Messías ræsisins

Á menntaskólaárunum skemmtum við okkur, kunningjarnir, við að svara kjánalegum heimspekilegum spurningum á borð við: Hvað myndi gerast ef Jesús Kristur birtist aftur í nútímanum, boðaði kenningar sínar, framkvæmdi kraftaverk og reisti menn upp frá dauðum? Svarið var einfalt: Hann yrði umsvifalaust lagður inn á stofnun.

 

Um nákvæmlega þetta fjallar skáldsagan The Last Testament of the Holy Bible, sem ég hef nýlokið við, eftir Bandaríkjamanninn James Frey. Nema hvað spurningin, sem við menntaskólafélagarnir gátum svarað í einni línu, þarf Frey 400 blaðsíður til að afgreiða.

 

Fyrst, fáein orð um höfundinn. James Frey var mér með öllu ókunnugur, þegar ég hóf lesturinn, en sem alsiða er í dag, kynnti ég mér hann á netinu samhliða lestrinum og komst að því, mér til furðu, að hann er einn umdeildasti - eða ætti ég heldur að segja alræmdasti? -rithöfundur seinni ára í Bandaríkjunum. Endurspeglar þetta hversu lítið ég fylgist með bandarískri bókmenntaumræðu; ég er hrifnari af þeirri evrópsku. Hvað um það, James Frey vakti mikla athygli í Bandaríkjunum árið 2003, þegar hann gaf út Million Little Pieces, bók sem sögð var vera endurminningar, frá þeim tíma þegar hann á að hafa verið langt leiddur eiturlyfjaneytandi á 9. áratug 20. aldar. Sérstaka athygli vakti bókarkafli í þeim „minningum‟ um hvernig Frey hafði í vímu danglað í lögregluþjón, fengið í staðinn yfir sig barsmíðar fjölda lögregluþjóna og mátt dúsa í fangelsi í 87 daga. Bókin rokseldist, Frey mætti í viðtal hjá Larry King og þangað hringdi inn m.a. Oprah Winfrey, sem átti drjúgan þátt í að kynna bókina og tryggja henni metsölu. Kaflinn um barsmíðar lögreglunnar vakti sérstaka athygli og varð heilmikill grundvöllur umræðu um lögregluofbeldi þar vestra.

 

En Adam reyndist ekki lengi í Paradís. Árið 2005 afhjúpuðu rannsóknarblaðamenn að margt í bók Freys var ekki fyllilega í samræmi við veruleikann, þ.á.m. löggubarsmíðasagan. Frey og umboðsmanni hans var boðið í þátt hjá Opruh Winfrey, þar sem þau voru gjörsamlega tekin á beinið. Í kjölfarið var Frey úthrópaður sem svikahrappur og Münchausen nútímans og hann missti milljón dollara útgáfusamninginn sem hann var kominn með upp á vasann. Orðspor hans sem alvöru rithöfundar virtist fyrir bí.

 

Þrátt fyrir þessa sorgarsögu hafði Frey eignast nokkra harða aðdáendur, sem töldu hann einhvers konar snilling, sem afhjúpaði hræsni og hráskinnaleik bókmenntaiðnaðarins. Hann skrifaði fáeinar bækur til viðbótar, sem gagnrýnendur virtu jafnan að vettugi eða rifu í sig, en aðdáendur hans lofuðu í hástert í almenningskrítik á síðum eins og LibraryThing eða GoodReads eða í Amazon-umsögnum. Þær bækur hef ég ekki lesið og get ekki dæmt. En nú skal vikið að testamenti Freys.

 

The Final Testament of the Holy Bible fjallar (sem fyrr segir) um nýjan Messías. Sá er bandarískur piltur af Gyðingaættum, Ben Zion Avrohom, sem uppfyllir öll skilyrði spádóma Gamla testamentisins og Talmúð-fræða um að vera hinn smurði, enda er sjálfur rabbíni hverfisins sannfærður. En þegar Ben er 14 ára deyr ofbeldisfullur faðir hans og við tekur yfirgangssamur bróðir sem höfuð fjölskyldunnar og rekur þennan óvenjulega bróður sinn á dyr, í einhvers konar öfundssýki, að því er virðist. Í 16 ár lifir Ben Zion í reiðileysi undir nýju nafni, Ben Jones, og býr í niðurníddu hverfi hörundslitaðra, étur pizzur, vinnur fyrir sér sem öryggisvörður á byggingarstað og leikur tölvuleiki í frístundum. Hann lendir í alvarlegu slysi, nær yfirskilvitlegum bata þvert ofan í allar líkur og tekur að hegða sér einkennilega, dregur sig út úr venjulegu samfélagi, vill lifa meðal smáðra og útskúfaðra, étur upp úr ruslatunnum, gengur í lörfum og gerir kraftaverk.

 

Allt er þetta framreitt á afar trúverðugan hátt, einkum framan af, enda trúði ég því nánast sem nýju neti í fyrstu að um raunverulega atburði gæti verið að ræða. Við kynnumst Ben Zion í gegnum vitnisburði ýmissa ólíkra persóna, sem hann á samskipti við, og hann snertir líf þeirra flestra á ólíkan hátt. Þarna er frásögn púertóríkanskrar vændiskonu, sem síðar verður lagskona hans, verkstjórans á byggingarstaðnum þar sem vinnuslysið varð, læknisins sem gerði að sárum hans, blökkumanns sem tilheyrir öfgatrúarflokki sem hefst við í neðanjarðarbrautakerfi New York, FBI-lögreglumanns, lögmanns og ýmissa annarra, og þessi nýi Messías hefur áhrif á allt þetta fólk, svo mjög að það trúir flest á yfirskilvitlega hæfileika hans. Í upphafinu segir að sagan byggist á víðtækum viðtölum við fjölskyldu, vini og fylgismenn Bens Zion og hver kafli er eignaður frásögn einstaklings, sem komið hefur að málum þessa Messíasar strætisins. Í sögulok er heil blaðsíða, sem fer í þakkir til fjölda nafngreindra einstaklinga og heita margir þeirra sömu nöfnum og meintir „viðmælendur‟. Eftir lestur sögunnar sýnist mér þakkarlistinn líklega blanda af raunverulegum og uppdiktuðum þökkum.

 

Uppsetning og stíll sögunnar eru kapítuli út af fyrir sig. Margt í bókinni dregur dám af Biblíunni, enda eiga frásagnirnar að vera e.k. nútímaguðspjöll. Viðmælendur heita m.a. Luke, Mark, John og Matthew, en auk þess úir og grúir af Biblíunöfnum: Esther, Ruth, Jacob, Jeremiah, Peter og ýmsir fleiri. Þó er þetta ekki að öllu leyti einhlítt. Ein höfuðpersóna sögunnar á eftir Ben Zion er hin púertorikanska Mariaangeles, sem verður um síðir ein helsta lagskona hans, en Messías strætisins er samt ekki við eina fjölina felldur og á í ástarsambandi við fjölda kvenna og allnokkra karla einnig, að því er virðist. Uppsetning textans minnir á trúarrit (eldri Biblíur munu hafa verið settar upp á þennan hátt); engin greinaskil eru notuð; afar lítið fer fyrir samtölum og þegar um þau er að ræða, er þau að miklu leyti í formi spurninga og svara. Textinn á augljóslega að líta út eins og vitnisburðir eða testimonium ólíkra einstaklinga.

 

Við útgáfu skáldsögunnar virðist beinlínis hafa verið gert út á það hve höfundurinn er umdeildur: Lesandanum er seld hneykslun á svikahrappi, jafnhliða því að saga er endursögð á máta, sem sumpart gæti verið guðlast. Á kápu er að finna ummæli, eins og „Brilliant, brilliant, brilliant" (sem ég hefði á köflum viljað skipta út fyrir „Boring, boring, boring"), „Brave", „Honest" og sitthvað fleira. Frásaga af nútímamessíasi, sem stundar stóðlífi milli þess sem hann framkvæmir kraftaverkin, kann að hneyksla einhverja Bandaríkjamenn á biblíubeltinu sunnan Mason-Dixon-línunnar, en hún hreyfði ekki mikið við trúleysingjanum mér, sem hvað eftir annað hugsaði: „Been here, done this, read that". Þó er frásögnin ekki alslæm; einstaka sinnum tekst Frey að koma lesandanum á óvart, þótt margt sé að sama skapi heldur fyrirsjáanlegt.

 

Guðfræðin í bókinni er heldur ekki upp á marga fiska, þótt hún kunni að hneyksla einhverja bókstafstrúarmenn. Ben Zion á í samræðum við Guð, en samkvæmt sögunni er Guð ekki persóna eða persónulegur í neinum skilningi - málefni mannanna koma honum ekki við, per se - heldur á Guð skv. Frey/Ben Zion að vera yfirskilvitlegur kraftur, sem býr að baki og handan alls þess sýnilega og skynjanlega. Hann er það sem býr utan endimarka þess sem maðurinn skilur. Guðfræði bókarinnar er líka hálfpartinn dálítið pínleg hippaheimspeki ástarinnar, sem John Lennon orðaði svo ágætlega í „All you need is love." Hvað eftir annað verður Ben Zion á orði: „God is love" og hann gengur um og segir við sérhvern sem hann hittir: „I love you." Þannig er heimspeki bókarinnar að mestu simplisistísk og ekki ýkja djúp; Ben Zion flytur tölu yfir áhangendum sínum í eins konar kommúnu á bændabýli í „upstate New York" (minnir á Woodstock eða hvað?), en það er engin Fjallræða. Markmiðið virðist að einhverju leyti að samræma vísindahyggju og trú (Ben Zion trúir t.d. algjörlega á þróunarkenninguna og ekki á hefðbundinn Guð) og að samræma efnishyggju og andlegan veruleika, sem annar Bandaríkjamaður, Robert Pirsig, gerði þúsund sinnum betur fyrir 35 árum í Zen and the Art of Motorcycle Maintenance. Þótt Ben Zion sé gæddur yfirskilvitlegum mætti, þá er hann í öllum skilningi andstæðingur hefðbundinna trúarbragða; á einum stað mælir hann eitthvað á eftirfarandi vegu: „Trúin væri langmerkilegasta uppfinning Djöfulsins, ef hann væri þá til, sem hann er ekki." (Ég er næstum viss um að þetta er stolin speki, en man bara ekki hvaðan).

 

Í gegnum bókina gengur sem rauður þráður ákveðin raunsæ hugmyndafræði um að heimsendir sé í nánd, nánast í bókstaflegum skilningi. Mannkynið eitt er ábyrgt fyrir því hvernig málum er komið, skv. boðskap Bens Zion, en það er í reynd komið fram yfir þau mörk að aftur verði snúið. „Allnokkuð er síðan við ókum fram af hengifluginu," segir Ben Zion á einum stað, „við eigum bara eftir að lenda." Heimspeki Bens Zion miðar að því að draga sem mest úr hörku þessa áreksturs. Hann gengur í lörfum og étur úr tunnum til að nýta sem best þær takmörkuðu auðlindir, sem jörðin hefur upp á að bjóða. Nákvæmlega hvernig endalokin verða getur Ben Zion ekki sagt fyrir um; hann bendir á að á einhverjum tímapunkti muni heimsveldi ýta vanhugsað á takka, sem sendi sprengjur á loft, og að í kjölfarið verði svarað með því að ýta á marga takka. En ef stríð dugir ekki til að eyða mannkyninu, þá blasir við hægari dauðdaginn: Mönnunum fjölgar, auðlindirnar þverra, og jörðin verður þurrausin á endanum, af mannfólki og gnægtum sínum. Mannkynið flýtur sofandi að feigðarósi.

 

Augljós sannindi, ekki satt? Þau gera skáldsögu hvorki betri né verri - ef það er eitthvað, sem gefur þessari sögu Frey gildi, þá er það viðvörunin og lokatilraunin til að koma til skila jákvæðum boðskap til mannfólksins. Hann reynir að tala röddum ólíkra einstaklinga, en þegar upp er staðið eru þær heldur einsleitar - höfundurinn býr einfaldlega ekki yfir því næmi, sem David Mitchell sýndi t.d. í Cloud Atlas, þar sem ótrúleg fjölbreytni birtist í orðalagi og heimsmynd hverrar sögupersónu. Áberandi hjá Frey eru endurtekningar í stíl, sem verða yfirþyrmandi, þegar á líður bókina. Ben Zion gengur inn í herbergi, biðstofu, lestarvagn og allir fara að brosa, því að allir skynja nærveru kærleikans (nema ein skrifstofublók með skjalatösku, sem hrökklast út úr lest á næstu stöð undan augnaráði þessa lausnara). Stíllinn er líka ótrúlega simpill; nánast hver einasta setning byrjar á persónufornafni sem frumlagi og síðan kemur sögn: „He said...", „I did..." „We went..." Þennan stíl skortir tilfinnanlega ljóðrænu - hann er meira svona samansúrraður harðneskjulegur stíll stórborgarinnar - þótt einstaka sinnum hrökkvi eitthvað fallegt upp úr Ben Zion. Þótt ekki sé nema: „I love you."

 

Niðurstaðan? Sagan er heldur klén og klisjukennd og nær því varla að verða miðlungsskáldsaga. Einstaka verðug hugmynd inn á milli lyftir henni þó örlítið upp af hinum algjöra botni flatneskjunnar. Hinir trúuðu mega síðan velta fyrir sér og rífast út af hæpinni guðfræðinni, ef þeir vilja - það er ekki fyrir mig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tja, þetta var skondin lesning. Ekki mun ég lesa þessa bók.

Þó vil ég benda þér á að einhver magnaðasti gaur sögunnar, og jafnframt einn fjölhæfasti snillingur sem um getur, keypti búrfugla til þess eins að sleppa þeim.

Það er trú.

Jóhann (IP-tala skráð) 18.7.2012 kl. 01:06

2 identicon

James Randi myndi afhjúpa hann sem svindlara.

DoctorE (IP-tala skráð) 18.7.2012 kl. 10:36

3 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann (nr 1):

Hm ...

a) Hvaða fjölhæfi snillingur og magnaði gaur var það? b) Og af hverju er það trú? Gæti það ekki bara verið dýraverndarsjónarmið?

Svo má líka nefna að annar náungi, sem sumir telja "einhvern magnaðasta gaur sögunnar" (svo notað sé þitt orðalag) á að hafa kollsteypt fuglabúrum í musteri í fjarlægu landi fyrir hartnær 2000 árum og frelsað fugla, en ég held a) Að þú eigir ekki við hann, og b) Að hann hafi ekki verið að gera það til að frelsa búrfuglana, heldur til að koma með annars konar steitment (að því gefnu að sú saga standist, sem ég er þó ekkert viss um - kannski var það líka bara sæmileg skáldsaga).

-----

DoctorE (nr. 2):

Hvaða "hann" ætti Randi að afhjúpa? Skáldsagnapersónuna Ben Zion? (Til þess þyrfti Randi að vera gæddur þeim ofurmannlega krafti að geta stigið inn í skáldsögur.) Eða afhjúpa rithöfundinn James Frey, sem þegar hefur verið "afhjúpaður" í öðrum skilningi? (Ekki vissi ég að Randi stæði í afhjúpandi bókmenntarannsóknum. En hann er auðvitað ofurmenni í augum sumra.)

Helgi Ingólfsson, 18.7.2012 kl. 13:06

4 identicon

Já, það mætti segja að sumir sjái ekki ljósið fyrir þessu Randi, en líklega er þar á ferð einhvers konar költ. Maðurinn minnir óneitanlega á Jólasveininn í útliti sínu...

 ...síðan að flest "breakthrough" í t.d. læknisfræði í gegnum tíðina voru mjög umdeild þá einmitt af vísindamönnum þess tíma, sem margir hverjir afgreiddu það sem bull og vitleysu. Það kom trúarbrögðum lítið sem ekkert við, þó að óneitanlega hafi margir blandað saman pólitík og trúnni varðandi þetta. 

  Síðan voru það oft á tíðum menn tengdir kirkjunni, eða munnkar og nunnur sem ástunduðu "læknisfræði", eða einhvers konar lækingar. 

  Hið veraldlega hafði lítinn sem engan áhuga á því. Það er svo létt að búa til mýtur úr sögunni. 

Hins vegar þyrftu margir einstaklingar á einhvers konar kraftaverki að halda varðandi geðheilsu sína, og hvernig sumir sjá trúnna, sem ásteitingarstein varðandi það, er náttúrulega hulin ráðgáta. 

Páll Einars (IP-tala skráð) 18.7.2012 kl. 14:13

5 identicon

Þú ert sem sagt ekki að kveikja á því að ég var að svara spurningunni um hvað myndi gerast ef Jesú "kæmi aftur".

Persónulega er ég á því að Jesú sé skáldsaga frá a-ö; ef við gerum ráð fyrir því að hann hafi samt verið til.. þá var hann ekki sonur guðs, og meint kraftaverk voru ekkert nema kjaftasögur og lygar. Auðtrúa fornmenn voru alveg jafn steiktir og auðtrúa nútímamenn, fornmenn höfðu þó afsökun fyrir að trúa ruglinu, sem nútímamenn hafa ekki.

DoctorE (IP-tala skráð) 18.7.2012 kl. 14:45

6 identicon

Þetta var Leonardo da Vinci.

---

DoktorE, tak kross þinn og gakk.

Jóhann (IP-tala skráð) 18.7.2012 kl. 16:48

7 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann:

Frelsaði Leonardo ekki bara búrfuglana til að fræðast um flug þeirra, vængjatök og aflfræði flugsins?

(Ég kem semsagt ekki alveg auga á samhengið við lokasetningu þína í athugasemd nr. 1: "Það er trú.")

Helgi Ingólfsson, 19.7.2012 kl. 01:09

8 Smámynd: Helgi Ingólfsson

DoktorE (aths. 2 og 5):

Gerir þú þér grein fyrir því hvað felst í orðum þínum: "Að ef Jesús Kristur kæmi aftur, gerði kraftaverk og reisti menn frá dauðum, þá myndi James Randi afhjúpa hann sem svindlara."

Ja, mikil er trú þín. Á James Randi.

Helgi Ingólfsson, 19.7.2012 kl. 11:36

9 identicon

Satt að segja setur þú mig í nokkra klípu, enda var aflfræði eitt af áhugasviðum da Vinci.

Hann gerði t.d. skilmerkilega grein fyrir svifvængjum, einhverjum öldum áður en menn áttuðu sig á því. Það sama á við um margar aðrar greinar.

Veistu annars til þess að Jésus hafi setið margar messur?

Jóhann (IP-tala skráð) 19.7.2012 kl. 23:03

10 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann (aths. nr. 9):

Að því gefnu að Jesús hafi verið til, eins og spurning þín í blálokin virðist gera ráð fyrir, og að því gefnu að frásögn Nýja testamentisins sé rétt, sem ég er ekki í betri aðstöðu en neinn annar til að segja til um, þá liggur í augum uppi að Jesús hafi ekki sótt ("setið") neina messu, enda er stofnað til messuhalds af hinum fyrstu kirkjum nokkru eftir krossfestinguna til að minnast hans og til að styrkja söfnuði með samkomum í biðinni eftir endurkomunni, en þó máske einkum til að standa að útdeilingu sakramenta og þá aðallega altarissakramentisins, sem ekki varð til fyrr en kvöldið fyrir krossfestinguna.

Ég býst við að einhvern veginn á þann veg gæti fræðilegt svar við spurningu þinni hljómað.

Hins vegar (ef ég man rétt) á Jesús að hafa farið skv. guðspjöllunum tvisvar í musterið  í Jerúsalem, fyrst 12 ára og síðan 21 ári síðar, þegar hann kollsteypti búrum fórnarfugla og borðum víxlara, nokkrum dögum fyrir krossfestinguna, væntanlega. Hvort líta megi á ferð í musterið sem ígildi messuferðar skal ósagt látið. Þess utan á Jesús að hafa hitt farísea við hin ýmsu tækifæri "off-hand", þar sem þeir komu til hans með spurningar sem fólu í sér slægar gildrur.

Annars geta eflaust guðfræðingar og prestar svarað þessari "tricky" spurningu þinni betur en ég - ef þú raunverulega vilt vita svarið.

Helgi Ingólfsson, 20.7.2012 kl. 01:06

11 identicon

Ég átti reyndar ekki von á því að þú værir að leyta eftir flísinni úr krossi Jésú.

Enda hefur trú ekkert með það að gera.

Sjálfur sagði hann: "Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá". 

Sem meikar góðan sens, hvort heldur hann var til, eður ei.

Og Leonardo er sagður hafa verið jurtaæta, nánast áður en hugtakið var til...

En varla metur þú hugmyndir í ljósi sagnfræðilegs veruleika, því það væri synd.

Jóhann (IP-tala skráð) 20.7.2012 kl. 02:14

12 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann (nr. 11):

 Þegar ég var lítill, þá var auglýsingarslagorð Silla og Valda í blöðum og útvarpi: "Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá" og hélt ég að þeir væru höfundarnir.

Seinna komst ég að öðru.

-----

Sagnfræðilega nálgunin var nú bara sisona til þess að ákveðnir hópar, sem eiga til að hella sér yfir mig, færu ekki á límingunum og færu að hella sér yfir mig.

Annars datt mér í hug að Jesús (ef hann var til) hlýtur að hafa sótt synagógur, því að hann var jú Gyðingur. Þetta er allrækilega gefið í skyn, þegar farið með hann á áttunda degi til umskurnar - hún var líklega framkvæmd þar. Og mig rámar í fleiri atvik í NT, sem eiga sér stað í synagógum. Er samt enginn spesíalisti, þótt ég hafi lesið "manúalinn" einhvern tíma.

-----

 Hjá mér er viðhorfið svona dálítið "Live and let live" - þótt ég trúi ekki, þá get ég alveg unnt öðrum þess. Eins og þú gefur í skyn, hvort sem menn trúa á kraftaverk eða ekki, þá er að finna í Biblíunni merkilega siðaspeki, sem hægt er að lifa eftir, ekki ósvipaða taóisma eða kenningum ýmissa grískra heimspekinga. Og siðfræði er í mínum huga mikilvægari en vísindahyggja.

Helgi Ingólfsson, 20.7.2012 kl. 14:42

13 identicon

Þetta með messusetuna var nú bara tilbrigði við ummæli Jóns Helgasonar, sem síra Árna Þórarinssyni varð nokkuð bumbult á: "Jesús var mikill trúmaður".

Við erum nánast jafnaldrar og ég man vel eftir Silla og Valda, enda var ein verslun þeirra beint á móti æskuheimili mínu á Rauðarárstígi.

Sjálfur uppgötvaði ég óendanleikann um 5ára gamall, við það að skoða myndina á Royal lyftidufti.  Og varð skelkaður.

Síðan hef ég reynt að rýna í hinstu rökin. Og trúi að til sé Guð. Ég kalla hann reyndar "Veruna" þegar ég ræði við fólk um viðlíka mál. Óumdeilanlegt er að hugmyndin um Jésús hefur haft gríðarleg áhrif á framvindu mennskunnar.

En ég er ekki í neinu trúfélagi.

Skýringar efnishygjgjumanna um strengjakenningar, fjölheima, og að endanleg summa af alheimigeti verð 0, eru vissulega áhugaverðar.

Ég er viss um að Veran hefur mikið gaman af slíkum trakteringum, eða eins og Voltaire orðaði það einhvern veginn: "Guð er uppstandari með sýningu fyrir skelfingu lostna áhorfendur"

Jóhann (IP-tala skráð) 20.7.2012 kl. 19:57

14 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann (nr. 13):

Ég er sammála um að fjölmargar vísindakenningar í nútímanum séu áhugaverðar og skemmtilegar, sérstaklega þær sem stangast á við empirísma og hversdagslega upplifun. Þannig kunna fjölheimar að vera fræðilega mögulegir skv. vísindunum (og voru meðal viðfangsefnis frægs þríleiks eftir Philip Pullman), en ég veit ekki um neinn sem hefur upplifað þá.

---

Voltaire, ef ég man rétt, var panþeisti og ofboðslega gagnrýninn á kirkjuna, sérstaklega þá kaþólsku, enda þekkti hann hana best frá heimalandinu. Uppalinn og menntaður í jesúítaskóla og bar þess aldrei bætur, að eigin sögn. Eftirlætissetning mín frá hans hendi um trúmál hefur alltaf verið: "Guð er á bandi þess, sem stærstan hefur herinn."

----

Jamm, og varðandi meint grænmetisát Leonardos (aths. 11): Það að fyrri tíma menn hafi verið jurtaætur gerir þá hvorki betri né verri (A. Hitler var t.d. grænmetisæta). Það segir hins vegar sitthvað um að þessir menn þori að synda gegn meginstraumnum.

-----

 Annars skil ég, Jóhann, mætavel flest það sem þú greinir frá um trúmálin.

Helgi Ingólfsson, 21.7.2012 kl. 13:35

15 identicon

Það sem mér þykir  merklegast af öllu, er að allt skuli vera til, en ekki bara ekkert.

Rétt er að menn gerast andhverfir dýraáti af margvíslegum ástæðum. Sumum ansi sjálfhverfum. En ég efast um að Hitler hafi nokkru sinni keypt fugla í búrum, til þess að veita þeim frelsi.

Jóhann (IP-tala skráð) 21.7.2012 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband