Færsluflokkur: Bloggar
Bloggar | 12.12.2011 | 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (88)
Ég er einn af þeim sem beið spenntur eftir viðbrögðum félagsins Vantrúar við býsna mergjaðri grein Barkar Gunnarssonar úr Lesbók Morgunblaðsins síðasta laugardag, sem vakið hefur ýmsar spurningar og umræður.
-----Skemmst frá að segja varð ég fyrir vonbrigðum með viðbrögð Vantrúar.
-----
Fyrst af öllu vil ég taka fram að ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum Vantrúarmanna og hef ekkert við þær að athuga, þótt ég sé ekki alltaf sáttur við framsetningu þeirra skoðana. Hins vegar hef ég mikinn áhuga á starfsaðferðum þeirra og þeirri hugmyndafræði sem virðist liggja þar til grundvallar.
-----
Einnig, áður en lengra skal haldið, vil ég greina frá því hvað mér finnst mikilvægast í þessu máli öllu. Það er spurningin um hvort hugmyndafræðilegir þrýstihópar eigi að geta haft áhrif á eða stjórnað hvernig kennslu er háttað við Háskóla Íslands, hvað megi segja þar og hvað ekki. Það mál er þó ekki einhlítt og er annar flötur á málinu, þess eðlis að ekki sé kennara heimilt að setja fram hvað sem honum sýnist, á hvaða sem er. Það er af þessari síðari ástæðu sem ég held að kærur Vantrúar (þrjár að tölu upphaflega, til þriggja ólíkra aðila, en oft talað um þær sem eina) eru sprottnar. Eðlilegt getur verið að koma með aðfinnslur, athugasemdir, umkvartanir eða - ef menn telja kennslu eða framsetningu námsefnis stórlega ábótavant - kærur. Félagið Vantrú kaus síðasta kostinn og þar með, getum við sagt, hörkustig málsins. Í samhengi við málið í heild má velta fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt fyrir háskólastofnanir að haga siðareglum sínum með þeim hætti að ekki sé líklegt að látið verði undan kröfum þrýstihópa, sem sagt að ekki dugi til siðanefnd ein í grafalvarlegum málum, og að nærtækara sé að háskólasamfélagið allt geti átt aðkomu að þeim. Þetta gerðist einmitt í kærumálum Vantrúar á hendur Bjarna, að fram komu stuðningsmenn við akademískt sjálfstæði á mikilvægum tímapunkti, og kann það að hafa bjargað sjálfstæði Háskólans undan fljótfærnislegri ákvörðun. Reyndar sýnist mér þrennt hafa snúið þessu máli frá þeirri upphaflegu framvindu sem það virtist að stefna í: Stuðningur kennara Hugvísindadeildar við Bjarna á krítísku augnabliki, síðan aðkoma lögfræðings hans að málinu og loks gögn sem hann fékk í hendur úr herbúðum Vantrúar.
----
Þá aftur að viðbrögðum Vantrúar, eins og þau birtust á vef félagsins í gær. Þar ber fyrst að nefna grein í nafni ritstjórnar, sem hét "Hvað gekk á í Guðfræðideild?" Þessi grein er allrar athygli verð. Þarna er hlutur Vantrúar í málinu öllu gerður sem minnstur, en málið blásið töluvert upp sem innanhúsmál innan HÍ. Orðalag allt hefur breyst; þar sem áður voru "kærur" er nú alltaf talað um "erindi" Vantrúar til HÍ og þannig reynt að milda þátt félagsins og fjarlægja það málinu. Virðist reynt að gera Pétur Pétursson, þáverandi deildarforseta að "vonda kallinum" í málinu (með myndbirtingu af Pétri samlagaðri undirskrift hans) gagnvart (hinni upphaflegu) siðanefnd Háskólans, sem verður þá "góði gæinn"(án myndbirtingar), en félagið Vantrú virðist ótrúlega "stikkfrí". Öll þessi umfjöllun er athyglisverð í ljósi þess sem Börkur Gunnarsson segir um Overton-gluggann og tilfærslu á málflutningi. Hjá því verður ekki horft að félagið Vantrú var málshefjandi í þessum málabúnaði öllum og ákvað hörkustigið sem fyrr sagði. Málið allt hefur valdið ýmsum aðilum skaða, jafnvel óbætanlegan, og því verður vart hjá því komist að spyrja: Hver er ábyrgð Vantrúar á því tjóni - siðferðilega, lagalega og jafnvel fjárhagslega? Spyr sá sem ekki veit; ég er þess ekki umkominn að setjast í dómarasæti.
Í annarri grein gærdagsins á vef Vantrúar, "Hvaða einelti?" eftir Egil Óskarsson (sú grein er væntanlega samþykkt af ritstjórn Vantrúar því að öðruvísi komast greinar ekki þangað inn, skilst mér) er í lokin lagt töluvert upp úr sáttfýsi Vantrúar, en ekki gagnaðila. Þar segir orðrétt: "Sættir sem Vantrú var alltaf tilbúin til að fallast á en ekki kennarinn og hans fólk." Hér er vert að staldra við. Fyrst af öllu spyr maður sig að því: Til hvers að kæra kennarann (mesta hörkustig) og vera svo fljótt reiðubúinn til að fallast á sættir? Í skýrslu rannsóknarnefndar HÍ um störf siðanefndar HÍ í þessu máli (sem ég lagði á mig að lesa alla í gær) kemur skýringin. Þarna er að finna einu útlistunina á svonefndum "sáttum" í málinu, sem ég hef fundið. Þar (bls. 37) kemur fram að fyrsta svonefnd "sátt" fyrir tilstilli siðanefndar fólst í raun og veru í því að guðfræðideildin ætti að samþykkja kæruatriði Vantrúar, þ.e. viðurkenndi að kennsluefnið fæli ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið - og það án þess að Bjarni kæmi að málinu. Þessi svonefnda "sátt" hefði því þýtt í reynd fullnaðarsigur Vantrúar í málinu og verið áfellisdómur yfir kennslu Bjarna. Í kjölfarið virðist koma fram gagnsáttatilboð frá guðfræðideild, þar sem Bjarni m.a. biðjist afsökunar á einni glæru. Ekki kemur fram í skýrslunni hvernig því tilboði lyktaði, en stuttu síðar er haldinn fundur 23 kennara og doktorsnema við HÍ, sem hafnar ákvörðun Siðanefndar að birta áfellisdóm í formi "sáttatillögu". Í skýrslunni kemur síðar fram að þann 21. janúar 2011 hafi komið fram sáttatillögur á grundvelli hugmynda Bjarna, en ekki borið árangur.
Þá kemur að einum sérkennilegasta anga þessa máls: Einhvers konar sáttatillögu vegna vanhæfi Siðanefndar HÍ um að Háskólinn taki þátt í útgáfukostnaði ritverks á vegum Vantrúar. Ekki sá ég upphæð nefnda í skýrslu rannsóknarnefndar HÍ, en samkvæmt grein Barkar var um að ræða 750 þúsund krónur. Í þetta er vel tekið af hálfu Vantrúar og Reynir Harðarson talar um þetta sem "spennandi verk" sem Hugvísindadeild sé að koma þarna að.
Hvergi kemur fram hvað kom út úr þessu undarlega boði, hvort það sé enn í gangi eða annað, en maður hlýtur að spyrja sig hvort eðlilegt sé að kærumál til Háskóla Íslands vegna kennslu og framsetningu námsefnis geti haft fólginn í sér eða leitt af sér beinan fjárhagslegan ávinning kæranda.
-----
Athyglisvert er orðfæri í grein Egils (og víðar á vef Vantrúar) varðandi gögn sem farið hafa í heimildarleysi á milli herbúða. Upphaf málsins má rekja til þess að félagið Vantrú "áskotnaðist með ansi sérstökum hætti" (eins og Egill orðar það) glærurnar úr námskeiði Bjarna, sem eru rót kærurnar og félagið Vantrú birti síðar heimildarlaust á vef sínum, í trássi m.a. við höfundarréttarlög. Rúmu hálfu ári síðar (sýnist mér) kemst Bjarni yfir eða fær í hendur gögn, sem eru útprentun af innri spjallvef Vantrúar um málið, þar sem kemur fram að ýmsir hafa lagt orð í belg um mál hans, jafnvel svo að sumir vilja túlka sem samblástur (og þaðan er "eineltisumræðuhlið" málsins komin). Eftirtektarvert er að Egill talar fullum fetum um þau gögn sem "þjófstolin", en ekki á sama hátt um þau gögn sem Vantrú varð sér úti um áður í heimildarleysi, þótt sumpart sýnist mega leggja málin að jöfnu.
-----
Einn angi málsins er fyrrgreind umræða um mögulegt einelti. Aldrei mundi ég vilja ganga svo langt að vilja tala um "einelti" í þessu máli, þótt ekki væri nema fyrir þá ástæðu eina að varast ber að nota hugtakið yfir hvers konar deiluefni sem upp koma, og útvatna þannig þetta alvarlega hugtak. Hvort kalla megi kærur Vantrúar á hendur Bjarna "aðför" er annar handleggur. Vantrú talar um í fyrirsögn í einni ritstjórnargrein sinni á netinu um "Aðför Guðna Elíssonar að Siðanefnd HÍ og Vantrú" (Guðni fór fyrir háskólakennurum sem studdu Bjarna í málinu). Ef tiltölulega lítill þáttur Guðna í heildarmyndinni allri getur kallast "aðför", hvað má þá kalla framkomu Vantrúar á hendur Bjarna?
-----
Eitt er mér með öllu óskiljanlegt: Hvers vegna dró Vantrú kæru sína til baka? Hví ekki að fylgja málinu eftir til enda? Af rannsóknarskýrslu HÍ um siðanefnd HÍ má ætla að Vantrú hafi framan af í málinu talið sig hafa siðanefnd HÍ hliðholla sér. Forsendur virðast síðan breytast þegar formaður siðanefndar segir af sér, m.a. vegna aðkomu háskólakennaranna. En þrátt fyrir allan darraðardansinn innan HÍ, þá skil ég ekki hvers vegna félagið Vantrú beið ekki bara þar til komin væri starfhæf siðanefnd eða hliðstæður aðili til að taka á málinu. Ég fæ ekki betur séð en að Vantrú hefði á öllum stigum málsins getað sagt: Ja, við bíðum bara af okkur innbyrðis deilur Háskóla Íslands þar til komin er starfhæf siðanefnd og fáum þá úrskurð í málinu." Um leið og farið var af stað með kærurnar var þetta orðið grafalvarlegt mál. Ég sé ekki að sá alvarleiki hverfi þótt kærurnar hverfi, einkum í ljósi þess tjóns sem þær hafa valdið. Hvers vegna voru þá kærurnar dregnar til baka? Vænt þætti mér að heyra svar Vantrúarmanna við þeirri spurningu.
Bloggar | 7.12.2011 | 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (92)
Bloggar | 3.12.2011 | 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Bloggar | 1.12.2011 | 13:51 (breytt kl. 15:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 28.11.2011 | 11:40 (breytt kl. 14:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú er í gangi fréttaflutningur þess efnis að synjun Íslendinga á landakaupum Huang Nubo hafi spillt fríverslunarsamningaviðræðum við Kínverja.
Þetta er einkennilegur fréttaflutningur. Því hefur alla tíð verið haldið fram af landsöluagentum (les: Samfylkingunni) að Huang Nubo hafi verið hér í einkaerindum, að um prívatgerning væri að ræða og þess vegna bæri ekki að óttast ásælni erlends ríkis. Svo, allt í einu þegar það hentar, er farið að tengja þetta við opinbera samninga við kínverska ríkið.
Hvers vegna er engin samkvæmni í málflutningi? Hvort var Huang Nubo hér í einkaerindagerðum eða sem hluti af opinberu erlendu bákni?
Ef sanngirnissjónarmið eiga að ráða, væri ekki bara eðlilegast og einfaldast að bjóða Kínverjum upp á jöfn býtti: Þeir fái 0,3% af Íslandi og við fáum 0,3% af Kína?
Bloggar | 27.11.2011 | 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 25.11.2011 | 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í morgun birtust tveir ritdómar um skáldsögur í Fréttablaðinu. Var báðum hampað og gefið fullt hús (4 stjörnur af 4 mögulegum). Á sama tíma birtust tveir ritdómar í Fréttatímanum og var annarri bókinni gefið fullt hús (5 stjörnur af 5 mögulegum) og hinni veitt næstum fullt hús (4 stjörnur af 5 mögulegum).
Þessi bókajól virðast óvenju gjöful - hvað eftir annað hlaða bókagagnrýnendur skáldsögur lofi og stjörnum og veita fullt hús stiga, eins og komið hefði fram nýtt snilldarverk eftir Laxness eða Shakespeare. Óskaplega hljóta þessar bækur allar að verða langlífar. Svo sparka ritdómarar í einn og einn undirmálsrithöfund og kasta í hann einni stjörnu, máske til að jafna meðaltalið. Reyndar þykir mér heiðalegast, sölutrixið við nýju bókina hans Gils, þar sem einfaldlega eru settar á auglýsinguna 5 stjörnur, án þess að tilgreint er hvaðan þær koma. Bók sem er með nánast orðréttri endursögn Eyrbyggju á einum stað upp á þrjár blaðsíður og á öðrum stað upp á eina blaðsíðu er hafin upp til skýjanna; ef til vill er þetta í lagi þegar vinstri menn eiga í hlut, en ég held að einhverjir hefðu risið upp til handa og fóta ef Hannes Hólmsteinn hefði átt í hlut. Og svo er hinn póllinn: Helsti bókmenntaþáttur landsins er notaður sem ein risastór auglýsing fyrir bók um Rússagrýluna, sem er hjákátleg og löngu dauð hjá flestum nema einstaka kaldastríðseftirlegukindum sem sjá sér hag, annaðhvort fjárhagslegan eða stjórnmálalegan, í að halda henni á lífi.
Hvað er þá til bragðs í öllum þessum stjörnusprengingum? Þótt ég hafi lesið nokkrar jólabókanna (og talið þær allar yfir meðallagi, en enga langt yfir því), þá held ég að ég setji stopp við núna og bíði eftir að rykið setjist, svo að greina megi hismið frá kjarnanum. Þá er heillaráð að hverfa aftur í það sem hefur sannað sig í aldanna rás: Íslendingasögurnar.
Að undanförnu hef ég lesið a.m.k. þrjár Íslendingasagna mér til óblandinnar ánægju (Eyrbyggja þeirra best og Gísla saga síst), en staðnæmist nú við þá sem er í miðið: Heiðarvíga sögu. Söguþráður Heiðarvíga sögu er reyndar svo flókinn og hefndarferlið svo brösótt að ég er nú hálfnaður í öðrum lestri bókarinnar, minna dugar ekki vitgrönnum lesanda. Söguþráðurinn er nokkurn veginn eftirfarandi:
Víga-Styr er höfðingi og ójafnaðarmaður, vegur menn af litlu tilefni tvist og bast, og stærir sig af því að hafa drepið 33 án þess að bætur hafi komið fyrir, enda er hann í skjóli (sem tengdafaðir) eins voldugasta höfðingja landsins, Snorra goða. Þegar Víga-Styr drepur smábónda, sem ætlar að flýja hérað undan ofríki hans, launar hann Gesti bóndasyni með einu lambi sem e.k. smánarbótum. Stráknum tekst að hefna sín og drepa Víga-Styr (og mælir þá að þar sé hann að launa honum lambið gráa, sem síðan hefur orðið að orðatiltæki). Stráksinn Gestur flýr til skyldmenna og vina í Borgarfirði, sem koma honum undan til Noregs. Sonur Víga-Styrs, Þorsteinn að nafni, eltir Gest til útlanda til að koma fram hefndum, reynir þrisvar, en alltaf tekst honum svo slysalega til að Gestur verður fyrri til að bjarga lífi hans, síðast suður í Miklagarði, þannig að sýnt virðist að hefndir náist ekki fram á þeim vettvangi og Þorsteinn snýr heim, hefndarlaust.
Snorri goði er ekki ánægður með að óhefnt sé, heldur með menn suður í Borgarfjörð og drepur bóndagrind þar, sem hann telur tengdan undanskoti Gests. Þá þarf að hefna fyrir bóndagrindina. En Snorri er of voldugur til að hægt sé að ráðast beint gegn honum, svo að ráðast verður gegn minni mönnum hans. Og dragast nú blásaklausir menn á einkennilegasta hátt inn í vígaferli. Í Noregi er staddur maður að nafni Kolskeggur, tengdur aðför Snorra, og hann vilja svonefndir Hárekssynir, væntanlega ættaðir úr Borgarfirði, drepa. En Kolskeggur kemst á skip til Englands og Hárekssynir hafa engan til að hefna sín á, svo að þeir drepa húnvetnska öndvegismanninn Hall, sem er málinu með öllu ótengdur, nema hvað hann af góðsemi hafði hjálpað Kolskeggi að verða sér út um far til Englands. Í kjölfarið sigla Hárekssynir til Danmerkur, en þar sekkur skip þeirra og þeir farast.
Þá vandast nú málin: Ekki geta Húnvetningar (sem hingað til voru málinu óviðkomandi) hefnt fyrir vígið á Halli á hinum dauðu Hárekssonum, sem eru drukknaðir. Svo að nú verður að hefna sín á Borgfirðingum dálítið generelt. Kemur nú til sögunnar Barði, bróðir hins vegna Halls, og verður helsta persóna sögunnar til loka. Hann smalar nú saman liði í Húnaþingi (og ef manni finnst Hallgrímur Helgason gefinn fyrir málalengingar, þá ættu menn að skoða málskrúðið í kringum liðsöfnuðinn). Síðan heldur Barði með lið sitt suður yfir Arnarvatnsheiði (sem raunar er ekki svo nefnd í sögunni, ef ég man rétt) og drepur eina bóndagrind og flýr svo upp á heiði, þar sem hans menn hafa komið sér upp virki til að verjast á á tveimur stöðum. Borgfirðingar safna liði í nokkrum hollum og þegar Barði verður fyrst var við eftirför vill hann hraða sér sem mest upp í efra virkið, en liðsmenn hans letja og finnst lítt hetjulegt, því að þeir hafa lítið fengið að berjast fram að því. Lýstur síðan í bardaga við neðra virkið, þar sem vörn Norðanmanna er erfiðari. En Borgfirðingar koma í nokkrum hópum, svo að úr verða nokkrir bardagar og yfir 10 manns falla, sem sagt heiðarvíg, sem nánast er ómögulegt að útskýra hvernig til eru orðin.
Í þessum bardaga er ódauðleg sena, þar sem tveir kapparnir berjast. Annar heitir Oddur og er kallaður Gefnar-Oddur, því að hann er ráðsmaður hjá ekkju sem er kölluð Gefn og gefið í skyn að hann haldi við hana einnig, en Borgfirðingurinn heitir Eyjólfur. Sá síðarnefndi kemur sverðshöggi á kinn Odds, svo gengur inn í hvoftinn með svöðusári og segir þá Eyjólfur: Vera kann að ekkjunni þyki versna að kyssa þig." Því svarar Oddur: Lengi hefur eigi gott verið, en þó mun nú mikið um hafa spillst og þó kann vera að eigi segir þú þetta þinni vinkonu" og veitir Eyjólfi mikið sár ...
Þessi saga er hin æsilegasta, þótt flókin sé og teygð. Hún er krydduð með vísum og fyrirboðum. Stíllinn er ærið tvískiptur, enda fyrri helmingurinn skrifaður á 18. öld eftir minni af Jóni Grunnvíkingi (eftir að sá hluti handritsins brann), en seinni hlutinn varðveittur með forneskjulegu 13. aldar málfari.
Einhvern veginn efast ég um að nokkur skáldsaga, sem gefin er út um þessi jól, sé jafn spennandi eða verði jafn langlíf og Heiðarvíga saga.
Bloggar | 25.11.2011 | 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 23.11.2011 | 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrir ári eða svo sá ég gamanmyndina Dinner for Schmucks og vænti lítils, en skemmti mér konunglega því að hún kom verulega á óvart. Þegar myndinni lauk var hins vegar nær ekkert, sem sat eftir, og man ég varla efni hennar lengur.
Af svipuðum toga þótti mér lestur bókarinnar um Gamlingjann sem skreið út um gluggann og hvarf. Það var rússibanareið, meðan á henni stóð, en ég verð að játa að lítið situr eftir þegar upp er staðið.
Nú vil ég ekki vera misskilinn og lýsi því hér í upphafi rækilega yfir að Gamlinginn er skemmtileg skáldsaga (og mætti auðveldlega flokka sem skemmtisögu eða jafnvel farsa). Ég skil hins vegar ekki allt írafárið út af henni, því að hún er ekkert tímamótaverk. En það voru Da Vinci Code og Milennium- bækurnar ekki heldur og samt urðu einhvern veginn allir að lesa þær.
-----
*Viðvörun: Það sem hér fer að neðan gæti spillt lestri fyrir þeim sem á bókina ólesna.*
Styrkur Gamlingjans felst einkum í hraðri frásögn, sem oft fer í ófyrirséðar áttir. Eins og ég sagði, dálítil rússibanareið. En veikleikarnir eru líka ýmsir. Stundum fer hún yfir strikið í farsalátum (þannig fara t.d. örlög "Hænunnar" svonefndu út fyrir öll mörk trúverðugleika og verða hreint slapstick comedy, eins og kallast á ensku). Annar veikleiki er klisjukennd persónusköpunin. Nánast hver einasta persóna fær sína bakgrunnssögu, en oft er það óþörf málalenging til baga frekar en til bóta. Þótt persónugalleríið sé fjölmennt, þá eru þetta mestmegnis pappaspjöld. Meðlimir glæpagengisins eru t.d. hver öðrum nautheimskari og stereótýpískari. Þá er persónusköpun Allans Karlssonar ekki upp á marga fiska - hann flýtur bara einhvern veginn áfram, hvort sem er í fortíð eða nútíma. Þá þótti mér heldur ósennileg kynhvötin, sem kviknar hjá honum seint í sögunni, þrátt fyrir að hafa verið geldur svo rækilega í bókarbyrjun að kvennamál þvælast ekkert fyrir honum ævilangt.
Gamlinginn er í reynd tvískipt bók: Frásögn í nútímanum annars vegar og upprifjun á ævi Allans Karlssonar hins vegar. Einn veikleiki bókarinnar felst í því hve ótengdir þessir tveir hlutar eru; það er nánast eins og höfundur hafi skrifað 2 óskyldar bækur og tekið skyndiákvörðun í lokin að steypa þeim saman. Sagan hefði orðið heilsteyptari ef gamlinginn Allan hefði einstaka sinnum ýjað að merkisviðburðum ævinnar. Í eina skiptið, sem Allan rifjar upp slíkar tengingar, þá er það seint í bókinni í kafla, sem er alltof langur og teygður. Slíku efni hefði betur verið dreift jafnara um bókina.
Gamlingjanum hefur verið líkt við Forrest Gump, í þeim skilningi að hann fer víða um mannkynssöguna og hittir ýmsa þjóðhöfðingja og merkismenn á vegferð sinni. En Forrest Gump var vanviti, sem Allan Karlsson er ekki. Allan er saklaus einfeldningur, sem kastað er út í hinn stóra heim, velkist þar og sjóast og dregur um síðir lærdóm af. Að þessu leyti líkist Allan Birtíngi eftir Voltaire. Reyndar er fleira líkt með þeim tveimur; þeim er báðum kastað út í hinn stóra heim frá N-Evrópu, fara fyrst til Pýreneaskaga og síðan til Ameríku. Þá lýkur báðum bókum svipað; Birtíngur safnaði jú um sig eftirlifandi og afgömlum vinum sínum og fór að rækta garðinn sinn. Og hvað haldið þið að Allan geri í bókarlok?
Mig furðar að enginn skuli hafa tengt Gamlingjann við sérkennilegar sér-skandinavískar gamansögur Danans Finn Söborg, sem er mörgum gleymdur, því miður. Frá fyrstu síðu þótti mér ég vera að lesa bók eftir Söborg með sínum góðlátlega og kankvísa húmor. Ég þarf að fara að rifja upp minn Söborg; fyrir utan að hafa rennt yfir Navn Ukendt fyrir áratug eða svo, þá eru sennilega komin 30 ár síðan ég las aðrar bækur hans.
Sumir mannkynssögukaflarnir í Gamlingjanum eiga til að útvatnast fljótt. En þar sem Jonasson tekst vel upp, þá eru slíkir kaflar það besta í bókinni og í raun óviðjafnanlegir. Skemmtilegasti afturlitskaflinn þótti mér annars sá fyrsti, um föður Allans, sem fer til Rússlands að steypa keisaranum, en úr verður meinfyndinn viðsnúningur, þar sem Carl Fabergé er í skemmtilegu aukahlutverki. Þá er kaflinn um Vladivostok óborganlegur.
Gamlinginn er fyrst og fremst feelgood-saga, með pínulítilli Birtings-heimspeki inn á milli. Stíllinn er laus við myndmál og líkingar, beinskeyttur og blátt áfram, og hæfir sögunni sumpart vel, en gerir hana um leið flatari. Á fimmtugustu hverri síðu kemur fram speki, sem vert er að skrifa bakvið eyrað. Eftir að hafa sagt ofangreindan kost og löst á bókinni, þá gef ég henni 3 1/2 stjörnu af 5 mögulegum. Góða skemmtun, þið sem eigið eftir að lesa.
Bloggar | 20.11.2011 | 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar