Útblásin egó

harry quebertViðvörun: Umfjöllunin KANN AÐ SPILLA LESTRI þeirra sem eiga bókina Sannleikurinn um mál Harrys Quebert ólesna.

---- 

Lengri útgáfan:

Svissneskt ungskáld, fullt af sjálfstrausti, skrifar (á frönsku) 680 blaðsíðna doðrant um morðmál sem skekur afskekktan smábæ í Bandaríkjunum. Snilli eða heimska?

Síðastliðinn vetur kom út hér á landi þýdd skáldsaga, Sannleikurinn um mál Harrys Quebert eftir Joël Dicker, sem upphaflega birtist í Frakklandi árið 2012, sló þar margvísleg sölumet og náði m.a. að ryðja Inferno Dan Brown úr toppsæti í frönskumælandi löndum árið 2013. Í íslenskum bókmenntaþáttum var Harry Quebert einnig ausinn lofi. Ekki er erfitt að lýsa umræddri bók í fáum orðum: Sögumaður er Marcus Goldman, rithöfundur af Gyðingaættum, sem býr í New York og hefur ungur skrifað metsölubók, grætt morð fjár, lifað hátt, keypt sér Range Rovera og deitað (eins og það er núorðið kallað á íslensku) íðilfagra sjónvarpsleikkonu úr frægum þætti, en fyllist ritstíflu, þegar umbi og útgefandi þrýsta á um næstu bók. Í örvæntingu, í leit að stíflueyði, heimsækir hann gamlan lærimeistara sinn og vin, Harry Quebert, sem er einn frægasti höfundur Bandaríkjanna og býr í námunda við smábæinn Aurora í New Hampshire. Heimsókn Marcusar til Harrys í nokkrar vikur dugar ekki til að losa um ritstífluna og hann snýr heim til New York jafn andlaus sem fyrr. En fáum mánuðum síðar fær hann stutt símtal frá hálfgrátandi Harry, sem hefur verið handtekinn og færður á lögreglustöð. Samdægurs verður þetta helsta fréttaefni allra sjónvarpsstöðva: Hinn víðfrægi og stórvirti rithöfundur Harry Quebert er ákærður fyrir morð á unglingsstúlku sem átti sér stað á hans heimaslóðum rúmum 30 árum fyrr og á nú yfir höfði sér jafnvel dauðarefsingu verði hann sekur fundinn. Marcus ákveður að leggja allt í sölurnar og bjarga vini sínum úr snörunni. Við þá “aðstoð” afhjúpast ýmis leyndarmál sem eiga eftir að skekja smábæinn Aurora í New Hampshire og jafnvel allt bandarískt þjóðlíf.

Minnir þetta á eitthvað? Það er nánast eins og Dicker hafi tekið tvö verk og slengt þeim saman: Annars vegar sjónvarpsþættina Twin Peaks (1990-91) þar sem morð á unglingsstúlku skók bandarískan smábæ og hjá öllum bæjarbúum lá fiskur undir steini, og hins vegar Uns sekt er sönnuð eða Presumed Innocent (1987), ágæta bók Scott Turow, sem einnig var gerð kvikmynd úr árið 1990. Dicker er fæddur 1985 og tilheyrir því kynslóð, sem vart þekkti þessi verk á sínum tíma; kannski hefur hann fundið þau í gamla vídeóspólusafninu sem foreldrar hans ætluðu að henda. Reyndar hefur hann víst sagt í viðtölum að hann hafi ekki séð Twin Peaks – þættina fyrr en farið var að benda á líkindi þeirra við bók hans, en alltént fékk ég sem lesandi á tilfinninguna að Sannleikurinn um mál Harrys Quebert sé byggður á efni sem ég hef séð í skrilljón amerískum bíómyndum og who-dun-it þáttum í anda ofangreindra verka.

Sannleikurinn er sá að Sannleikurinn um mál Harrys Quebert er í grundvallaratriðum amerískur sjónvarpsþáttur færður yfir á pappír. Frásagnaraðferðin minnir um margt á þáttaröðina True Detective, þar sem sífellt er flakkað á milli tveggja eða fleiri tímasviða, nema hvað sjónvarpsþættirnir voru góðir, bókin ekki.

Gallarnir við Sannleikann um mál Harrys Quebert eru afar margir. Fyrst ber að nefna að bókin er víðáttulöng. Ekki vegna þess að höfundi liggi svo mikið á hjarta, heldur af því að endurtekning upplýsinga er óhemjumikil og stöðug. Bókina hefði hæglega mátt stytta um þriðjung án þess að nokkuð hefði glatast. Stöðugt er verið að minna lesandann á upplýsingar sem hann hefur áður lesið, oft bara af næstu blaðsíðum á undan. Er sú virkilega framtíð bóka að þær munu blása út að lengd vegna þess að minni lesenda er orðið svo lélegt? Leiðinlegast er þó, þegar endurtekið er í sífellu hvað Harry eða Marcus eru frábærir eða hvað Nola eða Jenny eru fallegar. Þetta er bók af því tagi sem ég vil kalla múrsteinsbók, svo þykk að rota mætti mann með henni, án þess að innnihaldið gefi tilefni til þess. Og bókin er í eðli sínu pulp fiction, í upphaflegri merkingu þess hugtaks, glæpasaga sem á heima í standi við dagblaðasölu, ein útblásin dime store novel.

 

Innbyrðis mótsagnir í sögunni eru svo margar að fylla mætti heila ritgerð um þær. Skulu hér nefnd fáein dæmi. Þótt ógift sé árið 1975, þá er Jenny fegurðardís og sögð svo falleg að hún gæti átt sér frama í Hollywood og þó örvæntir móðir hennar um að hún gangi ekki út. Samt eru sýnilegir vonbiðlar á hverju strái. Þá er með ólíkindum að persóna geti talið sig standa í bréfaskrifum við manneskju, sem hún hittir um tíma nánast daglega – og ekki vitað að bréfin eru frá öðrum. Og þótt Quebert sé ákærður fyrir morð á stúlkunni, þá heldur engu vatni að hann skuli einnig ákærður fyrir morð á frú Cooper - til þess hníga engine bein rök eða sannanir. Þá tekur bið eftir staðfestingu á rithandarsýni, sem getur skipt sköpum, margar vikur í fyrstu, en örstuttan tíma í næsta tilviki. Trúverðugt?

 

Langstærsti gallinn er þó stílfræðilegur. Málfarið er mestmegnis frámuna ungæðislegt, engin natni eða fágun er lögð í textann sem á köflum minnir á skólaritgerð tánings. Setningar byrja hver af annarri á “Ég”: “Ég var ...”, “Ég kom ...”, “Ég gerði ...”, “Ég sá ...” og svo framvegis. Að minnsta kosti tvisvar rakst ég á fjórar setningar í röð sem byrjuðu á fyrstu-persónufornafninu. Þá eru blæbrigði sagna ekki nýtt að neinu marki; látlaust er klifað á sögninni “að vera”. Frásögnin einkennist ríkulega af tvennu: Löngum samtölum, sem ekki eru alltaf slæm, þótt mörg hver séu í sjónvarpsþáttastíl, og þurrum lýsingum/ staðreyndaupptalningu, sem fer út yfir öll mörk. Höfundur virðist telja að það geri frásögn spennandi að setja upphrópunarmerki aftan við aðra hverja setningu. Mér er til efs að ég hafi lesið bók með fleiri upphrópunarmerkjum. Næstum ekkert fer fyrir líkingamáli eða ljóðrænu, en um þverbak keyrir í linnulausri hríð dagsetninga og tímasetninga. Reyni höfundur fyrir sér um líkingar reynast þær ærlega nykraðar: Í draumheimi ástfangins manns sveimaði “mávager sem söng eins og næturgalar.” (529) Dö!

Þá á að vera frumlegt að telja kaflaheitin aftur á bak – bókin byrjar á 31. kafla – en það reynast tilgangslausar tiktúrur og stælar. Án þess að hafa samanburð við upphaflegan texta held ég að allt ofanvert hljóti að vera höfundareinkenni og ekki sé við þýðandann að sakast; þýðingin rennur alltént mestmegnis áreynslulaust á góðri íslensku. Ef rétt reynist að þetta sé stíll Dickers, þá þykir mér með ólíkindum að útgefandi hans skuli ekki hafa rekið hann til baka með handritið til fínpússunar. Í fyrrasumar fjallaði ég um nýjustu bók Dans Brown, Inferno, í bókabloggi hér og gaf henni ekki háa einkunn varðandi stílbrigði. En í samanburði við stílleysu Joël Dicker – og þetta hélt ég að ég ætti aldrei á ævi minni eftir að segja – þá er Dan Brown eins og Shakespeare.

Næstan má nefna anda bókarinnar. Allt í lífi helstu persóna er svo æðislegt að yfirgengilegt hlýtur að teljast. Marcus Goldman hefur skrifað metsölubók fyrir þrítugt, ekið um í Range Roverum og giljað sjónvarpsstjörnur, en ekki bara það. Í menntaskóla fékk hann viðurnefnið Hinn frábæri, að vísu ekki að öllu leyti verðskuldað, heldur frekar fyrir að vera bestur í hópi meðalmenna, og Harry Quebert segir við hann að hann sé gáfaðasti nemandi sem hann hefur haft. Og Harry Quebert er einn fremsti rithöfundur Bandaríkjanna, sagður “pennafærasti” maður þar í landi og gæti kennt við hvaða Ivy League-háskóla sem hann vildi, bara með einu símtali. Og hann sló líka í gegn með metsölubók rúmlega þrítugur, keyrir núorðið um á Corvettu, býr í stórfallegu húsi við hafið - og verður sérstakur vildarvinur skólastráks. Allt er þetta svo ólíkindalegt að engu tali tekur. Þeim mun frekar þar sem Marcus Goldman, hinn fluggáfaði og frábæri og forríki, virðist ekki eiga nokkurn vin annan (og þá tel ég ekki með herbergisfélaga Marcusar úr háskóla, blökkupiltinn Jared, sem er bara enn einn aðdáandi Marcusar) nema lögreglumanninn Gahalowood sem hann vingast við meðan á rannsókn stendur. Og Marcus er um þrítugt og Harry sextíu og sjö ára – þeir kynntust tíu árum fyrr og samt furðar Marcus sig á því að hafa aldrei heyrt um vafasamt ástarævintýri Harrys mörgum áratugum fyrr. Og það undarlega er að það vottar ekki fyrir satíru í þessu öllu saman – svona er bara heimur Marcusar.

Hluti af óþolandi anda bókarinnar er þetta eina stóra Ég sem er allsráðandi og birtist alls staðar. Öllum virðist það ógurleg fórnfýsi (og jafnvel Harry sjálfum), þegar Marcus tekur að sér að grafast fyrir um mál til að sanna sakleysi læriföðurins, fremur en að standa skil á bók til útgefanda, sem hann hvort eð er nær ekki að klára. Blind fórnfýsi í nafni vináttu sem virðist reist á sandi, veitt af manni sem hvorki er fórnfús né vingjarnlegur – blah! Og jafnvel þegar Marcus er kominn inn á öngstræti með ritstífluna, kemur fram hugmynd að bók, sem útgefandi getur boðið honum milljón dollara fyrir. Get real! Allt er yfirgengilegt og toppað í þessari bók: Lengd, plottun, fjárreiður, grenjuskapur, ástsýki – bara allt!

Það er eitthvað í anda þessarar bókar sem fangar sjálfhverfu samtímans – og samt í reynd ekki á neinn paródískan hátt. Sögunni er ekki ætlað neitt annað en að skemmta – á nákvæmlega sama hátt og miðlungs sjónvarpsþáttur. Allir ætla að verða orðnir frægir og frábærir fyrir þrítugt – annars teljast menn samfélagslegir ómerkingar. Þannig er hugmyndaheimur Marcusar Goldman í hnotskurn. Hið sjálfhverfa markaðssamfélag og bullandi einstaklingshyggja eru orðin markmið í sjálfu sér; umbúðirnar allt, innihaldið ekkert. Sannleikurinn um mál Harrys Quebert er sigur innihaldsleysisins. Þetta er fantasía af fyrstu gráðu, afþreying af sama toga og Barbara Cartland eða Ib Henrik Cavling – og maður verður að ganga inn í ólíkindalegan fantasíuheim til að skemmta sér, annars virkar heildin bara absúrd. Og fyrir mig er bókin fyrst og fremst fáránleg, til marks um þá firringu samtímans sem fólk telur sér trú um að sé almennur samfélagslegur veruleiki venjulegs fólks. Alla söguna í gegn er lesandanum sagt hvað honum eigi að finnast um bókina – og reyndar hamrað á því. Ritun Sannleikans um mál Harrys Quebert virðist meira sprottin af þörfinni fyrir frægð heldur en af þörf fyrir að segja almennilega sögu, hvað þá að segja hana vel. Í því samhengi er vert að bera bók Svisslendingsins saman við “nýútkomið” Afdalabarn Guðrúnar frá Lundi, en þegar kemur að frásagnareinlægni hefur íslenska sveitakonan fullkomlega vinninginn. Og fyrst Guðrún blessunin er nefnd, þá hefur kaffidrykkja í bókum hennar stundum verið gagnrýnd, en persónur hennar komast þó ekki í hálfkvisti við ístesþamb úr bók Dickers.

Enn einn stórfelldur veikleiki bókarinnar um Harry Quebert er persónusköpunin sem ýmist er grunn eða stereótýpísk. Þetta eru tvívíðar pappafígúrur upp til hópa, allt frá Marcus og Harry og Nolu til móður Marcusar og lögfræðings Harrys. Karakterar Spaugsstofunnar hafa meiri dýpt og víddir en flest hugarfóstur Dickers. Gahalowood lögreglufulltrúi virðist snýttur út úr nös á Murtaugh, löggunni úr Lethal Weapon-kvikmyndunum, með fjölskyldu og tilheyrandi. Þó finnast einstaka undantekningar með ögn dýpri persónusköpun, til dæmis það sem kemur út úr næturgöltri Roberts Quinn.

Tilfinningar og samdráttur kynjanna innan bókarinnar er sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Í samtímanum elskar enginn neinn nema sjálfan sig, dálítið svipað og sjá má í nýlegum bandarískum bíómyndum, en að sama skapi eru tilfinningarnar yfirgengilega heitar árið 1975 – eins og í eldgömlum bíómyndum. Travis elskar Jenny sem elskar Harry sem elskar Nolu. Og það er engin venjuleg ást. Allir eru svo ástfangnir að það nær út fyrir öll mörk. Á gamaldags máta. Upp fyrir haus. Og allir eru reiðubúnir til að gera allt fyrir þann sem þeir elska. Og alltaf er það “ást”, orðið “ást”, hugtakið “ást” sem er notað um tilfinningar þessa fólks. Ætli orðasamstæðurnar “Elsku Nola” og “Elsku Harry” komi ekki fyrir svona þúsund sinnum í bókinni. Þessar lýsingar á tilfinningum “í gamla daga” eru eintóna og undarlega rómantískar; höfundur virðist hafa lært þær af ytri áhorfun gamalla bíómynda, en ekki upplifað þær. Skiljanlegt er það kannski að Nola, fimmtán ára, sé haldin eins konar melódramatískri hvolpaást á hinum helmingi eldri Harry. En ást hans á henni er af sama toga. Og ást Jennyar á honum. Og ást allra á öllum. Og mikið er það hvað Harry gat grátið – mér var öllum lokið þegar hann grét eitt sinn og tók um hjartastað. Og þótt ást Harrys og Nolu sé óendanlega heit, þá virðist hún ekki getað yfirstigið þann möguleika að bíða þess að Nola verði lögráða. Þannig hefðu öll vandamál verið leyst og allir ánægðir, en … engin bók. Cartland og Cavling hvað?

Fyrir utan að vera tæplega miðlungsgóð glæpasaga og afar unglingsleg ástarsaga, þá reynir Sannleikurinn um mál Harrys Quebert að vera gamansaga á dálitlum köflum. Nokkrum símtölum Marcusar við móður sína, stereótýpíska og málóða gyðingakonu, sem gæti verið klippt út úr Woody Allen-mynd og vill koma syni sínum í hnapphelduna. Einkum er það þó heimilishald Quinn-hjónanna, þar sem ættmóðirin er frek, fáránlega snobbuð og foráttuheimsk, en hefur hreðjatak á karli sínum með því að fá hann til allra hluta og hleypa honum upp á sig í verðlaunaskyni, þrisvar til fjórum sinnum á ári. Samskipti þeirra eiga augljóslega að vera comic relief í sögunni, en verða í reynd að skrípaleik þar sem Tamara Quinn er allt of heimsk til að teljast trúverðug í nokkrum veruleika. Og Robert Quinn líka, að minnsta kosti framan af.

Fyrir tæpu ári fjallaði ég á þessu bloggsvæði um morðráðgátuna Veldu þér tölu eftir John Verdon, sem gerist á svipuðum slóðum og Harry Quebert, ekki að vísu í New Hampshire, heldur í afskekktum Catskills-fjöllum í uppsveitum New York – fylkis. Stóri munurinn hér er að Verdon fær lesanda til að trúa fölskvalaust á lýsingar á umhverfi sem höfundurinn þekkir af eigin raun. Sagt er að Dicker hafi valið sögusvið sitt af því að hann dvaldi sumur á yngri árum í Maine. Hann leggur ofuráherslu á lýsingar, en þær eru oftast yfirborðskenndar; hann er alltaf að flýta sér við að lýsa því næsta og staldrar aldrei við. Ætt er áfram í belg og biðu, án hnitmiðunar. Sagan hefði mögulega orðið betri, ef hún hefði verið staðsett í Sviss, en þetta wunderkind Dicker virðist einblína á Hollywood frá fyrstu setningum bókarinnar. Er til nokkuð ógáfulegra en að Svisslendingur nýkominn af táningsaldri telji sig þess umkominn að skrifa The Great American Novel? Nýlegt dæmi um ólíkt bitastæðara bókmenntalegt undrabarn er Bret Easton Ellis, sem einnig sló í gegn á þrítugsaldri með Less Than Zero og American Psycho; þrátt fyrir að bækur hans einkennist af viðurstyggilegri tómhyggju, þá hafa þær þó bókmenntalegt gildi og metnað. Ellis One – Dicker Zilch.

Allnokkuð er látið með að Sannleikurinn um mál Harrys Quebert sé bók sem fjalli um bók. Gefðu mér breik! Rætur hins illa, hin mikla bandaríska skáldsaga eftir Quebert, á að vera svakalegur lykilróman, mest selda bók Bandaríkjanna síðustu hálfu öldina. En hún virðist öllu heldur vera hundleiðinleg ástarsaga, flökurlega væmin og vemmileg, cheesy and mushy, ef marka má þá útdrætti úr henni sem birtast. Og þeirri bók á að hafa tekist að slá ryki á augu bandarísku þjóðarinnar um forboðið ástarsamband? Humbert Humbert hvað? Ef lesendur vilja lesa bækur inni í bókum, þá mæli ég hundrað sinnum frekar með Nafni rósarinnar eftir Eco eða Skugga vindsins eftir Ruiz Zafón eða The Dumas Club eftir Perez-Reverte eða Dante-klúbbinum eftir Matthew Pearl – nú, eða bara The Great Pursuit eftir Tom Sharpe.

Ég var kominn allnokkuð inn í bókina, þegar ég áttaði mig á því að í frásögnina skorti veigamikið element: Tíðarandann árið 1975. Hvað var efst á baugi? Hvar er tónlistin sem var á toppnum á Billboard 100 þessa örlagaríku sumarmánuði 1975, með John Denver, Eagles, America, Captain and Tennille eða bláupphaf diskósins? Á þessum tíma mótaði útvarpið gífurlega tónlistarsmekkinn. Séra Kellergan er iðullega að hlusta á háværa tónlist í bílskúrnum sínum, en það er aldrei nefnt hvaða tónlist það er (nema hvað einu sinni er sagt að það sé djasstónlist). Nola Kellergan, 15 ára stelputrippi og gallagripur, hlustar á óperutónlist (!) og hefur dálæti á Madame Butterfly, einu óperunni sem nefnd er í sögunni allri. Kommon! Árið 1975 þekkti ég sjálfur ekki nokkurn mann undir fertugu sem hlustaði á óperur – og fáa þar yfir. Og lesandinn á að kaupa að sykursæt hugsjúk ástsjúk fimmtán ára skólastelpa hafi haft smekk fyrir slíku á þessum tíma. Og Nola nefnir líka einu beinu bókmenntalegu tilvísunina, sem er að finna í allri bókinnni, í Nornirnar frá Salem eftir Miller. Rithöfundarnir stórmerku, Goldman og Quebert, nefna ekki einn einasta höfund. Og hvaða bíómyndir horfðu menn á árið 1975? Á einum stað, á tuttugu blaðsíðna kafla, eru margar aðalsöguhetjurnar í bók Dickers að fara í kvikmyndahús í júlí 1975 og hittast fyrir tilviljun í bíóinu sjálfu – en það er aldrei nefnt á öllum þessum blaðsíðum hver bíómyndin er. Fólk þarf ekki einu sinni að nefna hvaða bíómynd hver vill sjá! Og hvar er fatatískan og hártískan; þröngar táningapeysur með rúllukraga, brækur níðþröngar yfir læri og útvíðar um kálfa, saltfiskbindin, kótilettubartarnir? Pólitíkin? Hvar eru ófarirnar í Víetnam, kalda stríðið? Rithöfundar voru ólíkt pólitískari á þeim tíma heldur en í dag – þess vegna skýtur skökku við að rithöfundurinn Harry Quebert skuli nánast aldrei koma inn á þau mál á þeim tíma; hann skortir gjörsamlega samfélagsvitund árið 1975, en er síðan bullandi af henni árið 1998, þegar hann hittir Marcus fyrst. Svarið er augljóst: Dicker er að tala um tíma sem hann lifði ekki sjálfur og nær ekki að endurskapa nema sem dauft endurvarp eða óljóst bergmál. Holur tónn. Ef ég ætti sjálfur að velja tónlist við hæfi til að leika undir til að fanga anda bókarinnar – eða bíómyndarinnar, þegar hún kemur - myndi ég segja að Puppy Love með Donny og Marie Osmond hæfði ágætlega. Og mér er stórlega til efs að Dicker sjálfur sé sæmilega lesinn. Jú sko! - á einum stað er Solsénítsín (svo stafað) nefndur á nafn í bókinni. En það er vegna þess að hann giftist ritaranum sínum, það vissi mamma Marcusar út frá heimildarþætti í sjónvarpinu. Annars er aðeins örlítið tæpt á eldgömlu dóti á borð við Kóreustríðið og Rosenberg-aftökurnar. Annað er það varla. Jú, ein dálítið flott og óvænt samlíking: Þar sem maður hagræðir hatti sínum og horfir hvasst eins og Robert Stack í hlutverki Elliott Ness. Ég var nefnilega einn af þeim sem horfði á The Untouchables í Kanasjónvarpinu í fornöld og það gladdi mitt gamla hjarta að sjá þessa vísun.

Fáein orð varðandi þýðinguna. Hún virðist að mestu leyti afar vel unnin. Þó hafa slæðst inn einstaka villur og undarlegar setningar, sem kannski er eðlilegt í svo löngu verki, t.d.: Æ, frú Goldman, ég veit ekki hvaða mál sonur þinn hefur tekist að flækja sér í núna (189). Fylgt er þeirri þýðingarstefnu að láta einstaka orð úr amerískri menningu halda sér á ensku og held ég að það sé vegna þess að þau séu á ensku í franska frumtextanum. Eflaust má um þetta deila, en sjálfum finnst mér ekki hjálpa íslenskri þýðingu mikið til að skapa bandarískt andrúmsloft að hafa yearbook menntaskólans, diner, timing og waterboy. Hví bara ekki árbók, greiðasala, tímasetning og vatnsberi? Annars, á heildina litið, held ég að þetta sé þýðing eins og best verður á kosið; gallarnir eru fyrst og fremst inngrónir í verkið. Ég get ekki ímyndað mér að þetta hafi reynst flókið verkefni fyrir vanan mann eins og Friðrik Rafnsson. Hins vegar finnst mér þetta hálfgerð sóun á þýðingarkröftum hans, eins og að skjóta flugu niður með fallbyssu.

Líkt og með verk Dan Brown, þá hef ég séð dóma um Sannleikann um mál Harrys Quebert, þar sem bókin er hafin til skýjanna, og aðra, þar sem hún er rökkuð ofan í svaðið. Ég hef lesið ritdóma í hrönnum á Goodreads hjá fólki sem fleygði frá sér Sannleikanum um mál Harrys Quebert eftir 50, 100 eða 200 blaðsíður – og nærri lá við að ég fylgdi því fordæmi. Hún er kannski það sem kallað er pageturner, en ekki í hefðbundinni merkingu spennunnar vegna, heldur les maður hratt í von um að gæði fari að koma í ljós. Tvennt er ljóst: Meistaraverk er bókin ekki og merkilegt bókmenntaverk er hún ekki heldur. Nýsköpun í verkinu er engin, en eftiröpun óendanleg. Allar vangaveltur um eðli bókmennta innan bókarinnar eru barnalega grunnar; höfundur virðist illa lesinn (og kannski eðlilega miðað við ungan aldur, sem og þá staðreynd að hann er menntaður lögfræðingur, ekki bókmenntafræðingur), vísanir hans í bókmenntir eru fáar og yfirborðskenndar, en hann virðist þeim mun meira hafa horft á amerískar glæpamyndir, stúderað plott og flækjur og byggt sinn fantasíuheim í kringum þær. Þegar Harry hittir bókasafnsstarfsmanninn Erne Piskas við afskekkt vatn er sagt að þeir fari að ræða um bókmenntir, en þeir nefna ekki á nafn eina einustu bók eða einn einasta höfund – nema Harry sjálfan. Og í upphafi hvers kafla er að finna heilræði um skriftir sem lærifaðirinn Harry hefur veitt lærisveininum Marcusi, svo meitlað að minnir á kínverska speki, en þar er mjög við hæfi að bókmenntum er þar iðulega líkt við hnefaleika og hvernig höfundur þarf að koma lesanda sínum í opna skjöldu líkt og slagsmálahundur sem opnar varnir andstæðings síns og slær hann svo í rot. Ja, þessi Konfúsíusar-vasaspeki kýldi mig svo sannarlega kaldan.

Og til að kóróna það hve saga Dickers er óliterær, þá fá lesendur ekki einu sinni að vita um titil eða innihald fyrri metsölubókar Goldmans. Hann bara sko skrifaði metsölubók áður en hann varð þrítugur og varð ógsla frægur og ógsla ríkur, skilurru?

Sannleikurinn um mál Harrys Quebert er oflofuð og ófrumleg bók. Miðað við þá lofsamlegu dóma, sem ég birst höfðu um söguna, ekki hvað síst hér á landi, hélt ég að ég væri að fara að lesa meistarastykki. Hvílík vonbrigði. Aðdáendum bókarinnar þykja afspyrnuléleg stílbrögð augljóslega engu máli skipta. Mér liggur við að segja að sjaldan hafi pappír verið sólundað verr á seinni árum. Til að gæta fullkominnar réttsýni örlar einstaka sinnum á pínulitlum hæfileikum; vil ég taka fram að blaðsíður 225 og 527, miðað við íslenska útgáfu, eru ágætlega skrifaðar. Þess utan felst eina afbötun verksins í því að það er pínulítið spennandi. Á köflum. Meðan það entist. Eftir nokkur hundruð blaðsíður. Þess vegna má mæla með bókinni við fólk sem er að fara í langflug. Eingöngu.

En - 682 blaðsíður? Drottinn minn dýri! Hvers vegna er ekki betur hugsað um skóga heimsins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband