Cloud Atlas: Skáldsaga 21. aldar?

Eftir því sem árin líða sækist ég meira í að endurlesa gæðabókmenntir fremur en að taka áhættu með að lesa nýmeti sem gæti reynst misgott. Vafalítið eru þetta ellimerki - ekki svo mikið eftir af lífinu að maður vilji sólunda því í slæman skáldskap. Ein bók, sem ég leita stöðugt í, er Cloud Atlas eftir David Mitchell, að mínum dómi er besta skáldsaga skrifuð á 21. öld, sem ég hef lesið. Bókina fékk ég í afmælisgjöf frá dóttur minni og tengdasyni árið 2005, um tveimur árum eftir að hún kom út, og heillaðist svo gjörsamlega við fyrsta lestur að ég endurlas hana fáum árum síðar. Í fyrra stóð fyrir dyrum að bókin yrði útfærð í kvikmynd (og bloggaði ég um tilurð hennar hér) og eftir að hafa séð kvikmyndina las ég bókina nýlega í þriðja skiptið.

Cloud Atlas er ritverk sem brýtur allar reglur. Fyrir hið fyrsta er spurning hvort það flokkist sem skáldsaga, því að þetta eru sex skáldaðar frásagnir af nóvellulengd, ótrúlega ólíkar að efni og stíl, en tengdar ýmsum þráðum. Sú fyrsta er í formi dagbókar, önnur stíluð sem sendibréf, þriðja er hraðsoðinn reyfari í „pulp-fiction"-stíl, fjórða er hálfgildings farsi, fimmta er vísindaskáldsaga í skýrsluformi og sjötta er sögð við varðeldinn eftir hrun siðmenningarinnar. Hver saga hefur sína meginsöguhetju og allar eru þær gjörólíkar að tungutaki, orðfæri og framsetningu. Ennfremur eru sögurnar flestar slitnar sundur í tvennt: Byrjað er á frásögn um 1850, sú næsta gerist um 1930, sú þriðja um 1975, fjórða í nútímanum, fimmta nærri miðri 22. öldinni og sú síðasta á óskilgreindum tíma eftir hrun siðmenningar. En við fáum bara fyrri hlutann af fimm fyrstu sögunum, þá kemur sú sjötta öll, og síðan er fyrri sögum lokað í öfugri röð; bókin er spegluð um miðju. Risastór samlokubók. Frásögnin í slitnu sögunum hættir jafnan, þegar hæst standa leikar og lesandinn bíður óþreyjufullur eftir framhaldinu. Þannig má skilgreina Cloud Atlas sem sagnasveig 6 gjörólíkra nóvella, sem hver fyrir sig er 80-90 blaðsíður, en afar flóknir og hárfínir þræðir liggja þvert um verkið endilangt og réttlæta helst að hægt sé að tala um skáldsögu.

Nú skal farið lítillega yfir hverja sögu fyrir sig. Blaðsíðuvísanir eru í kiljuútgáfu mína, útg. 2003 af Sceptre (Hodder and Stoughton):

1) Fyrsta nóvellan nefnist The Pacific Journal of Adam Ewing og þar er í lykilhlutverki hinn siðavandi, trúaði og alvörugefni Adam Ewing, bandarískur lögskrifari sem sendur hefur verið um 1850 frá San Francisco til Ástralíu, en saga hans gerist á bakaleið og hefst þar sem laskað skipið Prophetess, sem flytur hann, hefur neyðst til að leita hafnar til viðgerða á Chatham-eyjum eftir óveður. Lesandanum er þeytt inn í miðja dagbók á fyrstu síðu sem sést t.d. á því að Ewing vísar til dagbókarinnar framar en frásögnin nær til (sbr. bls. 39). Bragð þetta er dæmigert af hendi höfundar til að rugla í ríminu lesanda sem má hafa sig allan við að átta sig á rás atburða út frá lágmarksupplýsingum - rétt nægum, ef rækilega er fylgst með. Þannig fáum við að vita að Ewing á eiginkonuna Tildu og soninn Jackson, sem bíða hans heima, og svo virðist sem sonurinn hafi gefið dagbækurnar út að föður sínum gengnum, því að á einum stað er að finna neðanmálsgrein eftir „J.E." sem talar um Adam Ewing sem föður sinn (21). Frásagnarform dagbókarinnar er fullkomlega sannfærandi, með orðfæri og talsmáta trúaðs menntamanns á 19. öld.

2) Önnur nóvellan nefnist Letters from Zedelghem og við erum hrifin úr miðri málsgrein Adams Ewing inn í heim ungs ensks æringja og tónlistarmanns, Roberts Frobisher, sem er á flótta árið 1931 undan handrukkurum vegna spilaskulda og endar í Belgíu, þar sem hann kjaftar sig inn á uppþornað frægt tónskáld, Vyvyan Ayrs, og gerist nótnaskrifari hans, enda er Frobisher hrífandi skúrkur sem kann þá list að vefja fólki um fingur sér. Hann lýsir fáeinum mánuðum í lífi sínu í sendibréfum til ástmanns síns, Sixsmith að nafni, en raunar er Frobisher beggja handa járn og flekar konur með afdrifaríkum afleiðingum. Sixsmith vitum við hins vegar næsta lítið um, nema hvað hann er ungur vísindamaður tengdur Cambridge. Stílfræðilega er þetta einn fjörmesti og bitastæðasti hluti Cloud Atlas og er samt um auðugan garð að gresja. Þegar ég las þennan hluta fyrst sannfærðist ég um að höfundurinn David Mitchell hlyti að hafa meistaragráðu í tónsmíðum og tónlistarsögu ofan á alla aðra þekkingu sína, því að fjallað er um þau mál af slíkri kunnáttu. Frobisher varpar fram kæruleysislegum tónlistarathugasemdum, þar sem dæmi eru sótt út um alla tónlistarsöguna. Hann heyrir tónlist hvarvetna - marrandi löm, hrotur, kirkjuklukkur, draumar - og tilgreinir margoft hvernig hann myndi skipa niður hljóðfærum í tónlist sína, tilbúna sem ósamda. Í Zedelghem hefur hann til umráða rúm sem Debussy svaf í 1915 og verður vitni að heimsókn Sir Edwards Elgars til Ayrs síðsumars 1931 - fær að heyra risana kýta um nútímatónlist eftir Webern, dregur upp úr Elgar ástæður þess að hann samdi Pomp and Circumstance March og horfir á tónskáldin tvö rota rjúpur framan við arininn svo að úr verður - tónlist.

Frobisher semur seinna tónverkið Cloud Atlas Sextet (nafnið er fengið að láni úr tónverki japansks tónskálds, Toshi Ichiyanagi, fyrri eiginmanns Yoko Ono, en eldri bók Mitchell, number9dream, sækir einnig nafn í tónverk eftir annan eiginmann Yoko, þann frægari). Reyndar má í vissum skilningi segja að Cloud Atlas Sextet sé lykillinn að bókinni; tónverki sínu lýsir Frobisher svo í sendibréfi: „Spent the fortnight gone in the music room, reworking my year´s fragment into a ´sextet of overlapping soloists´: piano, clarinet, ´cello, flute, oboe and violin, each in its own language of key, scale and colour. In the Ist set, each solo is interrupted by its successor: in the 2nd, each interruption is recontinued, in order. Revolutionary or gimmickry? Shan´t know until it´s finished ..." (463). Og áfram í öðru bréfi: „... it´s an incomparable creation. Echoes of Schriabin´s White Mass, Stravinsky´s lost footprints, chromatics for the more lunar Debussy, but truth is I don´t know where it came from. Waking dream. Will never write anything one hundreth as good. Wish I were being immodest, but I´m not" (489). Þetta gæti verið lýsing á bókinni sjálfri og höfundi hennar, yfirfærð í tónlist.

Ég varð hlessa þegar ég las í viðtali við Mitchell að hann kynni lítið í tónlist, en sagðist að meira eða minna leyti hafa fengið tónlistarefni sitt úr bæklingum sem fylgja klassískum geisladiskum! Eitt stíleinkenni Mitchell er hversu trúverðugur hann er á öllum sviðum í Cloud Atlas, sama hvað hann ritar um - enska orðið authenticity kemur stöðugt upp í hugann. Samt er það í Letters from Zedelghem sem mér þykir að finna eina frásagnarveikleikann í allri bókinni, varðandi undraskjótan frama Frobishers  - á tæpum 2 mánuðum nær hann að koma sér inn undir hjá Ayrs, skrifar fyrir hann nóturnar að Todtenvogel, verkið er flutt í Kraká af Augustowski, fær rífandi undirtektir og verður á hvers manns vörum í heimi klassískrar tónlistar í Evrópu. Allt þetta á 2 mánuðum! (Í kvikmyndaútgáfunni er því öllu breytt, ekkert Todtenvogel, en vísað í annað verk sem Ayrs er að semja seinna í Nietzsche-önskum anda, Eternal Recurrence; enginn Debussy, Elgar eða Augustowski, en í staðinn kominn í heimsókn þýskur tónlistarstjóri á nasistatímanum, Taddeusz Kesselring, enda sagan færð frá 1931 til 1936.)

Bókarhlutinn um Frobisher tengist þeim fyrsta helst á þann veg að hann les dagbók Ewings. Þarna fáum við fyrst að vita að hún hafi ratað í útgáfu, en samt ekki enn ljóst hver stóð að því, enda segir Frobisher „...published by Ewing´s son (?)" (64). Frobisher hefur bara  hálfa bókina í höndum og vill meira, eða eins og hann segir í bréfi til vinar síns: „A half-read book is a half-finished love affair" (65). Frobisher er því hér viðeigandi og skemmtilega í sömu stöðu og lesandinn: Hefur eingöngu lesið hálfa frásögn Ewing.

Vert er að nefna undarlegan draum, sem Ayrs dreymir og útlistar fyrir Frobisher, þar sem hinn síðarnefndi er að tónsetja sónötu samkvæmt fyrirmælum: „I dreamt of ... a nightmarish café, brilliantly lit, but underground, with no way out. I´d been dead a long, long time. The waitresses all had the same face. The food was soap, the only drink was cups of lather. The music in the café was," he wagged an exhausted finger at the MS [manuscript], „this." (80) Draumurinn kemur þarna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, en vísar beint inn í fimmtu sögu, um Sonmi~451.

Sem fyrr segir finnst mér Zedelghem-hluti bókarinnar einna skemmtilegastur (a.m.k. við þriðja lestur) og er synd og skömm hversu lítið varð úr honum við gerð kvikmyndarinnar, en þar var sögusviðið fært frá nágrenni Brügge til Edinborgar án nokkurrar sýnilegrar ástæðu, og þótt sá frábæri Ben Whishaw hafi í hlutverki Frobishers reynt að bjarga því sem bjargað varð, þá voru svo veigamikil efnisatriði felld út að þessi sögukafli varð hvorki fugl né fiskur í kvikmyndinni og hefði jafnvel betur verið sleppt.

Sendibréfum Frobisher lýkur í miðjum klíðum og við tekur gerólík frásögn, þar sem fyrsta persóna, sem við sögu kemur, er roskinn vísindamaður, Rufus Sixsmith.

3) Þriðja nóvellan er hraðsoðinn leynilögreglureyfari í anda Dashiell Hammett eða Raymond Chandler, og heitir Half-Lives: The First Luisa Rey Mystery. Nafnið er að sumu leyti afhjúpandi; við höfum fengið eintóm hálf-líf í frásögnunum - en hvað er átt við með að þetta sé fyrsta Luisu Rey-ráðgátan? Eru þær (eða eiga þær eftir að verða) fleiri? Hér er Mitchell við sama heygarðshornið; þetta virðist í ætt við zen-búddisma, eins og titillinn Cloud Atlas, Skýjafarskort, sem vísar til hins ómögulega, að kortleggja ský sem alltaf eru á ferð. Fyrsta Luisu Rey-ráðgátan er jafn röklaust eins og one hand clapping - því að það er bara til ein Luisu Rey-ráðgáta. Persóna úr næstu sögu, Timothy Cavendish, veltir fyrir sér miklu síðar í bókinni hvort til séu fleiri handrit um Luisu Rey, máske önnur og þriðja ráðgátan (373). Annars er kvittur á kreiki um að Mitchell hyggist tengja allar sögur sínar saman í einn risastóran sagnaheim og þá koma fleiri Luisu Rey-ráðgátur máske fram.

Söguþráður þessa hluta er á þann veg að ung blaðakona, Luisa Rey, kemst að því að mögulegar hættur fylgi opnun nýs kjarnorkuvers, en þarf að sanna að maðkur sé í mysunni og á þá í höggi við valdamikla stjórnmálamenn, spillta stjórnendur og illþýði þeirra. Einn vísindamaður, Nóbelsverðlaunahafinn Sixsmith, hefur leyft sér að efast um hvort kjarnorkuverið sé öruggt og skrifað um efnið skýrslu, sem hann reynir að koma í hendur Luisu áður en hann leggur á flótta.

Sagan gerist árið 1975 (ártalið verður raunar ekki ótvírætt fyrr en á bls. 435), meðan Gerald Ford er við völd, og tíðarandanum er mjög vel náð. Til dæmis deila Luisa og fyrrum sambýlismaður hennar um hljómplötu Dylans, Blood on the Tracks, sem kom út 1975. Tískan, diskótónlistin, VW-bjallan sem Luisa ekur (og heitir Garcia eftir gítarleikara Grateful Dead) - allt er þetta ekta 1975. Luisa hlustar á Tapestry með Carole King, sem reyndar jaðrar við tímaskekkju, því að platan er orðin fjögurra ára gömul, og les Zen and the Art of Motorcycle Maintenance (aðra uppáhaldsbók sem ég ætti ef til vill að draga fram næst), sem kom út 1974. Anakrónismi læðist líka inn. Sixsmith hyggst ferðast með Laker Skytrains frá Bandaríkjunum til Englands, en Laker Airways (sem aldrei hét Skytrains) var stofnað 1976. Alvarlegri tímaskekkju held ég að sé að finna þegar Betty Ford Clinic er nefnd (99); sú ágæta stofnun varð ekki til fyrr en 1982 skv. Gúgli frænda.

Sagan af Luisu Rey gerist í ímyndaðri borg, Buenas Yerbas, sem liggur á milli San Francisco og Los Angeles, og er skammstöfuð BY á svipaðan hátt og SF og LA. Frásögnin tengist sögu Frobishers í gegnum Sexsmith, en hans gömlu bréf komast í hendur blaðakonunnar, hún les þau og kemst þá að því, sér til undrunar, að hún er með nákvæmlega eins fæðingarblett á öxlinni og nótnaskrifarinn. Bent hefur verið á að Luisa Rey sæki mögulega sitthvað í sögu Karenar Silkwood, sem lést við grunsamlegar kringumstæður 1974, þegar hún hugðist afhjúpa geislamengun í Oklahoma og var komin með í hendur gögn sem hurfu, en út frá sögu hennar var gerð Óskarsverðlaunamyndin Silkwood með Meryl Streep í titilhlutverki, sem ég sá í Stjörnubíói fyrir sléttum 30 árum. Einnig virðist söguefnið sótt til kjarnorkuslyssins á Three Mile Island í Pennsylvaníu 1979 (og Three Mile Island reyndar nefnt á nafn, bls. 108 og 136). David Mitchell hefur upplýst í viðtali við Paris Review að Luisa Rey sæki nafn sitt í gamla eftirlætisbók sína, The Bridge of San Luis Rey eftir Thornton Wilder - en brýr eru í stórhlutverkum í þessum hluta Cloud Atlas sem ýmsum öðrum og væru verðugt rannsóknarefni út af fyrir sig. Sem fyrr segir er nóvellan um Luisu Rey hraðsoðinn reyfari: Setningarnar eru stuttar og fullar af töffaraskap, en eigi að síður er heilmikið um ljóðrænar lýsingar, líkingar og myndmál - Mitchell sviptir enga söguhetju sína því. Þegar Luisa horfir yfir flæðarmál á heitum sumardegi: „Seagulls float in the joyless heat" (124). Þegar forstjóri orkufyrirtækisins gengur inn í kertalýstan veislusal þar sem ýmsir frámámenn eru samankomnir: „The room bubbles with sentences more spoken than listened to" (131). Drukkinn maður talar: „His words slip like Bambi on ice" (133). Þegar Luisa kemur niður í mannlaust hótelanddyri um miðja nótt: „The carpet is silent as snow" (142). Ávaxtablandari í gangi á heimili móður Luisu: „The machine buzzes like trapped wasps..." (430). Jafnvel á æsilegustu augnablikum kann Mitchell að breyta klisjum í nýjabrum.

Tengingar liggja í ýmsar áttir úr þessum hluta bókarinnar yfir í aðra. Margo Roker nefnist kona, sem kemur lítið við sögu nema með því að ljá andstæðingum kjarnorkuversins landskika undir tjaldbúðir nærri verinu. Í fjórðu nóvellu hrópar Timothy Cavendish nafn hennar upp, þegar hann vaknar af martröð (370), en á hitt ber að líta að Cavendish hefur þá þegar lesið handritið að Half-Lives, svo að nafnið kemur ekki alveg utan úr blánum. Kjarnorkuverið við Buenas Yerbas er staðsett á Swannekke-eyju - en það nafn á eftir að koma fyrir í mýflugumynd hjá fjarlægum ættbálki í sjötta hluta bókarinnar (311). Skipið Prophetess, sem Adam Ewing ferðaðist með, er varðveitt í heimabæ Luisu. Sterkust er þó tenging Luisu við tónskáldið Frobisher; hún er ekki bara með hliðstæðan fæðingarblett, heldur er það henni sérstök upplifun þegar hún heyrir Cloud Atlas Sextet í fyrsta sinn, án þess að vita um hvaða tónverk er að ræða: „The sound is pristine, riverlike, spectral, hypnotic ... intimately familiar" (425).

Eins og í bókinni er þessi frásögn burðarás spennu í kvikmyndinni, þar sem Halle Berry fer með hlutverk Luisu og gerir það listavel, þótt hún sé í elsta lagi til að falla inn í hlutverkið: í bókinni er Luisa innan við þrjátíu og fimm ára (421). Sem alþjóð veit er Berry svört, en ekkert bendir til annars en að Luisa í bókinni sé hvít, sbr. vellauðuga móður og stjúpföður. Annars má nefna að í kvikmyndinni er sagan einfölduð óhemju mikið og margar persónur hverfa: Enginn Grimaldi, enginn Wiley, engin Judith Rey, vart nokkur úr hinu fjölskrúðuga persónugalleríi af skrifstofu blaðsins. Sagan af Luisu Rey frá hendi Mitchell hefði ein og sér, óskorin, dugað í ágæta spennumynd í fullri lengd. Eftirtektarvert er að saga Luisu er eina frásögnin af sex, sem er í 3. persónu; allar hinar eru með 1. persónufrásögn. Þá er þarna líka um að ræða einu frásögnina með númeruðum köflum.

4) Fjórða nóvellan, The Ghastly Ordeal of Timothy Cavendish, er gamansaga sem gerist í nútímanum á Englandi, nánar tiltekið mestmegnis í London og á svæði umhverfis Hull. Cavendish er bókaútgefandi með sitt eigið smáforlag, nokkuð kominn við aldur, en þó í fullu fjöri og getur látið til sín taka: „Not behaving the way an old man should - invisible, silent and scared - was, itself, sufficient provocation" (174). Það er ekki fyrr en undir lok sögu hans að við fáum að vita nákvæmlega hve Cavendish er gamall (395). Hann dettur í lukkupottinn, þegar hann gefur út endurminningar smábófa, sem taka að seljast eins og heitar lummur, þegar bófinn kastar bókagagnrýnanda fram af svölum háhýsis út af neikvæðum ritdómi; bófinn fer í langt fangelsi, en fé rakast á hendur Cavendish og allt virðist í lukkunnar velstandi - þar til bræður bófans heimsækja hann, heimta ófa fjár og neyða hann til að leggja á flótta. Í farteskinu er hann með nýfengið handrit, Half-Lives; The First Luisa Rey Mystery eftir dularfullan höfund að nafni Hilary V. Hush (158). Honum finnst ekkert sérstaklega mikið til þeirrar sögu koma: „I leafed through its first pages. It would be a better book if Hilary V. Hush weren´t so artsily-fartsily Clever. She had written it ... doubtless with one eye on the Hollywood screenplay" (164). Og allnokkrum sinnum rifjar Cavendish upp eða les atriði úr sögu Luisu Rey. (Í kvikmyndinni er handritið að sögu Luisu Rey sagt vera eftir Javier Gomez, umkomulítinn dreng sem Luisa hleypir inn í líf sitt.)

Fleiri tengingar eru hér við hinar sögurnar, oft þó með vægara eða óbeinna móti: Cavendish á sér eftirlætisbók, The Decline and Fall of the Roman Empire eftir Gibbon (169), en það reynist ein af bókunum sem Sonmi~451 les í laumi (227-228) - og í sögu Frobishers er sá þráður aftur tekinn upp, þegar tónskáldið veltir fyrir sér möguleikum endalausra endurtekninga: „...Rome´ll decline and fall again" (490). Á skrifstofu sinni er Cavendish með hnattlíkan og rekur þar ferðir Cook og Magellans (157, 158) yfir Kyrrahafið, svo að minnir á ferð Ewing. Þegar Cavendish er lokaður inni á hæli hótar hjúkrunarkona að láta hann éta sápupúlver (175), sem vísar inn í næstu sögu. Miklu síðar í bókinni, í seinni hluta sögunnar af Sonmi~451, fáum við útlitslýsingu á Cavendish; þá sér Sonmi~451 Búddha-líkneski og finnst það minna á Cavendish (345), sem hún hefur séð í gamanmynd (243).

Cavendish er bókamaður og segir við sjálfan sig: „Why have you given your life to books, TC? Dull, dull, dull!" (171). Grátbrosleg persóna hans minnir um margt á annan klaufabárð, Enderby eftir Anthony Burgess; báðir eru breskir bókmenntamenn komnir við aldur, sem þeytt er út í lífið svo að þeir verða að horfast í augu við veruleika sem þeir kunna varla skil á; báðir sakna „the Britain-that-used-to-be". Annars er viðfangsefni söguhlutans um Cavendish fyrst og fremst, svo ólíklega sem það kann að hljóma, ellin og hvernig þjóðfélagið kemur fram við aldraða.

5) Fimmta nóvellan nefnist An Orison of Sonmi~451, en orison er silfurlitað egglaga tæki sem tekur upp hvoru tveggja, hljóð og mynd, og getur varpað því aftur í þrívíddarformi. Sá sem yfirheyrir Sonmi~451 er skrásetjari (archivist) og bókmenntaformið er skýrslutaka. Þessi frásögn gerist í Kóreu framtíðarinnar, eftir u.þ.b. fjórar kynslóðir, þar sem ríkin tvö á Kóreuskaga hafa gengið í eina sæng og heita Nea So Copros. Einkennum beggja ríkja hefur verið steypt saman. Stjórnarformið minnir á einræði norðursins; yfir öllu ríkir Beloved Chairman, sem sungnir eru sálmar til dýrðar (336), og hugmyndafræðin nefnist Juche, eins og í N-Kóreu í dag. Nema hvað stjórnskipulagið er corpocracy, þ.e. fyrirtækjaræði, með gengdarlausri neyslu, enda virðist consumers orðið sem notað er yfir borgara og hver borgari hefur ákveðinn „kvóta" peninga sem honum er skylt að eyða, en það telst „an anti-corpocratic crime" að birgja sig upp (237). Greint er á milli mennskra (purebloods) og klóna (fabricants, hinna tilbúnu), en hinir síðarnefndu eru hálfgerðir þrælar í öllum þjónustustörfum, oft við sérhæfðar og innilokaðar aðstæður, og minna á börn, enda ósjálfstæðir í hugsun og vitund. Klóninn Sonmi~451 er gengilbeina á veitingahúsi neðanjarðar og hún öðlast „uppstigningu" (ascencion), þ.e. fer að hugsa sjálf. Lengi vel er þó ekki ljóst hvort það sé vegna vísindatilraunar eða ekki. Annars lifa klónarnir í fáfræði og þeim er haldið í þeirri blekkingu að þeir séu skapaðir með 12 ára skuld á bakinu, sem þeir þurfi að vinna af sér, en að þeim tíma loknum - ef þeir sýna af sér vinnusemi, þægð og trúmennsku - bíði þeirra dýrðardvöl á fjarlægjum sælueyjum: Hawaii. Hinir mennsku hafa „sál", en það ber ekki að taka of bókstaflega, því að hún er inngróin flaga notuð til að borga og ferðast. Það er „sálin" sem veitir hinum blóðhreinu „the right to consumerdom" (335). Klónarnir, líftæknilega búnir til, hafa ekki sálir; til dæmis virka lyftur ekki nema í henni sé persóna með sál og þannig er tryggt að Sonmi~451 eða stöllur hennar komist aldrei út af neðanjarðarveitingahúsinu. Líf klónanna er sett í hálf-trúarlega umgjörð; gengilbeinurnar lifa eftir nokkrum frumreglum eða katekismum, e.k. boðorðum sem raunar eru viðskiptalegs eðlis; hið fyrsta er „Honour thy consumer", og þær þurfa að vera viðstaddar helgiathafnir kvölds og morgna, eftir lokun veitingahússins og fyrir opnun. Þær sofa í litlum klefum inn af veitingahúsinu, nærast á gumsi sem kallað er sápa (soap), sem í er bætt örvandi efni (stimulin) svo að þær geti staðið langar vaktir og þurfi ekki nema 4-5 klst svefn. Klónarnir á veitingahúsinu hafa aldrei stigið fæti út í ytri heiminn. Þar til Sonmi~451 sleppur (talan í nafni hennar er augljós vísun í Fahrenheit 451 eftir Ray Bradbury) og tekur að þróa með sér sál; fær hana raunar fyrst inngróna í hálsband sitt, en að ýmsu leyti koma hinir mennsku fram við klónana eins og gæludýr með hálsólar. Annars má líta á uppstigningu hennar á fleiri vegu; hún kemur neðan úr undirdjúpum upp á yfirborðið og endar raunar seinna sem guðleg vera.

Heimssýnin er dystópísk. Ýmis svæði utan Nea So Copros (og jafnvel innan líka) eru kjarnorkumenguð eða eiturefnablönduð eyðilönd, en athugasemdir þar að lútandi eru nefndar tilfallandi, svo að púslin eru heillengi að raðast saman. Undirliggjandi í samfélaginu er ótti hinna mennsku við að klónar geti farið að hugsa sjálfstætt, en reyndar sjáum við samfélagið fyrst og fremst frá sjónarhorni hins undirokaða. Hégómi er orðinn slíkur að fólk lætur reglulega breyta andliti sínu (facescaping), jafnvel mánaðarlega, og einn „eigandi" Sonmi veltir fyrir sér hvort safírlitar tennur séu að komast úr tísku og hann eigi að láta lita sínar asúrbláar (218). Neysla á einhvers konar ávanabindandi æskuelexír, sem nefnist dewdrugs (=daggardropar?) veitir öldruðum unglegt útlit. Lyf eru til við flestum alvarlegum sjúkdómum (sbr. upptalningu á bls. 236), en ekkert stöðvar gegndarlausan ágang í auðlindir og eyðingu náttúrunnar. Málfar neyslusamfélagsins er allsráðandi og nöfn framleiðenda eru orðin að nafn- eða sagnorðum; to nikon þýðir að ljósmynda, en ljósmynd nefnist kodak og að breyta ljósmynd (fótósjoppa) heitir to diji, væntanlega dregið af orðinu digital. Ford er samheiti fyrir bíla, suzuki yfir mótorhjól, chinook yfir stórþyrlur, colt þýðir skammbyssa, disney þýðir kvikmynd, sony þýðir tölva, handsony er gemsi, en skór nefnast nikes og kaffi starbucks. Og áfram endalaust. Þannig býr Mitchell til nýtt tungumál, sem hæfir fullkomlega þessum geggjaða neysluheimi (eins og Burgess gerði í A Clockwork Orange). Gengið er langt í afbökun og einföldun tungumálsins; orð sem byrja á ex- á ensku byrja núna á x- (xercise, xperience, xcited) og orð eins og light, bright og slight eru skrifuð lite, brite og slite. Þessi leikur með tungumálið gerir lesturinn stríðan, en undirbýr lesandann jafnframt fyrir þann stórmerkilega málbræðing sem bíður í sjötta hluta Cloud Atlas. Og lesandinn kokgleypir nýja tungutakið í Nea So Copros og samfélagið allt, svo sannfærandi er það. Villidýr, t.d. snjóhlébarðar, eru einnig framleidd genetískt til veiða, með mismikið af eðli sínu „genað upp", þannig að þau eru mishættuleg. Hægt er að veiða klónaðan elg á Hokkaídó (!) í Austur-Kóreu (219). Þetta er einnig þjóðfélag pólitískrar spillingar og klíkuskapar, þar sem börn valdamanna njóta margvíslegra fríðinda, jafnvel svo þau verða að mannleysum. Í höfuðborginni er að finna Minnismerki hinna föllnu plútókrata og Breiðstræti hinna tíu þúsund auglýsinga (237), til eru genabreyttar mölflugur með vörumerki á vængjum (345), menn mega ekki neyta vatns eða súrefnis nema með því að greiða gjald til fyrirtækja á borð við WaterCorp og AirCorp (349), en toppurinn er þó að tunglið er notað sem risavaxinn auglýsingaskjár, með gríðaröflugum tunglvarpa frá Fuji-fjalli, og keppast stórfyrirtækin um að fá að birta þar auglýsingar sínar (238); tunglvarpinn er þó nýtilkominn því að eldri leigubílsstjóri, ættaður frá Mumbai sem nú er komin undir vatn, man þá tíð þegar tunglið var nakið. Annars er eitt einkenni þessarar framtíðarsögu ríkulegar og eftirtektarverðar tilvísanir í teiknimyndir Disney annars vegar og í ævintýri H.C. Andersen hins vegar, sem koma svo saman í Litlu hafmeyjunni, sögu og kvikmynd.

Tengingar við fyrri sögur eru misöflugar. Sem fyrr segir hafði tónskáldið Ayrs dreymt um neðanjarðarveitingahúsið. Sonmi~451 er með eins fæðingarblett og Cavendish, Luisa og Frobisher, en annars eru klónar framleiddir af slíkri fullkomnun að þeir fá ekki fæðingarbletti. Sonmi~451 sér kvikmynd sem heitir The Ghastly Ordeal of Timothy Cavendish og nú renna á lesandann tvær grímur - var Cavendish-frásögnin þá bara bíómynd? Hún var svo sem nógu farsakennd. Einn af verndurum Sonmi~451, prófessor Mephi, er með gamlan hnött hjá sér sem hann snýr, eins og Cavendish, meðan hann spjallar við klóninn (231). Athyglisvert smáatriði vísar fram í næstu sögu: Sonmi~451, komin ofanjarðar, er þá stödd á veitingahúsi og tískulögga hrósar henni fyrir „your courage, your flair, but most of all your prescience" fyrir þá dirfsku að breyta sér með faceskaping í lágstéttarútlit klóns (238). Þetta litla orð, prescience, forvitri, er vert að muna - það er lykilhugtak í næstu sögu.

Framan af er erfitt að átta sig á hvenær sagan í Nea So Copros eigi að gerast, en tímatenging kemur fram undir miðbik frásagnarinnar, þegar Sonmi~451 og félagi hennar horfa á disney-ið The Ghastly Ordeal of Timothy Cavendish (og komast, viðeigandi, bara inn í hálfa myndina, að þeim punkti þar sem söguhluti Cavendish hafði endað). Myndin er sögð eldfimt undirróðursefni, talað um að hún hafi verið gerð þegar afi afa einhvers hefði verið í móðurkviði og stuttu síðar nefnt að leikarar myndarinnar séu dauðir fyrir meira en 100 árum (243-244). Þar með getum við tímasett sögu Sonmi~451 um fjórar kynslóðir fram í tímann. (Í kvikmyndaútgáfunni er fest ártalið 2144, sem þarf ekki að víkja frá tímasetningu bókarinnar.)

Fáein orð um kvikmyndaútfærsluna á sögu Sonmi~451: Þar verður öll frásögnin að Matrix-hasarmynd og máske ekki að furða þar sem Wachowski-systkinin stýra vélunum. En í öllum hasar bíómyndarinnar eiga hinir ótal útúrdúrar og þau fínu blæbrigði, sem skapa þennan heim, til að týnast. Mikið og sjónrænt bíó, en ádeilan um Sonmi~451 verður vart fugl né fiskur í kvikmyndinni.

6) Síðasta nóvellan og sú eina sem órofin er í bókarmiðju nefnist Sloosha´s Crossin´ an´ Ev´rythin´ After. Sagan gerist á Ha-Why (Hawaii) eftir hrun siðmenningar og þarna eru menn komnir aftur á frumstætt villimannastig, mislangt þó.

Fyrsta hindrunin, sem lesandinn verður að yfirstíga við lestur þessarar sögu, er tungumálið, en Mitchell býður lesendum engar málamiðlanir frekar en fyrri daginn. Nafngift kaflans og ritháttur eru lýsandi fyrir það sem á eftir fylgir; hafa þarf sig allan við til að skilja hvað er á seyði, tungumálinu hefur verið hnuðlað saman á einhvern óskiljanlegan hátt og oft skilst merkingin eingöngu með því að lesa lengra. Málið löðrar í villum (borned í stað born, speaked í stað spoke, gooses í stað geese), endalausum úrfellingarkommum og fjölda nýyrða (babbit = baby, brekker = breakfast, sooside = suicide). Tungutakið minnir um sumt á fjallamállýskur „redneck-hillbilly"-Suðurríkjamanna (og reyndar kom helst upp í huga minn bráðskemmtileg smásaga James Thurber, Bateman Comes Home, þar sem gert var grín að stíl og málfari Erskine Caldwell - en hver man sosum lengur eftir Caldwell?) Stundum virðist málnotkunin forneskjuleg, minnir jafnvel á 19. aldar málfar (Adam Ewing!) eða Biblíumál úr King James´ Bible. Tengingin við Biblíuna er sterk, því að nöfn helstu persóna koma þaðan, þó stundum afbökuð: Zachry, Adam, Abel, Isaak, Jonas. Skemmtilegasta nafnið ber þó tvímælalaust minni háttar persóna, ljótur náungi sem heitir F´kugly - lesi það hver sem hann vill.

Sagan gerist á ótilgreindum tíma eftir Átökin (The Skirmishes) og Fallið (The Fall), atburði sem leiddu til hruns siðmenningar og eru næsta óljósir, a.m.k. framan af. Vísbending um sögutímann fæst þegar nefnt er að Sonmi var uppi fyrir hundruðum ára (291). Nógu langt er um liðið til þess að hlutir gömlu menningarinnar eru úr sér gengnir („Old´un gear junkifyin´" (272)). Sögusviðið er Big Island á Ha-Why, þar sem búa nokkrir ættbálkar, misherskáir, og enn fleiri á nágrannaeyjum á Kyrrahafi, en flestir þessara ættbálka forðuðu sér þangað við Fallið. Sögumaður er Zachry, geitahirðir tilheyrandi Dalbúum, friðsömum ættbálki sem býr í níu dölum, stundar frumstæðan landbúnað, kvikfjárrækt og verslun með frumstæða framleiðslu sína. Þeir komu þangað með flota til að flýja Fallið (255), en kunna ekki lengur sjómennsku. Í kringum Dalbúa búa herskáir og grimmir nágrannar, sérstaklega Kona-ættbálkurinn, sem er helsta ógnin, hvítir að uppruna, en tattóveraðir hátt og lágt (315) og eira engu. Kona-menn virðast vera þeir einu á eyjunni, sem ráða yfir hröðum fararskjótum, þ.e. hestum, þótt hvergi sé í sögunni útskýrt hvers vegna.

Zachry rekur sögu sína fyrir tveimur ungum áheyrendum, sem lesandinn veit lengi vel ekki hverjir eru - og hér er kominn enn einn bókmenntalegi sagnamátinn, þ.e. hin munnlega frásögn, með margvíslegum útúrdúrum, hikorðum og kumpánlegu ávarpi. Saga Zachry teygir sig aftur um fjörutíu ár og hefst þegar hann var níu ára og faðir hans var drepinn og bróður hans rænt af Kona-mönnum, en það hvílir þungt á drengnum að hafa óbeint orðið valdur að þeim válegu atburðum.

Dalbúarnir vilja lifa í sátt og samlyndi við aðra eyjarskeggja; þeir eru eingyðistrúar, trúa á gyðjuna Sonmi (!): „Sonmi´d been birthed by a god o´ named Darwin, that´s what we b´liefed" (291). Vegna eingyðistrúar sinnar líta Dalbúar niður á aðra ættbálka sem ástundi villimannslega fjölgyðistrú; eigi sér hákarlaguði, eldfjallaguði, kornguði, stríðsguði, hestaguði o.s.frv. (254-55). Dalbúarnir trúa á endurholdgun, að Sonmi láti sálir látinna endurfæðast, en það hlotnast eingöngu þeim, sem lifað hafa ærlegu lífi; hinir enda í klónum á Old Georgie, djöfli þeirra Dalbúa, sem hvíslar ljótum hugsunum að fólki - og ef menn deyja vondir kemur Old Georgie með beygluðu skeiðina sína, holar út augntóftirnar og gúffar í sig heilann, þar sem sálin býr; líkaminn verður þá að líflausum steinhnullungi. Trúarleiðtogi Dalbúa er Abbadísin, spákona sem ræður drauma, og hún er „chief of Nine Valleys" (271). Hún sér einnig um skólann (The School´ry), sem er „ ... touched with the holy mist´ry o´ the Civ´lized Days" (257). Þar eru varðveittar þær fáu bókaskræður sem Dalbúar eiga og einnig er þar að finna einu klukkuna sem til er í Dalnum. Svo að vitnað sé í orð Abbadísarinnar: „Civ´lize needs time, an´ if we let this clock die, time´ll die too, an´ then how can we bring back the Civ´lized Days as it was b´fore the Fall?" (257). Einnig hafa útskornar myndir af einstaklingum (icons) mikið trúarlegt gildi, en þannig muna hinir lifandi hina látnu. Eru þessar myndir geymdar á sérstökum helgistað, stórri byggingu sem nefnist The Icon´ry.

Dalbúar þekkja engin vélknúin farartæki (hafa þó hvoru tveggja, brimbretti og kajaka!) og engin leið er fyrir þá að vita hvað býr utan eyjar þeirra nema það sem Hinir forvitru (Prescients) fræða þá um - og þeir eru gjarnir á að halda þekkingu út af fyrir sig. Hinir forvitru eru einnig mennskir, en æðri að öllu leyti í tækni og menningu. Þeir heimsækja Dalbúa tvisvar á ári til að kaupa af þeim matvæli, geitaskinnsteppi og hreint vatn, en selja þeim í staðinn járnvöru, betri en þá sem annars finnst á Big Island (259). Þeir koma á risastóru skipi, sem er samlitt himninum, svo að það sést ekki fyrr en það birtist rétt undan ströndum (258), og er knúið kjarnasamruna (nuclear fusion), en það hugtak skilur enginn Dalbúi. Hinir forvitru klæðast fínum fötum, sem blotna ekki þótt vatni sé stökkt á þau, og konur í þeirra röðum eru karlmannlega stuttklipptar, þveröfugt við konur Dalbúa, sem ganga með fléttur (259). Hinir forvitru eru dökkir á skinn, „like cokeynuts" (264); aldrei birtast fölir eða bleikir af skipum þeirra (sem bendir til þess að Dalbúar séu hvítt fólk, þótt ég muni ekki að slíkt sé nefnt sérstaklega). Húðlitur Hinna forvitru er aðferð sem þeir þróuðu sem viðbrögð við helstu vá, sem þjakar menn þessarar framtíðar, einhvers konar húðflögnun (redscab) af völdum kjarnorkumengunar. Dalbúar ná ekki háum aldri; hjá þeim þykir fertugt aldrað því að yfirleitt eru þeir dauðir úr rauðu húðflögnuninni, en Hinir forvitru geta orðið sjötugir. Hinir forvitru koma frá Prescience Island, óljósri eyju fjærst í norðaustri, stærri en Maui, minni en Big Island, sem finnst ekki á neinu korti, því að stofnendur eyjunnar vildu halda henni leyndri (261).

Stór umskipti verða í lífi Zachry á 16. aldursári, þegar kona af kynþætti Hinna forvitru, Meronym að nafni, fær að dvelja misserislangt hjá fjölskyldu hans til að kynna sér líf og lifnaðarhætti Dalbúa og er Zachry mjög tortrygginn gagnvart henni og álítur hana hættulegan njósnara. Meronym er fimmtug, en lítur út eins og tuttugu og fimm í augum Dalbúa. Við fáum að vita að hún er ekkja; maður hennar var drepinn af villimönnum, en sonur hennar, Anafi að nafni, varð eftir á Prescience Island (264). Hún er dökk á hörund, með skjannahvítar tennur, og klæðist drifhvítum fötum. Með mildi og ljúfmennsku tekst Meronym smám saman að afla sér vináttu Zachrys og fær hann til að fara með sér í undarlega fjallgöngu upp á Mauna Kea (nefnt Mauna Sol í kvikmyndinni), þar sem hjátrúarfullir dalbúar trúa að Old Georgie búi, en annars virðist dvöl Meronym meðal Dalbúa tengjast á óljósan hátt upplýsingaöflun til að bjarga Hinum forvitru frá glötun eða útrýmingarhættu - ýmislegt bendir til þess að þeir séu fámennir, máske um þúsund talsins eða „two thousands pairs o´ hands" (285). Annars eru hætturnar ýmsar í þessum heimi; ungbörn koma stundum í heiminn afmynduð (freakbirth) og þannig fæðist til dæmis fyrsta barn Zachry andvana, án munns og nasa svo að það fær ekki dregið andann. Með tímanum uppfræðir Meronym Zachry um ýmislegt, t.d. að nánast hvergi sé þekkingarsamfélög („Smart o´ the Old´uns") að finna (285). Og það er fyrst í þessum hluta bókarinnar sem lesandinn fær nákvæma útlistun á því hvernig töfratækið orison virkar.

Ekki ætla ég að rekja sögu Zachry lengra, en vil nefna að ekki skortir æsispennandi atburðarás. Mitchell er snillingur í að byggja upp spennu svo að lesandanum leiðist aldrei, en um leið að sáldra staðreyndamolum út um frásögnina, aldrei of mikið í einu, oft í svo smáum skömmtum að lesandann þyrstir í meira - uns á endanum fæst fullnægjandi heildarmynd af viðkomandi sögusviði. Með frásögninni af hinum frumstæðu og friðsömu Dalbúum er sagan komin í hring; þeir eru varnarlausir gagnvart grimmum nágrönnum sínum, líkt og þeir Moriorar gagnvart Maoríum, sem Adam Ewing kynntist á Chatham-eyjum.

-----

Allt ofangreint og miklu meira er Cloud Atlas; ég hef hér nánast eingöngu rakið fyrri helming bókarinnar. Til að draga saman þessa flóknu þræði, þá eru tengingarnar svona: Adam Ewing er söguhetja fyrsta hluta og ritar dagbók um 1850. Rúmum 80 árum síðar les Robert Frobisher bókina (útgefna), en hún er rifin í í miðju og seinni helminginn vantar, svo að Frobisher biður ástmann sinn, Sixsmith að senda sér heilt eintak þannig að hann geti klárað hana. Í þriðja hluta er Sixsmith orðinn aldraður og virtur vísindamaður, en bréf Frobisher lenda í höndum blaðakonunnar Luisu Rey, sem jafnframt ber sams konar fæðingarblett og Frobisher. Í fjórða hluta kemur svo fram að sagan um Luisu Rey er bara handrit að reyfara, sem Timothy Cavendish fær í hendur og les og finnst lítið til koma. Í fimmta hlutanum sér klóninn Sonmi~451 kvikmynd með Cavendish, en hún, eins og hann, er með eins fæðingarblett og Luisa Rey og Frobisher. Í sjötta hluta er Sonmi~451 orðin trúarleg vera í samfélagi hálfgerðra villimanna sem búa á Hawaii eftir hrun siðmenningar. Söguhetjan Zachry er líka með fæðingarblettinn (og Hawaii kemur reyndar oftar við sögu - Adam Ewing er á leið þangað í fyrsta hluta, þar er frænka Sixsmith stödd þegar ekki næst í hana í kaflanum um Luisu Rey og þangað er klónunum heitið að þær fái að fara til sæluvistar að lokinni trúfastri tólf ára þénustu).

Þá kemur milljón dollara spurningin: Hver er veruleiki bókarinnar? Byrjum til dæmis á Luisu Rey - sú saga er bara handrit í höndunum á Timothy Cavendish. Ógildir það ekki tilveru - eða sannferðugleika - Frobishers og bréfa hans? Gat sá fyrrnefndi þá lesið dagbækur Adams Ewing og hvað þá skrifað bréf til Sixsmith, ef sá síðarnefndi er bara söguhetja í reyfara? Og svo reynist Cavendish sjálfur bara gamanmynd hjá Sonmi í framtíðinni - var þá nokkuð að marka hann? Snilli Mitchell liggur í því að reyna aldrei að svara neinum slíkum spurningum. Hann leikur sér endalaust að lesandanum - spinnur þræði, sem við fyrstu sýn virðast næsta veikburða, en reynast svo öflugir og áleitnir að þeir sitja eftir í sál lesandans; skrifar trúverðugar sögur inn í sögur sem hann sýnir að standist ekki; býr til endalausa flækju atriða sem reynast ekki meira en snjöllustu textatengsl þegar upp er staðið.

Gegnumgangandi þemu í Cloud Atlas eru mörg og stór í sniðum: Samskipti hinna ráðandi og hinna undirokuðu, hinna tæknivæddu gagnvart hinum frumstæðu, þrælahaldaranna gagnvart hinna þrælkuðu. Vaktar eru upp stórar spurningar um eðli siðmenningar -  þar sem oft reynist sá, sem síst skyldi, göfugri en hinir - en líka um svo hversdagsleg viðfangsefni sem ellina, sem allir upplifa í einhverri mynd, beint eða óbeint. Einnig er eyðingarmáttur gegndarlausrar græðgi mannsins afhjúpaður - þetta getur bara endað á einn veg. Trúmál ber víða á góma, með öllu litrófinu, allt frá hefðbundinni og vandlætingarfullri trú Adam Ewing til trúleysis Hinna forvitru (328), en einnig fáum við að sjá hvernig trúarbrögð verða til í köflunum um Sonmi~451 og Zachry. Búddismi kemur einnig verulega við sögu (348 og víðar) og útskýrir það máske hvers vegna endurholdgun gæti verið eitt meginþema Cloud Atlas. Oft eru spákonur í aðalhlutverkum: Abbadísin í lokahlutanum er spákona, en það er Meronym einnig á sinn ljúfa hátt, sem og Sonmi~451 - auk þess sem abbadís birtist líka óvænt í sögu hinnar síðastnefndu (347-349). The Prophetess, skonnorta Adams Ewing, er varðveitt sem safnskip í smábátahöfninni í Buenas Yerbas, tilbúins staðar, um daga Luisu Rey.

Sögurnar koma svo víða við að það væri að æra óstöðugan að reyna að telja allt upp. Lesandanum finnst Mitchell hinn ungi (hann var rétt rúmlega þrítugur þegar hann skrifaði bókina) hafa allan heiminn undir á öllum tímum - hann vitnar í ólík lönd og gerólík menningarsvæði á mörgum tímaskeiðum - og þeim sem vildi rekja í sundur þræðina dygði ekki Google eða allar bækur heims, heldur þyrfti hann að gerast David Mitchell, á svipaðan hátt og Pierre Menard varð í einhverjum skilningi Cervantes í sögu Borgesar. Talan 6 er í lykilhlutverki. Í flestum eða öllum sex sögunum kemur fyrir orðið sextet í einhverri mynd eða samhengi. Tónverkið Cloud Atlas Sextet eftir Frobisher; það er sextett leikandi í upphafsatriðinu að sögu Timothy Cavendish, í heimi Sonmi~451 er um jól/áramót haldin hátíð sem nefnist Sextet. Einnig eru hugleiðingar um sjálft lykilhugtakið Cloud Atlas, skýjafarskort, í öllum sögum og jafnvel hinum jarðbundna Timothy Cavendish tekst að koma því að: „What wouldn´t I give now for a never-changing map of the ever constant ineffable? To possess, as it were, an atlas of clouds" (389). Og nýlega flaug mér í hug: Er Sixsmith ekki dásamlega táknrænt nafn? Smíðaðar eru sex sögur og tengdar saman. Svo virðist einnig sem fæðingarbletturinn í líki halastjörnu sé með sex rákum aftur úr, a.m.k. í hið eina skipti sem honum er lýst nógu rækilega, þegar Zachry sér hann á öxl Meronym (319). Háðski orðhákurinn Timothy Cavendish, með sams konar fæðingarblett, sér hann samt ekki sem halastjörnu; gömul ástkona hans gaf honum nafnið „Timbo´s Turd", skítaklessa Timbos. Annars er skemmtilegt fyrir Frónbúa að Ísland er líka hluti af hinu ógnarstóra neti Mitchell og kemur a.m.k. tvisvar við sögu: Annars vegar er um borð í skipi Adam Ewing þrautreyndur íslenskur skipverji siglandi um Suðurhöf um 1850 (!), „one of the saltest aboard" (36) og þegar Timothy Cavendish fær ekki afgreiðslu á lestarstöð, urrar hann í reiðikasti „an oath from an Icelandic saga" (161). Þá sýnist mér Hydra í einhverri mynd koma fyrir í öllum sögunum - ég vaknaði bara ekki nógu snemma við lesturinn til að draga upp þann þráð, enda er hann óljós. Sama máli gegnir um myndmál tengt hákörlum og vatnakörfum (bróðir Cavendish ræktar vatnakarfa og í slíku dulargerfi birtist leiðtogi andspyrnumanna í þrívíddarmynd í dystópíu Sonmi~451). Þá birtist nafnið George í einhverri (mýflugu-)mynd í öllum sögunum og væri vert að skoða nánar. Oft er talað um að sérhver rithöfundur þurfi að finna sér sína eigin rödd - David Mitchell talar til lesandans sexraddað og jafn sannfærandi með öllum. Hægt væri að skrifa doktorsritgerð til greiningar á sérhverri blaðsíðu Cloud Atlas, hvað þá þegar skoðaðir eru þræðirnir innan hverrar sögu og svo aftur þræðirnir á milli sagnanna. Enn eitt smádæmi: Fyrsta söguhetjan heitir Adam, en sú síðasta Zachry - upphaf og endalok stafrófsins. Allt er opið fyrir endalausri túlkun - allt tengist. En svo, þegar upp er staðið, þá eru þetta bara textatengsl innan sögunnar, ekki bein tengsl við veruleika utan bókarinnar. Sagan er heimurinn.

Mitchell tekst á einhvern óskiljanlegan hátt að byggja brú á milli fagurbókmennta og afþreyingar, á milli djúpstæðra hugleiðinga og hversdagslegrar frásagnar. Hér er sitthvað bitastætt jafnt fyrir gáfnaljósið sem spennufíkilinn. Og þótt höfundur sé leiftursnjall orðasmiður, þá er leikurinn með orðin aldrei markmið í sjálfu sér. Tilgangurinn er alltaf að segja skemmtilega sögu, með tilheyrandi spennu, dramatík, ástarævintýrum, hörmungum og örlögum ... máske er það orðið sem lýsir þessum nóvellum best: Þetta eru örlagasögur, þar sem lesandinn fyllist eftirvæntingu og vill vita hver verði örlög sögupersóna. Í flestum, ef ekki öllum sögunum, eru menn myrtir, en það er ekki spennugjafinn, heldur hitt að í sögunum öllum eru menn í margvíslegum skilningi á flótta og það vekur hjá lesandanum forvitni: Tekst flóttinn? Hver verða örlög flóttamannanna? Mitchell kinokar sér ekki við að leika á hörpu tilfinninga, láta lesendur hlæja og tárast á víxl; oft eru sögurnar sorglegar, stundum átakanlegar, en einnig broslegar og gamansamar. Þetta er hinn mannlegi veruleiki í allri sinni vídd, með öllum litum og tónum og lykt og bragði. Myndmálið er auðugt og á öllum tímaskeiðunum má finna djúpar hugleiðingar, ljóðrænar lýsingar og myndrænar líkingar, settar fram í misjöfnum stíl sem hæfir tíðaranda hvers skeiðs. Í Zedelghem skrifar Frobisher um vatnslagnir á nýju heimili sínu: „Plumbing makes noises like elderly aunts" (81). Þegar Luisa Rey gefur bílvél VW-bjöllunnar sinnar til að flýja bráða hættu: „The engine makes a lazy, leonine roar ..." (bls. 143). Þegar Timothy Cavendish yfirgefur ritara sinn til að leggja á flótta lýsir hann því svo: „Mrs. Latham wished me bon voyage. She could handle the Hogginses. Mrs. Latham could handle the Ten Plagues of Egypt" (160). Þegar Cavendish ætlar að kaupa sér lestarmiða, en fær ekki afgreiðslu, fyllist hann reiði: „Anger sparked ... like forks in microwaves" (161). Cavendish kemst í lest, finnur sæti (sem hann hefði ekki gefið eftir þótt Helen Keller sjálf bæði um það) og lítur út um gluggann: „The evening was lemon blue" (164). Þegar Frobisher heimsækir veitingastað (sem einnig er verkstæði og útfararstofa!) í hálfdauðum smábæ í Belgíu er þar að finna: „... many flies who wheeled through the air like drugged angels of death" (461). Og álit Cavendish á glæpum á jafnvel betur við nú á tímum efnahagshremminga heldur en fyrir áratug, þegar Cloud Atlas kom fyrst út: „...in our age crimes are not committed by criminals conveniently at hand but by executive pens far beyond the mob´s reach, back in London´s postmodern HQs of glass and steel" (164).

Cloud Atlas er að mörgu leyti hin endanlega leynilögreglusaga eða ráðgáta, þar sem lesandinn sjálfur er í því hlutverki að leita að vísbendingunum, raða brotunum saman og komast að kjarnanum eða sannleikanum. Svo er spurning hversu langt hann kemst áleiðis, því að sannleikurinn er jú ... ja, er hann einn? Oftar en einu sinni í bókinni velta sögupersónurnar því fyrir sér, en Mitchell predikar aldrei, hann segir okkur ekki hvaða lærdóm við eigum að draga af sögu(-m) hans - það gerir hver og einn. Cloud Atlas er opin fyrir túlkunum tengdum öllu mögulegu: Heimspeki, trúmálum, stjórnmálum, umhverfismálum, samskiptum kynja og kynþátta - og þúsund öðrum málefnum. Samt efast frásögnin alltaf um sjálfa sig, eins og Cavendish efast um frásögnina um Luisu Rey. Jafnvel eftir hina áhrifaríku sögu Zachry í framtíðinni stígur barn hans fram í lokin og efast um sannleiksgildi frásagnar hans: „O, most of Pa´s yarnin´ was jus´ musey duck-fartin´..." (324). Þannig er Mitchell stöðugt að benda lesandanum á eftirfarandi: Trúðu ekki frásögn minni til hlítar; hafðu hana til hliðsjónar, þér til skemmtunar og hugleiðinga. Svo er líka speki af ýmsum toga að finna nánast á hverri síðu. Eftirlæti mitt eru eftirfarandi orð Sonmi~451: „All revolutions are the sheerest fantasy until they happen; then they become historical inevitabilities" (342). Önnur góð, frá Frobisher: „Wars are never cured. They just go into remission for a few years" (471).

David Mitchell býr til sínar eigin reglur, en að sama skapi leyfir hann sér næstum jafnoft að brjóta þær. Fimm af sögunum eru tvískiptar, en sú sjötta stendur heil í miðjunni - og hún er jafnframt sú sagan sem gerist seinast. Sögurnar eru speglaðar um miðju, en það sem er lýti í einum skilningi verður fullkomnun í öðrum. Söguhetjur í fimm af sögunum sex með nákvæmlega eins fæðingarblett, allsérstæðan sem hefur orðið mönnum tilefni til hugleiðinga um að Cloud Atlas fjalli um endurholdgun. Samfélag Dalbúanna á Ha-Why í framtíðinni trúir á endurholdgun eftir góða breytni í lífinu (324 og víðar) og þrátt fyrir afar þrönga og takmarkaða lífsreynslu upplifir Sonmi~451 minningu komna frá Luisu Rey, þegar bíll hennar steypist út af vegi (330). Jafnvel þegar hinn guðlausi Cavendish situr í leigubíl í Hull erum við minnt á endurholdgunina: „A howling singer on the radio strummed a song about how everything that dies some day comes back" (173). Og þetta eru bara fáein dæmi. En endurholdgunarhugmyndin er líka rofin. Vissulega gætu Frobisher, Luisa Rey, Sonmi~451 og Zachry verið endurholdgun hvert af öðru, en Cavendish, sem ber sama fæðingarblett og hin, skarast í tíma við Luisu Rey - hennar saga gerist um 1975, en Cavendish er kominn nokkuð við aldur í nútímanum (árið 2003 miðað við fyrstu útgáfu bókarinnar). Með skörun á æviskeiði hans og Luisu er endurholdgunarkenningin rokin út í veður og vind - þau voru uppi samtíða a.m.k. um nokkurn tíma. Dæmigert fyrir Mitchell að rústa þannig vangaveltum. Í ofangreindu viðtali í Paris Review er hann spurður hvort hann, sem gefi endurholdgun svo sterkt til kynna í ýmsum bókum sínum, trúi á fyrirbærið og svarar því til að sér þyki hugmyndin falleg og vildi að hún væri sönn, en - trúi því ekki, því miður. Sjálfur tel ég að í Cloud Atlas sé leikurinn með endurholdgunina bara bókmenntalegt trikk, sem ber ekki að taka of hátíðlega; það gengur (mestmegnis) ágætlega upp innan sögunnar, ekki utan hennar.

Skáldsögur eru settar saman úr orðum og David Mitchell kemst eins langt með orðin og hægt er að ætlast til af nokkrum höfundi. Cloud Atlas er einfaldlega fyrsta flokks sögumennska, umvafin ótrúlegri hugmyndaauðgi og fullkomnu valdi á málinu; stórvirki sem gæti léttilega réttlætt að höfundur léti aldrei framar stafkrók frá sér fara. En við skulum vona að Mitchell sé rétt að byrja.

-----

P.S. Fáein orð um kvikmyndina: Framleiðendur og leikstjórar hennar réðust í hið ómögulega, þegar þeir tókust þetta verkefni á hendur. Bókin er eins og speglun, en í kvikmyndinni hefur spegillinn verið brotinn upp og raðað aftur saman sem mósaík, í sex línulegar frásagnir, sem raktar eru samhliða. Hversu vel hefur tekist til veltur líkast til á því hve rækilega áhorfandinn fylgist með, hvort hann er vakinn eða sofinn. Minn annmarki var sá að ég hafði lesið bókina tvisvar áður en ég sá kvikmyndina, svo að ég er ekki fær um að meta hvort hið brotakennda frásagnarform kvikmyndarinnar skili sér hjá þeim sem kemur óskrifað blað að henni. Sjálfur varð ég fyrir örlitlum vonbrigðum með þá staði þar sem verulega var vikið frá bókinni; það hve saga Frobishers varð rýr, sem og frávik í sögu Sonmi~451; í bókinni er t.d. gefið í skyn að hinir tilbúnu klónar hafi ekki líffæri, sem þeir þurfi ekki á að halda, svo sem æxlunarfæri (bls. 331), en í kvikmyndinni er heilmikið gert úr kyn- og ástarlíf í þessum hluta. Endir kvikmyndarinnar finnst mér líka gjörsamlega út úr korti, miðað við bókina. Hins vegar verður ekki af kvikmyndinni skafið að þetta er stórfenglegt bíó, með tilkomumiklum og áhrifamiklum og fögrum og hrífandi sviðsmyndum. Þá er förðunin kapítuli út af fyrir sig; aðalleikararnir leika mismikilvæg hlutverk í hverjum kafla og það er hálfgerður samkvæmisleikur að reyna að finna út hvaða hlutverk Tom Hanks leikur í hverjum kafla. Enn skemmtilegra fannst mér þó að reyna að leita að Hugh Grant; hann á stjörnuleik, er aldrei í aðalhlutverki, en alltaf áberandi (og það er rangt, sem einhverjir hafa haldið fram, að hann leiki eintóma skúrka í Cloud Atlas). Stundum er litarhafti eða kynjahlutverkum víxlað; þeir Hugo Weaving og Ben Whishaw leika t.d. báðir kvenhlutverk, sá fyrrnefndi sem Noakes hjúkrunarkona, sá síðarnefndi sem Georgette, mágkona Cavendish. Halle Berry hefur aldrei verið í miklu uppáhaldi hjá mér, en hún er í reynd stjarna þessarar stjörnum prýddu myndar í hlutverki Luisu Rey. Öllu verri - og á mörkum hins trúverðuga - þótti mér sú hugmynd að lita Berry hvíta, setja á hana grófliðaða og hörkennda hárkollu og segja hana af Gyðingauppruna! (Ekkert af því er að finna í bók Mitchell, þar sem eiginkona Ayrs er á sannfærandi hátt sögð komin af fornum belgískum heldriættum.) Jim Broadbent er stórkostlegur í hlutverki Vyvyan Airs, litlu síðri sem Cavendish. Stundum hjálpar kvikmyndin og bætir upp það sem út af stendur í bókinni; ég átti t.d. erfitt með að sjá fyrir mér Old Georgie af lestrinum einum - allt þar til Hugo Weaving holdgerir hann ógleymanlega í kvikmyndinni. Og hvað sem öðru líður, þá rís svo metnaðarfull kvikmyndagerð hátt upp úr allri meðalmennsku og full ástæða til að hvetja fólk til að sjá myndina - þótt það nenni ekki að lesa bókina. Samt er það að horfa bara á kvikmyndina Cloud Atlas eins og að borða ljúfan eftirrétt - án þess að hafa bragðað á stórkostlegum aðalrétti.


Hetjusaga undirmálsstafs

Bók liggur óbætt hjá garði, ð ævisaga, sem ég las fyrir þremur mánuðum, og hafði ekki tíma til að skrifa um. Vil ég bæta úr.

     Fyrir hið fyrsta finnst mér, þveröfugt við marga, titilinn ekkert sniðugur. Þetta er saga ð-sins, á svipaðan hátt og Saga tímans eftir Hawking fjallaði um ólíkar hugmyndir manna um tímann. Titillinn er ekkert sérstaklega frumlegur - mig rámar í að hafa endur fyrir löngu rekist á bók sem hét eitthvað eins og Biography of the Question Mark. Eða eitthvað svoleiðis. Þessi bók átti einfaldlega að heita Saga ð-sins. Eða eitthvað svoleiðis. Sleppa þessu hallærislega ævisögu-nafni. Ég er ekki viss um að bókfræðingar framtíðarinnar verði hrifnir af núverandi nafni: Væntanlega eina bókin á íslensku sem byrjar á ð. Líkast til var það tilgangurinn.

      Að svo mæltu má tilgreina að ð ævisaga er skrambi skemmtileg bók. Ekki gallalaus, en býsna hátt ofan miðlungsmarka. Rakin er saga bókstafsins í þaula, allt frá engil-saxneskum upprunanum til upptöku hans í íslensku á 13. öld, síðan brotthvarf hans á 14. öld og loks endurupptöku á f.hl. 19. aldar, mest fyrir tilstilli Rasks hins danska, þar til hann verður viðurkenndur í tölvustöðlum undir lok 20. aldar. Inn á millum er skotið margvíslegum fróðleik, misvel tengdum bókstafnum.

     Efnistökin í ð ævisögu eru sumpart óhefðbundin, en að sumu leyti hefðbundin. Hið óhefðbundna birtist jafnan í upphafi hvers kafla, óvænt nálgun, frásögn af atburði sem lesandinn veltir fyrir sér hvernig tengist ð-i. Síðan er fylgt eftir með næsta hefðbundinni sögu stafsins, notkunar hans, ritunar og prentunar. Upphaf kafla er mismikið tengt bókstafnum og um leið verða þessi upphafsstef misvel heppnuð. Inngangur bókarinnar byggir á atburðum innanlands og ytra tengdum fjórum ártölum: 1877, 1992, 1804 og 1987 - síðasta ártalið vísar til útkomu hljómplötu poppgoðsins Michael Jackson, sem hét BAD, en var skrifað með slíku húsakrotspári að Íslendingar gátu hæglega lesið það sem BAÐ. Stundum eru þessi upphafsatriði hugvitssöm, jafnvel snjöll; þannig er Martin Bormann óvænt leiddur inn á sviðið í upphafi 4. kafla og hver er tengingin? Jú hann gaf út tilskipun fyrir þriðja ríkið 1941 um að lagt skyldi af gamla brotaletrið (undir því yfirskini að það væri gyðinglegt að uppruna, þótt tilgangurinn væri einkum hernaðarlegur) og tekið í staðinn upp latínuletur, sem var þróun er Íslendingar höfðu gengið í gegnum um öld fyrr. Að sama skapi þótti mér ekki heillavænleg byrjun á 2. kafla, þar sem fyrst var vitnað í bresku gamanþættina Já ráðherra, væntanlega til að skapa tengsl við dægurmenningu samtímans. En tengingin, fjarska langsótt, byggir á að Englandsdrottning sé yfirmaður ensku biskupakirkjunnar og síðan er rakið hvernig enska biskupakirkjan varð til á 16. öld, með rækilegri umfjöllun um pólitísk hjúskaparvandræði Hinriks VIII., og síðan, eftir 2 valdhafa, hvernig dóttirin Elísabet I. komst til valda og hvern hún skipaði helstan valdamann kirkjunnar þá, erkibiskupinn og bókabéusinn Matthew Parker, sem lét fyrstur prenta engilsaxnesk fornrit, þar sem stafurinn ð komst fyrst á prent. Hún er býsna langsótt, leiðin frá Humphrey Appleby til Matthew Parker, þótt báðir þjóni drottningum með nafnið Elísabet.

     Annars er í þessari bók ótrúlega mikinn og nákvæman fróðleik að finna um ð frá ýmsum skeiðum, skrifuð sem prentuð - og um ótal margt annað. Mér segir svo hugur að sagnfræðingurinn í hópnum, Stefán Pálsson, hafi stýrt ferðinni og ráðið söfnun þeirra sögulegu atriða, sem borin eru á borð. Sýnilega er unnið af nákvæmni og nostri og oft næsta ótrúleg atriði dregin fram. Nálgunin er á ýmsan hátt íkonóklastísk, ráðist er gegn viðteknum og „viðurkenndum" sannindum, einkum hvað viðvíkur persónusögu. Þannig er hér Gutenberg ekki fyrstur Evrópubúa til að nota lausstafaprent, Linné ekki fyrstur til að nota latneskt tvíheitakerfi um lífverur og Champollion ekki einn um að ráða híeróglýfrið. Þannig er oft farið dýpra í efnisatriðin í ð ævisaga en almennt gerist í sögubókunum og hygg ég að flest sé satt og rétt sem rakið er.

     Útlit og hönnun bókarinnar er sérstakur kapítuli. Hún er í alla staði stíliseruð, brotið er óhefðbundið, ca 17x24 cm, sem þýðir að hún er óvenju breið miðað við hæð. Notaðir eru hreinir og æpandi litir, sem minna um margt á hönnun 70. áratugarins síðasta - eða jafnvel Bauhaus-hönnun 3. áratugarins. Innsíður kápu eru eiturgrænar og opnur við kaflaskil blóðrauðar. Spássíur eru óvanalega breiðar og þar eru myndatextar iðulega settir upp á síðu gagnstætt heilsíðumynd. Eftirtekt vekur einnig að myndatextar eru rauðir að lit, þótt meginmál sé svart, og blaðsíðunúmer efst á síðu rauð að lit, sem og kaflaheiti, sem nefnd eru neðst á hverri síðu; þau eru rauð og liggja einkennilega neðarlega. Þá væri hægt að gera myndvinnslunni sérstök skil, en skýringarmyndir eru flestar með miklum ágætum. Þannig má lengi halda áfram um útlit og uppsetningu. Hvort þetta er flott eða ekki er, held ég, smekksatriði. Fyrir mér kemur það frekar út eins og óþörf sérviska, máske til orðið vegna þess að aðkoma hönnuða að bókinni er óvenju mikil, en þeir eru þrír meðhöfundar - Anton Kaldal Ágústsson, Gunnar Vilhjálmsson og Steinar Ingi Farestveit - ásamt Stefáni.

     Á sínum tíma var ð ævisaga til umfjöllunar í bókaþættinum Kiljunni og þótti mér Sigurði Valgeirssyni mælast eftirminnilega, þegar hann kallaði bókina „hetjusögu undirmálsstafs sem aldrei hefur fengið að standa fremst í orði." Aldrei? Bókin sjálf nefnir undantekningu: Serbneskur fræðimaður á 19. öld hét Ðuro Daničić. Og þegar upp er staðið, þá áttar maður sig fyrst, þegar á er bent, hversu ómissandi stafurinn hefur orðið í íslensku: Gaman væri að telja ð-in í ð-ævisögu; þar kemur vart fyrir sú setning að stafinn sé þar ekki að finna. Niðurstaðan er að hér er um að ræða skemmtilega, ferska og framsækna bók, sem í flesta staði reynist vel heppnuð, þótt máske megi setja út á fáein efnisatriði.

-----

Ein aðfinnsla: Eitthvað sýnist mér brogað við heimildaskrána. Þar kemur nafn Rask t.d. fyrir í 5 mismunandi myndum (Rask, Erasmus; Rask, Erasmus Christian; Rask, R.C.; Rask, Rasmus; og Rask, Rasmus Kristian). Allt er þetta sami maðurinn, þótt halda mætti að um væri að ræða 5 ólíka - en máski skylda - menn. Og Gottskálk Jónsson í heimildaskránni held ég að hljóti að vera Jensson og Skírnir er sagður tímarit hins „ízlenska" [svo] bókmenntafélags. En er þetta ekki bara dæmigerður sparðatíningur af minni hálfu?


Lagaprófessorinn Njáll Þorgeirsson og byggingaverktakinn Gísli Súrsson

Óttar Guðmundsson er sérfróður um það sem máli skiptir í lífinu: Brennivín, kvenfólk og fornsögur ...

     Nei, byrjum aftur; þetta er betra að orða á eftirfarandi hátt: Óttar Guðmundsson, starfandi geðlæknir, sem áður hefur ritað bækur um áfengisneyslu og kynlíf, hefur nú bætt við riti um persónur Íslendingasagna út frá kenningum geðlæknisfræði. Síðastliðið haust gaf hann út bókina Hetjur og hugarvíl; Geðsjúkdómar og persónuleikaraskanir í Íslendingasögum, þar sem hann greinir persónugerðir fjölmargra karla og kvenna úr fornsögunum. Tilgangurinn er, hygg ég, tvíþættur: Að fræða og skemmta. Óttar dregur fram þekkta einstaklinga og pör úr þessum sagnaheimi, lætur þau leggjast á bekkinn og rekur úr þeim garnirnar, en að því búnu kemur læknirinn með greiningu sína - hvers konar röskun er um að ræða skv. greiningakerfi geðlæknisfræðinnar (sem birt er í sérstökum bókarauka). Rúsínan í pylsuendanum - og sá þáttur verksins sem eflaust er settur fram helst til gamans - er „vörpun" persónueinkennanna inn í nútímann: Hvar væru þau stödd í nútímasamfélagi? Væri Þjóstólfur, fóstri Hallgerðar, vel þekktur handrukkari og hrotti í undirheimum? Hefði Grettir verið lagður inn á BUGL á unglingsárum og kominn á varanlega örorku innan þrítugs? Hefði Þorsteinn drómundur orðið hetjutenór á Ítalíu? Hefði hinn hagi Gísli Súrsson í nútímanum gerst svikull byggingarverktaki? Væri Mörður Valgarðsson siðlaus stjörnulögfræðingur? Væri sjálfur Gunnar Hámundarson einnig lögfræðingur (m.a. vegna fjölda samverustunda við Njál Þorgeirsson lagaprófessor við Háskóla Íslands), með ljósmyndir af afrekum úr íþróttaferlinum uppi á vegg á lögfræðistofu sinni og með viðskiptavini sem hann hefði fyrst og fremst náð í vegna tengsla við íþróttahreyfinguna? Hefðu þeir Gunnlaugur ormstunga og Hrafn Önundarson gert út um sín mál hvor með sinn haglarann uppi á heiði í dag?

     Ég játa að það var með nokkrum efasemdum sem ég tók mér þessa bók í hönd. En þegar ég byrjaði að lesa hvarf vafinn á augabragði; það sem bókina kann að skorta fræðilega - og nú ber ég lítið skynbragð á - bætir hún margfalt upp með skemmtigildi sínu. Þess utan er hún prýðisgóð til upprifjunar á sögum, sem farið er að snjóa yfir, nú, eða sem inngangur fyrir ólesnar sögur. Ég á t.d. eftir að bæta Hávarðar sögu Ísfirðings í sarpinn.

     Hvað stendur eftir við lok lesturs? Jú, stóra spurningarmerkið á andlitinu. Var þetta fólk, sem við höfum haldið svo upp á í aldanna rás, virkilega að meira eða minna leyti abnormalt, já, klikkað eða snarbilað svo að tæpitungunni sé sleppt? Látum vera með Gretti, Egil og Þorgeir Hávarsson; þeir hefðu að sjálfsögðu verið taldir kriminelt psykopatar á öllum tímum, eins og félagi minn Héðinn orðaði það fyrir aldarfjórðungi. En Gunnar, hetjan mikla? Og Hallgerður? Í bók Óttars dugar ekkert að líkja sögunum við gríska harmleiki, þar sem tröllvaxin ógæfa sprettur af litlu tilefni eða misskilningi eða bara hybris. Nei, hér ber hver einstaklingur ábyrgð á eigin orðum, hegðun og gjörðum og getur á þeim forsendum lent í greiningarhópi. Einstaklingar eru að sjálfsögðu mislangt leiddir í „röskunum" sínum (einhvern vegar kann ég aldrei almennilega við fleirtölunotkun þessa orðs), en Óttar stígur fetinu lengra, giskar í eyðurnar og nefnir ýmis viðbótareinkenni, sem kynnu að hrjá viðkomandi einstaklinga, þótt ekki komi það fram í sögunum, einfaldlega vegna þess að þau herja oft á fólk í viðkomandi flokki. Gæti t.d. verið að Hallgerður langbrók hafi verið kynferðislega misnotuð í æsku, bara af því að hún er með hambrigðapersónuleikaröskun?

     Sjálfur er ég ekki hrifinn af því að draga ályktanir af því sem ekki stendur í texta, eins og Óttar leyfir sér alloft, í skjóli kenninga sinna. Átti Gísli Súrsson í sifjaspellssambandi við Þórdísi systur sína? Hann drap jú fyrsta ástmann hennar, einnig líklega eiginmann hennar og þuklaði á brjósti hennar kaldri hendi? Átti Hallgerður í kynferðissambandi við Þjóstólf? Hér er að mínu mati býsna langt seilst í ályktunum. Hvað með Njálssyni? Bjuggu þeir heima við að Bergþórshvoli með konum sínum af því að þeir voru svo kúgaðir af foreldrunum, eins og Óttar heldur fram? Sjálfur las ég Njálu alltaf á þann veg að Skarphéðinn og bræður hans væru í foreldrahúsum af því að þar væri gott að vera. Já, og var Njáll karlinn virkilega með kvíðahliðrunarpersónuleikaröskun?

     Jamm, þetta fólk var víst að meira eða minna leyti bilað og sumt snargeggjað - nema hvað hægt er að nefna það miklu fínni nöfnum á tungutaki nútímalegrar geðgreiningar. Sagnahetjurnar voru í ríkum mæli ofstopamenn, sem öbbuðust upp á eða myrtu venjulegt hvunndagslegt fólk sem lítið hafði eða ekkert til saka unnið - voru hin hversdagslegu nóboddí. Í Rangárþingi var Kristumlíkt gæðablóð myrt fyrir engar sakir og er flestum gleymt. En morðinginn, hann er á stalli - héraðsíþróttasambandið heitir meira að segja eftir honum.

     Óttar talar sjálfur um að margar sögur og margar persónur, sem hann hefði viljað fjalla um, sitji óbættar hjá garði - og boðar þar máske framhald bókarinnar. Samt fer hann yfir býsna vítt svið, tekur fyrir 4 af 5 stærstu sögunum, með Njálu fyriferðarmesta, og allmargar smærri þar sem áhersla liggur á skáldum. Ef til vill hættir hann ekki fyrr en hann hefur farið í gegnum allar sögurnar. Sjálfur saknaði ég Eyrbyggju og bíð ég spenntur eftir að heyra greiningu á Snorra goða.

     Og alltaf lærir maður ný orð. Ólafur Hávarðarson, úr Hávarðar sögu Ísfirðings, hafði bjarnaryl, sem þýðir í megindráttum að hann klæddi sig lítt í köldu veðri, fór ekki nema í skyrtu og brók. Hver kannast ekki við unga nútímatöffarann, sem gengur borubrattur niður Laugaveginn í stutterma bol um hávetur?

     Meðan ég las rit Óttars um hetjur og hugarvíl spurði ég ýmsa kunningja og kollega, sem lesið höfðu bókina, út í hana. Viðbrögðin voru einatt á eina lund: Fitjað upp á trýnið í forpokun eða fýld grön; einstaka taldi mega hafa græskulaust gaman af henni. Mitt eigið mat er sumpart hið sama, en í heildina held ég að ég sé jákvæðari. Nefni ég þrennt bókinni til ágætis: Í fyrsta lagi hefur hún ótvírætt fræðslugildi um aðferðir geðlæknisfræði. Í öðru lagi er framsetning söguefnisins svo hnitmiðuð og skýr að bókin hefur ágætt upprifjunargildi; hún gæti t.d. nýst framhaldsskólanemum ágætlega við Njálulestur. Og í þriðja lagi er skemmtigildi hennar nokkuð ótvírætt; oft hló ég upphátt - en er hins vegar ekki alveg viss um að það hafi verið á tilætluðum stöðum. Hvort Hetjur og hugarvíl teljist grunn- eða djúpristin á fræðilegum forsendum leyfi ég öðrum að dæma um.

-----

Smávægileg viðbót: Í annars ágætum eftirmála eftir Torfa Tuliníus er að finna bagalega villu, þar sem Jorge Luis Borges er kallaður Nóbelsverðlaunahafi; það er vitaskuld ekki rétt, þótt Borges sjálfur hafi sýtt mjög að hljóta aldrei verðlaunin.


Á haugi kraftaskálds

Undanfarin ár hafa íslenskir rithöfundar í sívaxandi mæli sótt í sjóð fornsagnanna. Bylgja þessi, sem hófst ef til vill með ágætri skáldsögu Thors Vilhjálmssonar um Sturlu Sighvatsson, Morgunþulu í stráum, nær til þríleiks Einars Kárasonar (Óvinafagnaður, Ofsi og Skáld), sem einnig er sóttur til Sturlungu, Glæsis Ármanns Jakobssonar, þar sem Eyrbyggja er endursögð frá sjónarhóli andsetins nauts, og síðustu skáldsagna Þórunnar Erlu Valdimarsdóttur, Kalt er annars blóð og Mörg eru ljónsins eyru, sem eru frjálslegar nútímaútgáfur sóttar í stef Njálu og Laxdælu.

     Við þennan föngulega hóp má bæta Þórarni Eldjárn, sem fyrir síðustu jól gaf út skáldsöguna Hér liggur skáld, en sagan fjallar einkum um Þorleif jarlsskáld - eða jarlaskáld eins og hann er kallaður í þætti sínum - sem og atburði sem áttu sér stað á hans heimaslóðum þá hann var ungur. Til er af Þorleifi stuttur Íslendingaþáttur af utanför hans og er þar útskýrt viðurnefni hans, en einnig kemur hann lítillega við sögu í Svarfdæla sögu, sem gerist að mestu á hans heimaslóðum á æskudögum hans.

     Skáldsaga Þórarins hefur tvöfaldan ytri ramma utan um meginfrásögnina af Þorleifi og hans fólki, báða sótta í Íslendingaþáttinn. Fyrst ber að nefna sögu Hallbjörns sauðamanns, sem upphaflega ber auknefnið hali og síðar þjóðskáld, en sagan hefst árið 1190, tæpum tveimur öldum eftir víg Þorleifs á Þingvöllum. Á völlunum er Þorleifur heygður og uppi á þeim hól leggst Hallbjörn til svefns á hverju kvöldi í von um að skáldgáfa hins heygða megi á einhvern hátt mjatlast upp til hans í draumi. Annar ramminn gerist tveimur öldum fyrr, þar sem vomur nokkur (orðið er hér vísvitandi notað, svo oft sem það kemur fyrir í Hér liggur skáld) fær sér far til Íslands, að því er virðist í þeim tilgangi að drepa Þorleif. Upphefst síðan hin eiginlega frásögn af Svarfdælum og Þorleifi, og aftur er sagan tvískipt mjög, annars vegar af átökum í heimahögum hans, þar sem Þorleifur sjálfur kemur fremur lítt við sögu, heldur eru þar í öndvegi tvær fylkingar, sem bítast um völd í dalnum, hvor sínu megin við ána, annars vegar Ljótólfur goði á Hofi og hins vegar sonur Þorsteins svarfaðar, Karl rauði, sem hefur í sínu liði ólíkindatólið og hálfberserkinn Klaufa. Á milli þessara fylkinga lenda síðan íbúar dalsins, eins og ættfólk Þorleifs og bóndinn Gríss, sem leikur tveimur skjöldum. Allt kemur þetta efni fyrir í Svarfdælu og fylgir Þórarinn söguþræði þaðan skilvíslega, en bætir við smáatriðum til að gefa fyllri sögu, auk þess sem lýsingar á staðháttum eru öllu ríkulegri en í Svarfdælu, enda mun ættfólk Þórarins, eins og Þorleifs, þaðan runnið. Vatnaskil verða í sögunni þegar Þorleifur og bróðir hans Ólafur verða að flýja lands vegna vígamála, en eftir það gerist sagan mestmegnis utanlands og er þá að langmestu leyti fylgt Þorleifs þætti jarlaskálds. Er þetta miður, því að síðari hluti Svarfdælu er ekki síðri en fyrri hlutinn, en reynist samt ekki brúklegur hér (við fáum t.d. ekki að heyra rækilega af örlögum Yngveldar fögrukinnar, systur Þorleifs, einnar þrjóskustu konu Íslendingasagna, sem þoldi nánast óendanlegt harðræði og raunir fremur en að láta buga sig). Á eftir afrekum Þorleifs ytra kemur stutt frásögn af örlögum hans hér heima - innri rammanum lokað - og loks er ytri rammanum gerð sömu skil með örstuttri frásögn af upphefð Hallbjarnar sauðamanns.

     Sem fyrr segir er Þórarinn afar trúr fornum heimildum sínum í Hér liggur skáld; það er helst að hann reyni að gera þær fyllri með nákvæmari útlistun atburða. Þannig kemur sögufræg og örlagarík stórutá Ólafs Þorleifsbróður óneitanlega fyrir í Svarfdælu, en hlutverk hennar ytra magnar Þórarinn upp. Hina bráðskemmtilegu þátttöku Klaufa sem draugs er að finna í Svarfdælu og er þar Klaufi framliðinn í enn stærra hlutverki en í Hér liggur skáld. Enn fremur er fylgt í grunnatriðum lýsingu Þorleifs þáttar af dulargerfinu með geitarskeggið og hítina, nema hvað hjá Þórarni er þar tilkominn Finnagaldur. Í Þorleifs þætti kemur einnig fram að Þorleifur er kraftaskáld, jafnvel að því marki að ákvæðiskveðskapurinn komi af stað viðþolslausum kláða Hákonar Hlaðajarls svo að hann hann þarf að láta taka ofan strigadruslu, hnýta á hana hnúta og láta menn draga hana milli þjóa sér til svíunar - allt þetta kemur fram í þættinum, en svo heldur Þórarinn lengra í lýsingunum - og ekki man ég eftir neinum Konnavísum í Þorleifs þætti, þótt þar séu nefndar Þokuvísur. Hinn eintrjáningslegi vomur Þorgarður er einnig kominn úr forn-þættinum, en litrík frásögn af tilurð hans sýnist mér mestmegnis tilbúningur Þórarins, sem og sú hugvitssemi að nafnkenna Þorgarð við Þorgerði Hörgabrúði. Eiginlega þarf maður að endurlesa lýsinguna á Þorgarði í bókarbyrjun í ljósi tilurðar hans, sem kemur fram í bókarlok. Öll er sagan Hér liggur skáld löðrandi í forneskju og fordæðuskap, en margt að því er komið úr frumheimildum og einfaldlega aukið í. Sumt í sögunni þótti mér fræðandi, til dæmis að nafn Höfðabrekku í Mýrdal kynni að vera dregið af æskuslóðum Þorleifs nyrðra, en samt myndi ég leita út fyrir skáldskapinn til að fá það staðfest. Segja má að Þórarinn gangist inn á náttúrunafnakenningu, þegar hann segir ána Svörfuð skipta dalnum og að nafn hennar sé komið fyrir þær sakir að áin sverfi úr börðum á bökkum sínum. Með því er hafnað skýringu Svarfdælu á dalsheitinu, þótt Þórarinn impri á þeirri skýringu.

    Sem við er að búast af hendi Þórarins Eldjárn er stíllinn á bókinni fágaður og elegant. Málið er hæfilega fyrnt og sýnist mér höfundur á heimavelli þar, með ýmsum sjaldgæfum orðum og orðasamböndum (þess vegna stakk dálítið í augu orðið „persóna" (bls. 151)). Stundum þótti mér höfundur óþarflega orðmargur, þveröfugt við stíl Íslendingasagna, og hefði hann vísast getað meitlað málið meira. Slíkar málalengingar komu til dæmis fyrir í orðfæri á borð við „Hóf hann að reisa..." í stað „Hann reisti..." Þá er einstaka sinnum að finna tvítekningu á efni, sem hinn frægi „einn yfirlestur til viðbótar" hefði getað útrýmt. Þannig þótti mér efni nokkuð snúið á haus á bls. 148-150, þar sem fyrst er greint frá því að Þorleifur snúi heill til hirðar Sveins tjúguskeggs eftir ákvæðisflutninginn rómaða, en síðan er lýst í alllöngu máli hvers konar villuráfandi svaðilför hann þurfti að fara þvert yfir Noreg til að komast á leiðarenda; m.ö.o. er spennan tekin úr textanum með því að greina fyrst frá giftudrjúgum lyktum, en síðan reynt að setja spennu í ferlið, sem ekki mun skila sér. Loks virkaði uppbrot á sjónarhorni tvímælis á mig; í 2. hluta bókarinnar (bls. 65-91) hverfur þriðjupersónufrásögn og í staðinn kemur fyrstupersónufrásögn Þorleifs. Óútskýrt er hvers vegna þessu sjónarhorni er fylgt um tíma, en síðan tekin að nýju upp þriðjupersónufrásögn við utanför Þorleifs. Að minni hyggju veikti þetta óþarfa stílbrot frásögnina, þótt máske hafi það verið hugsað í þeim tilgangi að gera sjónarhorn fjölbreyttari.

     Að endingu þetta: Hér liggur skáld er forvitnileg saga, fyrst og fremst til að skoða úrvinnslu höfundar á frumheimildum, sem jafnan er lítt hampað. Bókin er einnig þægileg og líðandi lesning, en kemst samt að mínu mati ekki með tærnar þar sem besta sögulega skáldsaga Þórarins, Brotahöfuð, hefur hælana.


Poppskríbent opnar sig

Það eru ekki allir sem fá bæði John Cusack og Hugh Grant til að leika „sig". Sú er þó raunin með Nick Hornby, sem reit skáldsögurnar High Fidelity og About a Boy, en þær enduðu sem kvikmyndir, báðar reistar (mismikið) á reynslu höfundar. Þær bækur vísa ríkulega til popptónlistar, enda gerist sú fyrri beinlínis í hljómplötuverslun og Hornby var poppskríbent um árabil áður en hann gerðist atvinnurithöfundur, lengst af fyrir The New Yorker. Reyndar er Hornby, kominn nú á miðjan sextugsaldur, hvorki vitund líkur Cusack né Grant, enda eggsköllóttur, máske ekki ómyndarlegur, en með afskaplega þunna og veiklulega efri vör.

Nýlega rak á fjörur mínar 31 Songs eftir Hornby, bók sem hefur að geyma greinar um 31 popplag sem haft hafa djúpstæð áhrif á höfundinn. Þetta eru ekki endilega uppáhaldslögin hans, heldur ekki síður lög sem náðu til hans á tilteknum tímamótum, örlagaríkum augnablikum eða eru bara áhugaverð sem efniviður hugleiðinga um eðli popptónlistar. Hvert lag fær sína stuttu ritgerð, nema hvað stundum tekur Hornby fyrir 2 lög í kafla - þeir eru 26 talsins fyrir 31 lag - en bætt við fimm köflum fyrir 14 heila geisladiska.

Tónlistin er í öndvegi, en hún er órjúfanlega fléttuð lífinu, og smám saman fær lesandinn fyllri mynd af Hornby. Bókin var skrifuð þegar hann var 44 og 45 ára, þroskaður og máske dálítið forpokaður, á aldri þegar hann mat Late for the Sky með Jackson Browne frekar en pönkið, sem hann hlustaði á um tvítugt. En Hornby bendir á að hrifnæmi gagnvart tónlist er mest á yngri árum, þegar lífsreynslan er lítil, og það er ekki fyrr en á síðari árum að við getum horft yfir sviðið og séð heildarmyndina. Minnir þetta á spakmæli Schopenhauers: „Lífið er eins og útsaumur. Framan af ævi dáumst við að myndinni, en á seinni hluta ævinnar snúum við strammanum við og gaumgætum saumsporin."

En áfram með ævisögu Hornby, eins og hún afhjúpast smám saman í gegnum 31 Songs. Við fáum að vita að hann er fráskilinn; að hann á einhverfan son og að fæðing sveinbarnsins gekk nærri móðurinni; að höfundurinn grillar kjúkling úti í garði sínum í góðra vina hópi og ræðir um tónlist; að hann bjó hjá föður sínum í Bandaríkjunum á seinni táningsárum og að sú dvöl hafði mótandi áhrif á tónlistarsmekkinn; að hann vill frekar versla hjá litla plötusalanum á horninu en hjá stóru tónlistarsamsteypunni; og svo framvegis.

Í 31 Songs gætir bæði speki og kímni. Hornby fer í misdjúpar pælingar um eðli popptónlistar; hvers vegna popplög eru  jafnan um þriggja mínútna löng, hvers vegna eru þau byggð upp á forspili, versum, viðlagi og sólóum - já, heilmikið rými fer í vangaveltur um eðli sólóa og stundum varpar Hornby fram skemmtilegum spurningum: Hvaða merkingu hefur mandólínsóló til dæmis fyrir málstað eskimóa?

Hornby veltir, svo að dæmi sé tekið, fyrir sér hvers vegna ástin (í öllum sínum myndum, jákvæðum og neikvæðum), sé hentugt viðfangsefni popptónlistar, en gæludýr ekki. Oft getur maður varla verið annað en sammála; hið útsjúskaða Ben með Michael Jackson fjallar t.d. um gælurottu og var samið fyrir hryllingsmynd, þótt fæstum sé það kunnugt. Hins vegar er að mínum dómi Martha My Dear eftir MacCartney mjög frambærilegt og Shannon með Henry Gross - bæði um heimilishunda - beinlínis stórgott lag í eftirminnilegum flutningi. En öll þessi lög verða dálítið ankannanleg þegar maður veit að verið er að syngja um dýr, ekki fólk.

Við lesturinn rann upp fyrir mér hvað við Hornby ættum fjári margt sameiginlegt í tónlistarsmekk á fyrri árum. Við erum nákvæmlega jafngamlir, hlustuðum báðir bergnumdir á Thunder Road Springsteens árið 1975 og tökum Springsteen fram yfir Dylan. Báðir erum við hrifnir af fyrstu plötum Rod Stewart, einkum „Every Picture Tells a Story" og „Never a Dull Moment". Eins og Hornby hef ég takmarkaðan áhuga á djassi, en ólíkt mér hefur hann takmarkaðan áhuga á klassískri tónlist. Með tilkomu pönksins hafa leiðir okkar líklega endanlega skilið í tónlistaráhuga: Hann fór í pönkið, en ég hlustaði á Jackson Browne á seinni hluta 8. áratugarins (sem hann uppgötvaði ekki fyrr en síðar).

Ég lagði mig eftir því að þefa uppi öll lögin á lista Hornby, sem ég þekkti ekki, og í heildina er þetta skrambi góð tónlist, þótt vissulega megi deila um smekk. Helst vekur athygli hversu oft einn maður gutla með gítarinn sinn - Hornby virðist hafa sterkar indí-taugar. En svo kemur hann á óvart og velur Ian Dury eða hina framsæknu Avalanches (sem ég hafði aldrei heyrt fyrr og hyggst ekki leggja mig eftir). Þarna er furðu hátt hlutfall af létt-poppi, oft áheyrilegu, en Hornby forðast átakarokk, máske af því að hann er orðinn miðaldra. Led Zeppelin á þarna eitt lag (Heartbreaker) og Santana líka (hið flauelsmjúka Samba Pa Ti), en bæði lögin eru frá því um 1970 og fáar aðrar rokksveitir fá lög sín inn, Röyksopp jú, sem ég er lítt hrifinn af. Miðað við þá aðdáun, upplifun og uppljómun, sem Hornby lýsir frá pönk-tímanum, þá er merkilegt að varla er að finna eiginlegt pönklag á listanum - jú, máske hið magnaða en óþolandi Frankie Teardrop með Suicide (magnaður texti, óþolandi tónlistarflutningur), og svo er Pissing in the River með Patti Smith þarna, en það er í sjálfu sér ekkert pönk, heldur frekar melódískt með blús-ívafi. Við fáum ekkert með Sex Pistols, Jam, Clash eða Television (og mér er sosum sama, því að ég er einn þeirra sem álít að pönkið hafi ekki skilað mikilli varanlegri tónlist - en þó einhverri, eins og allar tónlistarstefnur gera). En tónlistin, sem Hornby velur, spannar um 40 ár, með merkilega miklu frá upphafi tímabilsins - ekki alltaf endilega það besta, heldur líka það sem hafði áhrif á líf hans eða vakti til umhugsunar. Þannig verður t.d. reggí-útgáfa Gregory Abbott af gamla góða Puff the Magic Dragon eingöngu fyrir valinu vegna þess að þessi tónlist nær eyrum einhverfs sonar Hornby, ekki af því að þetta sé tímamótamarkandi tónverk. Af lögum Bítlanna velur hann Rain, ekki af því að það sé besta lagið, heldur af því að það er endingargott og ferskt. Ekkert með Rolling Stones eða Kinks - enda er hann ekki endilega að fjalla um það merkasta eða besta. Svo verður að hafa í huga að bókin er gefin út árið 2003 og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Ég er ekki viss um að ég nenni að fara að hlusta á Nelly Furtado, þótt Nick Hornby hafi gert það fyrir 10 árum.

Stíll bókarinnar er æði brokkgengur. Höfundur á til að tala dálítið niður til lesandans og stundum er hann endurtekningarsamur, jafnvel leiðigjarn, en oftast er hann samkvæmur sjálfum sér og stundum bregður hann á leik með hnyttnum brandara og kímni. (Í umfjöllun um lag Aimee Mann, You´ve Had It, þar sem hann telur að mótsögn í himneskri laglínu ofinni um bölsýnan texta hafi gert honum kleift að skilja hvernig Jesú Kristi leið á vondum degi.) Það sem upp úr stendur er þó einlægni frásagnarinnar. Tónlistin er í fyrirrúmi og við fáum um leið innsýn í daglegt líf og ævi miðaldra Lundúnabúa, sem notið hefur mikillar velgengni, en þrátt fyrir það orðið fyrir ýmsu því mótlæti - og leitar í tónlistina til að takast á við vandamál sín. Og þegar á heildina er litið er lesandinn kynntur fyrir áhugaverðri tónlist. Ég mun t.d. eftir þessarar bókar leggja mig meira eftir Teenage Fanclub, The Bible, Mark Mulcahy, Aimee Mann, Ben Folds Five og Steve Earle. Eftir að hafa lesið þessa bók langar mig helst til að grafa upp listann, sem ég bjó til um 100 uppáhaldsplöturnar mínar hér um árið, og greina þær, hverja og eina, lag fyrir lag.


Merkasta skáld Íslandssögunnar fundið?

Fram undir síðustu aldamót voru höfundar helstu Íslendingasagna óþekktir. Þá styrktust kenningar um að Snorri Sturluson hefði skrifað Eglu og byggt þar á óbeinum líkindum, þ.e. textasamanburði Eglu við kunn rit Snorra og þekkingu höfundar Eglu á staðfræði Borgarfjarðar, fremur en órækum sönnunum. Fræðaheimurinn tók hugmyndinni misjafnlega - sumir efuðust, varkárir töldu slíkt mögulegt, þeir djarfari álitu það líklegt, jafnvel næsta víst, en enginn held ég að hafi beinlínis haldið því fram að óyggjandi væri. Hins vegar má segja að Alþingi hafi lagt blessun sína yfir og viðurkennt Snorra sem höfund snilldarverksins með því að styrkja útgáfu á verkum hans, sem innihélt Eglu.

Í kjölfarið virðist sem allar gáttir hafi brostið. Í 700 ár vissi þjóðin ekki hverjir væru höfundar Njálu, Eglu, Grettlu, Laxdælu og Eyrbyggju, en nú hafa verkin öll verið feðruð og það gerir Einar Kárason í nýjustu bók sinni, Skáldi. Lætur hann sig jafnframt ekki muna um að greina frá nokkrum áður óþekktum höfundum nokkurra smærri Íslendingasagna.

Skáld, þriðji hluti þríleiks Einars um Sturlungaöldina, hefur í sögumiðju Sturlu Þórðarson, þátttakanda og skrásetjara ýmissa stærstu atburða þeirra viðsjárverðu tíma. Rammi sögunnar er að mestu veturinn 1276, þegar Sturla á sjötugsaldri lendir skipreka í Færeyjum - og lætur sig ekki muna um að skrifa Færeyinga sögu, fyrst hann er þarna staddur á annað borð (en þiggur vitaskuld heimildir frá þarlendum). Öðru hvoru er horfið aftur í tíma, til þeirra vofveiflegu atburða, sem einkenndu ævitíð skáldsins, og segja þá ýmsir söguna: Klængur Bjarnarson, Hrafn Oddsson, Þorvarður Þórarinsson, eiginkonan Helga, dóttirin Ingibjörg og fleiri. Í sumum köflum er sögumaður alvitur og nefnir jafnvel atburði úr okkar samtíma, þótt fremur lítið fari reyndar fyrir slíku. Atburðasaga aldarinnar er fyrirferðarmikil, einkum framan af: Apavatnsför, Örlygsstaðabardagi, víg Snorra, Flugumýrarbrenna. Við þessa atburði eða eftirmál þeirra kemur Sturla Þórðarson við sögu, mismikið þó, jafnvel svo að lengi framan af er hann nánast sem aukapersóna í eigin sögu. Máske er það viðeigandi, því að þannig er málum einmitt háttað í hans eigin fræga stórvirki, Íslendinga sögu Sturlungu; þar er hann jafnan til hlés, en þó sínálægur. Þegar dregur nær sögulokum Skálds kemst Sturla loks í konungsgarð og síðan aftur heim til Íslands, eftir að hafa þegið margvíslegan sóma og slett í fáeinar bækur.

Einari tekst á köflum býsna vel að skapa anda 13. aldar með málfari og lýsingum. Einkum á það við í Færeyjaköflunum, sem sumir hverjir eru ljóslifandi. Kaflinn um upplestur skáldsins úr Heimskringlu í kirkjunni í Kirkjubæ þótti mér svo launfyndinn að ég las hann í tvígang - en velti um leið fyrir mér hvernig heimamenn þar hefðu farið að því að hvítta kirkjubygginguna. Sumir aðrir kaflar eru máske risminni eða síður bitastæðir, en sagan líður þó mjúklega út í lokin. Veikleiki Skálds sem sögulegrar skáldsögu liggur að mínu mati helst í því að lengi vel vill sagan um of minna á endursögn Sturlungu og sú endursögn er ríflega miðlungi góð, stundum flöt, en einnig oft hugvitssöm. Máske er endursögn nauðsynleg lesanda sem lítt þekkir til sögu tímabilsins, en sá, sem kannast við 13. öldina að einhverju marki - eða hefur einfaldlega lesið tvær fyrri sögur Einars úr þríleiknum - fær fulllítið fyrir sinn snúð. Stundum eru atburðirnir notaðir til að varpa ljósi á lunderni höfðingja tímabilsins. Apavatnsför virðist einkum sýna hve Sturla Sighvatsson er tvístígandi í athöfnum sínum; á hann að taka Gissur höndum eða ekki, á að drepa hann eða ekki? Ég verð að játa að hér skildi ég ekki hvers vegna Einar víkur frá liðsfjölda þeim sem kemur fyrir í Sturlungu; þar segir að Sturla hafi verið með á fjórða hundrað manna, en Gissur með um fjóra tigu; í Skáldi eru menn Gissurar eingöngu ellefu talsins og Sturla kemur með um hundrað manna lið.

Fleiri höfðingjum er lýst í Skáldi. Órækja Snorrason er drykkfelldur (og nokkuð tönnlast á því), en einnig glaðvær og kátur. Þegar skýin hrannast upp hjá Snorra 1240 - Skúli jarl nýdrepinn, Hallveig Ormsdóttir nýlátinn - vill Órækja gleðja föður sinn og lætur búa til heitan pott vestur á Reykhólum. Býður hann föður sínum og fleirum ættmennum til „vígslu" pottsins og veldur sú orðanotkun misskilningi; Tumi Sighvatsson yngri giskar á að nota skuli pottinn til kirkjulegra athafna. Stundum er sagt að sögulegar skáldsögur eigi að vísa til nútímans eða hafa merkingu fyrir þá samtímamenn, sem verkið lesa. Býsna langt finnst mér þó seilst, þegar Snorri tekur gleði sína, eins og hver annar sumarbústaðarbúi nútímans, eftir pottferð með syni sínum að Reykhólum og næturlanga drykkju, uns að lokum í morgungrámanum þeir feðgar standa  með handlegg hvor um öxl annars, og kasta af sér vatni í pottinn. (Annars er „morgungrámi" eitt það orð sem oftast kemur fyrir í Skáldi.) En þótt Órækja kvikni ekki alveg til lífsins, þá má segja það Einari til hróss að hann skerpir á ýmsum minni háttar persónum og dregur skýrar fram þeirra þátt en gert er í Sturlungu. Á þetta við um Klæng Bjarnarson í Skáldi - og jafnvel enn frekar Dufgussyni í Óvinafagnaði. Varla hefur nokkur höfundur nýtt sér meira Sturlungu en Einar Kárason (og er þó vert að minnast hinnar ágætu Morgunþulu í stráum sem Thor Vilhjálmsson skrifaði um Sturlu Sighvatsson). Einar gjörþekkir sýnilega verkið og vísar til þess fram og aftur, ásamt því að vísa til ýmissa Íslendingasagna af býsna haldgóðri yfirsýn.

Merkast í Skáldi eru þó sennilega nýstárlegar aðferðir höfundar við að feðra frægustu bókmenntaverk Íslandssögunnar. Sturla Þórðarson er sagður hafa skrifað Njálu, Grettlu og Eyrbyggju (auk fleiri nafngreindra rita), en varð aðeins of seinn til að skrifa Laxdælu; þar varð bróðir hans, Ólafur hvítaskáld, fyrri til. Og gengið út frá því sem gefnum hlut að föðurbróðir þeirra bræðra, Snorri Sturluson, hafi skrifað Eglu. Þess utan vitum við nú fyrir víst hverjir skrifuðu Heiðarvíga sögu, Fóstbræðra sögu og Færeyinga sögu, svo dæmi séu tekin. Þetta eru djarfar kenningar, en allar kenningar eru þess virði að taka til athugunar og vonandi fer ekki fyrir Einari eins og nafna hans Pálssyni að vera þaggaður út af borðinu. Ef hugmyndir Einars Kárasonar ganga upp, þá er fundinn merkasti rithöfundur Íslandssögunnar, hvorki meira né minna. Og sá maður er Sturla Þórðarson - sem sjaldan hefur verið leiddur inn á svið bókmenntasögunnar á þann hátt. Ég hef fylgst með Einari verja hugmyndir sínar um Sturlu sem höfund Njálu af fimi og mælsku í ræðu og riti, og þótt þar margt sniðugt og jafnvel snjallt - en ekki látið sannfærast. Máske stafar það af því að ég er efasemdamaður í eðli mínu. En meginrök Einars virðast vera líkindi atburða úr Íslendinga sögu (þ.e. Sturlungu-hluta) Sturlu Þórðarsonar og Njálu. Viss líkindi eru með Flugumýrarbrennu og Njálsbrennu, einnig með atgjörvi og örlögum Odds Þórarinssonar og Gunnars á Hlíðarenda - þess vegna hljóti sami höfundur að búa að baki. En það þekkist á öllum öldum að eitt bókmenntaverk reisi á öðru. Þótt líkindi séu með skáldsögunum Sjálfstæðu fólki og Höfundi Íslands, vitum við að ekki skrifaði sami rithöfundur báðar. Þannig kynni ókunnur höfundur seint á 13. öld að hafa þekkt lýsingu Sturlu á Flugumýrarbrennu og haft hana til hliðsjónar við ritun Njálu - eða þá að báðir hefðu byggt þriðja minni, jafnvel af munnlegum toga, sem báðir þekktu.

 En til að víkja aftur að Skáldi, þá má hrósa Einari fyrir að draga upp sannfærandi mynd af skriftarmenningu 13. aldar - skriffærum, heimildaöflun og öðru - sótgleri, vaxtöflum, tálguðum fjaðurstöfum. Hugleiðingar um eðli skáldskapar eru fyrirferðarmiklar í sögunni og oft með ágætum og jafnvel djúpar. En stundum þótti mér yfirdrifin sú tiltrú sem birtist á mætti snilligáfunnar, sem menn virðast almennt með stjörnublik í augum eigna Sturlu Þórðarsyni - allir nema máske Þorvarður Þórarinsson. Skefjalaus aðdáun Þórðar Narfasonar sýnist mér til dæmis orðin hrein háðung. Sömuleiðis þykir mér ekki alltaf takast fyllilega vel upp með ýmsar smærri persónur sem látnar eru tala. Raddir Orms Bjarnarsonar, Hallfríðar garðafylju og Ingiborgar drottningar hljóma einsleitar, fá ekki nógu mikið rúm (eða nógu langan texta) til að persónan skíni í gegn og virðast eingöngu ætlaðar til ytri lýsingar á höfðingjum eins og Sturlu eða Gissuri.  

Sem fyrr segir tekst Einari oft býsna vel með málfari að leiða lesandann inn í heim þrettándu aldar. Þess vegna stingur dálítið í augu, þegar fyrir koma sagnir á borð við skaffa og redda. Býsna kröftugt orðfæri þótti mér á bls. 216, alveg fram að síðasta orði, þar sem segir að „...Norðmenn hafi tekið sæbarinn ... hreggnasa upp á sinn eik [svo]."

Að öllu framansögðu þótti mér Skáld dándi dægileg lesning, á köflum dulítið rislítil, en einnig stútfull af umhugsunarverðu efni, slungnum hugdettum og væntanlega umdeildum kenningum. Máske mun tíminn leiða í ljós hið sanna og afhjúpa hvort um sé að ræða snjöllustu ellegar óviturlegustu kenningar sem fram hafa komið um höfunda Íslendingasagna. En vitaskuld getur Einar alltaf skýlt sér við fræðilegum skömmum bak við hinstu rökin: Þetta er bara skáldsaga ...


Öldurdals frægasti sonur

Þegar ég var strákur, svona 10 til 12 ára, leyfðu foreldrar mínir okkur systkinunum að setja stóra fjölskyldutjaldið upp á grasbalanum framan við eldhúsgluggann yfir bjartasta tíma sumarsins og sofa þar úti í svefnpokum, hið minnsta meðan þurrt var. Í minningunni finnst mér sem systkin mín hafi lítið verið fyrir þetta gefin, en ég hins vegar naut þess að liggja í tjaldinu og lesa Bör Börsson í hvítri birtu sumarnætur.

Já, ég las Bör Börsson árlega á þessum árum og um síðir upp til agna, í sinni snjáðu og myndskreyttu útgáfu frá lýðveldisstofnunarárinu,  með hnausþykkum pappír, bókin öll orðin losaraleg í bandi og um síðir á lausum blöðum. Seint á unglingsárunum hvarf mér bókin, en þegar hún var endurútgefin um 1990 var ég meðal hinna fyrstu til að eignast eintak. Hef ég síðan lesið bókina á fimm ára fresti eða svo, en aldrei bloggað um hana. Að loknum hinni þungu meltingu eftir veisluhöld Lawrence Norfolk þótti mér heillaráð að draga þennan gamla kunningja fram. Í minningunni er gamla útgáfan hnausþykk, en í þeirri nýju, þar sem letrið hefur verið smækkað og þéttað, er hún ekki nema rétt rúmar 200 blaðsíður.

Sagan af hinum grunnhyggna en ljónheppna Bör Börsyni júníor er að sjálfsögðu ein óviðjafnanlegasta gamansaga Norðurlanda, þótt nær aldargömul sé. Bör gerist ungur kaupmaður í heimasveit sinni Öldurdal, kemst í álnir og tekst alloft fyrir hreina hundaheppni að forðast að verða gjaldþrota, fer um síðir til borgarinnar, forframast og verður fyrir gráglettni örlaganna milljónungur. Sagan er þó ekki grínið eitt, heldur býr að baki djúp samfélagssatíra, þar sem deilt er á misskiptingu auðs, valda og áhrifa. Þá er hún óvenju óvægin skoðun á eðli manna, einkum græðgi og hræsni. Þegar verið er að koma upp versluninni á Öldurstað, dreymir Bör Börsson um að verða á skjótum tíma konsúll, grósseri og fullmektugur agent, og komast í hóp fyrirmenna sveitarinnar, sýslumannsins, prestsins og sparisjóðsnefndarmanna. Reyndar dreymir hann um að verða forstjóri sparisjóðsins og geta neitað kotbændunum um lán, þar til þeir sárbiðja, kveina, fara niður á hnén og gráta, og þá... kannski þá ... skal hann taka málið til athugunar. Á svipaðan hátt er Bör Börsson að öllu jöfnu samansaumaður, en sé hann skjallaður, þá á hann til að sýna af sér rausnarskap og örlæti. Sveitarbúar ganga á lagið, en innst inni vilja þeir helst sjá þennan uppskafning fara á hausinn, enda ... hvað á hann með að setja sig á háan hest? Átakanlegur fulltrúi bláfátækrar alþýðu er Óli í Fitjakoti, sem hefur misst kotbýli sitt á uppboði, en á fyrir sveltandi fjölskyldu að sjá. Honum býðst eingöngu tilfallandi daglaunavinna á borð við skógarhögg, og neyðist því til að koma í krambúðina til Börssons og freista hins ómögulega: að snapa lán til að brauðfæða sín sveltandi börn. En Bör Börsson neitar honum æ ofan í æ, enda yrði forretningin fljótt fallítt ef ekki væri borgað kontant. Samskipti þeirra Börs yngri og Óla, oft óborganleg, eru burðarásinn í sögunni framan af. Þá er ástabrölt Börs í alla staði hið kómískasta, hann ber víurnar í hana Jósefínu, heimasætu í Þórsey, en það er nú máske fyrst og fremst til að komast yfir Þórseyjarauðinn og Bör er reiðubúinn til að bera sig eftir fínna kvenfólki, ef býðst, t.d. fröken Finkel, frænku prestsins, og jómfrú Ísakssen sem hann fær sem búðardömu frá Niðarósi. Hámarki nær kvennabrölt Börssons, þegar hann kemst til höfuðstaðarins og auglýsir í dagblöðum eftir barónessu sem vill ganga að eiga „einn af vorum stærstu dírektörum".

Sjónarhorn sögunnar um Bör Börsson er síbreytilegt á þann veg að höfundur er alvitur og sér inn í huga margra persóna samtímis. Þetta truflar lesandann ekki, því að hver persóna er dregin skýrum dráttum. Bör Börsson er oflátungur, mestmegnis fullur af yfirdrepsskap, en stundum á hann til að sýna af sér höfðinglegt örlæti, einkum ef menn smjaðra fyrir honum. Óli í Fitjakoti sveiflast á milli heiftar hins kúgaða og auðmýktar hins undirokaða. O.G. Hansen sýsluskrifari er fulltrúi valds og laga, jafnvel þegar hann skrifar ómenntaðri bændakonunni, móður sinni, bréf til að biðja hana að senda sér gömlu nærbuxurnar sínar, „enda verði téðar nærbuxur fyrst löglega þvegnar." Sjarmi bókarinnar liggur samt ekki síður í framvindu en persónusköpun. Atburðir leiða eðlilega hver af öðrum, stundum óvænt, jafnan farsakennd, en alltaf er jarðtenging til staðar.

En það er húmorinn sem gerir Bör Börsson óborganlegan. Þessi húmor birtist neðan úr sálardjúpum persóna, ýmist í einfeldningsskap þeirra eða slægð, og hann endurspeglast í orðfæri. Í ákveðnum kunningjahópi mínum frá unglingsárum töluðum við um að sötra „límonaði frá Niðaróssgosdrykkjafabrikku-útibú", þegar við fengum okkur Appelsín, því að það var „príma ropvatn". Orðfæri þetta er komið beint frá Bör Börssyni - sem notar „Haraldshárfagra-skósvertu" á skóna sína. Aplafyl, kláðagemlingur, hlaunabryðja og hlauparindill á blankskónum eru orð lærð úr þessari bók. Og eru til betri ráð, ef maður ætlar að laumast upp á háaloft hjá ríkri frænku prestsins á laugardagskvöldi og heilla hana upp úr skónum, en heilræðin, sem hinn hofmannlegi Hansen sýsluskrifari veitir Bör Börssyni? „Paragraff 1) Taka ofan pípuhattinn með vinstri hendi, slá saman hælum og hneigja sig djúpt. 2) Segja: Ó, mín heittelskaða! 3) Fjögur skref áfram gakk! - Staðar nem! - Standa rétt! 4) Segja: Leyfi ég mér allra-virðulegast að biðja um hönd yðar. 5) Hlæja hástöfum. 6) Veifa pípuhattinum. 7) Segja: Má ég þrýsta kossi á yðar göfuga enni?"  Samskipti Börs við barónessuna í Osló eru annars hátindur sögunnar og óborganlega fyndin. Bör dreymir um að verða von Börsson og hefur rakað skalla á kollinn, með hárkraga um kring, því að þannig líta ekta dírektörar út, auk þess að hann setur upp gullspangargleraugu - skítt með það þótt hann sjái illa með þeim, bara ef hann líkist fyrirmyndum sínum. Svo eru sannir grósserar líka gjarnan í borðalögðum og gullsnúruðum jökkum, en þegar skreðarar borgarinnar treysta sér ekki til að sníða á Bör Börsson slíka flík með stuttum fyrirvara, þá kaupir hann skrautlegan jakkann utan af dyraverði í kvikmyndahúsi fyrir stefnumótið.

Þýðing Helga Hjörvar á Bör Börsson er vitaskuld löngu þjóðþekkt og mun halda nafni hans á lofti lengi enn. Hún er klassísk í alla staði, málið auðugt og alþýðlegt í senn, og fellur vel að íslenskri málhefð, þótt hinn norski andi svífi yfir. Nafni minn veigraði sér ekki við því að kalla kotbændurna tómthúsmenn, þótt ólíklega sé slíka þurrabúðarmenn að finna í norskri sveit inn til lands, en einhvern veginn skiptir það engu máli hér. Staðarheiti eins og Fitjakot, Öldurstaður og Furuvellir gætu verið hvort heldur sem er á Íslandi eða í Noregi. Einn brandarinn er þó óþýðanlegur og fer framhjá ýmsum Íslendingum: Nafnið Börsson vísar til Börsen, sem er heitið á kauphöll í Noregi, Danmörku og víðar.

En styrkur bókarinnar um Bör Börsson liggur ekki síst í því að hún hefur allt yfirbragð heilsteypts bókmenntaverks. Persónur eru kynntar til sögunnar ein af annarri, leiddar inn á sviðið í steikjandi brækju um sumarmál, sem kemur lesanda strax í sólskinsskap. Síðan, samhliða breyttum árstíðum, þróast þær og þroskast af innbyrðis samskiptum - þótt Bör sé sami búrinn inn við beinið í bókarlok, þá er hann ekki sami einfeldningurinn; hann hefur lært sína lexíu af veraldarvésinu. Jómfrú Ísaksen hjúfrar sig upp að hverjum þeim karlmanni, sem síðast hafði betur í viðureign, en endar í fjötrum hjónabands.  Aldrei er dauður punktur í bókinni; eltingarleikir og slagsmál birtast síendurtekið, dyggðugar jómfrúr jafnt sem vafasamari veraldarvanari fraukur lita ástarlífið, sögusviðið færist til Niðaróss og Osló nákvæmlega á réttum augnablikum þegar allt virðist ætla að verða of viðburðasnautt í Öldurdal. Sagan um Bör var upphaflega skrifuð jafnóðum frá degi til dags sem framhaldssaga í norsku blaði undir lok fyrra stríðs og má heita merkilegt hve mörg góð heimsbókmenntaverk hafa orðið til á þann veg. Þannig skrifaði Balzac sínar bestu sögur, m.a. hina óviðjafnanlegu Le Père Goriot, og þannig varð Svejk Haseks einnig til, en kláraðist aldrei þar sem höfundurinn féll frá (reyndar er ég í fárra hópi, sem telur söguna af Góða dátanum Svejk ofmetna bæði sem bókmenntaverk og gamansögu). Bör Börsson mun engan veginn dæmigerð fyrir höfundarverk Johans Falkberget, sem skrifaði frekar sögulegar skáldsögur og naut virðingar fyrir. Reyndar, eftir að búið var að gefa út Bör Börsson á bók sem rokseldist, skrifaði Falkberget seinna bindi um þessa sögupersónu sína, en naut ekki viðlíka vinsælda, enda allt þar með ævintýralegra blæ. Þar fer Bör Börsson algjöran kollskít, hrökklast úr landi, hrekst til Suðurhafseyja, finnur þar fjársjóð og snýr heim ríkari en nokkru sinni fyrr. Ég man eftir að hafa lesið þetta seinna bindi tvisvar á æskuárunum, fékk það lánað á gagnfræðaskólabókasafninu, en það hefur ekki verið endurútgefið mér vitanlega. 

Niðurstaðan er: Minn ævilangi félagi Bör Börsson veitir enn ólýsanlega ánægju og skemmtan, jafnvel við tíunda lestur.

Menntastefna byggð á úreltum forsendum

Ég vil kærlega þakka Aðalheiði Steingrímsdóttur, formanni Félags framhaldsskólakennara, fyrir skelegga grein, Menntastefna byggð á úreltum forsendum, í Fréttablaðinu í dag (fimmtud. 31. jan. 2013; bls. 24). Þar tekur hún fyrir nýlega skýrslu starfshóps forsætisráðuneytis um samþættingu mennta- og atvinnustefnu, og sýnir glöggt hvernig starfshópurinn reisir á úreltum hugmyndum um gildi menntunar, m.a. þeirri sýn sem nefnd hefur verið "McDonalds-væðing" í menntakerfinu. Vonandi endurspeglar skýrsla þessi ekki viðhorf núverandi stjórnvalda; ella má örvænta um framtíð menntunar í landinu. Vil ég vekja athygli alls áhugafólks um menntamál á grein Aðalheiðar, en hana má einnig finna á visir.is.

 


Lawrence Norfolk með veislu í farteskinu

Lawrence Norfolk er fenómen.

Á 20 ára rithöfundaferli, sem stundum hefur verið þyrnum stráður, liggja eftir hann fjórar skáldsögur. Þrjár þeirra hef ég lesið og verð að segja að þær eru hver annarri magnaðri.

Fyrsta bók Norfolks sló í gegn á sínum tíma. Hún hét Orðabók Lemprières, eina verk höfundarins, sem þýtt hefur verið á íslensku - og er vert að minnast frábærrar þýðingar Ingunnar Ásdísardóttur í því samhengi. Ljóst var frá fyrstu tíð að Norfolk var ekki allra - bókin virtist sérviskuleg söguleg skáldsaga með spennuívafi, um Englendinginn (eða Jersey-búann) John Lemprière, sem uppi var á síðari hluta 18. aldar og samdi uppflettirit um grísk-rómverskar goðsagnapersónur, en þær persónur holdgerast oft fyrir augunum á honum, svo að lesandinn á erfitt með að átta sig á hvað er raunveruleiki og hvað liggi á sviði goðheima. Hliðarþráður rekur svo dularfull undirliggjandi leyndarmál um enska Austur-Indíafélagið, stofnun þess og tengsl við Húgenotta í La Rochelle í Frakklandi. Strax í þessari fyrstu bók (sem var yfir 600 blaðsíður) sýndi Norfolk frábæra hæfileika til að mála risastórar myndir með orðum - sviðsetningar hans gátu verið langar, hrífandi, blekkjandi, jafnvel þreytandi, en aldrei klisjukenndar. Enn lengra gekk hann í næstu bók, sem hlýtur að teljast hans meistarastykki, The Pope´s Rhinoceros, og var viðlíka margar blaðsíður - með miklu smærra letri. Sú bók þótti mér einstök. Sögusvið hennar var víðfeðmt; hún gerist einkum nærri Rügen og á Ítalíu í upphafi 16. aldar, þegar til stendur að portúgalskir kaupmenn, þeir fremstu í heimi á þeim tíma, útvegi hinum nýja og gjálífa páfa, Leó X., skepnu, sem varla hefur sést í Evrópu fram að því, þ.e. nashyrning. En sem jafnan er þessi þráður bara lítill útúrdúr á sögu, sem er svo stór í sniðum á hvern veg að vart er hægt að lýsa henni. Eystrasaltið á ísöld, rottugangur í Róm, yfirlitssýn yfir vatnasvæði Níger-fljóts, þorp neðansjávar, kirkja á sjávarbrún sem molnað hefur undan í hafið svo að sér inn í hálft kirkjuskipið, liðssafnaður í Mugello-dal, umsátrið um Prato - þetta eru nokkrar ódauðlegar myndir sem Norfolk málar á strigann. Og hvorki skortir persónugallerí né atburðarás. Aðalsöguhetjurnar eru annars vegar hópur munka á ferð frá Eystrasalti til Rómar og hins vegar tveir lukkuriddarar frá svipuðum slóðum sem þvælast suður úr. Það sem eftir situr eftir lestur bókarinnar voru þó fyrst og síðast hinar stóru myndir, málauðgin og myndmálið.

Því miður hef ég ekki lesið þriðju skáldsögu Norfolks, In the Shape of a Boar, sem kom út árið 2000, en þar hrærir hann víst sem fyrr saman goðafræði og nútíma. Í kjölfarið hófust miklar hremmingar: Höfundurinn byrjaði á sínu metnaðarfyllsta verki og sat við skriftir þess í 7 ár, án þess að takast að ljúka því. Það átti að gerast á þremur tímaplönum, með nokkrum lykilpersónum á hverju þeirra og um 200 aukapersónum í það heila. Atvik, sem átti sér stað á fyrsta tímaplani, hafði margföldunaráhrif á því öðru, sem aftur hafði margföldunaráhrif á því þriðja. Eins og Norfolk orðaði það sjálfur: „Með hverju orði sem ég skrifaði, fjarlægðist ég endinn meira." Að lokum gafst hann upp og byrjaði á nýrri bók, sem var 5 ár í smíðum. Þetta mun meginástæða þess að ekki kom út skáldsaga eftir Norfolk í 12 ár.

Og þá komum við að nýjustu skáldsögunni, John Saturnall´s Feast, sem ég hef nýlokið við. Svo virðist sem Norfolk hafi lært af mistökum - þessi saga er á öruggum slóðum, að flestu leyti línuleg, hefðbundin og aðgengilegri en fyrri verk. Söguefnið hljómar svosem nógu sérviturt: Mæðgin - grasakona/ljósmóðir sem er sökuð um að vera norn og óskilgetinn sonur hennar - eru flæmd til skóga á suðvestur-Englandi snemma á 17. öld. Móðirin deyr úr tæringu og vosbúð þá um veturinn, en ekki fyrr en hún hefur kennt syni sínum að lesa og læra utan að bók um goðsagnakenndar veislur og rétti, jafnvel ímyndaða (ekki ósvipað og með Naglasúpuna frægu, sem maður las um í barnaskóla). Hinsta ósk móðurinnar er að drengnum verði komið fyrir á setri, þar sem hún hafði unnið áður og þaðan sem ókunnur faðir hans er. Allt stendur tæpt, en drengurinn fær inni og er tekinn undir verndarvæng yfirkokksins, fyrst og fremst vegna óvenjunæms þefskyns og hæfileika í matargerð. Í áranna rás rís hann til metorða og verður sjálfur yfirkokkur. Sérkennilegt ástar-haturs-samband skapast á milli hans og heimasætunnar í kastalanum, lafði Lucretiu, en hún er eini erfingi föður síns, sem leggur hart að henni að giftast fjarskyldum ættingja sínum, ungum aðalsmanni, einkar óaðlaðandi til líkama og sálar. En daginn sem þau eiga að ganga í hjónaband skellur á enska borgarastyrjöldin - semsagt árið 1642. Aðalsmenn, þeirra á meðal faðir brúðarinnar og brúðguminn væntanlegi, fara að sjálfsögðu að berjast fyrir konung sinn og þeir taka með sér kokkalið á vígvöllinn. Framan af standa John og félagar úr kokkaliðinu álengdar og þurfa ekki að berjast, en í hinni frægu úrslitaorrustu við Naseby þarf að draga hvern sótraft á sjó, kokkana líka. Konungssinnar tapa, allt er komið í klessu, John og sumir félagar hans komast heim við illan leik, en þar tekur ekki betra við: Púritanar eru komnir til valda.

Sem fyrr segir er tímafrásögnin mestmegnis línuleg. Aðeins fyrstu 20% og síðustu 20% fela í sér örlítið tímaflakk, mestmegnis á mjög augljósan hátt, svo að framvindan ruglast aldrei, og ljóst að Norfolk hefur ekki ætlað að flækja sig í neti þar, væntanlega eftir undanfarnar hremmingar. Vitundarmiðjan liggur um 80% frásagnar hjá John sjálfum, máske 10% hjá lafði Lucretiu, en einnig í um 10% framan af hjá einni minni háttar persónu sögunnar, líkt og til að fá utanaðkomandi sýn á villibarnið John.

Sagan John Saturnall´s Feast er veisla fyrir alla sem hafa áhuga á matargerðarlist 17. aldar og ensku borgarastyrjöldinni. Þess utan er hún mestmegnis hefðbundin ástarsaga. Hver kafli hefst á uppskrift (á 17. aldar ensku) upp á 1 blaðsíðu eða svo, þar sem sótt er beint í kokkabók Johns Saturnall og framreiddur réttur sem vísar í komandi kafla, oft með biblíusögulegum eða goðsagnalegum tilvísunum. Og um mörg hundruð blaðsíðna skeið löðrar bókin í matarstússi: Þarna er eldað, bakað, kokkað, brasað, steikt, brennt, soðið, grillað - og vitaskuld viðbrennt líka. Lýsingar á ólíkum kryddum, jurtum, ávöxtum, grænmeti, kjöti, fiski, fugli fylla hverja síðu - og anganin og bragðið ekki síður. Oft virðist tilgangurinn sá að æra bragðlaukana með lestri einum. Í ofanálag er bókin skreytt einkar smekklegum tréristum sem tengjast viðkomandi matargerð. Þarna liggur styrkur bókarinnar og nýmæli Norfolks: Hverjum öðrum dytti í hug að lýsa 17. öldinni á Englandi út frá hálfgröfnu eldhúsi? Raunar er eldhúsið allt ein meistarasmíð: Helst fékk ég á tilfinninguna að það væri bræðingur af völundarhúsi eftir Borges og helvítismynd eftir Hans Memling. Þarna er her manns á þönum daginn út og inn; þarna er valdastigi og menn vinna sig upp eða hrapa niður, mishratt eftir getu. Almennt er lýsingin á virðingarstöðu húsbænda og hjúa með afbrigðum ljós þarna á setrinu - þar til kemur að John og lafði Lucretiu.

Bókin hefur semsagt líka ýmsa annmarka. Verst þótti mér hve persónusýnin var hefðbundin. John virðist fætt leiðtogaefni, þótt hann verði fyrir kröftugu einelti og ofsóknum í æsku. Hann er hjartahreinn og vammlaus sveinn, þarf stundum að sitja á strák sínum vegna stéttarstöðu, en bregst við þegar ranglætið verður hróplegt. Afskaplega klassísk persóna, semsagt, og skortir dálitla vídd. Sama má segja um hans heittelskuðu lafði Lucretiu, sem er draumlynd í prívatefnum, en drambsöm í samskiptum við þjónaliðið, eins og hefðardömur eiga að vera. Önnur vel þekkt persónugerð. Því er komið úrvalsefni í vemmilega ástarsögu - sem bókin verður á köflum - og elskendurnir verða að yfirstíga hindranir og aðskilnað. Áberandi er hversu hinir góðu eru gegnumsneitt góðir og hinir vondu vondir út í gegn - veröldin verður dálítið svart/hvít fyrir vikið. Í púritönunum er t.d. varla að finna annað en tæra illgirni og trúarhræsni. Þá fór dálítið í taugarnar á mér Harry Potter-andi bókarinnar framan af: Þegar John kemur umkomulaus á Buckland-setrið, tekur drengur á svipuðu reki hann upp á arma sína. Sá heitir Philip og verður n.k. Ron Weasley sögunnar, en að sama skapi er ótukt, sem gerir John lífið leitt, og sá piltur, Coake að nafni, hefur tvo hnausþykka og heimska lífverði sér til hliðar, eins og Draco Malfoy. Helst datt mér í hug að Norfolk hefði ákveðið að halda sig á þessum öruggu slóðum til að gera söguna aðgengilega til kvikmyndunar - ljóst er að hún liggur marflöt fyrir slíkum möguleika. Sjálfum hefði mér þótt líklegra að einelti og aðkast, sem John verður fyrir í æsku, myndi þróa hann sjálfan að einhverju leyti í illgjarna eða undirförula persónu, en - ónei: Hjartahreinn, fríður, með svart hrokkið hár skal hann vera.

En þótt sagan sé í grunninn ástarsaga með matarívafi, er ekki þar með sagt að hún falli þar auðveldlega í flokk. Málauðgi Norfolks er með ólíkindum, myndlíkingar oft óvæntar og orðfærið stundum forneskjulegt. Ég held að meðal-Englendingurinn skilji ekki endilega setninguna „The grass was rimed with frost" - en það gerum við Íslendingar vitaskuld. Það er yfirgripsmikil þekking og rík málvitund Norfolks, sem lyftir bókum hans upp yfir aðrar skáldsögur, og hérna gætir þess einnig, þótt ekki sé með jafn afgerandi hætti og í fyrri bókunum.

Nefna má einnig að tímaþátturinn er truflandi óljós. Hvergi tók ég eftir því að kæmi fram um hvaða leyti hún hefst, nema hvað nefnt er á innsíðu kápu að John og móðir hans séu á flótta undan þorpsbúum árið 1625. John ætti að vera um 11 eða 12 ára og því fæddur, segjum, 1614. Hann virðist búinn að vinna sig upp í kokkastöðu eftir 5 ára vist á Buckland-setrinu (sem er manor, en ég hafði nú alltaf meira á tillfinningunni að hlyti að vera risastór kastali út frá stærð hálfniðurgrafins eldhússins, tengdra herbergja og kjallara þar niður af). John ætti því að vera a.m.k. 45 ára, þegar hann yfirgefur Buckland-setur skömmu eftir valdatöku Karls II. (árið 1660) og hann snýr aftur um 10 árum síðar, orðinn þá 55 ára hið minnsta - og enn sami sjarmörinn með svörtu krullurnar.

Eitt þykir mér farið að einkenna skáldsögur í auknum mæli upp á síðkastið, það sem kalla mætti hamingjusöm endalok. Á þetta t.d. við um allmargar íslenskar skáldsögur, sem ég las fyrir jólin. Ég hef velt nokkuð fyrir mér af hverju þetta stafar, hvort samkeppni bókmennta við kvikmyndaefni sé orsökin eða hvort þetta sé til að gera bækur vænni til kvikmyndunar. Eða kannski er eitthvað í nútímanum, sem fyllir okkur öryggisleysi, og rithöfundar bregðast við þessari öryggisþörf í gegnum bókmenntirnar. En máske er þetta bara vegna þess að hamingjusöm bókarlok eru affarasælasta og ódýrasta lausnin fyrir höfundinn. Happy ending er vitaskuld það sem lesandinn æskir - oft þvert á raunsæislega framvindu í skáldsögu. Það er mikil kúnst að loka bókum á fullnægjandi hátt og stundum vill höfundurinn það einfaldlega ekki. Hvaða höfundur var það nú, sem sagði: „Ég set engan sérstakan endi á bókina, ég skrifa bara síðasta orðið og hætti."

Niðurstaðan um John Saturnall´s Feast eftir Lawrence Norfolk er því eftirfarandi: Þótt þetta sé ekki besta bók Norfolks, er hún samt töluvert áhugaverðari en flestar skáldsögur sem gefnar eru út.

-----

P.S. Fyrsta setning þessarar umfjöllunar er þrælstolin. Fyrir um 30 árum sá ég enskan ritdóm um eftirlætishöfund minn hefjast á þessum orðum: „Anthony Burgess is a phenomenon." Og þetta hefur einmitt verið tilfinning mín varðandi Norfolk síðan ég las The Pope´s Rhinoceros.


Hvenær mun fyllt skarð í vör Skíða?

 

Svarfdæla saga er í meðallagi löng, en vel bitastæð, einkum er á líður. Sögunni má gróflega skipta í þrennt.

Í fyrsta hlutanum er í aðalhlutverki Þorsteinn nokkur, sem síðar fær frá föður sínum viðurnefnið svarfaður. Þorsteinn býr í sögubyrjun í föðurhúsum í Naumudölum í Noregi og er þar heimakær, eins konar kolbítur, uns bróðir hans Þórólfur ýtir við honum og leggjast þeir bræður í víking, einkum í Suður-Svíþjóð, og reynast garpar hinir mestu - sigra þar rustana Ljót bleika og Molda. Þjóðólfur fellur í fyrri viðureigninni, en þegar Þorsteinn snýr til föðurhúsa gefur faðirinn honum viðurnefnið, vegna þess að að þeim bræðrum hafði svo sorfið í þeim bardaga.

Þegar faðir Þorsteins deyr og síðan eiginkona einnig, fær hann eigi unað lengur í Noregi og fýsir til Íslands (enda Haraldur hárfagri að þrengja að heldrimönnum í Noregi). Þorsteinn siglir í Eyjafjörð, hittir Helga magra og æskir hann lands. Helgi segist ekki vita af öðru landi ónumdu en í dal miklum upp af Hrísey, og er þó dalurinn víða numinn. Þorsteinn gegnir því og sest að í þeim dal, sem síðar er við hann kenndur.

En í þeim dal er fyrir mikil byggð og verða þar fljótt til tvær fylkingar, sem deila og enda í vígaferlum. Hefst hér annar hluti sögunnar, með lýsingu á dalverjum, deilum þeirra og hvar þeir skipa sér í flokk. Þorsteinn svarfaður kemur þar lítt við sögu, en þeim mun frekar úr hans fylkingu sonur hans, Karl rauði, og enn frekar systursonur hans, Klaufi, sem er ein eftirminnilegasta persóna sögunnar lífs og liðinn. Klaufi er stórskemmtileg blanda af garpi og ójafnaðarmanni og eftir að hann er veginn birtist hann sem draugur og hefur m.a. úrslitaáhrif á orrustu með því að birtast hér og hvar á vígvelli og varna andstæðingum flótta. Þá vitrast hann einnig sem fyrirboði á himni, ríðandi gráum hesti sem dregur sleða fullan af líkum. Til að ráða niðurlögum Klaufa draugsa er hann í sögulok grafinn (ófúinn) upp úr haugi sínum, brenndur til ösku, askan sett í blýstokk og stokknum sökkt í hver.

Fyrir hinu liðinu fer Ljótólfur nokkur, en nýtur fulltingis þriggja Ásgeirssona (og er einn þeirra Þorleifur jarlaskáld, sem rétt er nefndur á nafn), sem og Skíða. Skíði þessi verður á kafla ein lykilpersóna sögunnar og því vert að greina nánar frá honum. Hann er strokuþræll, sem Ljótólfur leysir til sín, fríður sínum og gjörvilegur og lítt eins og hann eigi þrælakyn. Verður hann síðan tryggur heimilismaður Ljótólfs. Ljótólfur tekur einnig undir sinn verndarvæng Yngvildi fagurkinn, systur Ásgeirssona og enn eina aðalpersónu í síðasta hluta sögunnar.

Í þessum miðhluta gengur á með margvíslegum vígaferlum og deilum. Klaufi er um síðir veginn af Ásgeirssonum, þeir fyrir vikið dæmdir til útlegðar, verða afturreka og snúa heim í hérað að vetrarlagi þar sem Karl rauði hyggst elta þá uppi, en Skíði bjargar þeim með því að moka yfir þá mykju. Skíði er pyntaður ógurlega til sagna af Karli rauða - dreginn með fæturna bundna við hest um stofna af afhöggnum trjáskógi - en lætur ekkert uppskátt, þótt „honum blæddi hvarvetna, hökubeinið rifið og hakan með, úr tennur tvær." Þegar Ljótólfur vill launa Skíða orðheldnina fer hann fram á að fá að eiga Ingvildi fagurkinn, sem er kvenna fríðust, eins og nafnið bendir til. Ljótólfur vill leita álits hennar og býðst til að skjóta undir þau álitlegri jörð, og fellst Ingvildur á ráðahaginn, svo fremi sem Skíði hafi fyllt upp í skarð í vör sinni innan fimm vetra, svo að henni þyki fullt vera. Er hér augljóslega táknræn eggjun um að lýta Skíða skuli hefnt innan tiltekins tíma. Giftast þau síðan, Yngvildur og Skíði, og eignast þrjá sonu. En í millitíðinni sitja þeir Ljótólfur og Skíði um Karl rauða og hans menn og vegur Skíði sjálfur Karl. Þykir Yngvildi með því fyllt skarðið í vör Skíða.

En hér er að hefjast þriðji og síðasti hlutinn, þar sem í aðalhlutverkum eru Yngvildur fagurkinn og Karl yngri, sonur Karls rauða. Hann hefnir föður síns grimmilega og miðast hefndin einkum að Yngvildi og skarðinu í vör Skíða. Fyrst nær Karl yngri á sitt vald allri fjölskyldunni, Yngvildi, Skíða og sonum þeirra þremur. Hann hálsheggur synina hvern af öðrum og spyr Yngvildi fagurkinn í hvert sinn hvort fyllt sé skarð í vör Skíða. Hún mælir stöðugt að svo sé og horfir þannig á eftir sonum sínum þremur í opinn dauðann fremur en að láta af stolti sínu. Þá býður Karl yngri Skíða að yfirgefa landið, sem Skíði og gjörir, en sjálfur sjálfur heldur Karl eftir konu hans Yngvildi, hefur hana jafnan hið næsta sér með bert sverðið sem hann notaði til að vega synir hennar með og spyr oft hvort skarðið sé gróið í vör Skíða, en hún svara jafnan að fullvel sé gróið. Magnast sá leikur frekar Karl yngri friðmælist við Ljótólf, heldur utan og hefur með sér Yngvildi fögru. Hann hótar að selja hana sem ambátt til danskra kaupmanna, nema hún segi skarðið ekki fyllt í vör Skíða, en hún beygir sig ekki og er seld. Ári síðar eða svo kaupir hann hana til baka og hefur með sér heim til Íslands; enn finnst henni skarðið fyllt. Seinna heldur Karl yngri aftur utan til Noregs með Yngvildi í för, selur hana öðru sinni í þrældóm í þrjá vetur, kaupir hana að nýju, „konu svo nakta að aldrei beið á henni ríðanda ræksn; hún var alblóðug öll." Þegar hún kemur til skips hans brotnar hún loks saman, leggur hendur um háls honum, grætur og viðurkennir að skarðið í vör Skíða muni aldrei fullt verða.

Ljóst er, þegar þarna er komið, að skarðið í vör Skíða, er algjörlega orðið táknrænt, enda hefur Yngvildur verið á valdi Karls yngra um áraraðir og ekkert haft af eiginmanni sínum að segja þann tíma. Þegar Yngvildur loks gefur sig, flytur Karl hana til Írlands, þar sem hann hefur frétt að Skíði berjist við Íra. Karl leggur honum lið, berst vel og þeir eiga orðaskipti, þar sem Karl segist kominn að færa honum eiginkonuna. En Skíði vill ekkert með hana hafa. Karl hefur Yngvildi með sér til Íslands næsta vor og hyggst skila Ljótólfi Yngvildi, svo að hann geti gift hana hverjum sem honum sýnist, en Ljótólfur vill ekki heldur í fyrstu neitt með hana hafa. Tekur hann þó við henni um síðir og eru örlög hennar eftir það óljós; „kunna menn það ei að segja hvort hún hefir gift verið en sumir segja að hún tortýnt sér af óyndi."

Við sögulok Svarfdælu stendur Yngvildur fagurkinn (eða fögrukinn) sem ein af stórbrotnari og tragískari kvenpersónum Íslendingasagna, svo stolt að hún er nánast reiðubúin til að láta allt yfir sig ganga frekar en að láta af stærilæti sínu. Enn fremur er sagan öll full af skemmtilegheitum og fleiri eftirminnilegum karakterum; sérstaklega finnst mér alltaf skondið þegar menn fara að kveða dýrar vísur í miðjum heiftúðugum bardögum. Allt um allt: Íslendingasaga sem fer nokkuð hefðbundið af stað, en verður býsna eftirminnileg áður en yfir lýkur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband