Kressandi bókmenntaumfjöllun

Atarna! Þar hefur mér tekist það sem mörgum rithöfundum þykir svo skemmtilegt - að smíða nýyrði, samsett úr orðunum „krassandi" og „hressandi".

 

Annars er tilefni þessa pistils að bera blak af vesalings Hallgrími, sem fékk ærlega á baukinn í gær - og aftur í Morgunblaðinu í morgun. Vegna góðrar skáldsögu, Konunnar við 1000 gráður, bókar sem veitir fádæma innsýn í erfitt hlutskipti kvenna fyrr sem nú. En laun heimsins eru vanþakklæti og nú hefur mæðraveldið reitt hátt til höggs gegn skáldinu. Núna þarf að ritskoða höfundarskömmina, eins og nýlega var einnig stungið upp á varðandi þjóðskáldið, nafna hans. Ekki verður annað sagt en að þau tíðkist, breiðu spjótin, í bókmenntaumræðunni í dag, en skemmst er að minnast rithöfundar, sem ræddi um að „afhausa afturhaldskerlingu" úr röðum gagnrýnenda, sem stóð sig ekki í stykkinu að hans mati. Er ekki bókmenntaumræða á Íslandi komin út á tún?

 

Ég veit að ýmsir, þar á meðal ég sjálfur, telja Hallgrím fremstan núlifandi íslenskra rithöfunda. En mæðraveldið skeytir þar engu um og veltir fyrir sér hvort mikilvægara sé að vera góður rithöfundur eða góð manneskja. Til samanburðar hafi Laxness jú oft notað raunverulegar lifandi fyrirmyndir að sögupersónum sínum, en ætíð farið mjúkum höndum um þær (Hannes Hólmsteinn Gissurarson sýnir þó kostulega í stuttri bloggfærslu á Pressunni.is að slík helgimynd af Laxness standist enga skoðun).

 

Dauðasök Hallgríms í Konunni við 1000 gráður er að hafa notað raunverulega konu til hliðsjónar við sköpun aðalsöguhetjunnar. Aldrei eitt augnablik, meðan ég las bókina, flaug mér í hug að líta á þær sem eitt og hið sama, raunverulegu konuna og sköpunarverk höfundarins. Það liggur í eðli alls skáldskapar að hann styðst við einhvern veruleika, en jafnframt og um leið að hann víki frá þeim veruleika. Ef lesendur - jafnvel fræðimenn - eru svo skyni skroppnir að sjá ekki þennan greinarmun á veruleika og skáldskap, þá hlýtur að vera afskaplega illa komið fyrir bókaþjóðinni.

 

Ekki veit ég hvort gagnrýni kvenna- og kynjafræðinga á bókina Kona við 1000 gráður skili nokkru vitrænu fyrir bókmenntaumræðu í landinu. En vonandi verður hún til þess að sem flestir lesa bókina til að móta sér sjálfstæða skoðun. Þá held ég að ýmsir sjái að þetta er býsna góð bók.

 

Til að vitna í lokin í Konuna við 1000 gráður: „Fátt er svo illt sem vondra manna gæska." Og ef menn vilja hneykslast á einhverju í bókinni (sem ég geri ekki), þá sting ég upp á að þeir byrji á Lone Bang.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er mjög ósammála þér um hversu góður rithöfundur Hallgrímur Helgason er. Úr því Guðrún Jónsdóttir, sú stillta kona og seinþreytt til vandræða, dóttir Brynhildar Georgíu, sá ástæðu til að skrifa grein um hvernig Hallgrímur skrumskælir líf og atar minningu raunverulegra persóna auri í þessari bók reikna ég með að bókin sé jafn ógeðsleg og hún lýsti í greininni. Og mun þ.a.l. ekki leggja mig niður við að lesa hana.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 4.5.2012 kl. 12:26

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæl, Harpa.

Vitaskuld mega menn vera ósammála um gæði höfunda. En ég held að frumskilyrði þess að meta gæði verka þeirra sé að lesa þau.

Ég man eftir skrifum Guðrúnar, sem mér þóttu prýðileg og skilmerkileg og gera mjög vel grein fyrir málum eins og þau sneru að henni. Einhvern veginn hefði mér þótt eðlilegt að láta þar við sitja. Sjálfur tel ég víðs fjarri að þessi bók Hallgríms gefi tilefni til svæsinna umræðna um hve langt megi ganga í listum. Í mínum huga er enginn vafi: Herborg María er EKKI Brynhildur Georgía, hvernig sem á málið er litið. Öll umræða um annað er næsta marklaus, enda kunna lesendur skáldsagna almennt að greina á milli skáldskapar og veruleika. Sjálfum sýnist mér það ekki hjálpa til við uppbyggilega bókmenntaumræðu í landinu að tala um "ógeðslega bók" (ólesna) eða að "leggja sig niður við að lesa hana" eða  "skrumskælingu" eða "ata minningu auri". Slík gífuryrði ala eingöngu af sér önnur og fita fyrst og fremst púkann á fjósbitanum - og máski þá sem selja bókina. Og sumir segja að Hallgrímur þrífist best á því að vera umdeildur - þótt ég sé sjálfur ekki svo viss.

En þar sem þú ert mjög ósammála því hversu góður rithöfundur Hallgrímur sé, þá væri fróðlegt að heyra þitt álit á því hver er bestur núlifandi íslenskra rithöfunda?

Helgi Ingólfsson, 4.5.2012 kl. 16:46

3 identicon

Ég bókstaflega skil ekki þessa umræðu um að Hallgrímur hafi notað lifandi fyrirmyndir þegar hann skrifar skáldsöguna sína.  Laxness gerði þetta, einnig Þórbergur, sömuleiðis Hemingway, J.D. Salinger, F. Scott Fitzgerald, John Fante, Charles Bukowski, George Orwell, og eflaust mætti nefna fleiri höfunda til viðbótar en læt þetta nægja.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 4.5.2012 kl. 20:18

4 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Einmitt, H.T. Bjarnason. Hjartanlega sammála.

-----

 Harpa: Ég meinti reyndar "skáldsagnahöfundur". Þ.e. að HH sé besti skáldsagnahöfundur þjóðarinnar um þessar mundir. Biðst forláts.

Helgi Ingólfsson, 4.5.2012 kl. 20:43

5 identicon

Nú treysti ég því að þú sért ekki orðinn jafn yfirmáta sensitívur og sameiginlegir net-pennavinir okkar ... þótt þér finnist ég taka sterkt til orða um Hallgrím þennan. Satt best að segja hef ég látið Hallgrím eiga sig síðan ég gafst upp í Höfundi Íslands, mjöööög snemma í bókinni. Og finnst lítil ástæða til að gefa honum annan séns eftir að hafa lesið grein Guðrúnar Jónsdóttur.

Svona á nóinu get ég ekki útnefnt bestan íslenskra skáldsagnahöfunda nútímans. (Gæti samt alveg talið upp nokkra sem ég hef gefist upp á að lesa ... sumir þeirra þykja ákaflega lekkerir rithöfundar og góðir stílistar.) Má telja morðbókmenntir með?

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 4.5.2012 kl. 23:02

6 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sensitívur? Ég? Nó vei! Alla vega ekki eins og guðsblessaðir litlu rassálfarnir, ef þú átt við þá. En mér finnst sótt að Hallgrími fyrir heldur litlar sakir, þrátt fyrir að sumum þyki ekki mikið til hans koma hér heima (og ég skil það mætavel, þótt ég þekki útlendinga sem telja HH í heimsklassa, þá er enginn spámaður í eigin nærbrókum og allt það,; auk þess töluvert átak að komast inn í stóru skáldsögurnar hans og allt það, fyrstu 100 blaðsíðurnar iðulega eins og að klífa Everest). Svo að mér, sem töluverðum aðdáanda, rann blóðið til skyldunnar ... æ, þú veist hvernig þetta er.

----

 Ókei, það má telja morðbókmenntir með. En ég verð að játa að miðað við það sem ég hef lesið, þá finnst mér enginn íslenskur skáldsagnahöfundur komast í heimsklassa. Ég gæti þó nefnt að mér þykir Viktor Arnar í sínum bestu bókum standa jafnfætis hvaða útlenskum krimmahöfundi sem er. Samt myndi mér sennilega vefjast tunga um tönn, ef ég ætti að kalla hann "góðan skáldsagnahöfund". Og þó. Ef til vill er hann einmitt það.

Helgi Ingólfsson, 4.5.2012 kl. 23:39

7 Smámynd: Helgi Ingólfsson

"... þá finnst mér enginn íslenskur skáldsagnahöfundur annar en HH, á stundum, komast í heimsklassa," átti þetta að vera - afsakið.

Helgi Ingólfsson, 4.5.2012 kl. 23:48

8 identicon

Hallgrímur Helgason hefur skrifað eina þokkalega bók og heitir hún Hella, það var upp úr þeim skrifum að hann uppgötvaði sjálfan sig sem rithöfund, sú uppgötvun varð sálarlífi hans óbærileg (eins og öll hans síðari skrif sanna) - og eins varð sú uppgötvun hans öllu sæmilega bókmenntalega sinnuðu fólki böl eitt - og það böl framkallaði hann sjálfur hjálparlaust. Hallgrímur Helgason situr praktuglega í einhverjum málæðisstól og þvaðrar þaðan allt hvað af tekur af því að engum velviljuðum manni dettur í hug að segja honum að þegja. Og er þar komið enn eitt bölið, ekki bara Hallgrími heldur þjóðinni allri.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 4.5.2012 kl. 23:54

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta mál minnir mig svolítið á viðtökur margra við Sjálfstæðu fólki eftir Laxness.

Hann var sakaður um bændaníð og að skrumskæla líf fólksins í Sænautaseli, þar sem sagt var að hann hefði fengið hugmynd að bókinni eftir að hafa gist þar á leið frá Hallormsstað vestur til Grímsstaða á Fjöllum.

Margir urðu afar æstir og voru sumir þeirra hinir sömu og vildu helst banna nýja strauma í nútíma myndlist og ljóðlist.

Þetta náði hámarki með því þegar Jónas frá Hriflu hélt á kostnað ríkisins opinbera sýningu á listaverkum sem voru honum ekki að skapi, til þess að fólk færi að skoða þau og sannfærðist um að svona lagað ætti að fordæma og sniðganga listamennina sem skópu þau.

Verk eins og málverkið Þorgeirsboli og styttan Vatnsberinn voru úthrópuð á sínum tíma sem úrkynjuð, afskræmd og viðbjóðsleg.

Ómar Ragnarsson, 5.5.2012 kl. 01:35

10 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Guðmundur Brynjólfsson (aths.8):

Athyglisvert viðhorf hjá þér. Ég reikna með að það sé byggt á þeim grunni að þú hafir lesið megnið af skáldsögum Hallgríms? Sjálfur tel ég að íslensk þjóð eigi við margt verra bölið að glíma en málgleði Hallgríms Helgasonar - menn geta jú alltaf leitt skrif hans hjá sér eða sleppt að lesa, ef þeim finnast þau sér ekki að skapi. Skil ég rétt að þú sért hér reiðuðbúinn til að gerast hinn "velviljaði maður", sem "segir honum að þegja"?

 -----

 Ómar Ragnarsson (aths. 9):

Takk fyrir athugasemdina. Mig rámar í að hafa einhvern tíma heyrt um þessa gagnrýni á Laxness og Sjálfstætt fólk. Maður hélt að umræða af þessum toga væri löngu til lykta leidd í nútímasamfélagi, en einhvern veginn skýtur hún upp kolli síendurtekið.

-----

Annars heyrði ég skemmtilega samsæriskenningu í gær, hversu alvarlega sem ber að taka hana. Hún var sú að með Konunni við 1000 gráður hefði HH stimplað sig svo rækilega inn sem einn fremsti feministi landsins, að eldra kennivaldi í þeim efnum hefði þótt valdastöðu sinni ógnað og því þurft að setja ofan í við hann! Dæmi hver sem dæma vill.

Helgi Ingólfsson, 6.5.2012 kl. 12:49

11 identicon

Takk Helgi fyrir þarft innlegg í umræðuna.

Áslaug Óttarsdóttir (IP-tala skráð) 6.5.2012 kl. 23:09

12 identicon

Jú, ég hef lesið mest af því sem HH hefur skrifað en þolið fer vissulega dvínandi.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 9.5.2012 kl. 01:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband