“Þar sem heimskan bergmálar fara gáfur með veggjum.”

Ofangreind tilvitnun er gullkorn úr nýjustu bók Hallgríms Helgasonar, Konan við 1000 gráður (bls. 100). Í þeirri bók er enginn hörgull á speki - á hverri blaðsíðu þar má finna vísdómsorð til að skrifa bak við eyrað (þótt ég gangi nú ekki svo langt sem einn ritdómari, að telja hverja einustu setningu gullvæga).

 

Konan við 1000 gráður er að ýmsu leyti þrekvirki og stór saga í flestum skilningi, fer víða yfir í tíma og rúmi. Í upphafi virkar hún dálítið einsog brotakennt mósaík, en smám saman greiðist úr flækjunni og flest brotin taka á sig fyllri mynd. Margt er klár snilld. Þannig er sagan af Svita-Gunnu með því besta sem íslensk sagnalist hefur upp á að bjóða. Kaflarnir á Amrum eru einnig afar áhrifaríkir og lifandi; Svefneyjalífið minnisstætt, sem og gangan frá Póllandi til Berlínar. Samtal foreldra Herru uppi á fimmtu hæð í Lübeck (eða var það Kiel?) er sömuleiðis óborganlegt. Aðal sögunnar er þó hinn endalausi leikur höfundar með tungumálið, á köflum ótrúleg jafnvægislist með ótal bolta á lofti. Einhvern veginn nær Hallgrímur, eins og í mörgum fyrri bókum sínum, að þurrausa alla möguleika tiltekinna orða. Hér má t.d. benda á hvernig hann tæmir allt í sambandi við nafnið Herra, bæði varðandi merkingu og framburð á ólíkum tungumálum. Orðaleikirnir eru kostulegir og mér er með öllu óskiljanlegt hvernig hægt er að þýða þá yfir á erlendar tungur. Þar dugar að nefna sem dæmi lokasetningu bókarinnar.

 

Sagan er þó ekki með öllu gallalaus. Stundum fer höfundur yfir strikið í orðaleikjunum og þeir missa marks - það rými hefði mátt nota til að gefa sögunni meiri fyllingu. Hún verður á endanum fyrst og fremst stríðssaga úr seinni heimsstyrjöld, sem vill yfirskyggja um of aðra þætti í litríku lífi Herbjargar Maríu; ég fékk á tilfinninguna að um 2/3 hlutar frásagnarinnar gerðust á árabilinu 1940-45. Þá er heldur ótrúverðugt hversu mörg lík Herra þarf að horfa upp á og hversu margar nauðganir hún þarf að þola. Sumir þræðir eru einnig skildir eftir óhnýttir, t.d. fáum við aldrei fullnægjandi mynd af flestum eiginmönnum Herbjargar - Síðjóni, Friðjóni eða Bob eða hvað sem þeir nú heita. Hafði ég dálítið á tilfinningunni að höfundur hefði gjarna þegið hálft ár eða svo til að fullkomna sögu sína og fínpússa um þessi efni, en ekki verið gefinn tími til.

 

Þrátt fyrir skafankana stendur Konan við 1000 gráður uppi sem mjög góð bók og frábær á köflum, að mínu viti næstbesta verk Hallgríms á eftir Höfundi Íslands. Og ég er, held ég, orðinn ágætlega lesinn í þessum höfundi og hef lesið allar skáldsögur hans nema hálfa Hellu.

 

Til að ljúka þessu greinarkorni vil ég nefna tvær eftirminnilegar tilvitnanir: "Fátt er svo illt sem vondra manna gæska" (323). Og finnst sannari lýsing á aðdraganda hrunsins en eftirfarandi: "Siðblinda, græðgi, frekja og fyrirgangur. Og allt borið fram í nafni yndisleikans, með brosi á vör." (242)?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég fékk þessa bók í jólagjöf hef ekki haft tíma til að lesa hana, en ég frétti svo að sagan væri utan um líf vinkonu minnar Brynhildar Björnson, sem kenndi mér þýsku hverri ég fór með í heimsókn til Amrum, er ég ákveðin í að lesa hana hið fyrsta.  Brynhildur var stórbrotin kona og lifði lífi sínu lifandi svo sannarlega.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.1.2012 kl. 22:22

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæl og blessuð, Ásthildur, og takk fyrir innlitið.

Konan við 1000 gráður er með betri bókum sem ég hef lesið í langan tíma. Henni verður þó að taka með fyrirvara eða tveimur. Í fyrsta lagi hafa sumir sagt að Hallgrímur sé ekki allra (e.t.v. fyrst og fremst út af orðmergðinni/ orðkynnginni) og  kann það að fæla suma frá. Yfirleitt er mikilvægast í bókum hans að komast fram yfir fyrstu 50 blaðsíðurnar, þá fer boltinn að rúlla vel.

Í öðru lagi verður að nefna að sagan er skáldsaga, eins og hann hefur rækilega tekið fram, og má því ekki taka hana bókstaflega um líf ákveðinnar mektarkonu, sem hann þó hefur til viðmiðunar. Við lesturinn sá ég söguhetjuna Herbjörgu Maríu alltaf sem sjálfstæða persónu, en ekki bergmál af mektarkonunni Brynhildi Georgíu.

Eitt gleymdi ég að nefna í gær sem meginkost skáldsögunnar, en það er hvernig höfundur leikur á allan tilfinningaskalann. Hann fer upp í hæstu hæðir í gamanleik og lægstu dali í harmleik, svo úr verður mikil rússibanareið, en þessir ólíku þættir eru í meginatriðum trúverðugir innan ramma sögunnar og mikilvægir við að gefa henni gildi.

Helgi Ingólfsson, 12.1.2012 kl. 11:59

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hlakka til að lesa hana takk fyrir Helgi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.1.2012 kl. 13:41

4 identicon

Ég gafst einmitt upp á Hallgrími fyrir nokkrum bókum síðan ... út af orðmergðinni. Spurning um að gefa þessari séns? Eða halda sig bara áfram við skandínavísku morðin ...

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 12.1.2012 kl. 17:52

5 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Harpa: Skandínavísk morð eða þýsk hrannvíg, hvort er nú skárra?

Vitaskuld get ég ekki sagt til um hvort þessi bók Hallgríms falli þér í geð. Fyrstu 40 blaðsíðurnar fjalla t.d. mest um rúmfasta, önuga, kaldhæðna, áttræða konu og  samskipti hennar við heimilishjálpir - ekki mest upplífgandi söguefni í heimi, þótt vel sé matreitt. En, hei, ef maður kemst yfir 40 blaðsíður af hugleiðingum nauts á bási í myrku og þröngu fjósi á 11. öld, þá ræður maður nú við ýmsa hjalla.

Ég hef rætt persónulega við 7 manns, held ég, sem hafa lesið bókina og þótt fólkið hafi verið á ólíkum aldri, frá þrítugu til áttræðs, þá voru allir ánægðir með bókina, þótt einhverjir settu (eins og ég) lítillega út á hana.

Svo er líka hinn vinkillinn: Þegar maður hefur lokið við að lesa doðranta, er maður ánægður af því einu að ná alla leið á öftustu síðu. Eins og að koma niður úr  fjallgöngu, ekki satt?

Kveðja og alles.

Helgi Ingólfsson, 13.1.2012 kl. 11:44

6 identicon

Nautið var nú verulega spennandi - þetta er fyrsta sækópatanautið sem ég les um! Og ég hugsa að siðblind naut séu frekar sjaldgæf.

Ég hef bara rætt við einn sem hefur lesið bókina Hallgríms (hitti svo fáa). Sá varð fyrir vonbrigðum um að ekki skyldi minnst á ákv. sambýlismann fyrirmyndar-konunnar eða þeirra samband. Og almennt fannst honum bókin heldur leiðinleg. En það má svo sem vel gefa henni séns, það eru það margir sem hrósa henni. Vonandi er nóg af þýskum hrannvígum inn á milli ...

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 17:12

7 identicon

... átti að vera "vonbrigðum yfir" ...

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband