Færsluflokkur: Bloggar
Nú berast þær ánægjulegu fréttir utan úr heimi að endurgera eigi kvikmynd eftir hinni dásamlegu smásögu James Thurber, The Secret Life of Walter Mitty. Mun það vera sjálfur Ben Stiller, sem á heiðurinn að framtakinu, og ætlar sér hvoru tveggja, að leikstýra og leika aðalhlutverkið. Ef einhvern tíma hefur verið skrifuð smásaga, sem blása má upp í heila bíómynd, þá er það þessi. Auk þess, nú um mundir, þegar kynjabaráttan virðist fara harðnandi, hlýtur Thurber að eiga erindi við okkur öll - eða að minnsta kosti okkur karlana. Samt sé ég Stiller ekki alveg fyrir mér í titilhlutverkinu (sem Danny Kaye lék kostulega í gömlu filmútgáfunni). Þar hentar best litlaus leikari, lítt áberandi meðaljón, sem orðið getur frækinn garpur og sjarmatröll þegar aðstæður kalla á.
Reglulega - á um þriggja til fimm ára fresti, þegar mig langar til að hlæja upphátt - tek ég fram smásagnasöfnin tvö eftir Thurber sem ég á, The Beast in Me and Other Animals og The Thurber Carnival. Þetta eru mestmegnis smásögur, ritgerðir og hversdagsdæmisögur úr nútímanum. Annars birtust sögur af leyndarlífi ýmissa persóna í kringum 1940. Fáum árum á eftir Walter Mitty kom út hneykslunarverð sjálfsævisaga, The Secret Life of Salvador Dalí, þar sem katalánski listamaðurinn lýsti því stóryrtur hvers lags snillingur, undrabarn og ólíkindatól hann hefði verið verið allt frá fæðingu. Thurber var ekki lengi að henda þann bolta á lofti og skrifaði í kjölfarið kostulega háðsgrein/smásögu, The Secret Life of James Thurber, þar sem hann ber uppvöxt sinn í Ohio saman við æsku Dalís og þykir ævi sín heldur ómerkileg í samanburði við Katalánann fræga. Þessi grein/smásaga Thurbers er með því fyndnara sem hægt er að lesa. Eftirlætissögur mínar eftir þennan mergjaða grínista eru þó sennilega The Macbeth Murder Mystery, þar sem nýju ljósi er varpað á morð þeirra Duncans konungs og Banquo, og Bateman Comes Home, paródía á Suðurríkjasögur Erskine Caldwell (en hver man sosum lengur eftir Caldwell, frekar en Thurber?)
Bloggar | 11.5.2012 | 12:31 (breytt kl. 16:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Atarna! Þar hefur mér tekist það sem mörgum rithöfundum þykir svo skemmtilegt - að smíða nýyrði, samsett úr orðunum krassandi" og hressandi".
Annars er tilefni þessa pistils að bera blak af vesalings Hallgrími, sem fékk ærlega á baukinn í gær - og aftur í Morgunblaðinu í morgun. Vegna góðrar skáldsögu, Konunnar við 1000 gráður, bókar sem veitir fádæma innsýn í erfitt hlutskipti kvenna fyrr sem nú. En laun heimsins eru vanþakklæti og nú hefur mæðraveldið reitt hátt til höggs gegn skáldinu. Núna þarf að ritskoða höfundarskömmina, eins og nýlega var einnig stungið upp á varðandi þjóðskáldið, nafna hans. Ekki verður annað sagt en að þau tíðkist, breiðu spjótin, í bókmenntaumræðunni í dag, en skemmst er að minnast rithöfundar, sem ræddi um að afhausa afturhaldskerlingu" úr röðum gagnrýnenda, sem stóð sig ekki í stykkinu að hans mati. Er ekki bókmenntaumræða á Íslandi komin út á tún?
Ég veit að ýmsir, þar á meðal ég sjálfur, telja Hallgrím fremstan núlifandi íslenskra rithöfunda. En mæðraveldið skeytir þar engu um og veltir fyrir sér hvort mikilvægara sé að vera góður rithöfundur eða góð manneskja. Til samanburðar hafi Laxness jú oft notað raunverulegar lifandi fyrirmyndir að sögupersónum sínum, en ætíð farið mjúkum höndum um þær (Hannes Hólmsteinn Gissurarson sýnir þó kostulega í stuttri bloggfærslu á Pressunni.is að slík helgimynd af Laxness standist enga skoðun).
Dauðasök Hallgríms í Konunni við 1000 gráður er að hafa notað raunverulega konu til hliðsjónar við sköpun aðalsöguhetjunnar. Aldrei eitt augnablik, meðan ég las bókina, flaug mér í hug að líta á þær sem eitt og hið sama, raunverulegu konuna og sköpunarverk höfundarins. Það liggur í eðli alls skáldskapar að hann styðst við einhvern veruleika, en jafnframt og um leið að hann víki frá þeim veruleika. Ef lesendur - jafnvel fræðimenn - eru svo skyni skroppnir að sjá ekki þennan greinarmun á veruleika og skáldskap, þá hlýtur að vera afskaplega illa komið fyrir bókaþjóðinni.
Ekki veit ég hvort gagnrýni kvenna- og kynjafræðinga á bókina Kona við 1000 gráður skili nokkru vitrænu fyrir bókmenntaumræðu í landinu. En vonandi verður hún til þess að sem flestir lesa bókina til að móta sér sjálfstæða skoðun. Þá held ég að ýmsir sjái að þetta er býsna góð bók.
Til að vitna í lokin í Konuna við 1000 gráður: Fátt er svo illt sem vondra manna gæska." Og ef menn vilja hneykslast á einhverju í bókinni (sem ég geri ekki), þá sting ég upp á að þeir byrji á Lone Bang.
Bloggar | 4.5.2012 | 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Undangengið ár eða svo hefur fyrir hendingu rekið á fjörur mínar ritasægur um helförina og seinni heimsstyrjöld. Síðastliðið haust endurlas ég tvær klassískar bækur, Söguna sem ekki mátti segja, minningar Björns Sv. Björnssonar í skráningu Nönnu Rögnvaldardóttur, og Býr Íslendingur hér?, minningar Leifs Müller í skráningu Garðars Sverrisssonar. Um jólin lá ég yfir Konunni við 1000 gráður eftir Hallgrím Helgason, sem gerist að 2/3 hlutum á styrjaldarárunum og nýlega ritrýndi ég skáldsöguna Þjófaborg eftir David Benioff, um umsátrið um Leningrad árið 1942. Og fyrir fáeinum dögum skolaði enn einni stríðsfrásögninni í arma mér. Þar voru á ferð Mennirnir með bleika þríhyrninginn.
Bókin sú arna hefur reyndar ekki komið út á íslensku og las ég hana á ensku, The Men with the Pink Triangle, en á frummálinu, þýsku, heitir hún víst Männer mit dem rosa Winkel. Hér er um að ræða átakanlega sögu austurrísks homma, sem lifði af stríðið í fangabúðum nasista og úr varð nánast tvöfaldur harmleikur í býsna mergjuðum kokkteil helfarar og hómósexúalisma. Í Þriðja ríkinu taldist samkynhneigð karla nefnilega glæpur, og hafði reyndar haldist svo, lögum samkvæmt, í Þýskalandi allt frá sameiningu ríkisins 1871, þótt ekki væri gripið til jafn grófra refsinga fyrr á tímum. Í Weimar-lýðveldinu (forvera Þýskalands nasismans) á 3. áratug 20. aldar hafði reyndar hvergi í Evrópu réttindabarátta samkynhneigðra verið lengra á veg komin en einmitt þar á bæ og bar mest á hinum merka Dr. Magnus Hirschfeld. En þegar nasistar komust til valda, máttu þeir vart heyra minnst á þessa úrkynjun" og hófu snemma að safna lögregluupplýsingum um homma og hófu handtökur þeirra töluvert fyrir stríð, samkvæmt 175. paragraffi hegningarlaga, og voru hommarnir þá kallaðir 175er. Skipti litlu hvort menn voru af virtum eða merkum ættum, þótt hinir ríku hefðu frekar tækifæri til að kaupa sér flótta úr landi, en höfundur Mannanna með bleika þríhyrninginn var ungur Austurríkismaður, 22 ára háskólastúdent við Vínarháskóla, kaþólikki kominn af víðsýnu menntafólki. Hann skrifaði undir dulnefninu Heinz Heger og bókin kom út í Þýskalandi 1971, meðan enn ríkti að mestu bannhelgi á málefnum samkynhneigðra.
Strax í mars 1939, nánast sléttu ári eftir Anschluss, var Heger boðaður til yfirheyrslu í höfuðstöðvar Gestapó í Hótel Metropol í Vín. Eftir það var honum ekki sleppt lausum. Ástæðuna fyrir því að honum var hratt og snöggt kippt úr umferð taldi hann vera að hann hafi átt í ástarsambandi við þýskan son háttsetts nasista, sem hann nefnir Fred X. Þaðan í frá var saga hans ein samfelld þrautarganga og helvítisvist. Í fyrstu var látið að því liggja að hann yrði fangelsaður til 6 mánaða. En að þeim tíma liðnum var honum ekki sleppt, eins og hann hafði gert sér vonir um, og í staðinn var hann sendur í fanga-/vinnu-/einangrunarbúðir til Sachsenhausen nærri Berlín í ársbyrjun 1940 og var þar um nokkurn tíma. Flaug mér í hug að hann hefði getað rekist þar á Leif Müller, en í fljótu bragði sýnast þó tímasetningar ekki standast, því að brátt var Heger sendur til Flossenbürg sunnar í Þýskalandi, ekki fjarri Bayreuth, þar sem hann dvaldi til stríðsloka.
Lýsingarnar á hörmungunum eru óhugnanlegri en orð fá lýst. Í búðunum voru allir fangar merktir með allstórum lituðum þríhyrningi, einum á brjósti og öðrum á skálm, svo að þeir væru auðþekkjanlegir úr fjarlægð fyrir brot" sín. Gyðingarnir báru gulan þríhyrning, pólitískir fangar rauðan, ótíndir glæpamenn grænan, sígaunar brúnan, and-þjóðfélagslegir" svartan og Vottar Jehóva fjólubláan. Og hommarnir báru bleikan þríhyrning - en frá þessu flokkunarkerfi nasismans mun það sprottið að samkynhneigðir hafi gert bleikan þríhyrning að tákni sínu. Gyðingunum var haldið út af fyrir sig, en ásamt sígaununum komu hommarnir næstneðst, misnotaðir á alla vegu, andlega og líkamlega, fyrirlitnir af öllum meðföngum sínum. Fyrstu vikunni í Sachsenhausen vörðu þeir illa klæddir í að bera snjó frá morgni til kvölds með berum höndum um hávetur, úr skafli við aðra hlið á hlaðinu fyrir framan skála sinn yfir til hinnar hliðarinnar. Og síðan aftur til baka. Þetta þjónaði þeim tilgangi einum að brjóta þá niður. Síðan voru þeir látnir erfiða í "leirpyttinum" ásamt þúsundum annarra fanga, við að moka leir úr gryfju í vagna, sem ýtt var upp brattann í átt að ofnum, þar sem brenndur var leirsteinn úr hráefninu. Margir fórust úr kulda og vosbúð, aðrir limlestust hræðilega, þegar þá þraut þol við að ýta upp þungum vögnum, svo að vagnarnir runnu yfir þá með tilheyrandi örkumlum. Sumir létu sig slasast, til að komast á sjúkrastofuna, en þeir sáust yfirleitt ekki aftur, heldur voru notaðir í "læknisfræðilegar vísindatilraunir". Ekki máttu vinnandi fangar fara nær gaddavírsgirðingu búðanna en sem nam fimm metrum og allt innan þess var túlkað sem flótti, en SS-varðliðarnir reyndu að ginna fanga inn fyrir þau mörk til að skjóta þá, því að SS-maður fékk þriggja daga leyfi frá búðunum fyrir að stöðva flóttamann.
Eftir nokkra mánuði í leirgryfjunni var Heger og fleiri hommum falið það verk að byggja upp æfingarbraut og hóla fyrir skotæfingar SS-foringja. En þeim brá heldur betur í brún, þegar þeir áttuðu sig á því að við vinnuna voru þeir sjálfir lifandi skotmörk, foringjunum til skemmtunar, og allmargir þeirra féllu. Heger lærði fljótt að eina leiðin til að lifa af þetta helvíti var að gerast ástmaður hjá einhverjum Capo, sem voru e.k. verkstjórar vinnuflokka fanganna, en Capo-arnir gátu verið jafnvel harðari við fangana en SS-verðirnir, því að þeir þurftu að sýna sig og sanna. Heger var ásjálegur og aðlaðandi - það verður honum til lífs. Hvað eftir annað kemur fram í bókinni að hinir eðlilegu" gagnkynhneigðu (þeir eru nefndir svo, the normal") voru fyrirlitlegir hræsnarar; þeir stunduðu kynlíf óhikað með sama kyni og réttlættu það með kvenmannsskorti í búðunum, en atyrtu og smánuðu á sama tíma sérhvern 175er með bleikan þríhyrning fyrir ónáttúru". Oft voru það grænir þríhyrningar - ótíndir glæpamenn - sem urðu Capo-ar vegna harðneskju sinnar og hrottaskapar, en þessir morðingjar, nauðgarar og barnaníðingar töldu sig samt hátt hafna yfir hommana, sem ekkert höfðu til saka unnið annað en að fylgja kynhneigð sinni.
Dvölin í Flossenbürg verður litlu skárri en í Sachsenhausen, a.m.k. framan af. Í fjallshlíðum þar var að finna steinnámur og þar þrælaði Heger í fyrstu, en komst fljótt undir verndarvæng sem ástmaður eins Capo, sem útvegaði honum e.k. skrifstofustarf. Capo-inn sá um sinn ástmann og tryggði honum hið mikilvægasta - aukaskammt af mat - en varð í staðinn að treysta á þagmælsku hjásvæfunnar, því að ekki má fréttast að viðkomandi væri gefinn fyrir sama kyn. Hvarvetna í búðunum og í bókinni blasa við mótsagnir, hræsni og tvöfalt siðgæði. Þetta er í reynd samfélag þar sem sterkasta ljónið sigrar, en refir geta með kænsku komist af. Heger kunni að láta lítið fyrir sér fara, en varð vitni að hroðalegum pyntingum, fyrst hjá sadistískum SS-búðarstjórnanda, sem var viðstaddur húðlát og fróaði sér í gegnum buxnavasana meðan hinn húðstrýkti fangi taldi upphátt eigin svipuhögg, sem hann fékki á bak, rass og lendar (ef talningin heyrðist ekki, þá taldist höggið ekki með). Næsti búðarforingi reyndist litlu skárri; hann var að vísu ekki kynferðislegur öfuguggi, en hann gerði hvað sem hann gat til að finna að hjá föngum. Lagðist hann t.d. niður á fjóra fætur í fangasvefnsalnum og skreið undir rúm í leit að rykkorni, svo að refsa mætti heimilismönnum fyrir óhreinlæti. Var hann því uppnefndur Rykpokinn" og er aldrei nefndur öðru nafni, en það virkar sem einn ágalli bókarinnar að persónur eru nánast aldrei kallaðar annað en viðurnefnum, ekki raunverulegum nöfnum. En hafa verður hugfast að Heger skrifaði bókina 25-30 árum eftir hörmungarnar og þá mátti búast við að ýmsir úr hópi þessara fúlmenna væru enn á lífi, en nær óhugsandi að vitnisburður homma dygði til að sakfella þá.
Nóg annað drífur á daga Hegers, sem í frásögur er færandi úr þessari stuttu bók. Sjálfviljugar vændiskonur" komu til búðanna, en þetta voru konur sem höfðu gengist inn á þetta hlutverk til að forðast einhver óljós verri örlög. Flestar voru þær af gyðingaættum og þeim var heitið frelsi, ef þær sinntu þessu hlutverki í sex mánuði, en vissu ekki að þær yrðu að þeim tíma liðnum sendar í útrýmingarbúðir. Þessar ógæfusömu konur voru tekjulind þeirra SS-foringja, sem fluttu þær í búðirnar - þegar þarna er komið er aðframkomnum föngum leyft að eiga fáein mörk og þeir voru reiðubúnir til að greiða fyrir þjónustuna - en einnig áttu vændiskonurnar" að nýtast til að afhomma hommana, sem leiddir voru upp á þær. Búðarstjórinn sjálfur lét bora göt í vegginn svo hann gæti gægst inn og fylgst með. Þegar Heger sjálfur lét ekki fallerast - eftir fyrsta skiptið borgaði hann öðrum manni, gagnkynhneigðum, til að fara í sinn stað og sá greip tækifærið óðfús - komst hann í ónáð hjá yfirmanni búðanna, sem virtist hafa í sigti að senda hann í útrýmingarbúðir, en maður gekk undir manns hönd í kerfinu til að hjálpa Heger, sem á þeim tímapunkti var sjálfur orðinn Capo vegna dugnaðar síns (eini Capo-inn með bleikan þríhyrning) og skipanir komu frá æðstu stöðum um að honum skyldi haldið í búðunum.
Dæmalaust ógeðfelld er lýsing þegar nokkrir strokufangar voru hengdir um jólaleytið og látnir hanga þar yfir hátíðirnar hjá hinu stóra jólatré búðanna, eins og afkáralegt og óafmáanlegt jólaskraut í minni Hegers ...
Og svo framvegis. Hér er bara fleyttur rjóminn af þeim viðurstyggilegu lýsingum sem er að finna í sögunni. Nú er það svo að Mennirnir með bleika þríhyrninginn verður seint talin skemmtilesning eða stórkostlegt bókmenntaverk. Þetta er lýsing, skráning, dokúmentasjón þess sem vill lifa af, þarf oft að leggjast lágt til þess og leynir engu um þau efni. En bók þessi er merkur minnisvarði um þá hryllilegu samfélagsskipan sem nasisminn var og ætti að vera komandi kynslóðum til viðvörunar um að slík hugmyndafræði megi aldrei hreiðra um sig að nýju. Og sagan er einnig og ekki síður minnisvarði um þá mannfyrirlitningu sem gekk niður eftir virðingarstiganum í fangabúðunum, þar sem fangar tróðu hverjir á öðrum af ekki síðri skepnuskap en SS-böðlarnir, allir í von um að það mætti verða þeim til lífsbjargar. Þessi bók veitir sjaldgæfa og djúpa innsýn í myrka sálarkima mannskepnunnar.
Bloggar | 27.4.2012 | 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggar | 26.4.2012 | 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Er til kraftmeiri söguþráður en sendiför fáránleikans, í kapphlaupi upp á líf og dauða, í borg umsetinni af skæðasta óvini allra tíma, nasistum, þar sem byssukúlur þjóta með hvin um eyru og sprengjur jafna heilu fjölbýlishúsin við jörðu, um hávetur þar sem frostið klípur af manni tærnar og ösla þarf snjó upp að kvið, þar sem hungurvofan vokir yfir söguhetjum sem og milljónum annarra, þar sem öll aðföng eru af skornasta skammti, menn sjóða bókakili til að fá prótein úr líminu og þeir örvæntingarfyllstu leggjast í mannát?
Snemma í umsátrinu um Leníngrad, í janúar 1942, gerist Lev Beníoff, 17 ára unglingur af Gyðingaættum, sekur um að stela öndvegishníf af þýskum fallhlífarhermanni, sem fallið hefur til jarðar að næturlagi nálægt húsi hans. En líkþjófnaður er dauðasynd í hinni umsetnu borg, Lev er gómaður og honum varpað í fangelsi, þar sem hann bíður dauðadóms. (Hér flaug mér í hug hvort um vísun gæti verið í Dostoíevskí, sem einnig var dauðadæmdur, en náðaður af keisaranum (sjálfum Nikulási I., minnir mig!) á elleftu stundu.) Í fangavistinni kynnist Lev ungum myndarlegum manni, Kolja að nafni, sem einnig á yfir höfði dauðarefsingu sem meintur liðhlaupi.
En þeir fá óvæntan - og nánast bókstaflegan - gálgafrest þegar ofursti nokkur, nógu háttsettur og virtur til að geta veitt fullt ferðaleyfi um borgina, felur þeim að útvega egg fyrir aðsteðjandi brúðkaup dóttur sinnar - í borg þar sem engin egg er að finna. Dóttirin vill fá sína brúðkaupstertu, eins og brúðir eiga að fá, og pabbinn vill auðvitað gera veisluna dótturinni eftirminnilega. Reyndar segist hann bara þurfa tíu egg, en gera þurfi ráð fyrir að eitt gæti verið fúlegg og auk þess að eitt gæti brotnað við leitina. Til að útvega eggin hafa þeir kompánar fimm daga.
Þetta er bara upphafið að bókinni Þjófaborg eftir David Benioff. Síðan berst svaðilförin út um víðan völl, um alla borgina, út fyrir hana og jafnvel handan við víglínuna. En best er að segja lítið um söguþráðinn, því að hann gengur afar hratt fyrir sig og tekur ítrekað óvæntar beygjur og kúvendingar. Stóra vandamálið er þetta: Hvernig má finna eitt dúsín af eggjum í matarlausri borg?
Skemmst frá að segja er þetta bráðskemmtileg saga. Hún minnir um margt á kvikmyndahandrit, enda ku höfundurinn eiga bakgrunn sinn að einhverju leyti í handritagerð (hann er eiginmaður filmstjörnunnar Amöndu Peet), en tengsl við Hollywood þurfa ekki að vera löstur; umfram allt er Benioff afar flinkur sögumaður. Hvað eftir annað dáðist ég að því hve bitastæð bókin er; þarna er hlátur, grátur, hryllingur, pyntingar, hugrekki, hetjudáðir, ástir, líf og dauði. Og saga um þroska og mótun vináttu.
Til að knýja hraða og spennu í söguþræði þarf knappan stíl og þess gætir vissulega hér. Eigi að síður leyfir höfundur sér hvað eftir annað að doka við til að varpa ljósi á hinar hörmulegu og ógleymanlegu aðstæður fólks í borginni. Og í miðri þessari mannlegu eymd dregur höfundur einnig upp ljóslifandi mynd af hinu merka menningarlífi borgarinnar: Majakovskí er að vísu dauður fyrir nokkru, en Mandelstam er hneykslunarhella og Akhmatova hefur komið sér frá borginni í öruggt skjól; Sjostakóvitsj, höfundur frægasta og merkasta listaverks tengdu umsátrinu, fær sínar pillur og skáklistinni er gert hátt undir höfði. Vísanir eru í allar áttir: Þannig býr Lev í upphafi í Kírov-byggingunni, sem kennd er við Sergei Kírov kommúnistaleiðtoga, en morðið á honum (mögulega fyrirskipað af Stalín) seint á árinu 1935 markaði upphafið að hinum frægu hreinsunum og Moskvuréttarhöldum, þar sem Stalín losaði sig við alla keppinauta, ímyndaða og raunverulega. Sagan um Húsagarðsrakkann, sem gengur eins og rauður þráður í gegnum bókina, er einnig ógleymanleg; minnir á hina epísku rússnesku skáldsögu með dálitlum skringilegheitum, en á sér samt sérstæðan uppruna.
Þegar upp er staðið er ég alveg hissa á því hversu mikið efni er að finna í skáldsögu, sem gengur út á hraða frásögn. Oftast er svo að maður les ekki spennubækur tvisvar, en þessa get ég hugsað mér að lesa að nýju. Ef til vill ekki alveg jafn safarík eins og Nafn rósarinnar, en þó býsna mergjuð bók. Merkilegt þótti mér, og þó kannski ekki, að Bandaríkjamaður skyldi hafa skrifað Þjófaborg, því að andinn er að mestu evrópskur - eða jafnvel rússneskur. Lýsing á staðháttum er ansi hreint sannfærandi og heimildavinnan lýtalaus, að því marki sem ég fæ dæmt. Eini ljóðurinn, sem ég kom auga á, eru hraðsoðin blótsyrði, sem virtust klippt beint út úr amerískum samtíma. Vafalítið áttu Rússar í seinni heimsstyrjöld sitt mergjaða blót og ragn, en ég efast einhvern veginn um að það hafi verið, eins og segir í bókinni Þjófaborg: Sjúgðu tittlinginn á mér."
Enga misfellu finn ég á þýðingu Jóns Halls Stefánssonar á Þjófaborginni; hún rennur áfram sem bráðið smér mjúk undir tungu, lipur, læsileg, orðskrúðug og fjölbreytt í málfari. Megi hann hafa þökk og heiður fyrir.
Að tillögu Sverris Norlands er ég hættur að gefa bókum stjörnur, en hef í staðinn einfaldlega þetta að segja um Þjófaborg eftir David Benioff: Þetta er skrambi mögnuð og skemmtileg lesning, sem ég sé ekki eftir að hafa varið tíma til - og á líklega eftir að sólunda tíma mínum í að nýju.
Bloggar | 13.4.2012 | 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggar | 30.3.2012 | 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á æskuheimili mínu á 7. áratugnum var einvörðungu að finna eina þýdda skáldsögu frá Rómönsku-Ameríku, en það var Forseti lýðveldisins eftir Nóbelsskáldið Asturias, og las ég hana eins og aðrar bækur spjalda á milli, þótt skilningurinn væri af skornum skammti, enda frétti ég síðar að sagan væri skrifuð í anda súrrealisma; samt áttaði ég mig mætavel á að hún fjallaði um einræðisherra og illa meðferð frumbyggja, eins og ég átti eftir að finna út að væri viðfangsefni margra verka frá þessum heimshluta, þótt næsta bók af þessum toga sem ég las, sem var Suðrið, úrval smásagna eftir Jorge Luis Borges í þýðingu Guðbergs Bergssonar, væri ekki að öllu leyti jafn staðbundin, þótt hún væri mun meira heillandi, og enn síðar, þegar kom fram á 8. áratuginn, las ég ýmislegt svipaðs eðlis, til dæmis bók er hét Ástin og dauðinn við hafið eftir Jorge Amado og mér þótti ekki skemmtileg, sem og Hundrað ára einsemd eftir Garcia Márquez, margfalt skemmtilegri, og loks hina makalausu skáldsögu Græna húsið (sem ég las reyndar í enskri þýðingu sem The Green House, en ku heita á frummálinu La casa verde) eftir Mario Vargas Llosa, sem opnaði mér heila heima og ómælisvíddir hvað stílbrögð varðaði, en fjallaði einnig (ásamt ýmsu fleiru) um hernað og meðferð á frumbyggjum, og í kjölfarið fór ég að lesa enskar þýðingar á verkum Alejo Carpentier, Pablo Neruda og Octavio Paz, auk heildarsafns verka Borgesar, held ég, enda hefur hann löngum verið höfundur, sem heillað hefur mig, þar sem hann kann að vísa lesendum veg inn í völundarhús orðanna, en á 9. áratugnum læsti ég tönnunum í efni frá þessum heimshluta, sem mér þótti jafnvel enn safaríkara, þegar ég komst í hinar hnausþykku skáldsögur Manuel Mujica Lainez, Bomarzo og Horn einhyrningsins (The Unicorn's Horn), sem eru þó að mörgu leyti evrópskar í eðli sínu, og um svipað leyti fór að koma út nokkur hrúga skáldsagna frá Rómönsku Ameríku, sem ég las jafn óðum, eins og Pantaleón og sérþjónustan eftir Vargas Llosa og Liðsforingjanum berast engin bréf og Ástin á tímum kólerunnar eftir Garcia Márquez, auk bóka eftir Isabel Allende og Lauru Esquivel, svo sem Hús andanna og Kryddlegin hjörtu, svo að kvenpeningnum sé nú líka haldið til haga, en eflaust er hellingur af rómansk-amerískum bókum sem ég hef lesið, en gleymi hér, þótt ég játi fúslega að ég hef ekki enn komist svo langt að sökkva mér ofan í Roberto Bolaño, sem er ein fremsta költ-fígúra bókmenntaheimsins síðustu ára og allir segja að sé algjört möst.
Nýlega rak á fjörur mínar skáldsöguna Fásinnu eftir jafnaldra minn, mið-ameríska skáldið Horacio Castellanos Moya, í prýðisgóðri þýðingu Hermanns Stefánssonar. Því kalla ég Castellanos Moya mið-amerískan" að hann ku fæddur í Hondúras, uppalinn í El Salvador og hefur búið í fleiri löndum Mið-Ameríku, ásamt því að vera hálfpartinn landflótta með íveru sinni á Vesturlöndum, til dæmis í Þýskalandi, Kanada og Bandaríkjunum. En Castellanos Moya skrifar á spænsku og viðfangsefni ritverka hans mun að stofni til sótt á heimaslóðir hans í Mið-Ameríku; svo er að minnsta kosti í Fásinnu.
Skáldsaga þessi er ekki mikil að vöxtum, einvörðungu 124 bls., en leynir þó á sér, því að segja má að textinn sé þindarlaus og þrýsti sér út í sérhvert ónotað rými, án greinaskila og án hefðbundinnar samtalsuppsetningar. Þetta var því meira eins og að lesa 200 blaðsíðna bók: Textinn er svo þéttur og stíllinn með því móti að hann kallar margoft á afturlit og endurlestur. Ef lýsa ætti stíl Fásinnu í sem fæstum orðum, dygðu sex orð: Margar kommur, fáir punktar, varla greinaskil." Til að gefa dæmi um þennan stíl setti ég efsta hluta þessa ritdóms upp í þeim anda. Að sama skapi minnir stíllinn á vissa hluta Græna hússins eftir Vargas Llosa með viðstöðulitlu hugsanastreymi sínu.
Að efni til er Fásinna ekki flókin ritsmíð. Atburðarásinni mætti lýsa svo: Ónefndur rithöfundur er ráðinn til ónefnds Mið-Ameríkuríkis til að prófarkalesa 1100 blaðsíðna skýrslu um þjóðarmorð, sem her og leyniþjónusta hafa framið allnokkru (líklega 17 árum) fyrr, á indíánaættbálki í landinu, Rithöfundurinn lendir síðan í allnokkrum ævintýrum meðan á yfirlestrinum stendur, einkum máske kvennafari, en virðist einnig hafa (eða telur sig hafa) ástæðu til að óttast um líf sitt.
Fásinna er saga mikilla andstæðna. Öðrum þræði er hið hversdagslega líf rithöfundarins, með drykkju, veislum og kvennafari, en hins vegar eru hinar hrottafengnu lýsingar á voðaverkum gagnvart indíánunum, sem vart verður með orðum lýst, en þær lýsingar einar og sér gera bókina nauðsynlega að lesa hana - jafnvel þótt manni verði óglatt af. Rithöfundurinn verður heltekinn af einstaka setningum úr vitnisburðum hinna fábrotnu indíána, sem ganga eins og leiðarstef bókina á enda - alveg sláandi sannindi í einfaldleik sínum. Öll ytri umgjörð sögunnar - fjöldamorðin, launungin um skýrslugerðina, andrúmsloftið í borginni og landinu - virkar einkar sannfærandi.
En að sama skapi er sjálf aðalsöguhetjan ekki ýkja trúverðug: Rithöfundurinn sem táldregur kvenfólk vinstri hægri er um leið neurótískari en Woody Allen. Sveiflur hans frá eðlilegri líðan" yfir í skelfilegustu örvæntingu eru afar ýktar og þótt það virðist hugrekki fólgið í því að leggja skýrslugerðinni lið, þá reynist rithöfundurinn hafa óttalegt músarhjarta. Sérstaklega verður ofsóknaræðið uppáþrengjandi þegar á líður og þá glatar söguhetjan trúverðugleika, verður pirrandi og pirraður, sem skilar sér í gegnum stílinn, svo að álykta má að það sé ætlan höfundar að skapa fremur illþolanlega lykilpersónu. Sem bókmenntaleg heild hangir Fásinna vel saman - hún á sér upphaf og viðunandi endalok - og stendur vel fyrir ofan meðallag. En hún er ekki stór í sniðum og inniheldur dyntótt óróleikaelement, sem draga að mínum dómi úr gildi hennar. Þess vegna myndi ég gefa henni þrjár og hálfa stjörnu af fimm mögulegum og á köflum má hún jafnvel fá fjórar.
Vert er þó að geta hinnar frábæru þýðingar Hermanns Stefánssonar, en texti hans streymir áfram áreynslulaust, á blæbrigðaríku, auðugu og trúverðugu máli svo að oft var unun að lesa. Er ekki að undra að hann skuli hafa verið tilnefndur til þýðingarverðlaunanna árið 2011. Þó getur kverúlant eins og ég alltaf fundið eitthvað smávægilegt að hnýta í; þannig held ég að skápur úr sítrusviði (bls. 101) hljóti að eiga að vera úr sedrusviði - sem óþarft er að rugla saman við sítrusávexti. Að sama skapi finnst mér ekki hljóma vel að kvenkenna orðið dúsín" og tala um hálfa dúsínu lífvarða" (103); þótt þetta töluorð sé í kvenkyni á spænsku, þá held ég að málhefðin sé fyrir að nota það í hvorugkyni í íslensku, enda úr dönsku komið þangað. Einnig þótti mér ankannalegt að heyra söguhetjuna tala um að hann væri að hlýða á dulsmál" (103), þegar hann hlerar mál manna sem ræða í hálfum hljóðum um leyndarmál; samkvæmt málhefðinni þýðir dulsmál laumuspil við fæðingu ófeðraðs barns og væntanlega komið inn í málið frá tímum Stóradóms. Betra hefði verið að ræða um launmál" hér. En það er fyrir slík sárasjaldgæf smáatriði að ég veigra mér við að gefa þýðingu Fásinnu fullt hús; þýðingin er upp á fjórar og hálfa stjörnu af fimm. Einn rækilegur yfirlestur til viðbótar hefði kórónað verkið.
Bloggar | 16.3.2012 | 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Jæja, þá er maður búinn að renna yfir veðbókarvottorð þingmanna á svipan.is og þetta er - með öllum fyrirvörum - afar upplýsandi. Sérstaklega kom fasteignalánastaða tveggja verulega á óvart - ég nefni ekki hverra. Þó ber að nefna að allnokkra þingmenn vantaði - ætli það hafi ekki verið þriðjungur eða fjórðungur?
Þetta er þakkarvert framtak - í samræmi við kröfuna um gagnsæi og eðlilegt upplýsingaflæði. Hið íslenska Wikileaks. Einhverjir eiga þó væntanlega eftir að kveinka sér undan.
Bloggar | 1.3.2012 | 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fávitavæðingin á sér fá takmörk.
Nú hefur komið á daginn að kveðskapur, sem Halli Pé bangaði saman fyrir þúsaldarþriðjungi, reynist nútímanum þjóðhættulegur, einkum ef honum er útvarpað.
Látum vera að mér þyki þetta ekki rismikill kveðskapur - einhverjum öðrum kann vel að líka hann. Auk þess er 65 ára hefð fyrir útvarpsflutningnum og hefðir ber að virða, svo fremi þær valdi ekki beinu mælanlegu tjóni.
Því geri ég eftirfarandi að uppástungu minni: Að Passíusálmar verði áfram fluttir í útvarpi á lönguföstu, en til að þóknast pólitískt réttþenkjandi öflum í samfélaginu, sem og hlutaðeigandi klaksárum útlendingum, verði "blípað" yfir á þartilgerðum stöðum, eins og í gamla daga var gert yfir dónaleg orð. Þannig mætti rota margar flugur í einu fallbyssuskoti: RÚV sýndi framfararhug, bókmenntaverkið gengi í endurnýjun lífdaga og kveðskapurinn fengi á sig póst-módernískan eða jafnvel framúrstefnulegan blæ.
Bloggar | 24.2.2012 | 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Viðeigandi er að Hin íslensku bókmenntaverðlaun árið 2011 í flokki fræðirita skuli hafa fallið í skaut Páli Björnssyni fyrir sagnfræðiverkið Jón forseti allur? Bókin kom út á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar sem enn einn steinninn ofan á þá hofbyggingu frelsishetjunnar, sem reist hefur verið á löngum tíma. Styrkur bókarinnar liggur tvímælalaust í hinu nýstárlega sjónarhorni, þar sem rakin er saga Jóns í eftirlífinu, eftir andlátið. Sumpart er þetta sagnfræði, sem birst hefur brotakennt áður í bókum og blöðum, en aldrei hefur henni mér vitanlega verið safnað saman svo skipulega á einn stað.
Verkið er ekki endilega til þess unnið að fá menn til að samþykkja mikilfengleik Jóns forseta - ef einhver skyldi dirfast að efast um hann - heldur er hér fremur fjallað um elju eftirlifenda við að halda merki hans á lofti. Mér sýnist framlag Tryggva Gunnarssonar eitt og sér hafa ráðið úrslitum - meðan Jón var enn á lífi beitti Tryggvi sér fyrir stofnun Þjóðvinafélagsins utan um stefnu forsetans, sem og að Þjóðvinafélagið setti Jón á föst laun 1874 og að Landsjóður tæki þær greiðslur yfir 1875. Enn mikilvægara er frumkvæði Tryggva að því að fara til Englands og fá þar, með aðstoð Eiríks Magnússonar, aflétt veðböndum, sem hvíldu á handrita- og bókasafni Jóns Sigurðssonar vegna órituðu Íslandssögunnar fyrir George Powell, sem og að stofna sjóðinn Gjöf Jóns Sigurðssonar við andlát forsetans og kaupa upp á eigin spýtur ýmsa persónulega muni Jóns og færa Íslendingum að gjöf, ásamt því að hafa frumkvæði að því að reistur var bautasteinninn yfir Jón 1881. Tryggvi virðist m.ö.o. höfuðsmiðurinn að minningu Jóns og mætti velta fyrir sér hvernig henni væri komið, ef hans hefði ekki notið við.
Frásagnir af þessum atburðum gera sig með miklum ágætum í riti Páls, ásamt tilraunum Þorláks O. Johnsen til að hetjuvæða Jón frænda sinn Sigurðsson. Nokkuð kemur á óvart það rof, sem varð í sköpun þjóðhetju á árunum 1887-1902, en á þeim tíma stóð vitaskuld endurskoðunarbaráttan sem hæst og Dönum virtist ekki um neitt hnikað. Þótt Benedikt Sveinsson hefði á sinni tíð verið pólitískur andstæðingur Jóns, meðan báðir lifðu, þá voru ýmsir sem sáu hann að Jóni látnum sem hinn nýja leiðtoga og kann það að útskýra minnkandi vægi Jóns á þeim tíma. En um leið og losnaði um hnútinn í deilunum við Dani og heimastjórn virtist í höfn árið 1902 flæðir hetjudýrkunin fram af endurnýjuðum krafti og fer vaxandi fram til 1911, með hámarki í þáverandi afmælishátíð, sem og öllu bröltinu í kringum styttusmíð Einars Jónssonar, sem rakið er í þaula í bók Páls. Sjálfum þóttu mér þetta skemmtilegustu kaflar bókarinnar, frá lokum 19. aldar og upphafi 20. aldar. Seinni helmingur bókarinnar fer víðar yfir sviðið, hvernig Jón hefur verið notaður á fjölbreyttan hátt til framdráttar margvíslegum málstað - oft sem söluvara. Einna fyndnust finnst mér sú arfavitlausa umræða um hvort Jón Sigurðsson hafi verið Evrópusinni eða ekki, en báðar fylkingar hafa reynt að eigna sér hann. Hvort var Jón Sigurðsson þjóðernissinni eða alþjóðasinni? Svarið er vitaskuld: Hvort tveggja - og auk þess barn síns tíma á þann hátt að hann verður ekki rifinn úr samhengi og plaseraður inni í nútímadeilum á einhvern simplan hátt.
Sagnfræði Páls Björnssonar virðist að öllu leyti traust. Dálítið þurr, stíllinn, kynni einhver að segja, en bitastæðasta efnið, með túlkunum og vangaveltum, má oft finna í neðanmálsnótum, tilvísunum og athugasemdum, sem ná yfir 40 blaðsíður, en þar sleppir höfundur frekar af sér beislinu í viðbótarfróðleik. Myndefni bókarinnar, frágangur og prentun á hágæðapappír er að öllu leyti til fyrirmyndar. Þar sem ég hef ekki lesið og vart nema gluggað í sum hinna fræðiritanna, sem tilnefnd voru til bókmenntaverðlaunanna, get ég ekki dæmt um hvort þessi bók hafi staðið þar fremst. Hitt veit ég að mér finnst afar mikill fengur að henni.
Bloggar | 13.2.2012 | 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar