Færsluflokkur: Bloggar
Eins og ég hafði ætlað mér, las ég á jólanótt nokkra fyrstu kaflana í hinni stórgóðu bók Mensalder eftir Bjarna Harðarson. En á jóladag renndi ég yfir skemmtilegt, stutt og eigulegt kver, Nota bene; Latína á Íslandi eftir Jón R. Hjálmarsson. Bókarkorn Jóns hefur að geyma stutta sögu latínukennslu og -notkunar á Íslandi, ásamt með helstu skammstöfunum úr því máli, þekktustu orðatiltækjum og spakmælum, merkingu mannanafna úr latínu (og fleiri fornmálum) og ýmsan annan fróðleik. Þótt margt væri mér vel kunnugt af efninu, þá var annað það ekki, og las ég mér til yndisauka. Ekki þótti mér síst varið í lokakaflana, sem fjalla um latínunotkun tengda þjóðsögum, um Sæmund fróða og óvættina Nadda.
En það sem gerir þó Nota bene; Latína á Íslandi að svo eigulegum grip er einkar vandaður frágangur við útgáfuna - langt er síðan ég hef handleikið svo fallega bók. Forsíðumyndin er yfirlætislítil og þó lýsandi fyrir efnið (rómverskt öldu-mósaik), með texta á fegursta latínuletri (með hástöfum einum). Spjöldin eru silkimjúk viðkomu, á saursíðu er að finna EX LIBRIS-merki og pappírinn er þykkur og áferðargóður, prentunin frábær og textinn fær að anda. Þess utan er hver síða skreytt með munsturbekkjum efst og myndskreyting fáguð og minimalisk. Svo fagurt bókverk er sjaldséð í seinni tíð. Hafi Suðurlandsútgáfan þökk fyrir.
-----
Annars er ég þessa dagana að lesa Þorleifs þátt jarlaskálds (búinn) og Svarfdæla sögu (í miðjum klíðum), til að setja mig í stellingar fyrir lestur nýjustu bókar Þórarins Eldjárn, Hér liggur skáld, sem ég held að sé bráðskemmtileg.
Bloggar | 26.12.2012 | 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
VIÐVÖRUN: Umfjöllunin kann að spilla lestri þeirra sem eiga Illsku ólesna.
-----
Uppskrift: Taktu helling af tölfræðiupplýsingum um helförina úr bókum eða af netinu, bættu við þremur spólgröðum persónum og hentu inn misáreiðanlegum sögum af Hitler og hans nótum.
Um þetta fjallar fyrsti og lengsti hluti af fjórum í nýútkominni skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahl, Illsku. Þótt talað sé á bókarkápu um ástarsögu Agnesar, Ómars og Arnórs", væri nærtækara að tala um lostasögu", a.m.k. framan af, því að ástin er mestmegnis neðanbeltis og orð á borð við ríða, typpi, píka, sæði, brundur, smokkur, fróa, já og limbaugur, koma margfalt oftar fyrir en ást. Ómar fær ekki sting í hjartað, þegar hann sér Agnesi fyrst álengdar á kaffihúsi með Arnóri, heldur svíður hann í kviðinn af afbrýðisemi. Umræður um helförina verða jafnvel lostavaki persóna. Lykilpersónurnar þrjár eru á fertugsaldri, heldur litlausar menntaspírur og ekki ýkja siðavandar; auralitlir eilífðarstúdentar sem ástunda Ikeasófa-ídeólógíu og álíta peninga vaxa í lánasjóðnum. Háskólastúdínan Agnes fer að búa með íslenskunemanum Ómari, en heldur síðan við nasistann Arnór meðan á sambúðinni stendur, af engri sýnilegri ástæðu annarri en að henni virðist leiðast. Ómar brennir hjallinn þeirra þegar hann þremur árum síðar kemst að framhjáhaldinu og leggst í markmiðslítið flakk um Evrópu.
Agnes er semsagt laus á kostum, Ómar þannig innréttaður siðferðilega að hann hefur litlar skrúplur um að fara í gegnum persónulegar skriftir sambýliskonu sinnar, meðan hún er í útlöndum, og Arnór ... Nasistinn Arnór virðist máske þeirra heilsteyptastur. Hann er vel menntaður, er að ljúka doktorsnámi í sagnfræði við háskóla í St. Pétursborg (svona til að brjóta upp stereótýpuna um nasistabulluna) og virðist fylgja nokkuð sínum prinsippum. Þó reynir á hann, þegar Agnes spyr hvort hann mundi sofa frá blökkukonu. Frá Afríku? Aldrei. Frá Ameríku? Ólíklega, en gæti oltið á ýmsu. Hjá Halle Berry? Já, eftir langa umhugsun, þá gæti hann hugsað sér að sofa hjá Halle Berry, en myndi nota smokk. Tvískinnungur?
Arnór er þó enginn hrotti eða ofbeldisbulla; í eina skiptið sem hann sýnir af sér fautaskap er þegar hann er rækilega eggjaður til þess af Agnesi - og virðist þá breyta gegn betri vitund. Í fyrsta hluta bókarinnar er Arnór samt ein fjarlægasta persónan og er þó karaktersköpun Agnesar og Ómars ekki endilega beysin.
Inn í þæfingslega frásögn fyrsta hlutans (sem er með margbrotnu afturliti, svo að lesandinn þarf æði oft að ráða í á hvaða tímaplani hann er staddur og um hvaða aðstæður er verið að fjalla) er síðan skeytt inn fróðleiksmolum um helförina og Hitler. Hvoru tveggja frásagnirnar eru kubbaðar niður í stutta búta, stundum tvo eða þrjá á blaðsíðu, rétt nógu langa fyrir lestrareinbeitingu netkynslóðinnar.
Helförin er vissulega hryllingur sem ekki má gleymast, en í fyrsta hluta Illsku er hún skrúfuð í botn með pedantískri staðreyndaupptalningu um fjölda fórnarlamba og fleiru af þeim toga. Inn á milli alvarlegra staðreynda er svo að finna Hitlersblæti með hefðbundinni skrímslavæðingu; lífseig flökkusagan um að Hitler hafi verið með eitt eista (og Naflajón settur á sömu hillu, guð má vita hvers vegna!), að Hitler hafi ekki stundað kynlíf með Evu Braun og að Hitler hafi leikið systurdóttur sína Geli Raubal svívirðilega. Þetta bull dregur stórlega úr áhrifamætti alvarlegri staðreynda um helförina. Þá kemur fram í Illsku sú þversögn að gagnrýna verk, sem nýta sér helförina í markaðsskyni, þegar skáldsaga þessi gengur nákvæmlega út á það.
Þessi fyrsti hluti Illsku er langlengstur og hefði hæglega getað styst úr 190 blaðsíðum niður í 20 blaðsíður eða svo. En svo kemur annar og langbesti hluti bókarinnar, harla frábrugðinn þeim fyrsta. Þar fer fram tvennum áhrifaríkum sögnum, annars vegar um örlög gyðingasamfélagsins í litháenska bænum Jurbarkas frá sumri til hausts 1941, við upphaf Operation Barbarossa, og hins vegar um uppvaxtarár nasistans Arnórs á Ísafirði á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Nú eru undirkaflar orðnir lengri, sem fyrr klipptir saman sitt á hvað án sýnilegrar beinnar tengingar, en þó báðar frásagnir nógu áhrifaríkar og vel skrifaðar til að halda lesandanum föngnum.
Við eftirgrennslan á netinu má komast að því að saga hinna ógæfusömu Gyðinga í Jurbarkas er rækilega skjalfest og meira að segja til langir nafnalistar bæði fórnarlamba og ódæðismanna. Ýmsir þeir atburðir, sem lýst er í Illsku, áttu sér stað í raun og veru; má þar nefna skrípalætin við Stalínslíkneskið, sundurbútun synagógunnar og hædda kantorinn með múrsteininn bundinn í skeggið. Eigi að síður tekst Eiríki að bregða lifandi ljósi á þessa atburði og aðra. Hann blandar saman uppdigtuðum persónum og raunverulegum, og verður væntanlega verðugt viðfangsefni bókmenntafræðinga í framtíðinni að greina hið sanna þar frá hinu skáldaða. Ísmeygilegust í allri þessari frásögn er þátttaka heimamanna í voðaverkunum, en þeir unnu starfið að meira eða minna leyti fyrir þýsku SS-sveitirnar. Mestmegnis voru þar á ferð ungir karlmenn úr hópi þorpsbúa, sem myrtu með köldu blóði Gyðinga, sem verið höfðu nágrannar þeirra um áratugaskeið. Ýmsir raunverulegir einstaklingar eru dregnir inn í söguna (þýski kommandantinn Böhme, Gepneris og rabbíninn Rubinstein), meðan aðrir eru hugvitssamlega skáldaðar persónur, eins og Lukauskas-bræður, sem verða æðstu menn lögreglunnar í Jurbarkas og virðast samsettir úr 2-3 raunverulegum persónum. Þá verður ekki betur séð en að Gyðingahjónin Iszak og Misza Banai séu ákaflega vel heppnuð hugarsmíð höfundar.
Meðfram hryllingi stríðsáranna í Litháen vindur í öðrum hluta Illsku fram uppvaxtarsögu Arnórs á Ísafirði. Þetta er einnig býsna góð saga, ekki vegna drengsins sjálfs, sem lítið fer fyrir, heldur vegna hins litríka persónugallerís, sem að honum stendur: Sigga Dós, Mar Morales Trujillo, Jón Vargur, Einar Lúður - býsna eftirminnilegar persónur og atvikin í lífi þeirra kostuleg (Sigga Dós er eins og vergjörn útgáfa af þeirri víðfrægu Bjarnfreði). Stundum er óþarflega langt seilst við að lýsa bakgrunni persóna - dálítið á hinum þjóðlegu íslensku ævisögunótum - en fjörlegu kaflarnir vega það margfalt upp. Ekki þótti mér örgrannt um að sótt væri hér í smiðju Hallgríms Helgasonar - án orðaleikja og brandara að vísu, en í staðinn kemur vandaður og agaður stíll Eiríks. Má benda á að síðasta skáldsaga Hallgríms, Kona við 1000 gráður, fjallaði í grundvallaratriðum um sama efni og Illska, þ.e. hörmungarsaga úr seinni heimsstyrjöld ásamt þroskasögu (og við sögu kom einnig afgamalt vopn úr WWII). Annars er einnig sá munur á verkum Hallgríms og Eiríks að hjá þeim fyrrnefnda leiftrar kímni á köflum, en hjá þeim síðarnefnda er alvaran allsráðandi og sjaldan slegið á létta strengi, nema með fáeinum lapþunnum Hitlersbröndurum. En, svo að vikið sé aftur að Illsku, þá virkar uppvaxtarsaga Arnórs sem skásaga við heildarfrásögnina, meira eins og hressileg sjávarplásssaga, sem varpar í reynd litlu ljósi á persónuleika Arnórs í hinu stóra samhengi. Enda virðist fátt merkilegt gerast í lífi hans frá níu ára aldri og er hratt hlaupið yfir sögu eftir það. Heldur þótti mér fáfengileg heimspeki Yockeys og meint áhrif hennar á Arnór hinn unga.
Í þriðja hluta heldur saga ástarþríhyrningsins áfram í fortíð og nútíð, líkt og til frekari fyllingar. Og nú kemur óvæntur fjórði aðili til sögunnar inn í þennan þríhyrning, persóna sem skorti alla undirbyggingu í hinum langa fyrsta hluta. Auk þess er nú rakin uppvaxtarsaga Ómars á unglingsárum. Í stað helfararkommentanna, sem rufu frásögnina í fyrsta kafla, eru nú komnar örstuttar athugasemdir af öðrum toga. Mestmegnis er þessi bókarhluti óspennandi, en þó góðir sprettir í millum. Í ljós kemur að Ómar og Agnes höfðu ferðast til Jarburkas á sambúðarárum sínum, en þangað liggja rætur Agnesar í báðar ættir.
Fjórði og síðasti hlutinn tekur upp þráðinn á tveimur vígstöðvum. Annars vegar förum við aftur til Jurbarkas árið 1941 og sjáum Gyðingamorðin frá öðrum vinkli, mestmegnis með augum Lukauskas-hjónanna, sem áttu Gyðinga að bestu vinum, en syni tvo sem gengu til liðs við nasista. Aftur verður frásögnin áhrifamikil og einkar vel sögð. Hins vegar er svo haldið áfram með sögu ástarþríhyrningsins meinta í nálægustu nútíð og þóttu mér langar réttlætingarræður Agnesar heldur rýrar í roðinu. Síðan æsast leikar á næsta ótrúverðugan hátt: Fólk sem haldið hefur verið tilfinningalegu tómlæti og doða í 520 blaðsíðna frásögn fuðrar upp í tilfinningabáli á síðustu 20 blaðsíðunum og dramatískur endirinn mundi sóma sér vel í sögu eftir Ólaf Gunnarsson. Og þó ekki - ég hefði talið meira í samræmi við framvindu verksins að hann yrði tragískari. Reyndar er á tímabili í blálokin boðið upp á tvenns konar endalok sögunnar, en þau reynast hin sömu þegar upp er staðið.
Og hver er þá niðurstaðan? Í fyrsta lagi er óhætt að nefna að Illska er margslungið verk. Þannig er sagt á tímabili frá í 1. persónu (Ómar, fyrsti hluti) og seinna í 2. persónu (barnið í þriðja hluta), en mestmegnis í 3. persónu (allir í öllum hlutum). Stundum verða þræðirnir of margir eða virka ekki nógu vel saman. Þannig virðist fyrsti hlutinn ekki nógu vel tengdur þriðja hlutanum, sem á að hluta til að vera nánari útlistun sama efnis. En, eins og fyrr sagði, þá fannst mér fyrsti hlutinn sístur og nánast óþarfur. Þar er enda sögumaður ágengur og heldur til vansa. Til að ná því bitastæðasta úr bókinni er sennilega nóg að lesa annan og fjórða hlutann, enda eru þeir (að mestu) skrambi góðir og vel skrifaðir. Ekki fer á milli mála að höfundur er orðhákur hinn mesti; líkt og Hallgrími Helgasyni virðist honum einkar létt skrifin. Veikasti hlekkur Illsku er sá, sem rekur sögu ástarþríhyrningsins. Þau Agnes, Ómar og Arnór eru undarlega ein í heiminum - heimi bókarinnar - og virðast ekki eiga neina vini, kunningja eða ættingja (nema að því marki sem slíkir stóðu mismikið að þeim í uppvaxtarsögu þeirra). Þótt þau séu á þeim aldri þegar fólk ætti að vera vinamargt, þá er varla að sjá að þau þekki nokkra aðra í heiminum og hafa að öllu jöfnu ekki í önnur hús að venda en hvert hjá öðru. Þetta þrengir mjög hring svona breiðrar sögu, máske helst vegna þau skötuhjú eru ekkert sérlega litríkar eða líflegar persónur; menntafólk og bókasnápar, sem virðast halda að heimurinn hverfist um hugmyndafræðikenningar, þar til þau reka sig á annað. Margoft er notað orðalagið skriðþungi sögunnar" í bókinni, jafnvel svo að verður leiðarstef, en líf þessara þriggja sálna virðist standa langt utan þess skriðþunga. Þau horfa öll á hann utan frá, hlutlaus. Þá er uppvaxtarsaga Arnórs á Ísafirði nánast eins og óþörf - en býsna skemmtileg samt, eins og hún ætti heima í sjálfstæðri bók. Að öllu framansögðu er Illska skáldsaga með ýmsa sterka kosti, en þó fjarri því gallalaus. Og hvað svo sem annars má segja um hana, þá er hún gríðarleg framför frá síðustu skáldsögu höfundar, sem fjallaði um ... ja, um hvað? Ekki neitt, held ég (ef einhver getur frætt mig um efnisinnihald Gæsku, þá má sá hinn sami draga það saman í athugasemdum hér að neðan). Og hvað hefur Illska að segja okkur um umfjöllunarefni sitt? Í raun og veru sáralítið, annað en að illskan hefur alltaf verið til og mun alltaf verða til í heiminum - og þarf til þess 540 blaðsíður. Hver svo sem fyrirheitin kunna að vera, sem gefin eru við bókarlok, þá virðast mér lykilpersónur í reynd lítið hafa breyst að upplagi. Líklega fellur allt í fyrra far hjá þeim að bókinni lokinni.
Bloggar | 20.12.2012 | 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Framan á einkar smekklegri kápu nýjustu skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, Undantekningunni, getur að líta ögn skælda svarta fjöður. Af löguninni virðist ekki um hrafnsfjöður að ræða, þótt stélfjöður úr hrafni komi við sögu, heldur er þetta frekar fjaðurstafur, þar sem gullið tár vætlar fram úr oddi. Þessi einfalda mynd segir mikið; oft er svart yfir í bókinni, en iðulega er um það skrifað með gullnu letri.
Að gefnu tilefni er rétt að vara væntanlega lesendur við að hér á eftir verður fjallað um bókina vítt og breitt. Reynt verður að afhjúpa sem minnst til að skemma ekki fyrir lesendum, en þó er nánast óhjákvæmilegt að tína ýmislegt til, ef fjalla á um verk af einhverri dýpt. Til að ljóstra sem minnstu upp mun þó reynt að orða hlutina nokkuð á almennum nótum.
Sagan Undantekningin hefst nákvæmlega á áramótum og gerist á næstu dögum þaðan í frá, og á nokkrum mánuðum þegar lengra líður á, með töluverðum innskotsköflum úr fortíðinni þar sem hin yfirgefna María rifjar upp samskiptin við eiginmann sinn frá hinum ýmsu tímum og reynir að gera sér grein fyrir hvað fór úrskeiðis, sem leiddi til þess að hann yfirgaf hana fyrir karlmann. Minningarnar eru einatt hugljúfar, þau virðast hafa lifað fullkomnu lífi, eiga íbúð á tveimur hæðum í Vesturbænum og auk þess sumarbústað, svo að þau virðast ekki á flæðiskeri stödd fjárhagslega. Flóki er Herra Fullkominn, hávaxinn og myndarlegur, hámenntaður stærðfræðingur, hinn mjúki maður í hvívetna, hjálplegur, tillitssamur og umhyggjusamur. Hann eldaði hversdagsmatinn og sinnti börnunum, en þurfti alloft að vinna frameftir og um helgar eða að líta eftir sumarbústaðnum og fór þá einn síns liðs. Það er ekki fyrr en eftir slitin að María áttar sig á að fjarvera bóndans kann að hafa stafað af sambandi hans við aðra menn. Það er heldur ekki fyrr en eftir á að hún sér að skyrtusafnið hans er ekki eins litt og hjá flestum karlmönnum; skyrturnar margar fölfjólubláar eða lillableikar. Að undanskilinni glámskyggninni er María líka Frú Fullkomin, svo gullfalleg að menn laðast að henni eins og mý á mykjuskán - bóndinn er vart horfinn á braut þegar ungi maðurinn í næsta húsi er kominn inn á stofugólf hjá henni, og Hreinn refaskytta gerir einnig hosur sínar grænar fyrir henni snemma í bókinni. Leigubílsstjóri í útlöndum heldur að hún sé filmstjarna. María er einnig öndvegiskokkur - eins og í sumum fyrri bókum Auðar er matar- og kökugerð fyrirferðarmikil - og er auk þess góða-konan í þeirri merkingu að hún vinnnur að hjálparstarfi, sem gengur út á að liðsinna útlimalausum börnum í stríðshrjáðum löndum og útvega þeim gervilimi.
Máske er það vegna þess að ég er sjálfur gallagripur til líkama og sálar, en ég á oft erfitt með að kyngja frásögnum af fullkomnu fólki. Yfirleitt er þar í grunninn endursagt stefið um Adam og Evu í paradís, uns höggormurinn kemst að; þetta er líka stöffið sem draumar eru spunnir úr í draumaverksmiðju Hollywood. Í Undantekningunni er heimur Maríu svo fullkominn að hún verður fullkomlega ráðalaus þegar hann hrynur. Þess vegna fær hún bráðskemmtilega og frumlega líkamlega andstæðu í nábúakonunni í kjallaranum, dvergnum Perlu, sem er rödd skynseminnar í heimi sem er á tjá og tundri. Meðan María er óreiðusprengja tilfinninga og hvatalífs, þá er Perla fulltrúi kaldrar og analýtískrar skynsemi og hún á ýmsar gullvægustu setningar bókarinnar. Sem hálfgildings leigupenni fyrir leynilögreglusagnahöfund er Perla gangandi orðabók um morðaðferðir, krufningar, sakamálafléttur og annað af þeim toga. En hún er jafnframt fullgildur hjónabandsráðgjafi með doktorspróf og hún stundar þá ráðgjöf sína einkum í gegnum netið, þótt ekki verði séð að hún hafi mikla praktíska reynslu af samlífi kynjanna. Hún er einnig að skrifa handbók um hjúskaparráðgjöf, sem lengi ber þann skemmtilega vinnutitil Svanir skilja ekki. Perla er sætindahákur, geislandi af sjálfsöryggi, nokkuð uppáþrengjandi og ágeng, en vill sjálf ráða hvenær hún fær að vera í friði. Hún er litlu stærri en tveggja og hálfs árs tvíburarnir, um metri á hæð er nefnt einhvers staðar (hugsanlega í hálfkæringi), og hún mjakar sér upp á stóla og rennir sér niður af þeim. Að sumu leyti er Perla dularfull - oftar en einu sinni er gefið í skyn að hún kunni að vera höfundur þeirrar bókar sem lesandinn les. Við Maríu segir hún: Ég sé ekki betur en að þú sért fagurfræðileg persóna." (173)
Yfirgefni eiginmaðurinn er sérfræðingur í óreiðukenningunni og það er einmitt skyndileg óreiðan í lífu Maríu, sem hún þarf að glíma við og reynir að koma böndum á. Hér gengur í gegnum söguna skondið stef - eiginmaðurinn heitir Flóki og ástmaður hans einnig og er líka sérfræðingur í óreiðukenningunni. En óreiðukenningin gengur út á undantekningar og María er undantekningin í lífi Flóka; fölskvalaust getur hann sagt við hana: Þú ert eina konan í lífi mínu", því að þær verða aldrei aðrar eða fleiri.
Aðskilnaður og uppgjör þeirra hjóna einkennist af beiskju öðru fremur og þá eingöngu af hálfu Maríu, því að Flóki er sama skilningsríka og þolinmóða ljúfmennið gagnvart hvers konar áreitni hennar. Þetta er ekki stormasamt uppgjör heiftar, stóryrða og skammar, heldur hljóðlátt uppgjör sjálfsásökunar, þar sem María hringir allmörg beiskjufull símtöl í eiginmanninn til að leita skýringa eða fá hann heim. Hefnd hennar í hans garð verður heldur máttlaus og lítilsigld, eins og þegar hún rýkur út úr bænum um hávetur með smábörn þeirra tvö og ekur í ófærð í sumarbústað þeirra, en snýr svo heim til að komast að því að hann hefur ekki einu sinni vitað af fjarveru þeirra. Einu sinni eða tvisvar flýgur henni í hug að svipta sig lífi, en þeir þankar virðast ekki raunhæfir - bæði er að hún á fyrir tveimur börnum að sjá og svo virðist hún líka rekin svo áfram af forvitni að fá að vita hvað fór úrskeiðis að hún reynist ekki líkleg til örþrifaráða (í því samhengi dettur mér í hug að persóna í bók Ólafs Gunnarssonar, sem ég las um daginn, hefði sennilega brugðist við á mun dramatískari hátt).
Texti Auðar í Undantekningunni er oft á tíðum gullfallega ljóðrænn og myndlíkingar eftirminnilegar. Þegar María neyðist til að stöðva bíl sinn í hríðarkófi uppi á heiði af því að ekki sér út úr augum, þá finnst henni sem heimurinn allur hafi verið vafinn inn í hvítt einangrunarplast. En þegar höfundur endurtekur líkinguna síðar í bókinni, dregur úr styrk hennar.
Kímnin er sjaldan langt undan í Undantekningunni. Þannig mælir Perla einhvern tíma: Kona sem kann að búa til tíramísú er ekki lengi ein." Fyndnari setningu af sama toga man ég varla eftir síðan í Mælingu heimsins eftir Daniel Kehlmann, þegar Werner sagði við Humboldt (minnir mig): Ókvæntur maður getur aldrei orðið góður neptúnisti." Ég ætti máske að bæta við að mér þykir tíramísú ekki gott.
Nú háttar þannig til að ég kem að sagnaheimi Auðar Övu úr undarlegri átt. Ég er ókunnur þekktustu verkum hennar, skáldsögunni Afleggjaranum og leikritinu Svartur hundur prestsins, en las hins vegar fyrstu skáldsögu hennar, Upphækkaða jörð, þegar hún kom út, síðar einnig Rigningu í nóvember og loks hina gáskafullu ljóðabók Sálminn um glimmer. Þótti mér Auður Ava hafa markað sér afdráttarlausan stíl strax í upphafi og hann hefur þroskast. Efnislega einkennast bækur hennar oft af því að sögupersóna leggur land undir fót, rekin áfram af rótleysi, en ferðalagið felur oftar en ekki í sér andlega leit eða uppgjör. Stílfræðilega er alltaf ákveðin fjarlægð í verkum Auðar, gagnvart sögupersónum jafnt sem lesandanum. Birtist þetta t.d. í því að sögumaðurinn María í Undantekningunni nefnir börnin sín lengi vel ekki með nafni, heldur vísar til þeirra með orðunum dóttir mín og sonur minn. Og jafnvel eftir að nöfnin eru komin fram (Bergþóra og Björn, með gælunöfnin Begga og Bambi), þá heldur María oftar en ekki að nefna þau dóttur mína og son minn. Að flestu leyti eru þó portrettin, sem höfundur dregur upp af litlu tvíburunum, afar sannfærandi - af leikjum þeirra, málfari og ólíkri skaphöfn. Og María er engan veginn slæm móðir, þvert á móti; hún leikur við börnin, fer með þau á róluvöll og liggur með þeim í hengirúmi útivið að vetrarlagi. En hún er fjarræn, væntanlega út af óvæntu hvarfi eiginmannsins af heimilinu. Og eiginmaðurinn Flóki - hann heitir oftast maðurinn minn.
Þessi stílfræðilega fjarlægð birtist einnig í nafnleysi staða í Undantekningunni. Þannig býr María í íbúð á tveimur hæðum, í húsi sem hefur autt svæði handan við götuna og sjávarfjöru þar fjær. Nefnt er að ekki sé langt að aka að höfninni og slippnum; af þessum upplýsingum gæti lesandi púslað að um sé að ræða Ægissíðu eða svipaðan stað í Vesturbænum, þótt hvergi sé sagt berum orðum. Svipuðu máli gegnir um þegar María mælir sér mót við útlending í glæstum veitingasal hótels í miðbænum og snæðir með honum skötusel; nærtækt væri að giska á Hótel Borg, þótt hvergi sé það nefnt. Þá fá lesendur ekki nákvæmlega að vita hvar sumarbústaður þeirra hjóna er staðsettur, nema hvað hann er í tveggja til þriggja klst. akstursfjarlægð frá borginni - í erfiðri vetrarfærð - og að fara þarf í gegnum þrjú ónafngreind þorp til að komast þangað. Við fáum hvorki að vita hvað erlenda stórborgin heitir, sem María heimsækir, né í hvaða landi hún er. Þetta staðanafnleysi er stílbragð, sem veldur ákveðinni firrð milli lesanda og umhverfis; allir staðir eru á einhvern hátt ókunnir.
Þótt margt sé lofsvert við Undantekninguna, þá má einnig tiltaka ýmsa annmarka. Fyrsti þriðjungur bókarinnar er t.d. mun sterkari heldur en það sem á eftir kemur. Upp úr miðbikinu taka við töluverð ólíkindi, jafnvel svo að Perla segir að oft sé lífið lygilegri skáldskapnum - og eiga þá enn frekari ólíkindi eftir að gerast. Í ljós kemur að fleiri en Flóki hafa lifað tvöföldu lífi, en María er svo upptekin af eigin volæði fram eftir sögunni að sú afhjúpun reynist illa undirbyggð. María er einnig einkennilega vinkvennafá - fyrir utan Perlu hefur hún nánast engan til að ræða við um vandamál sín. Samt virðist hún einmitt fullkomin kona af því tagi að ætla mætti að hún ætti sæg vinkvenna. Þá virkar dálítið á mig sem deus ex machina sú lausn, sem losar Maríu undan fjárhagsáhyggjum til frambúðar. Reyndar bólar nánast ekkert á áhyggjum eða ágreiningi vegna fjármála, sem oft vill verða fylgifiskur skilnaðar. Loks eru það smávillurnar, eins og þegar Perla segir að Reykjavík sé á 66. gráðu norður. Einnig var sérkennilegt að lesa um Maríu koma við annan mann út af hóteli (Borg?) til að kveðjast; þá kyngir niður snjó. En allt í einu, eftir að hafa kveikt sér í vindli, fer hin persónan að benda til himins á stjörnur og stjörnumerki. Þá hugsaði ég: Nú hefur rofað til óvenjulega hratt. Svo stakk það ponsulítið í mitt hjarta að sjá nafn Velázquez skrifað Velazques.
Að öllu framansögðu er ástæða til að óska Auði Övu til hamingju með góða bók. Sérstaklega er fyrri hluti verksins frambærilegur, en aðeins þykir mér henni fatast flugið þegar á líður.
Bloggar | 5.12.2012 | 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Strax frá fyrstu síðu er ljóst að söguhetjan í nýjustu bók Ólafs Gunnarssonar, Málaranum, er á ystu nöf og litar það alla söguna. Söguhetja þessi er listmálarinn Davíð Þorvaldsson - nafn sem gæti verið sett saman úr föðurnafni Kristjáns Davíðssonar og skírnarnafni Þorvaldar Skúlasonar. En hinn uppdigtaði Davíð Þovaldsson nýtur ekki viðlíka virðingar í listaheiminum og hinir nafngreindu raunverulegu kollegar; þótt hann njóti veraldlegrar velgengni, eigi gullfallega konu, búi í einbýlishúsi með eigin vinnustofu og selji málverk í bílförmum, þá skortir einmitt þetta í líf hans - viðurkenningu á gildi listsköpunar hans. Hann málar snotrar og auðseljanlegar myndir, helst af Keili, en er ekki viðurkenndur af menntaelítu landsins. Þetta tekur hann afar nærri sér - reyndar óvenju nærri miðað við flest venjulegt fólk. Það útskýrist ef til vill að einhverju leyti af því að í baksviðinu leynist persónulegur harmleikur úr fortíðinni.
Ólafi Gunnarssyni tekst oft að draga upp frábærlega sannfærandi sviðsmynd fyrir persónur sínar að athafna sig í. Sagan gerist á árunum í kringum 1985, með Hafskipsmálið í bakgrunni, og höfundur teymir okkur inn í kunnuglegt umhverfi - inn á Kjarvalsstaði, niður í Hafnarhús og inn í Kjarvalshúsið vestur í bæ. Þarna liggur tvímælalaust styrkur Ólafs sem höfundar - að byggja upp sannfærandi umgjörð og andrúmsloft. Sjálfur hafði ég gleymt því hvernig var að heyra Sunnudagsmoggann detta inn um lúguna á laugardagseftirmiðdegi og fékk það rækilega rifjað upp. Á hinn bóginn er eitt og annað frá þessum árum, sem ekki kemur fyrir í sögunni, en á þessum árum var vídeóbyltingin nýhafin, fótanuddtækin úr Radíóbúðinni komin inn á hvert heimili og ljósabekkjaæði að byrja að renna á landann. Ekkert af þessu dúkkar upp.
Lýsingar höfundar á náttúru og veðurfari eru sérkapítuli, en þær getur hann dregið upp ljóslifandi í örfáum pensildráttum. Einhver kann að finna að því að í sögunni geysa fulloft stormar og slagviðri ellegar fannfergi og ófærð. Að sama skapi má réttlæta það að veðrið finnur sér samastað í ólgandi og stundum þunglamalegu sálarlífi persóna.
Hér komum við að einu megineinkenni sögunnar: Sálarlíf og samræður sögupersóna einkennast af heldur ýktri dramatík, sem greinilega á að gera þær stærri-en-lífið-sjálft. Stundum tala persónur eins og þær séu meðvitaðar um að þær séu staddar í tilfinningaþrungnu leikriti eftir Ibsen eða Strindberg - eða jafnvel grískum harmleik. Þessi ofur-dramatík (sem mér fannst ganga ágætlega upp í sumum fyrri bókum Ólafs eins og Tröllakirkju) virkar ekki jafnvel á mig hér og þykir mér hún draga úr trúverðugleika. Reyndar stendur og fellur Málarinn nánast með því hvort lesandanum þyki Davíð Þorvaldsson sannfærandi sögupersóna. Fyrir mig virkaði hann ekki, ef til vill vegna þess að hann er svo einstaklega fráhrindandi og eigingjarn - hann er maður sem á nánast allt, en þráir meira (eða jafnvel eitthvað annað), þótt það geti orðið ýmsum að falli. Sjálfar persónur sögunnar minna Davíð oft á hversu sjálfhverfur hann er og get ég heils hugar tekið undir það. Frá upphafi til enda er hann á ystu nöf og í honum býr stöðug hvöt til eyðileggingar eða líkamsmeiðinga. Hann hugleiðir alloft að drepa hatursmenn sína og grípur um ýmis möguleg vopn sem hendi eru næst (hníf, hamar eða annað) við ólík tækifæri. Hann virðist vera mannhatari að upplagi - það er varla sú persóna í bókinni sem hann hugsar hlýlega til nema dóttirin.
Stíll Ólafs í Málaranum er sérstakur kapítuli út af fyrir sig, einkennilega kaldur og nánast laus við mynd- og líkingamál. Eina skiptið, þar sem myndmálið festist í minni mínu, var þegar bölsýni helltist yfir Davíð svo að hann virtist horfa ofan í bleksvarta olíutunnu eða olíutjörn. Sjálft persónugalleríið í sögunni er ekki ýkja stórt: Í grunninn er um að ræða tvær fjölskyldur, með þrjár til fjórar persónur í hvorri, en til viðbótar eru fáeinar aukapersónur, misskýrar, en ýmsar þó eftirminnilega dregnar. Öll sagan er sögð og séð frá sjónarhorni listmálarans og litast lýsing persóna kannski nokkuð af því. Athyglisvert er hvernig fjölskylda Arinbjarnar, eiganda John Rockwell hf., er yfirleitt mun sympatískari - en það stafar kannski af því að auðmenn hafa efni á að vera kumpánlegir við flest tækifæri, þótt þeir verði harðir í horn að taka ef tilefni er til. (Og, vel að merkja, nafn fyrirtækisins kann að vera vísun í þann fræga ameríska Norman Rockwell, sem, líkt og Davíð, naut ekki fullrar virðingar fyrir myndlist sinnar og þótti frekar vera illustratör.) Jafnvel virkar örlæti auðmannsins Arinbjarnar yfirgengilegt: Hann gefur Kjarvalsstöðum fáránlega dýrt málverk og sonum sínum einbýlishús eða jafnvel eitthvað verðmætara. Eins og oft hjá Ólafi (t.d. í Tröllakirkju og Blóðakri) er ekki langt í trúarstef í bókinni, t.d. um glataða soninn, sem snýr heim og fær alikálfinum slátrað. Reyndar er heimkomni sonurinn einnig snjall listmálari og málar í stíl, sem virðist einhvers konar sambland af Erró annars vegar og Komar og Melamid hins vegar.
Aðal Málarans er hins vegar atburðarásin, sem er oft með eindæmum hugvitssöm og tekur óvæntar vendingar, stundum jafnvel þannig að hún fer að endimörkum hins trúverðuga. Sagan er tvímælalaust það sem á ensku er kallað page-turner; lesandinn sogast inn í atburðarásina og bíður spenntur eftir að vita hvað gerist næst. Listmálarinn Davíð er sumpart fórnarlamb aðstæðna, en að sama skapi býr hann til og ber fulla ábyrgð á þróun framvindunnar, gegnsýrður af minnimáttarkennd og hefndarhug. Máske má segja að veiklyndir karlmenn sé eitt einkenni hinna stærri skáldsagna Ólafs Gunnarssonar; svipuðu máli gegndi t.d. um arkitektinn í Tröllakirkju.
Þegar öllu er á botninn hvolft má segja að Málarinn sé saga sem kemur oft bráðskemmtilega á óvart. En þar sem styrkurinn liggur mestmegnis í óvæntri fléttunni, tel ég að bókin þurfi varla annan lestur, öfugt við sumar fyrri öndvegisbækur höfundar, eins og Öxina og jörðina eða Tröllakirkju.
Bloggar | 1.12.2012 | 01:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fyrir skemmstu lét ég verða af því, sem ég hafði ætlað mér í háa herrans tíð, að lesa Sólon Íslandus eftir Davíð Stefánsson og varð ekki fyrir vonbrigðum. Sagan er afar góð og ekki langt frá því að teljast frábær. Hver einasta þessara 600 blaðsíðna.
Þannig var frumútgáfan frá 1940, í tveimur ámóta þykkum bindum, samtals um 600 blaðsíður. Það sem kom mér á óvart var hversu miklu efni var varið í undirbyggingu söguhetjunnar; fyrstu 200 blaðsíðurnar fjalla um æsku Sölva Helgasonar og næstu 100 um unglingsárin. Þannig er það bara seinna bindið / seinni helmingurinn, sem fjallar um fullorðinsár snillingsins misskilda.
Sölvi er alinn upp við bág kjör, missir föður sinn ungur, eignast fóstra sem hann lendir upp á kant við, fyrst og fremst vegna eigin stærilætis, og síðan sundrast fjölskyldan. Piltungur leggst snemma í flakk, hikar ekki við að ljúga sig inn á fólk, þykist vera vísindamaður og listamaður og fer víða um; í einum skemmtilegum kaflanum berst leikurinn m.a.s. í fangelsi í Kaupmannahöfn, þangað sem landhlauparinn er dæmdur fyrir flakk sitt, en þess utan er hann sekur um að nauðga blásaklausri bóndadóttur, í þeim tilgangi einum að ná sér niður á föður hennar. Sölvi er sjálfskipað séní, það vantar ekki, og alla söguna í gegn sveiflast lesandinn á milli þess að hafa samúð með honum og að hafa ímugust á honum. Hann á sér fastan viðkomustað hjá Trausta hreppstjóra í Sléttuhlíð, sem tekur hann öðru hvoru inn á sig, þótt aðrir heimilismenn þoli ekki gambrið og gorgeirinn í furðufuglinum. Sölvi kemst að um tíma sem ungur maður hjá amtmanninum á Möðruvöllum (sem á augljóslega að vera Bjarni Thorarensen) og þaðan í frá notar hann það sér til framdráttar að ljúga til um að hann sé frændi amtmannsins. Það er einnig að Möðruvöllum að franskur listamaður gefur honum gullpening vegna listhæfileikanna (og á gefandinn væntanlega að vera Auguste Meyer), en Sölvi veifar gullinu síðar í tíma og ótíma til sönnunar þess að hann stundi vísindastörf á vegum Fransmanna. Eftir því sem á söguna líður verður Sölvi undarlegri og stórlátari og virðist fyllast hreinu mikilmennskubrjálæði. Hann telur sig misskilinn snilling, sem gæti leitt Ísland út úr öllum þess ógöngum, og seinna lítur hann á sig sem postula nýrrar trúar. Svo virðist lesandanum að Sölvi sé - eða verði með tímanum - beinlínis snargalinn, en höfundurinn lýsir honum þó af svo mikilli samkennd og virðist samsama sig honum þannig sem utangarðsmanni að aldrei er stutt í samúðina. Sölvi finnur sér fylgikonu - og hálfpartinn sálufélaga - í hinum krypplaða niðursetningi Júlíönu, sem er á mörkum þess að vera þroskaheft, en er um leið óvenju næm og jafnvel skyggn. Að vori sækir Sölvi þessa vesölu stúlku að Gili, þvælist um með hana að baki sumarlangt og skilar henni svo til síns heima að hausti, af því að hann vill kljást við stórhríðar vetrarins einn síns liðs. Þannig fer það í þrjú sumur og gerir Sölvi henni barn - en hættir þá að vilja eiga eitthvað saman við hana að sælda.
Nokkur orð um skáldsagnastíl Davíðs. Hann á það til að vera upphafinn og rómantískur, oft í ábúðarmiklum Sturm-und-Drang-ham, einkum þegar kemur að náttúrunni og stórlátri upplifun Sölva/höfundar af henni. Fyrir vikið geta náttúrulýsingarnar orðið ögn þreytandi í yfirgengileik sínum, dálítið sykurfroðukenndar þegar lýst er gróanda vorsins eða hvítum sumarnóttum, og að sama skapi óþarfa tilkomumiklar og stórfenglegar þegar lýst er haustkvíða og vetrarhörkum. En orðkynngin er með ólíkindum og þegar skáldið lækkar ögn flug sitt, þá verður úr sannkölluð lesnautn, meitluð á gullaldarmáli. Margt orðafágætið er hér að finna og ekki dylst lesanda lengi að höfundur skáldsögunnar er í grunninn ljóðskáld, svo ljóðrænt er orðfærið.
Sem Davíðs Stefánssonar er von og vísa eru mörg trúarstefin í sögunni. Þegar Sölvi er ungur dvelur hann um hríð hjá afskaplega góðum, en fársjúkum bónda, sem staulast einn góðan veðurdag ásamt unglingspiltinum upp í fellið hjá bænum og reisir þar kross einn mikinn. Krossinn sá á eftir að koma allnokkuð við sögu og verður sérlega eftirminnilegur þegar hann ber við blóðrautt sólarlag á fellsbrúninni. Þá fær Sölvi oftar en einu sinni á sig einhvers konar Kristsmynd, til dæmis þegar hann er hýddur vandarhöggum vestur á Snæfellsnesi, en orð hans til böðulsins verða að áhrínisorðum, eins og spádómur sem rætist.
Samtöl eru líka mörg hver feikilega haganlega gerð og tilsvörin oft eftirminnileg. Þegar Sölvi kemur að bæ einum á Möðrudalsöræfum og lofar næturfegurðina, svarar húsráðandi: Við höfum annað að gera hér á fjallakotunum en góna út í loftið. Hér lifum við ekki á fegurð, heldur striti ..." (I,12) Þá er lýsing Sölva á fyrirmönnum - presti, faktor og barnakennara - á Siglufirði nærri bókarlokum óborganleg og sýnir að fagurkerinn Davíð Stefánsson veigrar sér ekki við að nota kjarnyrtustu íslensku blótsyrði.
Ef til vill segir þó mest um lítillæti hins ólærða Sölva Helgasonar undirskriftin, sem hann notar á bréf sitt á gamalsaldri til Briem sýslumanns. Hún hljóðar svo: Sölvi Helgason Guðmundsen Sólon Islandus Sókrates Platon Cesar Melanchton Newton Spinoza Kant Leonardo da Vinci Vasco da Gama. Málverkasnillingur og skáld. Íslandspostuli. Andaheimayfirstórspekingur. Prófessor og meistari í tölvísum og bókmenntum, stjörnufræði, málfræði, sálfræði, stálfræði, sagnfræði, stjórnfræði og öllum alhliða vísindum og listum. Silfursmiður, gullsmiður, bartskeri, gjörtlari, dröjari m.m." (II, 291).
Eftirminnileg bók, sem fer í flokkinn Lesist aftur".
P.S.: Rétt sisona í lokin: Ég veitti eftirtekt þeirri einkennilegu tilviljun að Sölvi Helgason átti sér nákvæmlega sömu fæðingar- og dánarár og Grímur karlinn Thomsen; þeir eru nákvæmlega jafnaldrar.Bloggar | 25.11.2012 | 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í komandi viku fer fram atkvæðagreiðsla um samkomulag Félags framhaldsskólakennara við menntamálayfirvöld. Samkomulagið felur í sér að launahækkun framhaldsskólakennara verði 2% í desember 2012 og 1% í desember 2013. Í útborguðum launum þýða þetta um 4.000 kr. í fyrra skipti, en um 2.000 kr. í því síðara. Verðbólga undangengna 12 mánuði hefur verið yfir 4% og þykir lágt, en ef gert er ráð fyrir lágmarksverðbólgu samanlagt um 8% næstu 2 ár, þá væru framhaldsskólakennarar með samningnum að samþykkja 5% launalækkun. Þetta er forysta Félags framhaldsskólakennara reiðubúin til að fallast á fyrir hönd umbjóðenda sinna, þrátt fyrir að segi í bókun við kjarasamning framhaldsskólakennara frá 2011 að sporna skuli gegn óheppilegri launaþróun". Er virkilega skilningur forystu Félags framhaldsskólakennara að með þessu sé barist gegn óheppilegri launaþróun? Ég hefði haldið að með svona samningi væri haldið áfram á sömu ólánsbraut. Og fyrir þessa sultarögn hyggjast menntayfirvöld kaupa sér jákvæði framhaldsskólakennara fyrir innleiðingu nýrra framhaldsskólalaga. Inni í samkomulaginu felst m.a. einnig að ráðist verði í nýja vinnutímaskilgreiningu framhaldsskólakennarastarfsins, sem þarf að gerast í miklu stærra samhengi en því sem hér er boðað. Athyglisvert er um eitt atriði samningsins að honum er talið til tekna að kennurum skuli greitt fyrir störf vegna innleiðingu laganna, sem þýðir væntanlega að kennarar eigi að vinna aukna vinnu - og megi helst þakka fyrir að fá borgað fyrir hana!
Ég skora á framhaldsskólakennara að segja nei við þessu smánarsamkomulagi. Tryggjum fyrst að hinni óheppilegu launaþróun verði snúið við. Að öðrum kosti: Sjáum hvernig reiðir af með innleiðingu nýju laganna án samstarfs við framhaldsskólakennara, frekar en að láta kaupa okkur fyrir nálús.
Bloggar | 5.11.2012 | 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég les hraðar en ég skrifa. Sem endranær er ég skrilljón bókum á eftir í bókabloggi og næ sennilega aldrei að fjalla um allar skruddurnar, sem ég hef plægt mig í gegnum að undanförnu. Eina skáldsögu hef ég þó nýlokið við og finnst full ástæða að hrósa í hástert. Umrædd bók er Mensalder eftir Bjarna Harðarson.
Mensalder segir sögu fjarskylds ættfólks Bjarna og þá sérstaklega Mensalders Rabens Mensalderssonar (já, ég hváði líka, þegar ég heyrði þetta nafn fyrst - er þetta virkilega íslenskt? spurði ég). Sagan hefst rétt fyrir 1890 og spannar nákvæmlega einn mannsaldur, sem er skemmtileg tilviljun með hliðsjón af nafni titilpersónunnar. Sögusviðið er að langmestu leyti heimasveitir fólks í vestanverðu Rangárþingi, en teygir sig einnig til uppsýslunnar, vestur yfir sýslumörkin og jafnvel til Reykjavíkur. Helstu karlhetjurnar eru þeir feðgar, Mensalder eldri, sem er fyrirferðarmeiri fyrstu 100 blaðsíðurnar, uns hann drepst úr skitusting, garnaflækju eða öðru óútskýrðu innanmeini, og Mensalder yngri sem á sviðið eftir það. Lykilpersóna sögunnar er þó máske Manga gamla, tveggja álna uppkreistingur", sem teygir litríka ævina yfir 80% sögunnar, framan af sem matselja og lagskona Mensalders eldri, þá sem fóstra Mensalders yngri. Gunna frá Húsum, þessi með brjóstin", langtímaunnusta og síðan kona Mensa yngri, er líka fyrirferðarmikil, einkum þegar líður á söguna. Í bakgrunni er síðan sægur misskýrra persóna, margra eftirminnilegra og sumra svo áhugaverðra að maður óskaði þess helst að þær væru ekki dregnar alveg svo snöggum dráttum - þær eru máske efni sem Bjarni treinir sér í aðra bók?
Stíllinn er knappur og glæsilegur, myndirnar jafnan sem gripnar á lofti og settar fram sem leiftur, oft með dýrðlegri blöndu hlutlægra lýsinga og huglægra hugleiðinga persóna. Umhverfið kviknar til lífsins - baðstofan, torfkofarnir, fénaður, náttúran öll, leiti, hvörf og engjar. Áberandi er orðfæri sem vísar til gamla bændasamfélagsins - það kann að fæla frá einhvern, sem ekki þekkir vel til eða nennir ekki að fletta upp í orðabók, en höfundur er viðfangsefni sínu trúr og býður engar málamiðlanir - lesandinn verður að teygja sig inn í hans uppdigtaða heim, ekki öfugt. Sérlega er aðdáunarvert hvernig Bjarni nær alþýðlegu málfari sveitafólks gengins tíma, hvort heldur í samtölum eða hugsunum. Mensalder sýnir að ekki þarf yfirdrifna dramatík eða morð á hverri síðu til að skrifa fantagóða bók; þvert á móti er það hið lágstemmda og hversdagslega, sem ræður ríkjum, dregið fram í gegnum skondin eða sorgleg atvik úr lífi alþýðufólks. Fólk fæðist, elst upp, verður kynþroska, giftist, vinnur, sefur, borðar, prjónar, les (eða fær lesið fyrir sig), veikist og deyr. Jú, ein nauðgun er í bókinni - og harðræði við þurfalinga og niðursetninga kemur fyrir, en grimmdin er aðeins einn flötur mannlífsins og ekki það mikilsverðasta. Á endanum skín í gegnum söguna mannúðin, mildin og lífshamingjan. Samlífi bændafólks, samskipti kynja, umgengni manns við náttúru. Ég á erfitt með að finna sambærilega bók við Mensalder í íslenskri bókmenntaflóru, en helst álít ég hana líkjast að efni og gæðum Hraunfólki Björns Th. Björnssonar, annarri feiknasterkri skáldsögu um gamla samfélagið, skrifaðri af svipaðri næmni, þekkingu og innsæi.
Bókin Mensalder er lágstemmdur og launfyndinn orðagaldur. Og ekki bara launfyndinn, vegna þess að á hverri blaðsíðu brosti ég út í annað, en á þriðju hverri síðu skellti ég upp úr. Oft fer saman í bókinni djúp speki krydduð kímni. Má sem dæmi nefna að þótt kotbóndinn Mensalder sé svo fátækur að hann eigi ekki nokkurn skapaðan hlut, þá er hann samt ríkastur manna í sinni sveit vegna þess að hinir bændurnir, líka þeir betri", eru skuldum vafnir upp fyrir haus eftir vélakaup. Hvað þá með þessa lýsingu: Í hrossum eru ár talin á tönnum þeirra en í kerlingum sem engar hafa slíkar í munni eru árin óteljandi líkt og keldurnar í Holtunum." (187). Þá þótti mér stórkostlega orðað: Baðstofan var svo lítil að hún rúmaði fráleitt meira en eina sögu í senn." Tildragelsi Mensalders og Gunnu er lýst á kostulegan hátt; hún er nokkrum árum eldri og sækir í hann í vegavinnunni: Sjálfur hafði hann bara einu sinni verið skotinn og það bara mjög lítið. Hún hét Ólöf og gekk með honum til spurninga. Þegar fermt var vantaði hana og seinna frétti hann að daginn fyrr hefði hún drukknað í Rangá. Gunna var ekki eins og falleg og hún, en um það þýddi ekki að fást fyrst Ólöf var dauð." Og stuttu síðar hugsar Mensalder um Gunnu: Kannski var hún ekki andlitsfríð en hún var falleg þegar hún hljóp og falleg þegar brjóstin gengu upp og niður og sá ofan í hálsmálið. Þá var hún falleg." (126).
Manga gamla er, sem fyrr segir, ein höfuðpersóna bókarinnar, brennimerkt grimmilegri fátækt úr æsku og stundum hörð af sér og fruntaleg, en stór í anda, tuldrandi gamlar vísudruslur" og sannfærð um að góðtemplarastúkur séu upprunnar í helvíti. Hún er fóstra Mensa yngri og þegar þau tvö, eftir greftrun Mensa eldra, bægslast heim að vetrarlagi í svartamyrkri og slagviðri, þá álpast hún ofan í poll og skrækir: Fóturinn, það er einhver andskotans útburðurinn sem bítur hér í fótinn á mér, losaðu helvítið af mér. Stúkudjöfull." Í ljós kemur að hún hefur flækt fótinn í gaddavír, hruflað sig illa og snúið fótinn, svo að Mensalder skellir fóstru sinni á bakið og slammar í hálkunni heim í Ranakot, meðan hún heldur sér með annarri hendi, en: Hún bandaði lausu hendinni út í buskann og tuðaði um að gaddavír væri fundinn upp af andskotanum í útlandinu til þess að ræna íslenska sauðamenn vinnunni, holrífa hrekklausar kerlingar til dauðs og gera landið allt að einu helvíti." (124). Enda fer stúkan að lokum til helvítis, þar sem hún á heima" (195). Og þegar Manga gamla prjónar heima í Ranakoti, glymur svo í sprotunum að þeir segja sögu hennar úr fyrnsku og er sú eftirminnilegasta af seytján daga sandstorminum.
Þótt ég finni varla missmíð á Mensalder sem skáldsögu, vil ég nefna að stundum fannst sögunördinum mér gæta dálítillar sagnfræðilegrar ónákvæmni. Í Mensalder er ekki alltaf fylgt ýtrustu krónólógíu, en oft gefnar vísbendingar um sögulega þekkt fyrirbæri sem má tímasetja. Til dæmis er brúin, sem vígð er um það leyti þegar Litli-Mensi er sjö ára, nokkuð augljóslega Þjórsárbrúin, sem kæmi vel heim og saman við rétt ártal, 1895. Nema hvað á þeim tíma hefði ekki verið viðstaddur ráðherra sem orti um brúarvígsluna", heldur Mangi landshöfðingi. Þá er á því skeiði í sögunni, sem gerist um 1905 (út frá skírskotunum), talað um íslenskan mann sem á að hafa farist með togara - og á þeim tíma er fyrsti togarinn rétt að koma til landsins. Í kringum 1909 (og jafnvel fyrr) er talað í sögunni eins og skollið sé á áfengisbann, en svo varð ekki í reynd fyrr en 1915. Þá er Mensalder yngri í kringum 1910 (af samhengi að ráða) að leggja vegi og lendir í stórhættu, þegar bíll kemur brunandi að þeim vegalagningarmönnum, einn á dag. En á þeim tíma var eingöngu einn bíll á öllu landinu, og sá var norður í Eyjafirði, þekktur sem Grundarbíllinn, enda búið að senda Thomsens-drusluna úr landi og þriðji bíllinn kom ekki fyrr en 1913. Og jafnvel þótt nær sé farið okkur í tíma, allt til um 1930, þá var bílaeign nær eingöngu bundin við þéttbýli við sjávarsíðuna.
En allt er nöldur sagnfræðingsins léttvægt fis og Bjarni Harðarson hefur fullt skáldaleyfi til að hliðra efni svo að þjóni sögu hans betur. Jafnvel svo það geri góða sögu frábæra. Enda er Mensalder bók sem ég ætla að byrja að lesa að nýju á komandi jólanótt og njóta til fullnustu, eins og konfektmola sem bráðnar í munni.
Bloggar | 1.11.2012 | 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eva Hauksdóttir birtir stundum beittar ádrepur. Nýlega tók hún fyrir Stóra Vantrúarmálið, sem svo hefur verið nefnt, og nefnist færslan Fram, fram, aldrei að víkja (pistillinn.is, 15. okt. 2012), en þar þykir mér henni bregðast bogalistin og vil gera við hana nokkrar athugasemdir.
Fyrst vil ég nefna að ég er hjartanlega sammála Evu um mikilvægi þess að berjast gegn gervivísindum og trúboði. Hins vegar tel ég skipta máli að það sé gert á siðferðilega traustum forsendum. Ég trúi ekki að tilgangurinn helgi meðalið í þeim efnum eða að illt skuli með illu út reka.
Ljóst er að samúð Evu liggur hjá Vantrú, enda sér hún ástæðu til að nefna það tvisvar í greininni. Ég er einn þeirra, sem hafa fylgst gaumgæfilega með þessu máli undangengið ár og haft úthald til að lesa flest það, sem um málið hefur verið skrifað á þeim tíma, sem og gögn langt aftur í tímann. Ekki sýnist mér Eva Hauksdóttir hafa kynnt sér málavexti ýkja vel út frá áðurnefndum pistli.
Evu verður tíðrætt um rétt Vantrúar til að skjóta máli sínu til siðanefndar. Hún orðar það m.a. svo: Það er eitthvað gruggugt við afstöðu háskólafólks til akademísks frelsis, ef það flokkast sem ofsóknir að nýta ferli sem er sérstaklega til þess ætlað að fá úr því skorið hvort kennari hefur gerst sekur um ófagleg vinnubrögð og má einu gilda hversu mikla andúð kærandinn hefur á viðkomandi kennara." Og síðar bætir hún við: Vantrúarmenn voru í fullum rétti með að kæra Bjarna Randver til siðanefndar."
Mér vitanlega hefur ekki nokkur maður á nokkru stigi málsins véfengt rétt Vantrúar til að kæra til siðanefndar. Ef Evu er kunnugt um þann, sem hefur véfengt þennan rétt, þá væri óskandi að hún benti á hann. Að öðrum kosti virðist tilgangur hennar með ofangreindum ummælum vera sá að vekja undarlegar grunsemdir um afstöðu háskólafólks til akademísks frelsis" og tengja það við eitthvað gruggugt".
Vert er að staldra við og rifja upp nokkra meginþræði þessarar harmsögu. Málatilbúnaður Vantrúar laut að notkun nokkurra glæra í kennslu. Allir kennarar, sem notað hafa glærur, vita að auðvelt getur verið að slíta þær úr samhengi eða túlka á einkennilegan hátt, ef ekki fylgja munnlegar útskýringar úr kennslustund. Sérstaklega á þetta við á þeim fræðasviðum, sem kenna má við túlkunarvísindi, en máske síður um raunvísindi. Umræddur kennari geymdi glærurnar á lokuðu vefsvæði innan Háskóla Íslands og ætlaði þær engum öðrum en nemendum námskeiðsins til skoðunar. En glærurnar komust í hendur Vantrúarmanna, að margra mati á vafasaman hátt. Síðan hófu Vantrúarmenn margra mánaða samblástur og undirbúning að stórfelldum kærum.
Sjálfur hef ég margoft skoðað þessar glærur - af vef Vantrúar sem er eini aðilinn, mér vitanlega, sem sett hefur þær í almenna dreifingu (sem ekki var ætlun kennarans). Sem alvanur notandi glærusýninga við kennslu get ég sagt að ég hefði sjálfur farið fram á nánari útskýringu einnar glæru, hugsanlega annarrar líka, en hinar hefði ég talið að allar mætti réttlæta með viðeigandi útskýringum í kennslustund.
En félagið Vantrú fór ekki þá leið að biðja um útskýringar eða leiðréttingu á kennsluefninu af hálfu kennarans sjálfs, eins og eðlilegt hefði mátt teljast. Þess í stað var hafinn mikilfenglegur málatilbúnaður, sem varla verður líkt við annað en stórskotaliðsárás: Lagðar inn 3 kærur hjá Háskóla Íslands (og þannig í reynd gengið framhjá hinu eðlilega fyrsta skrefi að leita til kennarans og fá útskýringar hans). Kærunum var fylgt eftir í sama mánuði með rækilegri útlistun á glærunum á vef Vantrúar, í fullkomnu heimildarleysi. Kærurnar tíunduðu hvert smávægilegasta gagnrýnisatriði, sem Vantrúarmenn gátu fundið, og mátti af því helst álykta að þeir væru klaksárir og vandlætingarfullir kórdrengir, sem ekki mættu vamm sitt vita, þegar þeir höfðu í reynd oft sýnt af sér harðfylgi og notað sóðalegt málfar í orðaskaki við andstæðinga sína. Þessi málatilbúnaður Vantrúar var svo langt utan allrar hófsemdarreglu að helst mætti líkja við að skjóta flugu með fallbyssukúlu.
Í fyrstu voru Vantrúarmenn sigurreifir. Töldu þeir engu varða þótt þeir nemendur, sem sóttu námskeiðið, hafi talið kennarann gæta fyllsta hlutleysis í umfjöllun um félagið á námskeiðinu. En málin tóku óvænta stefnu þegar siðanefnd HÍ gerðist sek um afdrifaríka handvömm og vegna þess að kennarinn fékk í hendur gögn af innra neti Vantrúar, þar sem sýnt var fram á að atlagan var rækilega skipulögð, ekki af vandlætingarfullri hryggð, heldur hömlulausri þórðargleði. Ég ætla ekki að rekja málavexti lengra; þeir sem áhuga hafa geta fræðst um það í umfangsmikilli umfjöllun á vef Vantrúar, vantru.is, og í afar rækilegri útlistun Hörpu Hreinsdóttur á harpa.blogg.is. Allt þetta efni hef ég lesið og margfalt meira til, til að kynna mér málið sem best.
Sumir hafa viljað ganga svo langt að líta á kærur Vantrúar, málafylgju og offors sem einelti gagnvart kennaranum og færir Harpa Hreinsdóttir t.d. allsterk rök í þá veru. Má í því sambandi benda á að málið var í gangi í tvö ár og átta mánuði, og hefur Vantrú séð rækilega um að halda því gangandi undangengið ár. Sjálfur var ég efins í byrjun hvort kalla mætti málið einelti, en eftir því sem málsgögn hafa afhjúpast og málið þróast sýnist mér ástæða til að fá þartilbæra opinbera aðila til að skera úr um hvort svo sé. Máske er ekki síst þörf á því í ljósi þess að kennarinn hefur verið fullkomlega hreinsaður af öllum áburði af Siðanefnd Háskóla Íslands.
Nýjasta útspil Vantrúar í þessari lönguvitleysu birtist á vef félagsins um síðustu helgi, en þá var þar þjófkenndur nafngreindur einstaklingur, sem á að hafa komist yfir trúnaðargögn félagsins, sem lágu á glámbekk þegar málið reis sem hæst, hraus hugur við atlögunni og orðfæri þar og kom þessum upplýsingum í hendur kennaranum, sem á þeim tíma átti í nauðvörn. Þessi þjófkenning Vantrúar vekur upp einkar margar spurningar í ljósi þess að hún kemur fram eftir að Siðanefnd Háskóla Íslands hefur hreinsað kennarann af áburði Vantrúar og eftir að lögreglan hefur vísað frá kæru Vantrúar þess eðlis að rannsakaður yrði stuldur á trúnaðargögnunum.
Eva Hauksdóttir hefur gefið sig út fyrir að vera ötull talsmaður þeirra sem eiga undir högg að sækja. En þegar kemur að íslenskum fræðimanni, sem sætir ágangi herskás félags í rækilega undirbúinni atlögu og er sýknaður af þartilbærum yfirvöldum, eftir að hafa varið óhemju tíma og fjárútlátum til varnar mannorði sínu, kennarastarfi og fræðimannsferli, þá liggur samúð hennar frekar með ofsækjandanum en hinum ofsótta. Af lestri pistils hennar mætti ætla að hún hafi mótað sér skoðanir, ekki með því að kynna sér málsatvik í þaula, heldur út frá eigin pólitíska rétttrúnaði. Til útskýringar skal nefnt að Eva skilgreinir í annarri bloggfærslu (Hvernig veit ég hvað feministar hugsa, pistillinn.is, 17. okt 2012) pólitískan rétttrúnað ágætlega á eftirfarandi hátt: Pólitískur rétttrúnaður er það þegar hollusta við tiltekinn málstað verður heilbrigðri skynsemi yfirsterkari. Þeir rétthugsandi eru tilbúnir til að taka undir hvaða vitleysu sem er ef sá sem heldur henni fram er með þeim í liði" og gefa vísvitandi rangar upplýsingar ef það er talið þjóna málstaðnum." Þessi útlistun sýnist mér eiga ágætlega við um ýmislegt í framferði Vantrúar í þessu undarlega máli. Og eftir þennan pistil Evu veltir maður fyrir sér hvort hann sé ritaður af fylgisspekt við tiltekinn málstað fremur en að kynna sér málið í þaula?
Að endingu vil ég nefna eftirfarandi: Í fyrstu þóttu mér Vantrúarsamtökin næstum virðingarverð. Síðar þóttu mér þau hlægileg. Þá hryggileg. Loks heimskuleg. Og í dag er ég kominn á þá skoðun að ofstækistrúleysi sé orðið jafnmikið - ef ekki meira - samfélagsmein og ofstækistrú.Bloggar | 19.10.2012 | 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Ég er þeirrar ónáttúru að nenna ekki að lesa það kellingaklám sem tröllríður heimsbyggðinni um þessar mundir. Hið sama verður ekki sagt um bókmenntapáfa Ríkissjónvarpsins. Hvaða bækur voru nú valdar til umfjöllunar í fyrsta Kiljuþætti vetrarins í gærkvöldi? Tvær útlendar kiljur. Sem fyrir undarlega tilviljun eru gefnar út af sama stóra bókaforlaginu. Líklega hefur bókmenntarýni á Íslandi sjaldan lagst lægra í efnisvali. Hvers vegna að fjalla um erlendar kiljur? Frá síðasta Kiljuþætti, sem sendur var út síðastliðið vor, hafa komið út tugir íslenskra bóka. Hvers vegna ekki að fjalla um hina stórmerku Örlagaborg Einars Más Jónssonar? Ef þörf er á að fjalla um bókmenntaklám, hvers vegna þarf það að vera útlent? Hví þá ekki frekar að fjalla um hinar íslensku Fantasíur í ritstjórn Hildar Sverrisdóttur? Frá síðasta vori hefur til dæmis komið út a.m.k. eitt smásagnasafn á íslensku og slíkt telst jafnan viðburður. En fjallar íslenskur bókmenntaþáttur um það? Óekki. Og hvað með hinstu ljóðabók Jónasar Þorbjarnarsonar, Brot af staðreynd? Nei, auglýsing fyrir erlent klámrusl er víst mikilvægari.
Þegar ég horfði á Kiljuþáttinn í gærkvöldi velti ég fyrir mér hvaða efni hefði verið valið til umfjöllunar ef þessi þáttur hefði verið gerður í kringum 1940. Líklega hefði þá verið tekin fyrir frægasta bók í heimi, væntanlega nýjasta Tarzan-saga Edgar Rice Burroughs, og máske líka nýjasta vinsæla sakamálasagan, mögulega nýjasta morðsaga Agöthu Christie. Hefðu þeir máske legið óbættir hjá garði, Laxness með Heimsljós og Davíð Stefánsson með Sólon Íslandus, svo að koma hefði mátt á framfæri erlendum metsölubókum? Næsta örugglega hefði Ólafur við Faxafen ekki fengið neina umfjöllun um Upphaf Aradætra.
Þess utan var í gærkvöldi rætt við rithöfund í tilefni af útkomu nýrrar bókar. Og viti menn! Sú bók kemur út hjá sama bókaútgáfurisanum og erlendu kiljurnar tvær. Skemmtileg tilviljun! Hér vil ég skýrt taka fram að ég er ekki á neinn hátt að leggja bókmenntalegt mat á umræddar bækur, sem ég hef ekki nema að litlu leyti lesið, ég er öllu frekar að velta upp spurningum um hvort eðlilegt teljist að fjalla um (og auglýsa þar með) erlendar metsölukiljur, jafnvel af ódýrustu sort, í íslenskum bókmenntaþætti, þegar nóg liggur fyrir af innlendu efni, sem og þá einkennilegu staðreynd að allar helstu bækur til umfjöllunar koma frá sama forleggjara. Umfjöllun í Kiljunni er nefnilega í augum flestra íslenskra bókaútgefenda gríðarlega mikilvæg og gratís auglýsing. Gratís? Ænei, hún er það víst ekki. Það eru víst íslenskir skattborgarar sem kosta þáttinn, og þar með auglýsinguna, nauðugir viljugir.
Bloggar | 4.10.2012 | 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fljótsdæla saga er líklega ekki í hópi vinsælustu Íslendingasagna, nema máske austur á Héraði. Fyrir tilviljun las ég hana næsta á eftir Finnboga sögu ramma, einfaldlega vegna þess að hún kom næst í stafrófinu. (Reyndar hafði ég ætlað að leggja fyrir mig Vatnsdæla sögu, til að kunna þann söguþráð áður en húnvetnskar hannyrðakonur verða reiðubúnar með refilinn sinn góða - en sú saga verður að bíða um hríð.)
Hvað um það - Fljótsdæla saga, já. Ein rússibanareið, sem óhætt er að mæla með. Sagan er frábrugðin öllum öðrum Íslendingasögum, sem ég hef lesið, í jákvæðasta skilningi. Sést þetta strax á upphafssetningunni. Oft byrja Íslendingasögur á á mannsnafni. Mörðr hét maðr" (Njála), Úlfr hét maðr" (Egla), Ketill flatnefr hét maðr" (Laxdæla), Önundr hét maðr" (Grettla). En hvernig byrjar Fljótsdæla? Jú, svona: Þorgerður hét kona." Strax í upphafi er sleginn annar tónn, við byrjum á kvenmannsnafni.
Og sagan heldur áfram að skera sig úr, bæði varðandi efni og stíl. Á löngum köflum er horfið frá hinni hlutlausu og hlutlægu frásagnaraðferð Íslendingasagnanna og í staðinn er efnið oft borið fram í nútímalegum spennusögustíl, þar sem margt er dulið lesandanum uns hið rétta kemur í ljós.
Víst er sagan á köflum með töluverðum býsnum og ævintýralegum ólíkindum, einkum framan af, þar sem við sögu koma jötunn í helli (á Hjaltlandi) og jarlsdóttirin Droplaug sem tröllið heldur fanginni hjá sér. En auðvitað kemur íslensk hetja og reddar málunum. Þegar á söguna líður hverfa þessi ævintýraminni nokkuð, en í staðinn kemur æsilegur spennusagnastíll. Sjaldan hef ég lesið nokkuð magnþrungnara í seinni tíð en eltingarleik þeirra Droplaugarsona, Helga og Gríms, við Austmanninn Gunnar Þiðrandabana, sem nýtur aðstoðar hins slóttuga Sveinunga. Á þeim flótta kemur við sögu ein útgáfa sem minnir afar mikið á felustað Gissurar Þorvaldssonar í sýrukerinu á Flugumýri, úr Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Í Fljótsdæla sögu er það á þann veg að bátur liggur á hvolfi í naustum, stokkfrosinn við jörðu til stafna, en þar undir er að vetrarlagi í óveðrum geymt fé, sem smokrað getur sér milli fjöruborðs og borðstokks. Þetta verður felustaður Gunnars um stund, en óvinir hans undir forystu Helga Droplaugarsonar koma þar að, hleypa rollunum út og pjakka með spjótum sínum í myrkrið inn undir bátinn í leit að óvini sínum og tíma ekki að snúa bátnum við, því að þá munu þeir brjóta hann til stafnanna og fleyið er öndvegissmíð. Þar innan við hefur Gunnar þrýst sér upp í botninn með höndum og fótum, svo hann snertir ekki jörðu. Er hann reyndar skeindur við þjóinn, en æmtir hvorki né skræmtir, og óvinirnir finna hann ekki og fara burt, þótt þeir taki síðar eftir því að blóð úr Gunnari hefur smurst á fal spjótsins. Ævintýraleg undankoma sem gæti verið úr Die Hard 5. En að lokum er það sjálf Guðrún Ósvífursdóttir sem kemur við sögu þegar ákvarða þarf örlög Gunnars Þiðrandabana og skulu þau ekki rakin hér.
Sagan hlýtur að vera gullnáma þeim sem búa á norðausturhorni landsins. Sögusviðið er Fljótsdalshérrað, Vopnafjörður, Borgarfjörður (eystri), Njarðvík (eystri), Mjóifjörður og víðar, með sæg örnefna, og ímynda ég mér að gaman hljóti að vera að ferðast eftir kennileitum og staðháttum - slíkt hlýtur að vera unnt að mestu. Þá er eftirtektarvert hversu stór hluti sögunnar gerist að vetrarlagi - stundum þótti mér sem Auðnin eftir Yrsu eða Harðskafi eftir Arnald væru Mallorcu-bókmenntir í samanburði. Sérstaklega fann ég fyrir kuldanum, þegar kappinn Gunnar (já, hann er kappi, þótt hann sé illmenni) hleypur berfættur um klakaauðnir svo að hann hrymgast" um fætur og hvað þá þegar hann syndir klæðalítill yfir víkina að vetrarlagi. Brrrr! Oft er sagan tilfyndin, jafnvel á stórkarlalegan hátt: Þannig er til dæmis Gunnar að ganga örna sinna, þegar Droplaugarsynir finna bæli hans, og þannig komin skýringin á því hví hann er svo klæðafár á flóttanum. Ekki er miklu síðri frásögnin af rjúpnaveiðum þeirra Droplaugarsona í snjónum að vetrarlagi, þegar Helgi er tólf vetra og Grímur tíu, en í þeirri ferð drepa þeir Þorgrím tordýfil, sem rægt hefur móður piltanna með því að breiða út orðróm um að hún hafi lagst með þræl. Þegar þeir koma heim úr veiðiferðinni spyr Droplaug syni sína um bráð og Helgi verður til svara: Smátt er í veiðum, móðir, veiddi ég tordýfil einn." Reyndar er fjöldi eftirminnilegra tilsvara í sögunni - hún er fjársjóður um þau efni.
Og sögulokin - ég hefði getað grenjað. Yfir því að fá ekki meira. Sögunni lýkur í miðjum klíðum, þar sem hinn ráðagóði Helgi Droplaugarson, sem hefur verið helsta hetjan og drengur góður lengst af, virðist ætla að þróast í illmenni. Hann er trúlaus, finnst lítið til goðanna koma og hæðist að trúrækni Bessa fóstra síns. Aldrei gengur þó hnífurinn á milli þeirra, þótt illir menn reyni að spilla. En við sögulok hafa þeir bræður, Helgi og Grímur, álpast að vetrarlagi - eftir villuför í hríðarkófi, hvað annað? - inn á þann helgistað þar sem Bessi geymir goðalíkneski sín af Frey og Þór og Frigg og Freyju uppáklædd og skreytt. Tekur Helgi að steypa þeim öllum um koll og afklæða þau og leika grátt. Grímur átelur bróður sinn fyrir athæfið, en Helgi svarar fullum hálsi: En eg ætla að eg hafi aldrei unnið betra verk en þetta á minni ævi því að þau [goðin] hafa villtan stig fyrir mér í dag því að eg hefi aldrei fyrr villur farið á ævi minni." Skilur hann síðan hofið opið, svo að snjófjúk næðir um goðin ... en við fáum aldrei að vita til hvers þetta ódæði leiðir í samskiptum hans við hans ástkæra fóstra Bessa, því að fáum línum síðar segir: (Hér þrýtur söguna.)" Spæling!
Bloggar | 26.9.2012 | 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar