Færsluflokkur: Bloggar
Ég lauk í gærkvöldi við lestur Valeyrarvalsins eftir Guðmund Andra Thorsson og hafði þá varið alldrjúgum tíma í bókina. Að hluta til treindist mér lesturinn fyrir annríkis sakir, en einnig vegna þess að sá sagnasveigur, sem bókin er (=safn innbyrðis tengdra smásagna) kallar á stöðugan endurlestur fyrri sagna, svo að í reynd held ég að ég hafi lesið bókina tvisvar. En í þriðja lagi er textinn svo fádæma ljúfur yndislestur að unun er að treina sér hann. Hvað eftir annað vekur frásögnin upp eftirminnilegar myndir, kenndir og lykt, eins og þegar ungur drengur kemur á sveitaheimili, líklega nærri 7. áratug síðustu aldar: "Lyktin í eldhúsinu var sérkennileg blanda af skepnuþef, mat, svita og jörð - kannski var þetta sjálf lyktin af Íslandi" (56).
Er ég lagði upp í lesturinn var ég stórhrifinn. Andrá í þorpinu Valeyri einn hlýjan föstudagseftirmiðdag um Jónsmessubil myndar rammann - það er hiti í lofti, biðukollufræ feykjast um, flugur suða yfir blómum, sól skín á spegilsléttan fjörð, hlátrasköll berast frá börnum hoppandi á trampólínum í bakgörðum, vélaskellir enduróma frá bát á stími inn fjörðinn og svo framvegis. Augnablikið er fryst og við gægjumst inn í líf nokkurra þorpsbúa, þar sem hver þeirra á sína sögu að segja, sína ævi að baki - horft er út í þorpið, en inn í persónurnar: "Þorpið á sína sögu, sína karaktera, sínar þjóðsögur. Karakterarnir eru allir löngu dauðir og bara manneskjur eftir og þjóðsögurnar horfnar og bara atburðirnir eftir" (151). Sumir (og reyndar flestir) glíma við harmsöguleg leyndarmál í farteski sínu, þótt oft megi finna kímni og launfyndni. Hinir heilögustu eru syndugastir og öfugt; myndin af Búft í netpókernum er óborganleg. Frásögnin er átakalítil, en um leið hlý og mannleg og á einhvern hátt alltumvefjandi. Þegar ég hóf lesturinn - og langt fram eftir bókinni - hugsaði ég: Fjórar stjörnur, hikstalaust. En, því miður, þegar á líður teygist lopinn dálítið, frásagnirnar fara að verða óþarflega einsleitar og sagnasveigurinn nær ekki alveg að uppfylla þau fyrirheit, sem gefin voru um stefnu hans - það vantar lokahnykk. Þannig dregst hálf stjarna frá. Lestur bókarinnar er samt vel þess virði - galdurinn liggur í stílnum, ekki í framvindunni, eins og félagi minn sagði - og margar myndirnar, sem dregnar eru upp, lifa í huganum löngu eftir að lestri er lokið: "Hann sat á steini og horfði á sendlingana hlaupa um í fjöruborðinu eins og orð sem Guð hefur misst." Þetta kann að hljóma dálítið væmið, svona slitið úr samhengi, en það féll fulkomlega á réttan stað í frásögn Andra.
Þorpsmyndin, sem dregin er upp, sem og stíllinn, eru þægilega og hughreystandi gamaldags, laus við allt póstmódernískt prjál og rembing. Valeyri virkar á mig eins og þorp á Íslandi anno 1975- nema hvað fáeinir íbúar hafa tileinkað sér Facebook og youTube og skönnun og netpóker.
Bloggar | 3.2.2012 | 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við lifum á tímum þar sem hægt er að fá persónulega mynd af sér ásamt fjölskyldu á frímerki.
Væri ekki sniðugt af já.is að bjóða upp á hliðstæða þjónustu þar sem viðskiptavinur gætu fengið límmiða af sjálfum sér berum niður að mitti til að líma yfir forsíðu símaskrárinnar?
Til vara væri hægt að bjóða upp á andlitsmynd af viðskiptavininum sem setja mætti yfir það andlit sem nú prýðir skrána?
Bloggar | 2.2.2012 | 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í kjölfarið á deilunum um stelpuís og strákaís um daginn, lenti ég í umræðum, þar sem verið var að ræða um dúkkur. Barbie er jú fyrir stelpur og Action Man fyrir stráka, ekki satt?
Þá kviknaði hjá mér galgopaleg viðskiptahugmynd.
Væri ekki heillaráð að framleiða bara eina gerð af dúkku með ásmellanlegu typpi til að festa í þartilgerða rauf? Dúkkan gæti verið þokkalega flatbrjósta, en með silikonpúða, sem renna mætti inn í brjóstkassa. Blása mætti út vöðva svo að hún gæti orðið steratröll. Hún gæti heitið "Trans-Gender". Þar með gæti hver sem er látið hana vera hvað sem er og svo mætti klæða hana upp í hvernig föt sem vill. Þannig gæti fólk hætt að rífast um stelpudót og strákadót - á einum vettvangi, að minnsta kosti.
Bloggar | 2.2.2012 | 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Harpa Hreinsdóttir skrifar enn eina stórfróðlega greinina, þar sem koma fram margvíslegar upplýsingar um Vantrú, sem ekki hafa sést áður, núna um hvernig félagið lagði á ráðin áður en lagt var í kærumálin. Athygli vekur miður viðfelldið orðbragð ýmissa félagsmanna, en einnig hernaðarlegt/árasargjarnt yfirbragð á málfari þeirra.
Slóðin er: http://harpa.blogg.is/2012-01-28/bardagaadferdir-vantruar-gegn-bjarna-randver-sigurvinssyni/
Bloggar | 30.1.2012 | 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Til nánari útskýringar má nefna að sú mynd, sem ég hafði af Ingibjörgu, var af dugmikilli borgaralegri húsfreyju í Kaupmannahöfn, sem eldaði eigin mat (með aðstoð vinnukonu) fyrir bónda og gesti, endasentist sem þeytispjald um Höfn þvera og endilanga í erindagjörðum fyrir landa sína heima á Fróni, sinnti uppeldi Sigga litla, saumaði, sótti viðburði með eiginmanni sínum og tók á móti gestum, mestmegnis ljúf í viðmóti, en stöku sinnum uppstökk. Þessa mynd fékk ég nokkurn veginn staðfesta í bók Margrétar, sem dregur saman nánast allar ritheimildir, sem er að finna um þessa merku konu, en heimildirnar eru mestmegnis reikningar tengdir heimilishaldi þeirra hjóna og sárafá sendibréf (sem sýna velviljaða og kurteisa en lítt ritfæra konu; hvort tveggja, rithönd og ritstíll eiginmannsins, er óendanlega glæstari). Þar sem heimildir þrýtur þarf Margrét stundum að grípa til almennra yfirlitsrita um lífshætti borgarstéttar á 19. öld og gerir það vel. Stíllinn er blátt áfram og auðlesinn, laus við flúr og tildur. Umfjöllun Margrétar um ljósmyndir af þeim hjónum, sem og um ýmsa muni úr dánarbúi þeirra, er og með miklum ágætum.
Nærtækt er að bera Ingibjörgu saman við aðra 19. aldar heldrikonu, sem nýlega eignaðist skráða sögu, en það er Þóra Pétursdóttir biskups, sem Sigrún Pálsdóttir skrifaði ágæta bók um fyrir rúmu ári. Það sem maður finnur fyrst fyrir er hversu formlegri Ingibjörg virðist í bréfaskriftum sínum, meðan Þóra er persónuleg og innileg. Að hluta má eflaust kenna þar um mismunandi æviskeiðum og aldarhætti, en Ingibjörg tilheyrði næstu kynslóð á undan Þóru og gott betur, var rúmum 40 árum eldri. Hjá kynslóð Ingibjargar hefur lítt þótt við hæfi að konur bæru tilfinningar á torg, eins og oft má sjá í bréfum Þóru nær aldarlokum, einkum í bréfum til mannsefnis/eiginmanns hennar, Þorvaldar Thoroddsen. En einnig er augljós munur á persónuleika þessara tveggja kvenna; Ingibjörg virðist að öllu leyti settlegri og formlegri, en Þóra á til að skrifa æði óheft, jafnvel um innstu hjartans mál. Hins ber að gæta að ekki hafa varðveist bréfaskifti Ingibjargar og Jóns Sigurðssonar, svo að mögulega má fara varlega í að álykta um innilegri mál. Þess vegna heldur Ingibjörg Einarsdóttir ef til vill áfram að vera mér óbreytt ráðgáta. Þó þykir mér ljóst að fengur er í þessum tveimur bókum fyrir alla, sem vilja kynna sér stöðu íslenskra heldrikvenna á 19. öld, og þá ekki síður í bók Margrétar um Ingibjörgu.
Bloggar | 23.1.2012 | 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Harpa Hreinsdóttir, sem að undanförnu hefur skrifað bloggfærslur um siðanefnd HÍ og starfsemi félagsins Vantrúar, hefur fylgt málinu eftir með nýrri færslu um "Stóra glærumálið" innan HÍ. Er þetta sögð "1. grein" um málið og því fleiri að vænta, tel ég. Harpa hefur bersýnilega lagt á sig mikla rannsóknarvinnu og er þessi greinaflokkur hennar að verða ein besta úttekt, sem til er á málinu.
Fyrir áhugasama má benda á slóðina, en hún er: http://harpa.blogg.is/2012-01-18/stora-glaermalid-og-modgelsi-vantruar-i-hluti/
Bloggar | 20.1.2012 | 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrir áhugasama má benda á að Harpa Hreinsdóttir hefur skrifað stórfróðlega greiningu á félaginu Vantrú á heimasíðu sína, þar sem hún rekur sögu og starfsemi félagsins frá upphafi. Slóðin er efitrfarandi: http://harpa.blogg.is/2012-01-14/vantru/
Bloggar | 15.1.2012 | 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ofangreind tilvitnun er gullkorn úr nýjustu bók Hallgríms Helgasonar, Konan við 1000 gráður (bls. 100). Í þeirri bók er enginn hörgull á speki - á hverri blaðsíðu þar má finna vísdómsorð til að skrifa bak við eyrað (þótt ég gangi nú ekki svo langt sem einn ritdómari, að telja hverja einustu setningu gullvæga).
Konan við 1000 gráður er að ýmsu leyti þrekvirki og stór saga í flestum skilningi, fer víða yfir í tíma og rúmi. Í upphafi virkar hún dálítið einsog brotakennt mósaík, en smám saman greiðist úr flækjunni og flest brotin taka á sig fyllri mynd. Margt er klár snilld. Þannig er sagan af Svita-Gunnu með því besta sem íslensk sagnalist hefur upp á að bjóða. Kaflarnir á Amrum eru einnig afar áhrifaríkir og lifandi; Svefneyjalífið minnisstætt, sem og gangan frá Póllandi til Berlínar. Samtal foreldra Herru uppi á fimmtu hæð í Lübeck (eða var það Kiel?) er sömuleiðis óborganlegt. Aðal sögunnar er þó hinn endalausi leikur höfundar með tungumálið, á köflum ótrúleg jafnvægislist með ótal bolta á lofti. Einhvern veginn nær Hallgrímur, eins og í mörgum fyrri bókum sínum, að þurrausa alla möguleika tiltekinna orða. Hér má t.d. benda á hvernig hann tæmir allt í sambandi við nafnið Herra, bæði varðandi merkingu og framburð á ólíkum tungumálum. Orðaleikirnir eru kostulegir og mér er með öllu óskiljanlegt hvernig hægt er að þýða þá yfir á erlendar tungur. Þar dugar að nefna sem dæmi lokasetningu bókarinnar.
Sagan er þó ekki með öllu gallalaus. Stundum fer höfundur yfir strikið í orðaleikjunum og þeir missa marks - það rými hefði mátt nota til að gefa sögunni meiri fyllingu. Hún verður á endanum fyrst og fremst stríðssaga úr seinni heimsstyrjöld, sem vill yfirskyggja um of aðra þætti í litríku lífi Herbjargar Maríu; ég fékk á tilfinninguna að um 2/3 hlutar frásagnarinnar gerðust á árabilinu 1940-45. Þá er heldur ótrúverðugt hversu mörg lík Herra þarf að horfa upp á og hversu margar nauðganir hún þarf að þola. Sumir þræðir eru einnig skildir eftir óhnýttir, t.d. fáum við aldrei fullnægjandi mynd af flestum eiginmönnum Herbjargar - Síðjóni, Friðjóni eða Bob eða hvað sem þeir nú heita. Hafði ég dálítið á tilfinningunni að höfundur hefði gjarna þegið hálft ár eða svo til að fullkomna sögu sína og fínpússa um þessi efni, en ekki verið gefinn tími til.
Þrátt fyrir skafankana stendur Konan við 1000 gráður uppi sem mjög góð bók og frábær á köflum, að mínu viti næstbesta verk Hallgríms á eftir Höfundi Íslands. Og ég er, held ég, orðinn ágætlega lesinn í þessum höfundi og hef lesið allar skáldsögur hans nema hálfa Hellu.
Til að ljúka þessu greinarkorni vil ég nefna tvær eftirminnilegar tilvitnanir: "Fátt er svo illt sem vondra manna gæska" (323). Og finnst sannari lýsing á aðdraganda hrunsins en eftirfarandi: "Siðblinda, græðgi, frekja og fyrirgangur. Og allt borið fram í nafni yndisleikans, með brosi á vör." (242)?
Bloggar | 11.1.2012 | 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ég vil vekja athygli á einkar áhugaverðri bloggfærslu Hörpu Hreinsdóttur um "Stóra Siðanefndarmálið" innan Háskóla Íslands á blogg.is (sjá http://harpa.blogg.is/2012-01-08/ekki-malid-sem-sidanefnd-hi-tokst-ekki-ad-leysa/)
Bloggar | 9.1.2012 | 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Bloggar | 16.12.2011 | 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar