt það sé snilldarlega sungið af honum. En strax í kjölfarið kom lægð í ferilinn. Ég held að mér finnist ekki eitt einasta lag gott á Brutal Youth eða All This Useless Beauty og um Kojak Variety hafði ég slíkar efasemdir að ég eignaðist hana aldrei. En svo um og upp úr aldamótum fór að koma sérkennilegt ris á ferilinn að nýju, með tónsmíðinni Il Sogno (undir auðheyrðum áhrifum frá Holst og Gershwin), kúnstugri samstarfsplötu við Sophie Marie von Otter, djassplötunni North, þjóðlagarokkplötunni Delivery Man og big-band tónleikaplötunni My Flame Burns Blue. Og fleira og fleira; maðurinn er jafn afkastamikill og verksmiðja.
Það er varla hægt að tala um Costello án þess að nefna snillina í textasmíðinni. Hann hefur samið mörg hundruð lög og virðist ætíð jafnfrjór við textagerðina. Hæfileikar hans á þessu sviði sáust strax á fyrstu plötunni: I said: I´m so happy I could die"./ She said: Drop dead" and left with another guy". Myndmálið er oft óvænt, ...like a chainsaw running through a dictionary" (úr Our Little Angel") eða þá: She said that she was working for the ABC-news. / It was as much of the alphabet that she knew how to use" (úr Brilliant Mistake"). Eða bara þegar hann syngur um byggingu: Five miles out of London on the Western Avenue, / Must have been a wonder when it was brand new. / Talking ´bout the splendour of the Hoover factory. / I know that you would love it if you´d seen it too" (úr, að sjálfsögðu, Hoover Factory"). Costello getur líka verið stórfenglegur sögumaður, eins og þegar hann rekur sögu konu, sem giftist/flutti til Bandaríkjanna (GI-bride") í seinni heimsstyrjöld í laginu American Without Tears". Dæmi um sífrjóa og kraftmikla textasmíði hans eru á hverri einustu plötu; Costello er allt annað en klisjusmiður.
Ég held að ég hafi fylgst nokkuð vel með ferli Costello; ég á einnig einhvers staðar og hef lesið ævisögu hans, og hef fylgst með samstarfi hans við ýmsa þekkta listamenn eins og Burt Bacharach og Bill Frissell. Niðurstaða mín er sú að Costello er óhemju mistækur listamaður, en samt ótrúlega frjór og alltaf reiðubúinn til að leita inn á nýjar lendur í tónlistinni. Og þegar honum tekst vel upp, þá tekst engum betur. Ég gat því ekki látið hjá líða að sækja tónleika hans í Eldborgarsal Hörpunnar í kvöld - og kaupa mér sæti á besta stað. Og þótt hann hafi verið dálítið mistækur (sérstaklega hóf hann tónleikana með ærandi hávaða), þá held ég að mér sé óhætt að segja að fáir hafi farið sviknir þaðan í kvöld. Þótt ekki væri nema bara fyrir þessa einstaklega tilfiningaríku, blæbrigðaríku og karakterísku rödd, sem er unun á að hlýða, þá voru oft uppátækin líka bráðskemmtileg. Mér taldist til að hann hefði leikið á eina átta gítara (auk þess að leika tvö lög á píanó og eitt á ukulele) og fyrir framan sig hafði hann allsvakalega fótstigna græju með upptökutæki, pedulum, wah-wah, reverb-effektum og hvaðeina, sem hann átti til að ofnota í háværustu lögunum. En allt í allt samt sem áður einstaklega eftirminnileg kvöldstund. Costello fór blíðum höndum um áhorfendur - sem klöppuðu af hæversku, enda var þetta listahátíð, ekki rokkkonsert - og lék flest sín frægustu lög. Meðal þeirra má nefna, nokkurn veginn í réttri röð held ég, Red Shoes", Brilliant Mistake", It´s Been a Good Year for the Roses", Everyday I Write The Book", Watching the Detectives", Shipbuilding" (við eigin píanóundirleik), Veronica", Oliver´s Army", She", I Want You" og svo gamla Brinsley Schwarz-slagarann, sem Nick Lowe samdi og Costello fékk smásmell út á, (What´s So Funny ´Bout) Peace, Love and Understanding". Sjálfur hefði ég viljað heyra ýmis persónuleg uppáhaldslög með kappanum (Less than Zero", Hoover Factory", New Amsterdam", Little Palaces", All Grown Up", Tramp the Dirt Down"), en ekki verður á allt kosið og Costello kynnti mig og aðra fyrir heilmiklu nýju efni sínu, auk þess að taka fáeina standarda. Allt í allt: Framúrskarandi kvöldstund með Elvis Costello, hverrar krónu virði.
Bloggar | 11.6.2012 | 02:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Að undanförnu hef ég fylgst með tveimur umræðuþáttum frambjóðenda til embættis forseta Íslands í komandi kosningum og orðið hugsi yfir þeim frambjóðendum, sem tala um að auka völd embættisins eða virkja tilteknar greinar stjórnarskrár íslenska lýðveldisins.
Í 11. grein stjórnarskrárinnar segir svo: Forseti er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum." Allt frá árdögum lýðveldisins er stjórnskipunarhefð fyrir því að líta svo á að forseti beri ekki ábyrgð vegna þess að hann hafi framselt framkvæmdarvald sitt til annarra stjórnvalda. Er 11. gr. stjskr. þá gjarna spyrt saman við 13. greinina (Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt") og 14. greinina (Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarathöfnum öllum"). Almennt munu lögspekingar sammála um að II. kafli stjórnarskrárinnar (greinar 3.-30.), sem fjallar um forsetann (og virðist kveða á um allveruleg völd hans, en taka þau síðan aftur frá honum með 11., 13. og 14. greinum), feli það í sér að eiginlegt framkvæmdarvald liggi ekki hjá forseta, heldur hjá lýðræðislega kjörnum þingmeirihluta, sem myndi ríkisstjórn.
Eitt atriði, sem rennir ótvírætt stoðum undir þessa túlkun, er að forsetinn þarf ekki skv. núverandi stjórnskipun að vera kosinn með meirihluta atkvæða þjóðarinnar. Reyndar hefur það gerst a.m.k. tvisvar að forsetar hafa verið kosnir með u.þ.b. 30-40% atkvæða, þar sem nokkrir einstaklingar hafa verið í framboði, og á þetta t.d. við um fyrstu kosningu sitjandi forseta. Meginatriðið hér er þó að ekki hefur verið talið skipta máli hvort forseti hafi meirihluta þjóðarinar á bak við sig, þar sem embættið hefur verið talið valdalítið allt fram á allra síðustu ár. Ef vilji þjóðarinnar væri fyrir því að auka völd forsetans, þá væri eðlilegt að breyta fyrst fyrirkomulagi forsetakosninga (t.d. með forkosningum, þar sem á endanum væri kosið um tvo atkvæðamestu frambjóðendur), svo að hreinn meirihlutavilji þjóðarinar lægi að baki þeim, sem gegndi embættinu.
Menn hafa talað um að forsetaembættið hafi stimplað sig inn sem valdaembætti allt frá árinu 2004, þegar forseti synjaði umdeildum fjölmiðlalögum undirskriftar og skaut málinu þar með til þjóðaratkvæðis. Á þjóðaratkvæðagreiðsluna reyndi þó ekki í þann tíð, vegna þess að þáverandi Alþingi dró lagasetninguna til baka áður en til hennar kæmi. Má nefna í því samhengi að sumir lögspekingar töldu þá aðgerð (þ.e. að draga lagasetninguna til baka) brjóta í bág við 26. gr. stjskr., sem kveður á um að synji forseti lögum staðfestingar, þá skuli atkvæðagreiðsla um lögin ganga til þjóðarinnar, en þetta seinna ákvæði 26. greinarinnar var ekki uppfyllt. (Man enginn lengur eftir hópi fólks, sem krafðist þess að greinin yrði að fullnustu leidd til lykta 2004 og hrópaði: Við viljum kjósa!"?) Einnig má nefna að fram kom árið 2004 a.m.k. einn löglærður maður, sem leyfði sér að vefengja að málskotsréttur forseta væri gildur, því að eðli málsins samkvæmt hlyti valdaafsal forseta skv. 11. greininni að ná til þessa ákvæðis sem annarra. Almennt má þó segja að flestir lögspekingar, sem um málið fjölluðu árið 2004, voru nokkuð sammála um að 26. greinin væri nánast eina virka greinin sem fæli forseta nokkur völd (hin væri helst 16. greinin, sem felur í sér afskipti forseta að stjórnarmyndun við tilteknar aðstæður, helst eftir kosningar og þá í samræmi við ákveðnar hefðir, sem mótast hafa í þeim efnum). Engum lögspekingi flaug t.d. í hug árið 2004 að 24. greinin um þingrof fæli í sér einhvers konar sjálfstæðan þingrofsrétt forseta, eins og sumir forsetaframbjóðendur hafa gefið í skyn að undanförnu.
Það var því ekki fyrr en á núverandi kjörtímabili að 26. greinin var virkjuð að fullu, með synjun forseta á staðfestingu laga um Icesave í tvígang, ásamt meðfylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er semsagt stutt síðan 26. greinin tók að fullu gildi (þótt flestir lögspekingar hafi talið hana eiga við 2004 með ofangreindum undantekningum). En í kjölfarið, eftir þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave, virðast allar flóðgáttir hafi brostið. Án allrar lýðræðislegrar umræðu og eðlilegs aðdraganda tala sumir frambjóðendur eða fylgismenn þeirra á þeim nótum um stjórnarskrána að hún feli í sér óhemju mikil völd til handa embættinu. Lítt fer fyrir umræðum lögspekinga í málinu; einhverra hluta vegna halda þeir sig nú víðs fjarri, ólíkt því sem var í umræðunni árið 2004. Er því hér með kallað eftir lögskýringum frá sérfróðu fólki um þessi efni, t.d. prófessorum í stjórnskipunarrétti, til að varpa ljósi á málið. Að mínu mati hefur sjaldan borið til brýnni ástæður en nú.
Sumir fréttaskýrendur, álitsráðgjafar og pistlahöfundar virðast telja komandi kosningar eiga að snúast um hvaða forsetaframbjóðandi yfirtrompi þann næsta og vilji sem mest auka völd sín. Er það gjarna gert undir orðalaginu að forseti skerpi sýn á embættið". Þessar hugmyndir um hanaslag" eru svo óábyrgar sem hugsast getur. Í mínum huga er hið gagnkvæma næst sanni: Sá frambjóðandi er verðugastur, sem heldur sig við hefðir og reglur stjórnarskrár og viðurkennir að forsetaembættið er í reynd valdalítið. Ef ætlunin væri að hafa það valdamikið og fela forseta virka þátttöku í stjórnskipuninni, þá er fráleitt það sem segir í 11. gr. stjskr., að forseti skuli vera ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Sá frambjóðandi, sem talar um að auka völd embættisins, er í raun og veru að sækjast eftir fríu spili" innan stjórnskipunar ríkisisins. Þannig er fráleitt að forseti geti staðið sjálfstætt að þingrofi eða gert samninga við erlend ríki. Meðan hann ber ekki ábyrgð á slíkum stjórnarathöfnum, verður ekki séð að hann fari með þessi völd. Slíkt væri fáheyrt í vestrænu lýðræðisríki.
Svo er annað mál hvort menn vilja auka eða minnka völd forsetans eða jafnvel fella embættið niður. Það er seinni tíma umræða og komandi kosningar geta ekki snúist um það. Ljóst er að stjórnarskráin er ekki nægilega skýr um ýmislegt, sem lýtur að embætti forseta Íslands (og fleiri atriði), og því er breytinga á henni þörf. Um þetta snerist vinna Stjórnlagaráðs fyrir um ári síðan; hún fól í sér heildstæða hugmynd að nýrri stjórnarskrá. Eftir að hafa kynnt mér tillögur Stjórnlagaráðs verð ég að segja að mér finnst flest þar til bóta, en þó ekki nógu ljóst um valdmörk og valdsvið forsetaembættisins. Samt er uppástunga ráðsins um að forseti geti ekki setið lengur en tvö kjörtímabil augljós stjórnarbót.
En það er seinni tíma umræða. Hin endanlega ákvörðun um val á forseta fyrir næstu fjögur ár liggur í valdi kjósenda. Ef meirihluti kjósenda velur frambjóðanda, sem hyggur á aukin völd án þess að bera á þeim eðlilega stjórnskipunarlega ábyrgð, þá er það grafalvarlegt mál. Slíkur frambjóðandi gæti nefnilega nýtt kosningu sína til að stórauka afskipti sín af stjórnarmálefnum án nokkurrar ábyrgðar og borið fyrir sig til réttlætingar, að hann hafi lýðræðislegt umboð þjóðarinnar fyrir slíkri (ófyrirséðri) valdaukningu. Það er helst þarna sem ábyrgð kjósenda í komandi kosningum liggur: Viljum við fela komandi sigurvegara í forsetakosningunum mögulega gríðarmikil völd án þess að hann þurfi nokkra ábyrgð að bera á þeim völdum? Þurfum við ekki að hugsa um frambúðaráhrif slíkrar kosninganiðurstöðu?
Bloggar | 8.6.2012 | 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýlega endurlas ég eina af skemmtilegri bókum, sem ég hef komist í á seinni árum. Og sem fyrr las ég einvörðungu hálfa bókina. Samt skemmti ég mér konunglega.
Umrædd bók heitir Napoleon´s Buttons; 17 Molecules That Changed History og er eftir tvo efnafræðinga, hina kanadísku Penny Le Couteur og hinn bandaríska Jay Burreson. Það sem gerir bókina eftirtektarverða er hvernig hún blandar mannkynssögu saman við efnafræði; hún rekur ekki sögu efnafræðinnar, heldur efnafræði sögunnar," eins og segir í formálanum.
Nú er svo að ég er enginn sérstakur áhugamaður um efnafræði, þótt ég hafi numið þá grein á menntaskólaárum og rámi í benzen-hringinn og endalausar lengjur af COOH. Af slíkum fróðleik er bókin stútfull, með óteljandi skýringarmyndum og efnahvörfum. Þetta var sá helmingur bókarinnar sem ég sleppti, fyrr sem nú. Hafi einhver áhuga á að vita hver eru virku lyktarefnin í chili-pipar eða litarefnin í indigó-bláum lit eða efnasamsetningu LSD (sem stendur fyrir Lýsergísk-Súrt Díethýlamíð") eða heróíns, þá er þetta rétta bókin. En jafnframt er rakin saga efnanna, uppfinning þeirra og notkun í aldanna rás - og það gerir bókina svo spennandi. Vissuð þið til dæmis að allt fram á 18. öld var kryddtegundirnar múskat og negul eingöngu að finna á tveimur örsmáum eyjaklösum í SA-Asíu? Þetta voru Mólúkkaeyjar (múskat) og Bandaeyjar (negull), sem fyrr á öldum voru gjarnan nefndar einu nafni Kryddeyjarnar, en tilheyra í dag Indónesíu. Á 17. og 18. öld komu Hollendingar sér upp algjörri einokunaraðstöðu með þessar kryddjurtir og flutning þeirra til Evrópu og högnuðust gríðarlega á. Og það var ekki fyrr en árið 1770 að frönskum stjórnarerindreka tókst að smygla múskat-afleggjurum frá Mólúkka-eyjum til frönsku nýlendunnar Mauritius, þaðan sem ræktunin breiddist um alla austurströnd Afríku. Og enn síðar var farið var að rækta neguljurtina utan Banda-eyja, enda þarf hún víst sérstök skilyrði til að þrífast - í rökum og gljúpum jarðvegi í hlýju loftslagi, en þó í vari fyrir sól, þar sem vindar leika um. Um síðir átti eftir að koma í ljós að þær aðstæður var að finna sums staðar í Karabíska hafinu, einkum á eyjunni Grenada, sem síðar fékk nafnið Neguleyjan.
Á þann hátt er í bókinni rakin útbreiðslusaga margra nytjaplantna, stundum næsta ólíkleg. Tómatplantan, sem margir tengja sérstaklega við ítalska matargerð, er t.d. upprunnin í Ameríku og barst ekki til Evrópu fyrr en upp úr 1500. Að sama skapi flutti Kólumbus fyrsta sykurreyrinn til Karabíska hafsins frá Evrópu strax í 2. ferð sinni, árið 1495 og um 20 árum síðar fékkst uppskera. Sykurreyrsræktun margfaldaðist við kjöraðstæður á þessum slóðum og varð grunnur hins útbreidda þrælahalds þar; á eftir plöntunum voru svartir menn fluttir frá Afríku sem vinnuafl, þegar hinir innfæddu hríðféllu af vinnuhörku eða vegna sjúkdóma. Á svipaðan hátt ferðuðust hrísgrjónaplantan (upphaflega frá Kína) og baðmullarplantan (frá Indlandi) þvert yfir hnöttinn á 17. og 18. öld, þar sem þeim var fundið lífvænlegt kjörlendi á þeim slóðum þar sem síðar urðu til Suðurríki Bandaríkjanna - og þá um leið mótuðust vaxtarskilyrði þrælahalds, sem um síðir átti eftir að leiða til klofningstilraunar og borgarastríðs í Bandaríkjunum árin 1860-65. Og það var einmitt flutningur kaffiplöntunnar frá Afríku til Brasilíu, sem leiddi til gríðarlegra þrælaflutninga, sem skilaði sér í því að Brasilía þráaðist einna lengst við, allra vestrænna ríkja, þegar kom að afnámi þrælahaldsins, eða allt fram til ársins 1881.
Samhliða sögu kaffiplöntunnar og útbreiðslu hennar er í bókinni veitt innsýn í efnafræði hennar og hins virka efnis, sem við sækjumst öll eftir - kaffeins. Fróðlegt þótti mér að lesa að Evrópa hefði mátt heita kaffeinfrí fyrir 1500. Það er ekki fyrr en í kjölfar landafundanna að kaffeindrykkirnir þrír bárust til Evrópu - te (frá Kína, síðar Indlandi), kaffi (frá Arabalöndum, N-Afríku og Tyrkjaveldi) og kakó (frá þeim slóðum þar sem í dag er Mexíkó). Hvort Evrópa hafi verið skárri kaffeinlaus? Svarið er líklega neitandi, því miður. Fyrir daga kaffeindrykkja var nefnilega mjög algengt að íbúar álfunnar hresstu sig, jafnvel með morgunverði, á áfengum drykkjum, víni í S-Evrópu og bjór og miði í N-Evrópu.
Titill bókarinnar í hnappa Napóleons er skírskotun í lífseiga þjóðsögu efnafræðinga, sem fæst þó engan veginn staðfest af sagnfræðinni. Þannig er mál með vexti að Napóleon var mjög umhugað um að hermenn sínir, ofan frá herforingjum niður í óbreytta fótgönguliða, væru svo vel klæddir sem völ var á. Voru herbúningar þeirra hnepptir með sérstökum hnöppum sem steyptir voru úr tini. En þjóðsagan gengur út á að þetta hafi orðið Le Grande Armée , allt að 600.000 manna herliði, að falli við innrásina í Rússland 1812, því að óvenjumiklar frosthörkur urðu strax um haustið og tin verður stökkt og molnar við langvarandi frystingu. Kenningin athyglisverða gengur því út á að tinhnapparnir á klæðum herliðs Napóleons hafi grotnað og að hermennirnir hafi að meira eða minna leyti verið berskjaldaðir fyrir kuldanum, jafnvel frekar þurft að nota hendur til að vefja að sér klæðum en að skjóta af rifflum. (Reyndar er seinna í bókinni önnur efnafræðileg ástæða einnig hafa átt þátt í falli herliðs Napóleons árið 1812, þ.e. að ergotismi" eða rúgdrep hafi skemmt kornbirgðirnar, en einhverjar heimildir munu vera fyrir slíku.
Það er einmitt í tengslum við ergotismann", rúgdrepið, sem sumar athyglisverðustu kenningarnar koma fram í bókinni, m.a. að þessi matareitrun kunni að hafa átt sinn þátt í galdrafárinu, sem reið yfir Evrópu á 16. og 17. öld. Rúgmjöl var uppistaða í mataræði víða í Evrópu fyrr á öldum, en við vissar kringumstæður - á heitum sumrum þar sem rúgur var ræktaður í grennd við rök mýrarsvæði - gat átt sér stað lífshættuleg sveppamyndun (Claviceps purpurea, ef einhver hefur áhuga) í korninu, með virku efni sem nefnist ergotamín, út frá sveppnum sem í daglegu tali var nefndur upp á frönsku ergot, en efnið var jafneitrað þótt kornið væri malað. Eituráhrifin gátu lýst sér í ofskynjunum, flogaköstum, ósjálfráðum útlimahreyfingum, pípandi niðurgangi og ýmsu fleiru; í svæsnustu tilvikum drógu þau fólk til dauða.Til eru heimildir um rúgdrep og að heilu þorpin hafi orðið fyrir slíkri eitrun víða um Evrópu frá miðöldum, en þó einkum frá Frakklandi og Þýskalandi, þeim tveimur löndum þar sem síðar var gengið lengst í galdraofsóknum. Er við komum inn á tíma trúaröfga á 16. og 17. öld, þegar kaþólikkar sáu mótmælendur sem útsendara andskotans og öfugt, var þá ekki sennilegt, ef slíkur faraldur gaus upp, að þorpsbúar kenndu um fátæku ekkjunni, sem bjó ein í skógarjaðri utan þorpsins, hafði ekki efni á að kaupa malað rúgkorn (og var því við hestaheilsu), en bjó yfir kunnáttu á grösum, sem hún sauð oft í potti? Hlaut hún ekki að vera galdrakerling fyrst hún slapp við eitrunina? Út frá þessari sveppaeitrun í rúgi og öðrum viðmóta í annars konar matvælum setja höfundar Napoleon´s Buttons fram hlutaskýringu á galdrafárinu, m.a. hinni sérkennilegu múgsefjun í Salem í Massachusetts 1692. Þó leggja höfundarnir skynsamlega áherslu á að hér sé einvörðungu um hlutaskýringar að ræða og að fleiri þættir kunni að hafa haft áhrif á flókið ferli. Fyrst að minnst er á galdra, þá má nefna að í bókinni er varpað fram mögulegum skýringum um hvernig hugmyndir um gandreiðir norna urðu til, en út í þá sálma verður ekki farið hér.
Drjúgur hluti bókarinnar fjallar um læknisfræðilegar uppgötvanir í efnafræði, m.ö.o. upphaf lyflækninga. Þar var framarlega strax um aldamótin 1900 þýski lyfjarisinn Bayer. En ekki vissi ég að það fyrirtæki hefði átt rætur sínar, eins og fleiri lyfja- og efnafyrirtæki, í klæðalitun á s.hl. 19. aldar, en þá voru óhemju miklar uppgötvanir gerðar á því sviði, svo að náttúruleg litarefni hurfu að meira eða minna leyti og í dag eru nánast öll föt, sem við klæðumst, lituð með efnafræðilegri litun. Í tengslum við þróun lita uppgötvuðu Þjóðverjarnir hjá Bayer um 1850 efni sem um 40 árum síðar var markaðsett sem lyf og gefið heitið Aspirín. Lagði það grunninn að stórveldi Bayer. En um undir lok 19. aldar þróaði Bayer einnig aðra efnasamsetningu, sem þeir gáfu lyfjaheitið Heróín, enda átti það að vera hetjulegt undralyf, sem læknaði ótal kvilla, allt frá kvefi til berkla. Þannig var nafngiftin upphaflega lyfjaheiti. Fljótt komu þó í ljós fylgikvillarnir; lyfið var meira ávanabindandi en nokkurt annað þekkt efni. Þegar einkaleyfi efnasamsetningar renna út og samheitalyf birtast, þá reyna frumlyfjaframleiðendur iðullega að tryggja sér einkaleyfi á frumheiti lyfsins, eins og Bayer gerði 1917 með aspirín. En þeir höfðu af eðlilegum ástæðum engan áhuga á að tengja nafnið heróín við fyrirtækið, þegar virkni þess kom í ljós, og sóttu ekki um einkaleyfi á heitinu, enda framleiðslunni fljóthætt.
Forvitnilegt þótti mér einnig að lesa að undir aldamótin 1900 höfðu menn töluverðar áhyggjur af því að fíllinn kynni að verða útdauður. Meginástæðan? Vinsældir billjard-íþróttinnar. Fílabein var svo sem notað í aðra smíði, t.d. sem yfirlag á hvítu nótum píanóa, en einkum var það eftirsótt í billjardkúlur, vegna hörkunnar og hins fullkomlega slípanlega yfirborðs. Það var ekki fyrr en 1907 sem fram kom hið harða plastefni Bakelite (uppfundið af belgísk-ættaða Ameríkananum Leo Baekeland), sem gat leyst fílabeinskúlur billjardsins af hólmi. Bakelite var einnig notað í margvíslega aðra framleiðslu og gerði uppfinningamanninn að milljónungi á svipstundu. Þeir sem muna eftir gamaldags símtækjum átta sig máske best á hvernig Bakelite-efnið er.
Á þennan hátt er Napoleon´s Buttons uppfull af sögulegum staðreyndum af efnafræðilegum toga, sem við fyrstu sýn kunna að virðast smávægilegar, en hafa í reynd breytt gangi sögunnar og mótað samfélög manna, í fortíð sem nútíð. Bókin er ekki beinlínis fræðirit, heldur ívið meira í líkingu við alþýðleg fræðirit og þótt efnafræðin virðist traust (og stundum nokkuð yfirþyrmandi), þá hafa fáeinar smávillur um sagnfræði ratað inn, einkum varðandi ártöl. Þannig er t.d. sagt að fyrsta svæfingin í læknavísindum hafi átt sér stað árið 1864, þegar réttara er að hún hafi verið 1846, og að Alexander mikli hafi sigrað Persa í orrustu árið 320 f.Kr., en hann lést þremur árum fyrr. Þessar villur eru fáar og smáar og að sjálfsögðu helst sýnilegar þeim, sem meiri þekkingu hafa á efninu. Þær lýta ekki að marki hinn skemmtilega heildarsvip verksins. Þvert á móti má segja að Napoleon´s Buttons sé bók, sem allir þeir er áhuga hafa á sagnfræði, jafnt fræðimenn sem leikmenn, ættu að lesa, þótt ekki væri nema sér til óblandinnar skemmtunar.
Bloggar | 19.5.2012 | 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þessi frétt úr Fréttablaðinu í morgun vakti athygli mína. Orðrétt birtist hún svona:
"Nemandi á efri stigum grunnskóla í Kiruna í Svíþjóð hefur verið dæmdur fyrir að hafa sparkað í kennara, barið hann og hótað honum lífláti. Kennarinn fær hins vegar engar bætur.Samkvæmt úrskurði undirréttar verða kennarar, eins og lögreglumenn og dyraverðir, að reikna með vissu ofbeldi og hótunum, að því er blaðið Norrändska Socialdemokraten greinir frá.
Nokkrir nemendur höfðu verið með læti í matsal síðasta haust og bar kennarinn einn út. Sá mótmælti á fyrrgreindan hátt."
Bloggar | 14.5.2012 | 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar