Söeborg gerði það áður - og betur

olæsinginnÞeir sem námu dönsku í menntaskólum landsins á áttunda áratug síðustu aldar, muna sennilega eftir meinfyndnum sögum Danans Finn Söeborg á borð við Saadan er det saa meget, Her gaar det godt og Navn Ukendt.*) Því er hann hér nefndur, að hann virðist hafa endurfæðst í sænskri útgáfu undir nafninu Jonas Jonasson.

Eins og hálf íslenska þjóðin las ég Gamlingjann sem skreið út um gluggann og hvarf fyrir fáum misserum og hafði gaman af. Bókin var ekki djúpristin, en það sem á skorti bætti hún upp með fjörlegri frásögn og vafasömum fróðleiksmolum úr mannkynssögunni.

Það var því með dálítilli tilhlökkun að ég réðst á nýjustu bók sama höfundar, Ólæsinginn sem kunni að reikna. Seinni bókin er hóflega frábrugðin fyrri bókinni – og samt ekki. Fer þar fram tveimur sögum framan af: Af áhrifum blökkustúlkunnar Nambeko í S-Afríku á gang veraldarsögunnar annars vegar og sænsku Qvist-fjölskyldunni, þar sem sumir eru kóngahatarar, hins vegar. Sögurnar teygja sig út fyrir heimalöndin, en þegar þriðjungur bókar er liðinn renna þær saman og Svíþjóð verður ráðandi sögusvið.

Víkjum fyrst að kostum Ólæsingjans umfram Gamlingjann: Framan af er farið dýpra ofan í mannkynssöguna en í fyrri bókinni. Ólæsinginn er tímabær upprifjun aðskilnaðarstefnunnar í S-Afríku og ýmsu því sem tengdist málefnum sunnanverðrar álfunnar á síðasta fjórðungi 20. aldar. Þarna stíga sprelllifandi inn á sviðið (hvítir) forsetar landsins á borð við Vorster og Botha, ásamt ýmsum öðrum þjóðhöfðingjum, sem hér skulu ekki nefndir. Í þessum skilningi er Ólæsinginn alvörugefnari bók en Gamlinginn, þótt frásögnin sé ærið galgopaleg. Þá er þetta suðræna sögusvið stór kostur bókarinnar; það er framandi og upplýsandi – en því miður er ekki staldrað þar við nógu lengi. Þess má þó geta að skrifaðar hafa verið mun betri, beittari og fyndnari ádeilur á aðskilnaðarstefnuna, svo sem hinar makalausu gamansögur Tom Sharpe, Riotous Assembly og Indecent Exposure.**)

Segja má um Ólæsingjann að hann er sjaldnast fyrirsjáanlegur í framvindunni og kemur oft á óvart, stundum næsta hugvitssamlega, en að sama skapi sveigir framvindan næstum jafnoft inn á kjánalegar brautir. Enn á ég eftir að fá að vita hvernig fjórar manneskjur fara að því að lyfta 800 kílóa kassa án hjálpartækja, eins og gerist alloft í bókinni, jafnvel þótt tvær þeirra séu fílefldir karlmenn í blóma lífsins (hitt eru konur).

Í Ólæsingjanum er ferskleiki Gamlingjans ekki lengur til staðar. Sagan virkar oft meðvituð um að verið sé að fylgja eftir bók, sem slegið hefur í gegn, þannnig að höfundur þræðir milliveg milli frumleika og væntinga. Ekki skortir hugmyndirnar, grunnhugmyndin um kjarnorkusprengju á vergangi er ógnvekjandi súrrealískt fyndin, en oft er beinlínis illa unnið úr snjöllum hugmyndum - þær virðast settar á blað í formi minnispunkta fremur en fullskapaðs bókmenntaverks. Sagan hefur því yfirbragð hálfkaraðrar þankahríðar, sem hefði átt heilmikla möguleika, ef rækilegar hefði verið unnið úr. Grínið, stundum þunnt, ber allan boðskap ofurliði og útvatnar um leið alvörukenndari þætti sögunnar. Óbein ræða er ráðandi á löngum köflum og lítið fer fyrir trúverðugum samtölum með inntaki; helst þjóna þau tilgangi fimmaurabrandara. Jafnvel verra er að persónusköpunin í Ólæsingjanum er ekki upp á marga fiska, kannski vegna þess hve langt er gengið í karíkatúr. Þannig verða söguhetjurnar stundum of farsakenndar til að hægt sé að taka þær trúverðugar – Persónur eins og Njósnari A og Njósnari B, Holger 1 og Holger 2, Kínversku systurnar þrjár (allar nafnlausar) og Unga reiða konan (sem um síðir fær nafn) – allt minnir þetta fólk á karaktera úr bókum Söeborg, sérstaklega Navn Ukendt. Þá er texti Jonasson stundum með býsna gúglaðri áferð – staðreyndir (um landafræði, vísindi, kjarnorku o.fl.), augljóslega sóttar á netið, verða aldrei beysin uppistaða í verk.

Þýðing Páls Valssonar rennur prýðilega og er oft býsna fjörleg, sem hæfir efninu. Þó þótti mér sérkennilegt orðalag á stöku stað. Sagt er að Brésnev Sovétleiðtogi hafi verið tréhestur, Andrópoff meiri tréhestur og Tsérnenko mesti tréhesturinn. Ekki hef ég sænsku útgáfuna við höndina (þar sem gæti verið notað orðið trähäst), en það hefur, held ég, enga merkingu að tala um tréhest á þennan máta á íslensku og máske nær að tala um eintrjáning eða þurradrumb. Einnig má nefna að nokkrum sinnum bregður fyrir nýyrðinu ofdramb, sem ekki finnst í mínum orðabókum. Virðist þar slegið saman orðunum drambi og oflæti eða ofmetnaði.

Miðað við þær vinsældir, sem Ólæsinginn naut í sölu á nýliðnu ári, furðaði ég mig á því hvers vegna ekki hefði verið meira skrifað eða bloggað um bókina. Ekki lengur. Söeborg var búinn að gera þetta sama á undan. Og betur. Í helmingi styttri bókum.

–---
*) Notast er við gamaldönsku hér, þar sem forritið vill afbaka tákn úr nútímadönsku.

**) Hinn óviðjafnanlegi Tom Sharpe lést síðastliðið sumar. Á sínum tíma las ég allar hans bækur upp til agna. Ætti ég ef til vill að grípa í eina til að blogga um, karli til heiðurs? Erfitt er að gera upp á milli eftirlætisbóka. The Great Pursuit? Einhver af þremur fyrstu Wilt-bókunum? Eða hinar kostulega ofangreindu S-Afríkubækur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband