IOOV

Sú var tíð að tíðindum þótti sæta þá gefin voru út ný bókmenntatímarit, einkum ef gert var af metnaði og eldmóði. En það er tímanna tákn að bókagagnrýnendur, flestir starfandi á dagblöðum eða netmiðlum, hlaupa á eftir þúsundustu þýddu norrænu spennusögunni (þar sem þúsundasta austur-evrópska konan sætir mansali eða þúsundasta barninu er rænt og/eða kynferðislega misnotað) ellegar nýjustu skvísusögunni eftir nýútskrifaðan bókmenntafræðing ellegar nýjasta kellingakláminu frekar en að fjalla um nýjabrum og bókmenntagræðlinga.

Á dögunum kom út æði metnaðarfullt tímarit, 1005, sem inniheldur hvorki meira né minna en þrjár gerólíkar bækur í fremur stóru broti, samanlagt upp á um 400 blaðsíður. Höfundar verkanna eru þeir bræður Jón Hallur og Hermann Stefánssynir og svo skáldkonan Sigurbjörg Þrastardóttir, en að útgáfunni stendur auk þeirra her af bókafólki og hönnuðum. Finnst mér sinnuleysi bókmenntarýna fjölmiðla um þetta verk næsta einkennilegt og varla skýrast af öðru en að þeir nenni lítið að fjalla um slíkt efni. Vil ég því leggja mitt litla lóð á vogaskálarnar til að bæta úr.

Fyrst nokkur orð um hönnunina á 1005, sem er í marga staði stílhrein, hugvitssöm og glæsileg, en heiður að því á Ragnar Helgi Ólafsson. Um er að ræða eins konar möppu með breiða gúmmíteygju brugðna um svo að innihaldið haldist á sínum stað. Í möppunni eru verkin þrjú, sem mynda tímaritið, í þremur lausum „heftum" (gárungi benti á að með Andrésar Andar-blöð hefði þessi lausavandi verið leystur með því að strengja málmteina á innanverðan kjöl möppunnar til að njörva heftin). Ótvírætt hagræði er þó af því að geta tekið bækurnar í sundur, enda bókin ella óþarflega þung aflestrar (!) t.d. uppi í rúmi. Auk þess undirstrikar þessi aðgreining að um sjálfstæð verk er að ræða, þótt undir sama hatti séu.

Forsíðukápa möppunnar er stílhrein, pappaferningur með stöfunum IOOV raðað svörtum upp í ferning og gulu tákninu 5 bætt aftan við V-ið, eins og um fimmta veldi sé að ræða. Spjöldin eru úr gráum pappa með breiðu gulu taubandi álímdu um kjölinn sem spilar smekklega saman við lit tölunnar 5. Nú er svo að IOOV stendur ekki fyrir 1005 í rómverskum stöfum - þannig ætti ritið máske frekar að heita MV upp á latínu - svo að hér varla um annað en stílfærsluleik að ræða. Stafasamsetningin IOOV er einnig prentuð stórt í lóðréttri röð á kili.

Mappan sjálf er með óhefðbundnu sniði, ferningslaga, og inni í henni eru heftin þrjú laus sem fyrr segir. Það hefur ákveðna kosti, en einnig ókosti, þann verstan að engin þykkspjölduð kápa er utan um hvert hefti fyrir sig, svo að það aflagast við notkun. Forsíður allra heftanna minna eru þegar orðnar rækilega beyglaðar. Hið ferkantaða form leiðir hins vegar af sér að meira er á hverri síðu en maður á jafnan að venjast - og þess vegna er 1005, held ég, dálítið lengri texti en hefðbundinn blaðsíðufjöldi segir til um. Tvennt er nýstárlegt við uppsetningu blaðsíðutala; annars vegar eru þau ekki neðst við útjaðar hverrar síðu, eins og menn eiga að venjast, heldur liggja þau lóðrétt ofarlega á síðu, og hins vegar eru blaðsíðutölin í rómverskum tölum - og þannig séð kærkomin upprifjun þess kerfis. Það sem vekur þó mesta athygli við fráganginn allan er hversu stílhrein heildarmyndin er.

-----

Þá að verkunum sem mynda fyrsta árgang tímaritsins. Fyrst er talin löng fræðigrein Jóns Halls Stefánssonar, Bautasteinn Borgesar, um ráðgátu sem kann að leynast í legsteini þess argentínska bókmenntajöfurs. Þetta er ferðasaga í eiginlegum sem bókmenntasögulegum skilningi. Sjálfur tilheyri ég kynslóð, sem drakk í sig smásögur Borgesar í kringum 1980, las þýðingar Guðbergs og sat í tímum hjá Álfrúnu Gunnlaugsdóttur (gott ef ég var þar ekki samtíða greinarhöfundinum). Ég efast um að finnist hér í heimi sundurslitnara og meira annóterað eintak af Labyrinths, ensku safni sagna Borgesar, en ég á í kassa uppi á háalofti. Sérhver smásaga Borgesar er ráðgáta, sem og höfundarverk hans allt, og því máske viðeigandi að hann haldi áfram að vera ráðgáta eftir dauðann. Til eru orðin sérstök Borgesarfræði, Borgesariðnaður, sérstakur hjáheimur tákna, Borgesarheimur, og sjálfum hefði gamla manninum eflaust þótt gaman af að heyra hvernig bækur geta af sér bækur. Urmull fræðimanna hefur lífsviðurværi sitt af að stúdera og skrifa um Borges og má líta á grein Jóns Halls sem innlegg í þá umræðu. Hann rýnir í ráðgátu steinsins frá ýmsum hliðum, fer listavel yfir táknheiminn þar og dregur fram heimildir tengdar áletrunum og myndum steinsins, en flestar eru þær af frum-germönskum stofni. Þarna er tilvitnun úr forn-ensku kvæði um orrustuna við Maldon 991 og önnur í Völsunga sögu á forn-íslensku, en einnig vísað í ritverk skáldsins sjálfs, sem og myndristur í klappaða steina frá víkingatíma. Máli sínu til stuðnings leitar Jón Hallur ríkulega í smásögur Borgesar, þar sem lykilsagan Úlrika (1975) er í öndvegi. Rakinn er, mjög viðeigandi fyrir þennan ritrisa, táknheimur á mörgum plönum, þar sem, aftur viðeigandi, heimur raunverunnar má þoka úr sessi fyrir heimi drauma, heimi goðsagna, heimi Borgesar. Ritgerðin er lærð og lipurlega skrifuð og gæti eflaust fundið sér samastað í alþjóðlegri umræðu, væri hún þýdd og henni komið á framfæri; mér er til efs að gerð hafi verið betri eða rækilegri úttekt á legsteini nokkurs skálds. Og menn þurfa ekki að vera áhugamenn um Borges til að hrífast af greininni; hún er frábærlega skýr í hugsun og framsetningu og sogar lesandann með sér í ævintýraför. Stíllinn er svo fágaður og vandaður að úr verður hrein lesnautn.

-----

Annað verkið er ljóðabálkur - eða langt ljóðabréf, skipt í LXII erindi, ásamt „eftirskrift", upp á 85 blaðsíður - eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og nefnist Bréf frá borg dulbúinna storma. Þarna er einnig ferðalag, andlega og efnislega, til borgar í silfurlandinu Argentínu, væntanlega Buenos Aires, en bréfin virðast flest send til eldspýtnalandsins Svíþjóðar og viðtakendur þeirra virðast vera nokkrir heimasitjandi Svíar - Anton, Emil, Jon, Tomas, Kalle, Lukas, Hermann - nema þetta sé allt einn og sami maðurinn, því að ljóðmælandinn man illa nöfn og finnst menn stundum heita öðrum nöfnum (bls. V). Hver þessara manna eigi „grænu buxurnar, þröngu", sem skjóta í sífellu upp kolli í ljóðunum, skal ósagt látið. Megineinkenni bálksins er leikgleði og heillandi galsi orðanna, með orðaleikjum um „vonnlænera" og „flamberuð hjörtu". Heimurinn er séður ferskum augum, þetta eru leiftrandi mannlífslýsingar úr suðri, samofnar minningum frá Svíþjóð og, í minna mæli, frá Íslandi. Leiðarstef bálksins, sem síendurtekið dúkkar upp, gæti kallast að vera í sínu elementi - þ.e. að allt sé í góðum málum hjá viðkomandi. Ekki er vanþörf á, vegna þess að stundum birtast óvæntar ógnir í nýja landinu, jafnvel innan sviga. Dæmi:

(af / gefnu tilefni: / ef fertugur túristi er stunginn / til ólífis í dimmri hliðargötu la boca-hverfis / fyrir fimm pesóa, hvað eru það margar sænskar?) (bls. XXXIX)

Í borg galsa og glaðværðar liggur semsagt undir niðri dulin ógn; stálpuðum börnum er rænt og fátæklingar tína bréfsnifsi að næturlagi. Buenos Aires - kallaði Laxness hana ekki Góðviðru í Birtíngi? - verður borg dulbúinna storma.

Máske er viðeigandi, miðað við eldspýtnalandið Svíþjóð, að eldspýtur gegni óvenju ríku hlutverki í bálkinum, stundum með siðferðilegum undirtóni hins brennda barns sem forðast eldinn:

manstu, eitt tré nægir / til að búa til / þúsund eldspýtur // svo / dugar ein eldspýta / til að brenna þúsund tré // það er synd (bls. XV)

En eldspýtnaframleiðslan nær einnig til Íslands:

Einu sinni föndraði ég / eldspýtustokk úr hvönn í móanum / fyrir neðan húsið heima / í hann komust fjórar eldspýtur, í mesta / lagi fimm / - ég tímdi aldrei að kveikja á þeim // svo kom rigning / hvönn þolir rigningu / en kveikisandpappír ekki (bls. LIII - LIV).

Annað leiðarstef í bókinni snýst um Heimskringlu og Snorra (Sturluson, væntanlega, þótt föðurnafnið sé aldrei nefnt), en þetta er gert á leikglaðan og óhefðbundinn hátt. Vitnað er til upphafs bókarinnar um hin vogskornu lönd og bent á ofurskiljanlegan galla í verki Snorra:

Og mér finnst engu skipta þótt /snorri hafi / talað um svíþjóð hina miklu, hinu köldu, / eins og hverja aðra heimsálfu, hann /þagði eins og gröfin um / suður-ameríku (bls. LXVIII).

Verulegur hluti bálksins felur í sér tilvistarvanda ljóðmælandans, sem þolir illa snertingu, sbr. að hann afræður að gefa ekki betlandi börnum afgangsaura þegar þau verða of ágeng og fara yfir strikið með því að snerta. Snerting og skinn kemur hvað eftir annað fyrir, iðulega með nokkuð fráhrindandi tóni - strax fremst í ljóðinu er minnst á hamskera, sem „höndlar inn að skinni" (hann kann að kallast á við feldskera í sögu Hermanns Stefánssonar, sem síðar kemur). Stundum verður þó skondinn orðaleikur úr þessari skinn-áráttu, sbr.:

fjarskinn er samt / sorglegt orð / einhvern veginn eins og / skinn sem er / fjarri (bls. LXVIII).

 Óljós tilvistarangist og sálarkreppa er einnig endurtekin í stefi sem birtist nokkrum sinnum bálkinn í gegn:

sumsé, ég sé ekki / hvernig / mér líður á löngum köflum / nema / aðrir sýni mér það (bls. XI og víðar).

Svo að dregið sé saman, þá er ljóðabókin Bréf frá borg dulbúinna storma í senn fersk, fjörleg og frumleg.

-----

Þriðja verkið og hryggjarstykkið í þessum fyrsta árgangi 1005 er skáldsagan Hælið eftir Hermann Stefánsson, enda töluvert lengra en bæði hin verkin samanlagt, um 240 síður að lengd. Þetta er í senn glæpasaga og paródía á glæpasögur; hefst á því að lík finnst í kjallaranum á Kleppi með hníf standandi upp úr brjósti. Til eru kallaðir leynilögreglurannsóknarfulltrúar, Aðalsteinn og Reynir, en einnig kemur varðstjórinn Oddgeir nokkuð við sögu við lausn málsins. Hér er vísað til hinnar hefðbundnu morðgátu; við höfum tvíeykið til að leysa málið og við höfum aflokaðan vettvang glæpsins. Ekki verður gátan heldur leyst á nútímalegan hátt, með tækni og græjum, heldur upp á gamla mátann, af hugsandi snillingi sem kallar saman hlutaðeigandi í bókarlok til að gera grein fyrir niðurstöðum sínum. Dregið er upp býsna magnþrungið andrúmsloft framan af, þar sem lögreglumennirnir eru leiddir inn í hvert herbergi geðspítalans af öðru og fá að kynnast geðveiki vistmanna. Einn þeirra heitir Hermann Stefánsson (!) og titlar sig rithöfund, þótt hann virðist nokkuð yngri en samnefndur höfundur verksins. Sumpart minnti þetta andrúmsloft á íslenska útgáfu af kvikmyndinni Shutter Island, a.m.k. framan af. Frásögnin reynir að virka trúverðug (þ.e. í anda hefðbundnu glæpasögunnar), en efast þó oft um sjálfa sig eða gerir grín að sér: „Reynir varpaði myndinni af Hektori fram á skjávarpann í huganum. Í óeiginlegri merkingu því hann var ekki með skjávarpa í huganum" (bls. XX). Annað dæmi: „Hún var ótæmandi fróðleiksnáma um Njálu, ef svo má að orði komast, því vissulega eru ekki til námur sem innihalda fróðleik um Njálu" (bls. CXXXIII).

Framan af er þetta hin ánægjulegasta morðgáta, en eftir því sem á líður ágerast efasemdir um hverju sé treystandi, einkum eftir að í ljós kemur að vistmaðurinn Hermann Stefánsson er að skrifa söguna Hælið. (Ekki ósvipuðu bragði var beitt var í Undantekningu Auðar Övu, nema hvað þar var bara lauslega ýjað að því að Perla í kjallaranum gæti verið að skrifa söguna, en hér er mun sterkar gefið í skyn að lesandinn sé að lesa texta hælismatsins Hermanns Stefánssonar.) Þá renna einnig tvær grímur á lesandann eftir því sem meira afhjúpast um ævi og sálarlíf söguhetjunnar Reynis, en sagan er öll sögð frá hans sjónarhóli. Yfirmaður hans, Aðalsteinn, er dásamlega sérvitur, ekur um á uppgerðum Bentley frá 1963 sem allir innan lögreglunnar öfunda hann af, þ.e. ef hann nennir þá að keyra sjálfur og lætur ekki aðra skutla sér; hann hefur ímugust á tölvum og símum, tekur heimilissímann úr sambandi eftir klukkan 9 á kvöldin, býr í hálfgerðum heilsárs-sumarbústað uppi við Elliðavatn af því að erfitt að hugsa djúpt í skarkala borgarinnar og leggst þunglyndur á gólfið í frakka sínum ef lausnin á morðgátunni reynist of einföld - eða í fýlu yfir að hann skyldi ekki leysa málið. Býsna skýrt dregin persóna, eins og fleiri í bókinni. Albert Seljan, „kynningarfulltrúi" Klepps (eins og hann er kallaður í stríðni), Oddgeir varðstjóri, hin íðilfagra og síðhærða og svarthærða Anna sem er „með fugla í munninum", hjúkrunarfræðingurinn og ljóskan Sóla sem lætur sér annt um sjúklingana: Allt eru þetta persónur, sem hanga á einhverjum milliveg milli staðlaðra manngerða og sjálfstæðs lífs - eins tvíbentar og sagan öll. Og svo Reynir sjálfur - sem verður dularfyllri og ísmeygilegri eftir því sem á líður. Eggert feldskeri (já, sá eini og sanni!) á einnig nokkuð ríkan þátt í atburðarásinni á tímabili.

Í frásögninni bregður oft fyrir frjóu og bráðskemmtilegu myndmáli, líkingum og myndhverfingum. Dæmi: „Samviskubitið nagaði hann innanverðan eins og forljótur djúpsjávarfiskur sem syndir í maganum og stekkur upp í háls til að bíta í barkakýlið" (bls. CLXX). Hvað þá með eftirfarandi mannlýsingu: „Hann var eins og Guð hefði skapað hann á mánudegi, hann var í þann veginn að detta í sundur. Kinnarnar voru eins og samfallin lungu. Hárið var eins og það hefði fengið nálgunarbann á allt sem liktist greiðu. Augun voru eins og eitthvað úr krukku. Þau depluðu í sífellu eins og býfluga með hiksta. Hendurnar voru tveimur númerum of stórar, notaðar, fengnar af einhverjum öðrum, hann bar þau klaufalega og af undrun. Munnsvipurinn var eins og innsláttarvilla í konkretljóði. Hann talaði með greinamerkjasetningu, kommum og punktum og greinaskilum, eins og skáldsaga" (bls. CLIX-CLX). Þá þótti mér fyndið þegar einn geðsjúklingurinn, sem hefur greinst með alla þekkta geðsjúkdóma, er kallaður „fjölær" (bls. CXXII). Þegar komið er inn í verslun Eggerts feldskera: „Verslunin var full af feldum, eins og búningsklefi í sundlaug dýranna í Hálsaskógi" (bls. CXX). Kaffiþamb er dásamlega mikið í bókinni, eins og hælum hæfir, jafnvel svo slái út bækur Guðrúnar frá Lundi, já, jafnvel þannig að sögupersónum sjálfum þykir nóg um (bls. CCVI). Þá má býsna oft finna djúpt hugsaða speki; dæmi: „Um leið og þú hefur gert sjúkling úr manneskju geturðu geturðu pyntað hana sjálfviljuga í nafni mannúðar," mælir Aðalsteinn, lögreglufulltrúinn ofgáfaði (bls. LXXVII).

Framan af sögu er hin eiginlega morðgáta fyrirferðarmikil, en samfélagsleg skírskotun verður víðari þegar á líður. Hermann fer samt fínlegar í sakirnar en oft áður; það er frekar sagan í heild sinni sem er samfélagsádeila: Vangaveltur um hvað sé andlegt heilbrigði og hvað geðveiki, þar sem mörkin þurrkast tíðum út, og lesandinn er skilinn eftir í lausu lofti með söguhetjunni Reyni. Draumar gegna veigamiklu hlutverki í sögunni og þótt þeir séu óreiðukenndir, eins og títt er um drauma, þá borgar sig að lesa þá af kostgæfni.

-----

Þar höfum við það: Þrjú gjörólík verk - fræðigrein, ljóðabók, skáldsaga - hvert með sínum ágætum. Og þótt verkin séu ólík, þá liggja um þau sameiginlegir þræðir. Öll skáldin þrjú eiga sterkar tengingar við hinn spænskumælandi heim og máske má segja að það sé Jorge Luis Borges sem sameini; andi hans svífur, mismikið, yfir öllum verkum. Hermann síterar hann í Hælinu (ásamt fleiri s-amerískum skáldum: Bioy Casares, Julio Cortazar, Garcia Marquez). Ljóðmælandinn í bálki Sigurbjargar þykist „bíða eftir Borges (heldurasénú)" á kaffihúsi (bls. LVIII) og má þá fara að velta fyrir sér hvort Borges hafi færst úr jarðlífinu og sé nú orðinn að táknmynd fyrir Godot blessaðan. Bioy Casares kemur einnig nokkuð við sögu í grein Jón Halls um Borges, enda þeir Argentínumennirnir tveir nánir vinir um áratuga skeið. Heimskringla kemur við sögu í verkum Jóns Halls og Sigurbjargar, Njála í verkum Hermanns og Sigurbjargar (sem og hamskeri/ feldskeri) og svo mætti áfram telja.

Að öllu framansögðu tel ég að 1005 takist skrambi vel sú ætlun, sem nefnd er í eins konar stefnuskrá ritraðarinnar og sett aftan við hvert verk. Þarna gætir „tilraunagleði og fagurfræðilegs margbreytileika", sem útgefendurnir hafa einsett sér, og „lögð fæð á hugmyndafræðilegan einhug samtímans". Ég nefndi í upphafi að hér væri um að ræða nýjabrum og græðlinga, en þetta er samt enginn botngróður bókmennta nútímans, heldur fögur, gnæfandi tré. Svona útgáfu ber að fagna fremur en næstu norrænu glæpasögunni, næsta tsjikk-littinu eða næsta kellíngakláminu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stórgott!

Sverrir Norland (IP-tala skráð) 21.6.2013 kl. 10:24

2 identicon

http://www.ruv.is/gagnryni/timaritrodin-1005-gagnryni

Þorgerður E. Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 21.6.2013 kl. 10:26

3 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæl Þorgerður (aths. 2):

Ég vissi af þessari gagnrýni Víðsjár, enda standa RUV/Víðsjá langbest vaktina þegar kemur að slíkri útgáfu. Egill Helgason náði einnig að fjalla um 1005 í mýflugumynd í síðasta (minnir mig) Kiljuþætti vetrarins og var þar farið lofsorði um framtakið og verkin þrjú, en ekki þó mikil dýpt í umfjöllun eða greiningu.

Þar með upptalið. Ég veit ekki til að neitt þeirra 3-4 dagblaða/vikublaða, sem mesta útbreiðslu hafa á landinu (Fréttablaðið, Morgunblaðið, DV eða Fréttatíminn) hafi gert 1005 viðhlitandi skil - einhver þessara blaða kynnu að hafa birt stuttar fréttatilkynningar í besta falli. Og ekki veit ég af öðru bókabloggi um ritið.

Svo ber auðvitað að líta á að efnisbundinn eintakafjöldi var takmarkaður, við 200 eintök minnir mig, og þar með máske búinn til exklúsívur lesendahópur. Mér finnst viss forréttindi að tilheyra þeim hópi.

Helgi Ingólfsson, 21.6.2013 kl. 14:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband