Lawrence Norfolk með veislu í farteskinu

Lawrence Norfolk er fenómen.

Á 20 ára rithöfundaferli, sem stundum hefur verið þyrnum stráður, liggja eftir hann fjórar skáldsögur. Þrjár þeirra hef ég lesið og verð að segja að þær eru hver annarri magnaðri.

Fyrsta bók Norfolks sló í gegn á sínum tíma. Hún hét Orðabók Lemprières, eina verk höfundarins, sem þýtt hefur verið á íslensku - og er vert að minnast frábærrar þýðingar Ingunnar Ásdísardóttur í því samhengi. Ljóst var frá fyrstu tíð að Norfolk var ekki allra - bókin virtist sérviskuleg söguleg skáldsaga með spennuívafi, um Englendinginn (eða Jersey-búann) John Lemprière, sem uppi var á síðari hluta 18. aldar og samdi uppflettirit um grísk-rómverskar goðsagnapersónur, en þær persónur holdgerast oft fyrir augunum á honum, svo að lesandinn á erfitt með að átta sig á hvað er raunveruleiki og hvað liggi á sviði goðheima. Hliðarþráður rekur svo dularfull undirliggjandi leyndarmál um enska Austur-Indíafélagið, stofnun þess og tengsl við Húgenotta í La Rochelle í Frakklandi. Strax í þessari fyrstu bók (sem var yfir 600 blaðsíður) sýndi Norfolk frábæra hæfileika til að mála risastórar myndir með orðum - sviðsetningar hans gátu verið langar, hrífandi, blekkjandi, jafnvel þreytandi, en aldrei klisjukenndar. Enn lengra gekk hann í næstu bók, sem hlýtur að teljast hans meistarastykki, The Pope´s Rhinoceros, og var viðlíka margar blaðsíður - með miklu smærra letri. Sú bók þótti mér einstök. Sögusvið hennar var víðfeðmt; hún gerist einkum nærri Rügen og á Ítalíu í upphafi 16. aldar, þegar til stendur að portúgalskir kaupmenn, þeir fremstu í heimi á þeim tíma, útvegi hinum nýja og gjálífa páfa, Leó X., skepnu, sem varla hefur sést í Evrópu fram að því, þ.e. nashyrning. En sem jafnan er þessi þráður bara lítill útúrdúr á sögu, sem er svo stór í sniðum á hvern veg að vart er hægt að lýsa henni. Eystrasaltið á ísöld, rottugangur í Róm, yfirlitssýn yfir vatnasvæði Níger-fljóts, þorp neðansjávar, kirkja á sjávarbrún sem molnað hefur undan í hafið svo að sér inn í hálft kirkjuskipið, liðssafnaður í Mugello-dal, umsátrið um Prato - þetta eru nokkrar ódauðlegar myndir sem Norfolk málar á strigann. Og hvorki skortir persónugallerí né atburðarás. Aðalsöguhetjurnar eru annars vegar hópur munka á ferð frá Eystrasalti til Rómar og hins vegar tveir lukkuriddarar frá svipuðum slóðum sem þvælast suður úr. Það sem eftir situr eftir lestur bókarinnar voru þó fyrst og síðast hinar stóru myndir, málauðgin og myndmálið.

Því miður hef ég ekki lesið þriðju skáldsögu Norfolks, In the Shape of a Boar, sem kom út árið 2000, en þar hrærir hann víst sem fyrr saman goðafræði og nútíma. Í kjölfarið hófust miklar hremmingar: Höfundurinn byrjaði á sínu metnaðarfyllsta verki og sat við skriftir þess í 7 ár, án þess að takast að ljúka því. Það átti að gerast á þremur tímaplönum, með nokkrum lykilpersónum á hverju þeirra og um 200 aukapersónum í það heila. Atvik, sem átti sér stað á fyrsta tímaplani, hafði margföldunaráhrif á því öðru, sem aftur hafði margföldunaráhrif á því þriðja. Eins og Norfolk orðaði það sjálfur: „Með hverju orði sem ég skrifaði, fjarlægðist ég endinn meira." Að lokum gafst hann upp og byrjaði á nýrri bók, sem var 5 ár í smíðum. Þetta mun meginástæða þess að ekki kom út skáldsaga eftir Norfolk í 12 ár.

Og þá komum við að nýjustu skáldsögunni, John Saturnall´s Feast, sem ég hef nýlokið við. Svo virðist sem Norfolk hafi lært af mistökum - þessi saga er á öruggum slóðum, að flestu leyti línuleg, hefðbundin og aðgengilegri en fyrri verk. Söguefnið hljómar svosem nógu sérviturt: Mæðgin - grasakona/ljósmóðir sem er sökuð um að vera norn og óskilgetinn sonur hennar - eru flæmd til skóga á suðvestur-Englandi snemma á 17. öld. Móðirin deyr úr tæringu og vosbúð þá um veturinn, en ekki fyrr en hún hefur kennt syni sínum að lesa og læra utan að bók um goðsagnakenndar veislur og rétti, jafnvel ímyndaða (ekki ósvipað og með Naglasúpuna frægu, sem maður las um í barnaskóla). Hinsta ósk móðurinnar er að drengnum verði komið fyrir á setri, þar sem hún hafði unnið áður og þaðan sem ókunnur faðir hans er. Allt stendur tæpt, en drengurinn fær inni og er tekinn undir verndarvæng yfirkokksins, fyrst og fremst vegna óvenjunæms þefskyns og hæfileika í matargerð. Í áranna rás rís hann til metorða og verður sjálfur yfirkokkur. Sérkennilegt ástar-haturs-samband skapast á milli hans og heimasætunnar í kastalanum, lafði Lucretiu, en hún er eini erfingi föður síns, sem leggur hart að henni að giftast fjarskyldum ættingja sínum, ungum aðalsmanni, einkar óaðlaðandi til líkama og sálar. En daginn sem þau eiga að ganga í hjónaband skellur á enska borgarastyrjöldin - semsagt árið 1642. Aðalsmenn, þeirra á meðal faðir brúðarinnar og brúðguminn væntanlegi, fara að sjálfsögðu að berjast fyrir konung sinn og þeir taka með sér kokkalið á vígvöllinn. Framan af standa John og félagar úr kokkaliðinu álengdar og þurfa ekki að berjast, en í hinni frægu úrslitaorrustu við Naseby þarf að draga hvern sótraft á sjó, kokkana líka. Konungssinnar tapa, allt er komið í klessu, John og sumir félagar hans komast heim við illan leik, en þar tekur ekki betra við: Púritanar eru komnir til valda.

Sem fyrr segir er tímafrásögnin mestmegnis línuleg. Aðeins fyrstu 20% og síðustu 20% fela í sér örlítið tímaflakk, mestmegnis á mjög augljósan hátt, svo að framvindan ruglast aldrei, og ljóst að Norfolk hefur ekki ætlað að flækja sig í neti þar, væntanlega eftir undanfarnar hremmingar. Vitundarmiðjan liggur um 80% frásagnar hjá John sjálfum, máske 10% hjá lafði Lucretiu, en einnig í um 10% framan af hjá einni minni háttar persónu sögunnar, líkt og til að fá utanaðkomandi sýn á villibarnið John.

Sagan John Saturnall´s Feast er veisla fyrir alla sem hafa áhuga á matargerðarlist 17. aldar og ensku borgarastyrjöldinni. Þess utan er hún mestmegnis hefðbundin ástarsaga. Hver kafli hefst á uppskrift (á 17. aldar ensku) upp á 1 blaðsíðu eða svo, þar sem sótt er beint í kokkabók Johns Saturnall og framreiddur réttur sem vísar í komandi kafla, oft með biblíusögulegum eða goðsagnalegum tilvísunum. Og um mörg hundruð blaðsíðna skeið löðrar bókin í matarstússi: Þarna er eldað, bakað, kokkað, brasað, steikt, brennt, soðið, grillað - og vitaskuld viðbrennt líka. Lýsingar á ólíkum kryddum, jurtum, ávöxtum, grænmeti, kjöti, fiski, fugli fylla hverja síðu - og anganin og bragðið ekki síður. Oft virðist tilgangurinn sá að æra bragðlaukana með lestri einum. Í ofanálag er bókin skreytt einkar smekklegum tréristum sem tengjast viðkomandi matargerð. Þarna liggur styrkur bókarinnar og nýmæli Norfolks: Hverjum öðrum dytti í hug að lýsa 17. öldinni á Englandi út frá hálfgröfnu eldhúsi? Raunar er eldhúsið allt ein meistarasmíð: Helst fékk ég á tilfinninguna að það væri bræðingur af völundarhúsi eftir Borges og helvítismynd eftir Hans Memling. Þarna er her manns á þönum daginn út og inn; þarna er valdastigi og menn vinna sig upp eða hrapa niður, mishratt eftir getu. Almennt er lýsingin á virðingarstöðu húsbænda og hjúa með afbrigðum ljós þarna á setrinu - þar til kemur að John og lafði Lucretiu.

Bókin hefur semsagt líka ýmsa annmarka. Verst þótti mér hve persónusýnin var hefðbundin. John virðist fætt leiðtogaefni, þótt hann verði fyrir kröftugu einelti og ofsóknum í æsku. Hann er hjartahreinn og vammlaus sveinn, þarf stundum að sitja á strák sínum vegna stéttarstöðu, en bregst við þegar ranglætið verður hróplegt. Afskaplega klassísk persóna, semsagt, og skortir dálitla vídd. Sama má segja um hans heittelskuðu lafði Lucretiu, sem er draumlynd í prívatefnum, en drambsöm í samskiptum við þjónaliðið, eins og hefðardömur eiga að vera. Önnur vel þekkt persónugerð. Því er komið úrvalsefni í vemmilega ástarsögu - sem bókin verður á köflum - og elskendurnir verða að yfirstíga hindranir og aðskilnað. Áberandi er hversu hinir góðu eru gegnumsneitt góðir og hinir vondu vondir út í gegn - veröldin verður dálítið svart/hvít fyrir vikið. Í púritönunum er t.d. varla að finna annað en tæra illgirni og trúarhræsni. Þá fór dálítið í taugarnar á mér Harry Potter-andi bókarinnar framan af: Þegar John kemur umkomulaus á Buckland-setrið, tekur drengur á svipuðu reki hann upp á arma sína. Sá heitir Philip og verður n.k. Ron Weasley sögunnar, en að sama skapi er ótukt, sem gerir John lífið leitt, og sá piltur, Coake að nafni, hefur tvo hnausþykka og heimska lífverði sér til hliðar, eins og Draco Malfoy. Helst datt mér í hug að Norfolk hefði ákveðið að halda sig á þessum öruggu slóðum til að gera söguna aðgengilega til kvikmyndunar - ljóst er að hún liggur marflöt fyrir slíkum möguleika. Sjálfum hefði mér þótt líklegra að einelti og aðkast, sem John verður fyrir í æsku, myndi þróa hann sjálfan að einhverju leyti í illgjarna eða undirförula persónu, en - ónei: Hjartahreinn, fríður, með svart hrokkið hár skal hann vera.

En þótt sagan sé í grunninn ástarsaga með matarívafi, er ekki þar með sagt að hún falli þar auðveldlega í flokk. Málauðgi Norfolks er með ólíkindum, myndlíkingar oft óvæntar og orðfærið stundum forneskjulegt. Ég held að meðal-Englendingurinn skilji ekki endilega setninguna „The grass was rimed with frost" - en það gerum við Íslendingar vitaskuld. Það er yfirgripsmikil þekking og rík málvitund Norfolks, sem lyftir bókum hans upp yfir aðrar skáldsögur, og hérna gætir þess einnig, þótt ekki sé með jafn afgerandi hætti og í fyrri bókunum.

Nefna má einnig að tímaþátturinn er truflandi óljós. Hvergi tók ég eftir því að kæmi fram um hvaða leyti hún hefst, nema hvað nefnt er á innsíðu kápu að John og móðir hans séu á flótta undan þorpsbúum árið 1625. John ætti að vera um 11 eða 12 ára og því fæddur, segjum, 1614. Hann virðist búinn að vinna sig upp í kokkastöðu eftir 5 ára vist á Buckland-setrinu (sem er manor, en ég hafði nú alltaf meira á tillfinningunni að hlyti að vera risastór kastali út frá stærð hálfniðurgrafins eldhússins, tengdra herbergja og kjallara þar niður af). John ætti því að vera a.m.k. 45 ára, þegar hann yfirgefur Buckland-setur skömmu eftir valdatöku Karls II. (árið 1660) og hann snýr aftur um 10 árum síðar, orðinn þá 55 ára hið minnsta - og enn sami sjarmörinn með svörtu krullurnar.

Eitt þykir mér farið að einkenna skáldsögur í auknum mæli upp á síðkastið, það sem kalla mætti hamingjusöm endalok. Á þetta t.d. við um allmargar íslenskar skáldsögur, sem ég las fyrir jólin. Ég hef velt nokkuð fyrir mér af hverju þetta stafar, hvort samkeppni bókmennta við kvikmyndaefni sé orsökin eða hvort þetta sé til að gera bækur vænni til kvikmyndunar. Eða kannski er eitthvað í nútímanum, sem fyllir okkur öryggisleysi, og rithöfundar bregðast við þessari öryggisþörf í gegnum bókmenntirnar. En máske er þetta bara vegna þess að hamingjusöm bókarlok eru affarasælasta og ódýrasta lausnin fyrir höfundinn. Happy ending er vitaskuld það sem lesandinn æskir - oft þvert á raunsæislega framvindu í skáldsögu. Það er mikil kúnst að loka bókum á fullnægjandi hátt og stundum vill höfundurinn það einfaldlega ekki. Hvaða höfundur var það nú, sem sagði: „Ég set engan sérstakan endi á bókina, ég skrifa bara síðasta orðið og hætti."

Niðurstaðan um John Saturnall´s Feast eftir Lawrence Norfolk er því eftirfarandi: Þótt þetta sé ekki besta bók Norfolks, er hún samt töluvert áhugaverðari en flestar skáldsögur sem gefnar eru út.

-----

P.S. Fyrsta setning þessarar umfjöllunar er þrælstolin. Fyrir um 30 árum sá ég enskan ritdóm um eftirlætishöfund minn hefjast á þessum orðum: „Anthony Burgess is a phenomenon." Og þetta hefur einmitt verið tilfinning mín varðandi Norfolk síðan ég las The Pope´s Rhinoceros.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Loksins, loksins!

Kristján Albertsson (IP-tala skráð) 31.1.2013 kl. 20:26

2 identicon

En veislan í farteskinu?  Hvárt er hún frumlega feingin?

Þ.Lyftustj. (IP-tala skráð) 1.2.2013 kl. 17:48

3 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Herra lyftustjóri, ég átti eftir að lýsa samúð minni með hásinarslitin og geri það hérmeð frá hjartans rótum, en hérna ...hmmm ... getur nokkuð verið að langlega og hreyfingarleysi séu farin að hafa áhrif á heilastarfsemina?

Helgi Ingólfsson, 1.2.2013 kl. 20:19

4 identicon

Nú verða menn bæði vitlausir og máttlausir af langlegum en því spyr ég um veisluna, ef það er hún sem þú ert að ýja að, að afi Auðar Jónsdóttur þýddi bók sem hann kallaði Veislu í farángrinum.  Nú minnist þú á eitthvað í þeim dúr í fyrirsögninni og því datt mér þessi spurning í hug vitandi það að ekkert er nýtt yndir sólinni.

Lyftustjórinn (IP-tala skráð) 2.2.2013 kl. 20:58

5 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Ég er bara grunnhyggin og einföld sál, herra lyftustjóri, og biðst velvirðingar á að skilja ekki dýptina í því að afi höfundar, sem hér er ekki til umræðu, kynni að hafa þýtt bók, sem heitir nafni eitthvað í ætt við yfirskrift þessarar bókaumfjöllunar.

 Hins vegar er það ekki rétt að ekkert er nýtt undir sólinni. Dagurinn í dag er nýr undir sólinni.

Bestu kveðjur til allra og afsakaðu útúrsnúningana.

Helgi Ingólfsson, 3.2.2013 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband