Kjörgripur: Ný ljósmyndabók Sigfúsar Eymundssonar

Í gær brá ég mér á Þjóðminjasafnið í þeim tilgangi að skoða nýopnaða sýningu á ljósmyndum Sigfúsar Eymundssonar frá s.hl. 19. aldar. Skemmst er frá að segja að ég var svo hrifinn að ég fjárfesti í bók, sem gefin er út í tilefni sýningarinnar. Sat ég síðan mestan hluta gærkvöldsins, skoðaði bókina og las í þaula.

Las, segi ég, vegna þess að með hinum stórskemmtilegu myndum fylgir einkar ríkulegt lesmál. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ævisaga Sigfúsar sé púsl, sem vanti inn í þá mynd sem er Íslandssaga landshöfðingjatímabilsins, þ.e. frá um 1870 og fram yfir aldamótin 1900. Sigfús var jú einn helsti skrásetjari Íslandssögu þessa tímabils - þótt ekki fari skráning hans fram í orðum. Fram að þessu hefur saga og ævi myndasmiðsins verið æði brotakennd og verður helst dregin út úr ævisögu mágs hans, Daníels Daníelssonar, sem bjó hjá Sigfúsi um árabil og sá einnig um ljósmyndastofu hans öll seinni árin, þegar umsetning Sigfúsar vegna Vesturheimsflutninga urðu hvað mest. Þessi brot Daníels og fleiri dró Þór Magnússon saman í ágætan formála að eldri bók með ljósmyndum Sigfúsar, sem Almenna bókafélagið gaf út 1976.

En í nýju bókinni, sem Inga Lára Baldvinsdóttir á veg og vanda að, er lesmálið ríkulegt og gefandi. Þarna er ekki einvörðungu mun rækilegri ævisaga Sigfúsar en áður hefur sést á prenti, heldur er einnig að finna margvíslegan annan fróðleik, um ljósmyndun og aðferðir þess tíma, um draum Sigfúsar um að gefa út landslagsmyndaröð af Íslandi, um þá upplifun að fara í atelier-ið hjá Fúsa, um skuggamyndasýningar hans og Þorláks O. Johnson, um aðkomu Sigfúsar að þjóðfrelsismálum (m.a. með notkun á hinu umdeilda fálkamerki), um umdeildan útflutning hans á Íslendingum til Vesturheims, um varðveislu myndasafns hans og margt annað.

Bókin er í allstóru broti (ca 28x28cm) og er í henni að finna um 100 heilsíðumyndir og síðan a.m.k. annan eins fjölda af smærri myndum, bæði mannamyndum og myndum til skýringar lesmáli. Fylgt mun hafa verið þeirri meginreglu að nota eingöngu ljósmyndir, sem (nær) öruggt var að Sigfús hefði fótógraferað sjálfur, en um og eftir 1885 færði hann það verk í sívaxandi mæli, vegna anna á öðrum sviðum, í hendur mágs síns og aðstoðarmanns, Daníels Daníelssonar, sem sá nánast alfarið um ljósmyndastofuna síðustu 20-25 árin, þótt stofan væri kennd við Sigfús alla tíð. Eingöngu 1 mynd er í bókinni (bls. 162), sem öruggt er að Sigfús tók ekki, því að hann er á henni sjálfur í hópi manna við drykkju utandyra á Eyrarbakka - og líklega Daníel myndasmiðurinn. Hér er því beinlínis lagt upp með þá meginhugmynd að sýna starf Sigfúsar sjálfs, en ekki bara þær myndir sem komu frá stofu hans eða gerðar voru í hans nafni.

Vandasamt hefur verið að velja verk í bókina (sem og á samspilandi sýninguna), því að áðurnefnd eldri bók um ljósmyndir Sigfúsar frá 1976 hefur að geyma um 100 myndir, sem bæði eru margar hans frægustu og einnig hans bestu. Til að birta góða mynd af ævistarfi og draga samt úr endurtekningu sýnist mér hér hafa verið farinn sá skynsami millivegur að hafa í báðum bókum nokkrar sömu myndir, en byggja nýju bókina mestmegnis út frá myndum sem ekki eru í hinni fyrri. Kostur við hina nýju bók er að sýndar eru betri myndir jafnt sem hinar síðri, þ.e. gerð er grein fyrir tækninni, sem og hvenær og hvernig hún gat mistekist. Þannig eru fáeinar myndirnar í nýju bókinni „skemmdar" eða „gallaðar" og ég tel mikinn styrk bókarinnar liggja í að birta þær samt, því að þær hafa mikið heimildagildi, en væru ekki líklegar til að koma ella fyrir almenningssjónir. Þá er fjölbreytileiki myndanna lofsverður; þarna eru mannamyndir, myndir úr bæjarlífinu, reiðmyndir og síðast en ekki síst ljósmyndir af ýmsum náttúruperlum Íslendinga, sem sýna hvað Sigfús hefur lagt á sig til að ljósmynda landið sem hann ann, á tíma afar ófullkominna samganga. Ekki bara Stykkishólmur, Flateyri, Akureyri, Vopnafjörður og Þingvellir, heldur Reykjanes, Hekla, Haukadalur, Gullfoss, Seljalandsfoss, Brúará, Ölfusá, Hvítárvellir og fleiri staðir. Ein hrikalegasta myndin er á bls. 93 af Núpakoti, sem sýnir hvernig íslenskir bæir kúldruðu smáir undir ægibjörgum og ókleifum hömrum. Þessi mynd ein finnst mér segja meira en þúsund orð um sambýli manns og náttúru á Íslandi fyrr á tímum.

Þótt mér finnist gríðarlegur fengur að þessari bók, tel ég hana ekki með öllu gallalausa. Sem fyrr segir er hún í stóru broti, en meginmyndirnar eru staðsettar á þann veg að þær fái að njóta sín eða „anda" á hverri síðu, þ.e. hafi heilmikið autt (hvítt) svæði umhverfis. Í mörgum tilvikum er þetta í góðu lagi. En einstaka sinnum eru myndirnar í breiðu kartoni, sem sett er með á síðuna. Verður þá hvítt svæði máske þriðjungur síðu, kartonið annar þriðjungur og sjálf ljósmyndin eingöngu um þriðjungur síðu (eða þaðan af minna). Þetta finnst mér til baga, því að megináhugi minn felst í því að skoða og sjá sem mest af myndunum sjálfum, m.a. að geta greint smáatriði sem hverfa eða verða ógreinileg við smækkun. Á sjálfri ljósmyndasýningunni á Þjóðminjasafni eru myndirnar blásnar upp í tröllastærð og sést þar vel hve þær þola mikla stækkun. Annað aðfinnsluatriði mitt er að myndatexta er safnað öllum saman aftast í bókina (bls. 172-183), með afar smáu letri, en þó með dálítilli „thumbnail"-mynd sem auðveldar lesanda að átta sig. Þetta kallar á miklar og nánast endalausar flettingar, því að oft er skoðandinn að athuga mörg atriði á einni mynd, og er ég ekki frá því að hægt hefði verið að koma þessu snoturlega fyrir á auða hvíta „andrúmssvæðinu" á myndasíðunum sjálfum. Hér er vitaskuld um smekksatriði að ræða og virðist það listræna sjónarmið höfundar að leyfa hverri mynd að standa fyrir sig, textalausri, hafa verið leiðarljósið. Sjálfum finnst mér betur hafa tekist til með uppsetningu myndatexta í gömlu bókinni um ljósmyndir Sigfúsar frá 1976 og var samt texti þar ekki alltaf á síðu andspænis mynd.

Hér er samt um minni háttar og persónubundnar aðfinnslur að ræða og breytir litlu um það að hin nýja bók um ljósmyndun Sigfúsar Eymundssonar er stórfenglegur happafengur og veisla fyrir augað. Hafi Þjóðminjasafnið, Inga Lára Baldvinsdóttir og allir aðstandendur bókar sem sýningar kæra þökk fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband