Bleikur þríhyrningur

Undangengið ár eða svo hefur fyrir hendingu rekið á fjörur mínar ritasægur um helförina og seinni heimsstyrjöld. Síðastliðið haust endurlas ég tvær klassískar bækur, Söguna sem ekki mátti segja, minningar Björns Sv. Björnssonar í skráningu Nönnu Rögnvaldardóttur, og Býr Íslendingur hér?, minningar Leifs Müller í skráningu Garðars Sverrisssonar. Um jólin lá ég yfir Konunni við 1000 gráður eftir Hallgrím Helgason, sem gerist að 2/3 hlutum á styrjaldarárunum og nýlega ritrýndi ég skáldsöguna Þjófaborg eftir David Benioff, um umsátrið um Leningrad árið 1942. Og fyrir fáeinum dögum skolaði enn einni stríðsfrásögninni í arma mér. Þar voru á ferð Mennirnir með bleika þríhyrninginn.

Bókin sú arna hefur reyndar ekki komið út á íslensku og las ég hana á ensku, The Men with the Pink Triangle, en á frummálinu, þýsku, heitir hún víst Männer mit dem rosa Winkel. Hér er um að ræða átakanlega sögu austurrísks homma, sem lifði af stríðið í fangabúðum nasista og úr varð nánast tvöfaldur harmleikur í býsna mergjuðum kokkteil helfarar og hómósexúalisma. Í Þriðja ríkinu taldist samkynhneigð karla nefnilega glæpur, og hafði reyndar haldist svo, lögum samkvæmt, í Þýskalandi allt frá sameiningu ríkisins 1871, þótt ekki væri gripið til jafn grófra refsinga fyrr á tímum. Í Weimar-lýðveldinu (forvera Þýskalands nasismans) á 3. áratug 20. aldar hafði reyndar hvergi í Evrópu réttindabarátta samkynhneigðra verið lengra á veg komin en einmitt þar á bæ og bar mest á hinum merka Dr. Magnus Hirschfeld. En þegar nasistar komust til valda, máttu þeir vart heyra minnst á þessa „úrkynjun" og hófu snemma að safna lögregluupplýsingum um homma og hófu handtökur þeirra töluvert fyrir stríð, samkvæmt 175. paragraffi hegningarlaga, og voru hommarnir þá kallaðir 175er. Skipti litlu hvort menn voru af virtum eða merkum ættum, þótt hinir ríku hefðu frekar tækifæri til að kaupa sér flótta úr landi, en höfundur Mannanna með bleika þríhyrninginn var ungur Austurríkismaður, 22 ára háskólastúdent við Vínarháskóla, kaþólikki kominn af víðsýnu menntafólki. Hann skrifaði undir dulnefninu Heinz Heger og bókin kom út í Þýskalandi 1971, meðan enn ríkti að mestu bannhelgi á málefnum samkynhneigðra.

Strax í mars 1939, nánast sléttu ári eftir Anschluss, var Heger boðaður til yfirheyrslu í höfuðstöðvar Gestapó í Hótel Metropol í Vín. Eftir það var honum ekki sleppt lausum. Ástæðuna fyrir því að honum var hratt og snöggt kippt úr umferð taldi hann vera að hann hafi átt í ástarsambandi við þýskan son háttsetts nasista, sem hann nefnir Fred X. Þaðan í frá var saga hans ein samfelld þrautarganga og helvítisvist. Í fyrstu var látið að því liggja að hann yrði fangelsaður til 6 mánaða. En að þeim tíma liðnum var honum ekki sleppt, eins og hann hafði gert sér vonir um, og í staðinn var hann sendur í fanga-/vinnu-/einangrunarbúðir til Sachsenhausen nærri Berlín í ársbyrjun 1940 og var þar um nokkurn tíma. Flaug mér í hug að hann hefði getað rekist þar á Leif Müller, en í fljótu bragði sýnast þó tímasetningar ekki standast, því að brátt var Heger sendur til Flossenbürg sunnar í Þýskalandi, ekki fjarri Bayreuth, þar sem hann dvaldi til stríðsloka.

Lýsingarnar á hörmungunum eru óhugnanlegri en orð fá lýst. Í búðunum voru allir fangar merktir með allstórum lituðum þríhyrningi, einum á brjósti og öðrum á skálm, svo að þeir væru auðþekkjanlegir úr fjarlægð fyrir „brot" sín. Gyðingarnir báru gulan þríhyrning, pólitískir fangar rauðan, ótíndir glæpamenn grænan, sígaunar brúnan, „and-þjóðfélagslegir" svartan og Vottar Jehóva fjólubláan. Og hommarnir báru bleikan þríhyrning - en frá þessu flokkunarkerfi nasismans mun það sprottið að samkynhneigðir hafi gert bleikan þríhyrning að tákni sínu. Gyðingunum var haldið út af fyrir sig, en ásamt sígaununum komu hommarnir næstneðst, misnotaðir á alla vegu, andlega og líkamlega, fyrirlitnir af öllum meðföngum sínum. Fyrstu vikunni í Sachsenhausen vörðu þeir illa klæddir í að bera snjó frá morgni til kvölds með berum höndum um hávetur, úr skafli við aðra hlið á hlaðinu fyrir framan skála sinn yfir til hinnar hliðarinnar. Og síðan aftur til baka. Þetta þjónaði þeim tilgangi einum að brjóta þá niður. Síðan voru þeir látnir erfiða í "leirpyttinum" ásamt þúsundum annarra fanga, við að moka leir úr gryfju í vagna, sem ýtt var upp brattann í átt að ofnum, þar sem brenndur var leirsteinn úr hráefninu. Margir fórust úr kulda og vosbúð, aðrir limlestust hræðilega, þegar þá þraut þol við að ýta upp þungum vögnum, svo að vagnarnir runnu yfir þá með tilheyrandi örkumlum. Sumir létu sig slasast, til að komast á sjúkrastofuna, en þeir sáust yfirleitt ekki aftur, heldur voru notaðir í "læknisfræðilegar vísindatilraunir". Ekki máttu vinnandi fangar fara nær gaddavírsgirðingu búðanna en sem nam fimm metrum og allt innan þess var túlkað sem flótti, en SS-varðliðarnir reyndu að ginna fanga inn fyrir þau mörk til að skjóta þá, því að SS-maður fékk þriggja daga leyfi frá búðunum fyrir að stöðva flóttamann.

Eftir nokkra mánuði í leirgryfjunni var Heger og fleiri hommum falið það verk að byggja upp æfingarbraut og hóla fyrir skotæfingar SS-foringja. En þeim brá heldur betur í brún, þegar þeir áttuðu sig á því að við vinnuna voru þeir sjálfir lifandi skotmörk, foringjunum til skemmtunar, og allmargir þeirra féllu. Heger lærði fljótt að eina leiðin til að lifa af þetta helvíti var að gerast ástmaður hjá einhverjum Capo, sem voru e.k. verkstjórar vinnuflokka fanganna, en Capo-arnir gátu verið jafnvel harðari við fangana en SS-verðirnir, því að þeir þurftu að sýna sig og sanna. Heger var ásjálegur og aðlaðandi - það verður honum til lífs. Hvað eftir annað kemur fram í bókinni að „hinir eðlilegu" gagnkynhneigðu (þeir eru nefndir svo, „the normal") voru fyrirlitlegir hræsnarar; þeir stunduðu kynlíf óhikað með sama kyni og réttlættu það með kvenmannsskorti í búðunum, en atyrtu og smánuðu á sama tíma sérhvern 175er með bleikan þríhyrning fyrir „ónáttúru". Oft voru það grænir þríhyrningar - ótíndir glæpamenn - sem urðu Capo-ar vegna harðneskju sinnar og hrottaskapar, en þessir morðingjar, nauðgarar og barnaníðingar töldu sig samt hátt hafna yfir hommana, sem ekkert höfðu til saka unnið annað en að fylgja kynhneigð sinni.

Dvölin í Flossenbürg verður litlu skárri en í Sachsenhausen, a.m.k. framan af. Í fjallshlíðum þar var að finna steinnámur og þar þrælaði Heger í fyrstu, en komst fljótt undir verndarvæng sem ástmaður eins Capo, sem útvegaði honum e.k. skrifstofustarf. Capo-inn sá um sinn ástmann og tryggði honum hið mikilvægasta - aukaskammt af mat - en varð í staðinn að treysta á þagmælsku hjásvæfunnar, því að ekki má fréttast að viðkomandi væri gefinn fyrir sama kyn. Hvarvetna í búðunum og í bókinni blasa við mótsagnir, hræsni og tvöfalt siðgæði. Þetta er í reynd samfélag þar sem sterkasta ljónið sigrar, en refir geta með kænsku komist af. Heger kunni að láta lítið fyrir sér fara, en varð vitni að hroðalegum pyntingum, fyrst hjá sadistískum SS-búðarstjórnanda, sem var viðstaddur húðlát og fróaði sér í gegnum buxnavasana meðan hinn húðstrýkti fangi taldi upphátt eigin svipuhögg, sem hann fékki á bak, rass og lendar (ef talningin heyrðist ekki, þá taldist höggið ekki með). Næsti búðarforingi reyndist litlu skárri; hann var að vísu ekki kynferðislegur öfuguggi, en hann gerði hvað sem hann gat til að finna að hjá föngum. Lagðist hann t.d. niður á fjóra fætur í fangasvefnsalnum og skreið undir rúm í leit að rykkorni, svo að refsa mætti heimilismönnum fyrir óhreinlæti. Var hann því uppnefndur „Rykpokinn" og er aldrei nefndur öðru nafni, en það virkar sem einn ágalli bókarinnar að persónur eru nánast aldrei kallaðar annað en viðurnefnum, ekki raunverulegum nöfnum. En hafa verður hugfast að Heger skrifaði bókina 25-30 árum eftir hörmungarnar og þá mátti búast við að ýmsir úr hópi þessara fúlmenna væru enn á lífi, en nær óhugsandi að vitnisburður homma dygði til að sakfella þá.

Nóg annað drífur á daga Hegers, sem í frásögur er færandi úr þessari stuttu bók. Sjálfviljugar „vændiskonur" komu til búðanna, en þetta voru konur sem höfðu gengist inn á þetta hlutverk til að forðast einhver óljós verri örlög. Flestar voru þær af gyðingaættum og þeim var heitið frelsi, ef þær sinntu þessu hlutverki í sex mánuði, en vissu ekki að þær yrðu að þeim tíma liðnum sendar í útrýmingarbúðir. Þessar ógæfusömu konur voru tekjulind þeirra SS-foringja, sem fluttu þær í búðirnar - þegar þarna er komið er aðframkomnum föngum leyft að eiga fáein mörk og þeir voru reiðubúnir til að greiða fyrir þjónustuna - en einnig áttu „vændiskonurnar" að nýtast til að afhomma hommana, sem leiddir voru upp á þær. Búðarstjórinn sjálfur lét bora göt í vegginn svo hann gæti gægst inn og fylgst með. Þegar Heger sjálfur lét ekki fallerast - eftir fyrsta skiptið borgaði hann öðrum manni, gagnkynhneigðum, til að fara í sinn stað og sá greip tækifærið óðfús - komst hann í ónáð hjá yfirmanni búðanna, sem virtist hafa í sigti að senda hann í útrýmingarbúðir, en maður gekk undir manns hönd í kerfinu til að hjálpa Heger, sem á þeim tímapunkti var sjálfur orðinn Capo vegna dugnaðar síns (eini Capo-inn með bleikan þríhyrning) og skipanir komu frá æðstu stöðum um að honum skyldi haldið í búðunum.

Dæmalaust ógeðfelld er lýsing þegar nokkrir strokufangar voru hengdir um jólaleytið og látnir hanga þar yfir hátíðirnar hjá hinu stóra jólatré búðanna, eins og afkáralegt og óafmáanlegt jólaskraut í minni Hegers ...

Og svo framvegis. Hér er bara fleyttur rjóminn af þeim viðurstyggilegu lýsingum sem er að finna í sögunni. Nú er það svo að Mennirnir með bleika þríhyrninginn verður seint talin skemmtilesning eða stórkostlegt bókmenntaverk. Þetta er lýsing, skráning, dokúmentasjón þess sem vill lifa af, þarf oft að leggjast lágt til þess og leynir engu um þau efni. En bók þessi er merkur minnisvarði um þá hryllilegu samfélagsskipan sem nasisminn var og ætti að vera komandi kynslóðum til viðvörunar um að slík hugmyndafræði megi aldrei hreiðra um sig að nýju. Og sagan er einnig og ekki síður minnisvarði um þá mannfyrirlitningu sem gekk niður eftir virðingarstiganum í fangabúðunum, þar sem fangar tróðu hverjir á öðrum af ekki síðri skepnuskap en SS-böðlarnir, allir í von um að það mætti verða þeim til lífsbjargar. Þessi bók veitir sjaldgæfa og djúpa innsýn í myrka sálarkima mannskepnunnar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það verð ég að segja að lestur slíkra bóka fyllir mann vantrú á eðli mannskepnunnar og færir trú á gildi markaðarins, sem stjórnað er af mannskepnum, æ fjær hugsun skynsamra manna.  Í því sambandi má minnast á nýútkomna bók eftir afsprengi hæstaréttardómara sem fjargviðrast út í reglur og bönn og birtir bjargfasta þá skoðun að veröldin væri mun betur sett án allra reglna þannig að t.d. þeir  sem hjá sér fyndu löngun til sæju um þá sem veikir væru og vanburða en aðrir gæti látið þjáningar þeirra framhjá sér fara.  Þessi skoðun er merkileg og hefur vafalaust þroskast með skoðunarhafanum lengi. Sérstaklega finnst mér líklegt að hún hafi fengið byr undir báða vængi þegar afsprengið stundaði nám í framhaldsskóla og átti þá í nokkrum útistöðum við skólayfirvöld um eðli skólasóknarreglna og nauðsyn á að fara eftir þeim. Sýndist þar sitt hverjum og blandaðist faðirinn nokkuð inn í þær deilur og komst í fjölmiðla.

En sem sagt; Öss

Ps: athugaðu nú hvort umferð eykst hjá þér í kjölfar þessarar athugasemdar. Þjófaborgin er einkar skemmtileg, amk. fyrri hlutinn en ég er nú rétt hálfnaður.

Þ. Lyftustjóri (IP-tala skráð) 30.4.2012 kl. 18:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband