Hvenær mun fyllt skarð í vör Skíða?

 

Svarfdæla saga er í meðallagi löng, en vel bitastæð, einkum er á líður. Sögunni má gróflega skipta í þrennt.

Í fyrsta hlutanum er í aðalhlutverki Þorsteinn nokkur, sem síðar fær frá föður sínum viðurnefnið svarfaður. Þorsteinn býr í sögubyrjun í föðurhúsum í Naumudölum í Noregi og er þar heimakær, eins konar kolbítur, uns bróðir hans Þórólfur ýtir við honum og leggjast þeir bræður í víking, einkum í Suður-Svíþjóð, og reynast garpar hinir mestu - sigra þar rustana Ljót bleika og Molda. Þjóðólfur fellur í fyrri viðureigninni, en þegar Þorsteinn snýr til föðurhúsa gefur faðirinn honum viðurnefnið, vegna þess að að þeim bræðrum hafði svo sorfið í þeim bardaga.

Þegar faðir Þorsteins deyr og síðan eiginkona einnig, fær hann eigi unað lengur í Noregi og fýsir til Íslands (enda Haraldur hárfagri að þrengja að heldrimönnum í Noregi). Þorsteinn siglir í Eyjafjörð, hittir Helga magra og æskir hann lands. Helgi segist ekki vita af öðru landi ónumdu en í dal miklum upp af Hrísey, og er þó dalurinn víða numinn. Þorsteinn gegnir því og sest að í þeim dal, sem síðar er við hann kenndur.

En í þeim dal er fyrir mikil byggð og verða þar fljótt til tvær fylkingar, sem deila og enda í vígaferlum. Hefst hér annar hluti sögunnar, með lýsingu á dalverjum, deilum þeirra og hvar þeir skipa sér í flokk. Þorsteinn svarfaður kemur þar lítt við sögu, en þeim mun frekar úr hans fylkingu sonur hans, Karl rauði, og enn frekar systursonur hans, Klaufi, sem er ein eftirminnilegasta persóna sögunnar lífs og liðinn. Klaufi er stórskemmtileg blanda af garpi og ójafnaðarmanni og eftir að hann er veginn birtist hann sem draugur og hefur m.a. úrslitaáhrif á orrustu með því að birtast hér og hvar á vígvelli og varna andstæðingum flótta. Þá vitrast hann einnig sem fyrirboði á himni, ríðandi gráum hesti sem dregur sleða fullan af líkum. Til að ráða niðurlögum Klaufa draugsa er hann í sögulok grafinn (ófúinn) upp úr haugi sínum, brenndur til ösku, askan sett í blýstokk og stokknum sökkt í hver.

Fyrir hinu liðinu fer Ljótólfur nokkur, en nýtur fulltingis þriggja Ásgeirssona (og er einn þeirra Þorleifur jarlaskáld, sem rétt er nefndur á nafn), sem og Skíða. Skíði þessi verður á kafla ein lykilpersóna sögunnar og því vert að greina nánar frá honum. Hann er strokuþræll, sem Ljótólfur leysir til sín, fríður sínum og gjörvilegur og lítt eins og hann eigi þrælakyn. Verður hann síðan tryggur heimilismaður Ljótólfs. Ljótólfur tekur einnig undir sinn verndarvæng Yngvildi fagurkinn, systur Ásgeirssona og enn eina aðalpersónu í síðasta hluta sögunnar.

Í þessum miðhluta gengur á með margvíslegum vígaferlum og deilum. Klaufi er um síðir veginn af Ásgeirssonum, þeir fyrir vikið dæmdir til útlegðar, verða afturreka og snúa heim í hérað að vetrarlagi þar sem Karl rauði hyggst elta þá uppi, en Skíði bjargar þeim með því að moka yfir þá mykju. Skíði er pyntaður ógurlega til sagna af Karli rauða - dreginn með fæturna bundna við hest um stofna af afhöggnum trjáskógi - en lætur ekkert uppskátt, þótt „honum blæddi hvarvetna, hökubeinið rifið og hakan með, úr tennur tvær." Þegar Ljótólfur vill launa Skíða orðheldnina fer hann fram á að fá að eiga Ingvildi fagurkinn, sem er kvenna fríðust, eins og nafnið bendir til. Ljótólfur vill leita álits hennar og býðst til að skjóta undir þau álitlegri jörð, og fellst Ingvildur á ráðahaginn, svo fremi sem Skíði hafi fyllt upp í skarð í vör sinni innan fimm vetra, svo að henni þyki fullt vera. Er hér augljóslega táknræn eggjun um að lýta Skíða skuli hefnt innan tiltekins tíma. Giftast þau síðan, Yngvildur og Skíði, og eignast þrjá sonu. En í millitíðinni sitja þeir Ljótólfur og Skíði um Karl rauða og hans menn og vegur Skíði sjálfur Karl. Þykir Yngvildi með því fyllt skarðið í vör Skíða.

En hér er að hefjast þriðji og síðasti hlutinn, þar sem í aðalhlutverkum eru Yngvildur fagurkinn og Karl yngri, sonur Karls rauða. Hann hefnir föður síns grimmilega og miðast hefndin einkum að Yngvildi og skarðinu í vör Skíða. Fyrst nær Karl yngri á sitt vald allri fjölskyldunni, Yngvildi, Skíða og sonum þeirra þremur. Hann hálsheggur synina hvern af öðrum og spyr Yngvildi fagurkinn í hvert sinn hvort fyllt sé skarð í vör Skíða. Hún mælir stöðugt að svo sé og horfir þannig á eftir sonum sínum þremur í opinn dauðann fremur en að láta af stolti sínu. Þá býður Karl yngri Skíða að yfirgefa landið, sem Skíði og gjörir, en sjálfur sjálfur heldur Karl eftir konu hans Yngvildi, hefur hana jafnan hið næsta sér með bert sverðið sem hann notaði til að vega synir hennar með og spyr oft hvort skarðið sé gróið í vör Skíða, en hún svara jafnan að fullvel sé gróið. Magnast sá leikur frekar Karl yngri friðmælist við Ljótólf, heldur utan og hefur með sér Yngvildi fögru. Hann hótar að selja hana sem ambátt til danskra kaupmanna, nema hún segi skarðið ekki fyllt í vör Skíða, en hún beygir sig ekki og er seld. Ári síðar eða svo kaupir hann hana til baka og hefur með sér heim til Íslands; enn finnst henni skarðið fyllt. Seinna heldur Karl yngri aftur utan til Noregs með Yngvildi í för, selur hana öðru sinni í þrældóm í þrjá vetur, kaupir hana að nýju, „konu svo nakta að aldrei beið á henni ríðanda ræksn; hún var alblóðug öll." Þegar hún kemur til skips hans brotnar hún loks saman, leggur hendur um háls honum, grætur og viðurkennir að skarðið í vör Skíða muni aldrei fullt verða.

Ljóst er, þegar þarna er komið, að skarðið í vör Skíða, er algjörlega orðið táknrænt, enda hefur Yngvildur verið á valdi Karls yngra um áraraðir og ekkert haft af eiginmanni sínum að segja þann tíma. Þegar Yngvildur loks gefur sig, flytur Karl hana til Írlands, þar sem hann hefur frétt að Skíði berjist við Íra. Karl leggur honum lið, berst vel og þeir eiga orðaskipti, þar sem Karl segist kominn að færa honum eiginkonuna. En Skíði vill ekkert með hana hafa. Karl hefur Yngvildi með sér til Íslands næsta vor og hyggst skila Ljótólfi Yngvildi, svo að hann geti gift hana hverjum sem honum sýnist, en Ljótólfur vill ekki heldur í fyrstu neitt með hana hafa. Tekur hann þó við henni um síðir og eru örlög hennar eftir það óljós; „kunna menn það ei að segja hvort hún hefir gift verið en sumir segja að hún tortýnt sér af óyndi."

Við sögulok Svarfdælu stendur Yngvildur fagurkinn (eða fögrukinn) sem ein af stórbrotnari og tragískari kvenpersónum Íslendingasagna, svo stolt að hún er nánast reiðubúin til að láta allt yfir sig ganga frekar en að láta af stærilæti sínu. Enn fremur er sagan öll full af skemmtilegheitum og fleiri eftirminnilegum karakterum; sérstaklega finnst mér alltaf skondið þegar menn fara að kveða dýrar vísur í miðjum heiftúðugum bardögum. Allt um allt: Íslendingasaga sem fer nokkuð hefðbundið af stað, en verður býsna eftirminnileg áður en yfir lýkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst að þú verðir að kommenta eitthvað á byskupinn og vantrúna til að fá eikkað af kommentum hérna.  Þetta er næstum eins og kölkuð gröf!

Þ. Lyftustjóri (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 22:28

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Í kalkaðri gröf er næðið gott, herra lyftustjóri. Ég vil frekar fá fáa útvalda þokkalega lesna menn hingað inn en hóp froðufellandi vitleysinga. Auk þess stendur mér slétt á sama um trúmál (og finnst samt biskupan bæði góðlátleg og vinaleg kona). Að sama skapi stendur mér jafn mikill stuggur af ofstækistrúleysingjum sem ofstækistrúuðum. Upphaflega hugmyndin með þessu bloggi var að fjalla um bækur. ásamt öðru smálegu - einhvers staðar fór sú ætlun af sporinu, svo nú þarf að rétta kúrsinn. Bestu kveðjur.

(P.S. Ég var byrjaður á Ljósvetninga sögu að þinni uppástungu (sbr. Guðmund ríka), en datt síðan ofan í nýjustu skáldsögu Lawrence Norfolk, sem ég reikna með að skrifa nokkur orð um.)

Helgi Ingólfsson, 6.1.2013 kl. 13:02

3 identicon

Halló! Hversu lengi eigum við að bíða eftir næsta ritdómi? Ég er orðinn glorsoltinn. 

Páll Sólmundur (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 09:35

4 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Þakka innlitið, Páll Sólmundur, gaman að sjá þig hér.

Því miður ræður sleggja kasti með þessa ómerkilegu bókadóma mína - þeir koma bara þegar ég er búinn að lesa bækur, ef ég nenni þá að skrifa um þær. Því miður er tíminn af skornum skammti, ég er í fullri vinnu og rúmlega það við annað en að lesa og auk þess að rembast við að skrifa eitthvað sjálfur.

Þannig að eini bókaúlfurinn, sem ég treysti mér til að fóðra, er ég sjálfur.

Helgi Ingólfsson, 10.1.2013 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband